Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 17:39:54 (2300)

[17:39]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég sé mig því miður knúinn til að kveðja mér aftur hljóðs vegna endurtekinna ómerkilegra útúrsnúninga hæstv. sjútvrh. og væri nú æskilegt að hæstv. ráðherra sýndi þessu þá virðingu að vera hér viðstaddur þegar maður er að svara upphlaupum af því tagi sem hann stóð fyrir hér áðan. Ég held ég nenni því ekki, hæstv. forseti, að fara að standa hér einn í stólnum og geri þá bara hlé á máli mínu þangað til hæstv. sjútvrh. er við ef forseti vill það eða . . .
    ( Forseti (SalÞ) : Það er búið að gera ráðstafanir til þess að hann komi hér í salinn í sjónmál.)
    Það er gott, þá getum við haldið áfram að ræða þennan munaðarleysingja eins og hann var réttilega kallaður hér áðan af síðasta ræðumanni. Þennan munaðarleysingja sem enginn rökstuðningur fæst fyrir að hér sé fluttur heldur einfaldlega sagt: Af því bara, af því bara. Það er litið svo á að það þurfi að breyta þessu af því bara. Og enginn vill bera ábyrgð á króanum eða ganga honum í föðurstað. Það er alveg ljóst af ítrekuðum spurningum til hæstv. sjútvrh. um það af hvers óskum þetta frv. sé flutt, hvort það sé krafa utanrrn. að það sé gert eða hvort það sé samdóma álit utanrrn. og sjútvrn. að þessu þurfi að breyta. Hvort sjútvrn. sem sagt bakki það upp og sé efnislega sammála því að þetta geti ekki fallið undir frumstarfsemi í sjávarútvegi og þurfi þess vegna að breytast.
    Varðandi orð hæstv. sjútvrh. hér um að menn væru að reyna að hlaupast undan ábyrgð þá er ómögulegt annað en segja nokkur orð um það því hæstv. sjútvrh. er svona geysilega ábyrgur í tali. Það er ósköp einfaldlega þannig að sú ríkisstjórn sem sat að völdum 1989 og meiri hluti hennar á Alþingi bera að sjálfsögðu ábyrgð á því að það var ákveðið eftir leiðtogafund EFTA-ríkjana í Ósló að hefja þátttöku í könnunarviðræðum um gerð samnings um Evrópskt efnahagssvæði. Og ég undirstrika að það var ákveðið að

hefja þátt í könnunarviðræðum um gerð þessa samnings. Það voru í framhaldinu settir fram fjölmargir fyrirvarar af Íslands hálfu. Þeir komu upphaflega fram margir hverjir í ræðu forsrh. í Ósló í mars 1989 og síðan í samningaferlinu hver á fætur öðrum og voru reyndar fleiri en fimm ef út í það er farið því á ýmsum undirsviðum þá lágu fyrir fjölmargir fyrirvarar af Íslands hálfu í einstökum vinnuhópum.
    Og sú ríkisstjórn sem sat á þessum tíma, frá 28. sept. 1988, tók við þegar ríkisstjórn hæstv. fyrrv. forsrh., Þorsteins Pálssonar, liðaðist í sundur og beið einhvern ömurlegasta dauðdaga sem ein stjórn í lýðveldinu hefur gert. Þá tók þessi stjórn við og sat síðan út aprílmánuð 1991 eins og kunnugt er. Þessi ríkisstjórn stóð á þeim fyrirvörum sem settir voru fram allt til loka. Það var síðan 6. maí 1991 sem sú ríkisstjórn sem þá var sest að völdum gaf utanrrh. samningsumboð og þar með heimild til að falla frá fyrirvörum Íslands, öllum nema einum. Sú ríkisstjórn ber ábyrgð á því, hin á því að hafa ákveðið að hefja þátttöku í könnunarviðræðunum, þannig að það er bara best að hver eigi sitt í þessum efnum. Hér er ekki verið að reyna að hlaupa frá neinu. Ég hef engan heyrt gera það nema hæstv. sjútvrh. sem með ómerkilegum og ómálefnalegum útúrsnúningum hér er stanslaust að víkja sér undan því að ræða efni málsins. Það er væntanlega vegna þess að efni málsins er hæstv. sjútvrh. eitthvað viðkvæmt. Svo gekk það þannig til eins og hæstv. sjútvrh. vafalaust man að hæstv. sjútvrh. greiddi atkvæði með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði en sá sem hér talar á móti.
    Hæstv. sjútvrh. var einhvern tímann framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins ef ég man rétt. Hann ætti að muna það t.d. úr því starfi að menn skuldbinda sig yfirleitt ekki fyrir fram um leið og þeir taka ákvörðun um að hefja þátttöku í viðræðum að hlíta niðurstöðunni. Það kann að vera að Vinnuveitendasambandið hafi beitt þeirri aðferð á sínum tíma að það hafi litið svo á að með því að taka ákvörðun um að hefja viðræður þá væri það að skuldbinda sig til að hlíta niðurstöðunni en það er afar óvenjuleg aðferð og heimskuleg held ég að verði að segjast. Nei staðreyndin er sú að yfirleitt er það hin almenna regla að menn skuldbinda sig ekki til neins annars en að taka þátt í þeim viðræðum og hafa fyrirvara í raun og veru á málinu um hina endanlegu niðurstöðu. Þegar öll kurl eru komin til grafar er það venjan að menn geti þá í ljósi heildarniðurstöðu metið árangurinn og tekið honum eða hafnað. Þetta ætti ekki að þurfa að rökræða hér en ég ætla nú að gera það samt alveg sama þótt hæstv. sjútvrh. sé ekki tilbúinn til efnislegra skoðanaskipta og rökræðna af einhverju viti þá ætla ég að gera það fyrir mitt leyti. Svona barnalegri röksemdafærslu, þvælu af þessu tagi, að með því að taka ákvörðun um það á árinu 1989 að hefja könnunarviðræður um gerð samnings um Evróðskt efnahagssvæði hafi menn í raun og veru gengist þar með í ábyrgð fyrir niðurstöðunni. Þetta er þvílík þvæla og svo ómerkileg framsetning í röksemdafærslu að það er ekki hægt að láta henni ómótmælt. Og þó það sé e.t.v. eins og að tala út um opinn glugga að reyna að ræða þetta við hæstv. sjútvrh. þá vil ég a.m.k. fyrir mitt leyti fara yfir þetta hér vegna þess að ég tel rétt að hver beri ábyrgð á því sem honum ber í þessum efnum. Ég hef aldrei í eitt einasta skipti skorast undan því að bera ábyrgð á því fyrir mitt leyti að standa að ákvörðuninni um það á sínum tíma að hefja þátttöku í þessum könnunarviðræðum, setja fram þá fyrirvara sem settir voru fram. En annað tel ég mig ekki þurfa að svara fyrir í þessum efnum.
    Ég segi það að lokum, hæstv. forseti, að ég held að það sé svo afar bagalegt ef þessari umræðu á að ljúka hér þannig að hæstv. sjútvrh. kemur sér algerlega undan því, neitar því að verða við óskum um að færa fram rökstuðning í þessu máli. E.t.v. getur hæstv. sjútvrh. það ekki. Það er búið að spyrja um það trekk í trekk, er það að ósk utanrrn. er það túlkun utanrrn. á samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og samhenginu við fyrirvarann þar um fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi sem þetta frv. er flutt? Eða er þetta einkaframtak sjútvrn. að túlka þessi mál svona? Því þetta snýst um túlkun. Það er ekki merkileg frammistaða hjá hæstv. sjútvrh. að geta ekki veitt nein svör, engin svör við þessu en fara út í strákslega útúrsnúninga sem hann gerði hér áðan. Það er venjan, hæstv. forseti, að það teljist til framlags í þá veru að greiða fyrir vegferð mála í gegnum þingið að veita umbeðnar upplýsingar við fyrstu umræðu. Það er alveg augljóst mál að úr því að hæstv. sjútvrh. er svona illa nestaður til umræðunnar eða hugur hans stendur ekki til þess að veita um þetta upplýsingar þá hlýtur það auðvitað að kalla á þeim mun ítarlegri úttekt á þessu máli í nefnd. Og það er svo sem ekki mikið við því að segja. Það hefur að vísu þann galla að þeir þingmenn sem hafa verið þátttakendur í umræðunni og ekki eiga sæti í viðkomandi nefnd eiga þess þá ekki kost að fá þessar upplýsingar í 1. umferð og verða þá að bíða a.m.k. eftir því að þær komi þá í gegnum nefndarálit o.s.frv. Þannig að hitt er tvímælalaust æskilegra og ég skil í rauninni ekki hvað getur verið svona óskaplega erfitt við þetta mál hjá hæstv. stjúrvrh. að svara þessu jafnsáraeinfalt og það nú er. Svar af því tagi sem hann gaf hér áðan að --- ja, af því bara það væri túlkað svo --- hann tók ekki fram af hverjum, þessu yrði að breyta, það er ekkert svar. Það er ekkert svar við þeim einföldu spurningum sem hér hafa verið fram bornar.
    Eitthvert samviskubit, einhverja vonda samvisku, einhver ónot eru í hæstv. sjútvrh. greinilega í þessum málum. Hæstv. ráðherrann er harla aumingjalegur þegar hann er hér að reyna að ræða þetta og hefur ekki fyrir því svo mikið sem reyna að rökstyðja framlagningu þessa frv. sem er afar sérkennilegt. Menn geta að sjálfsögðu haft mismunandi skoðanir á því hvort þetta komi til með að hafa einhver umtalsverð áhrif og það er í raun og veru ekki sá útgangspunktur sem ég er hér að ræða. Það geta allir reynt að vera spámenn í því og enginn sjálfsagt betri en annar í því að spá fram í tímann um það hvort þetta hefur þá einhver áhrif og þá hver. Enda hljótum við að þurfa að ræða þetta á hinum efnislegu forsendum sem fyrir

liggja í málinu. Er eitthvað sem knýr okkur til að gera þessa breytingu? Er okkur ekki stætt á því að láta gildandi lagaákvæði halda sér a.m.k. þangað til á þau reynir? Og það kemur þá í ljós hvort okkar túlkun, ef hún væri sú að þetta tilheyrði frumstarfseminni í greininni, stæðist eða ekki. Ég sé ekki annað en það væri í góðu lagi að láta þá einhverja sem kynnu að banka upp á hafa fyrir því að hnekkja þeirri túlkun okkar að svo væri og sækja þá rétt sinn eftir þeim úrræðum sem byggð eru inn í þetta mikla stofnanabákn í þessum samningi. Eru þau ekki til þess m.a. að taka á einhverjum slíkum atriðum? Hvað með það að láta það þá bara fara þá leið?