Kirkjumálasjóður

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 17:51:30 (2301)


[17:51]
     Ólafur Ragnar Grímsson (frh.) :
     Virðulegi forseti. Það er nú ekki langt mál, en ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að koma hér til umræðunnar. Ástæðan fyrir því að ég vildi fá að heyra í hæstv. fjmrh. er að meðal margra atriða í frv. um kirkjumálasjóð er ekki aðeins verið að ákveða að kirkjumálasjóður skuli standa straum af alls konar atriðum eins og kirkjuþingi, kirkjuráði, prestastefnu og fjölmörgu öðru, heldur er líka verið að bæta því við 14. gr. laganna um kirkjuþing og kirkjuráð að til viðbótar því sem verið hefur til þessa, að greiddir séu dagpeningar og ferðakostnaður við að sitja kirkjuþing, þá eigi kirkjuþing að kjósa þingfararkaupsnefnd sem ákveður einnig þóknun til kirkjuþingsmanna. Þar með er verið að koma upp sérstöku launagreiðslukerfi þar sem kirkjuþing hefur nánast sjálfdæmi um það samkvæmt þessum lögum, að því er virðist, að ákveða greiðslur fyrir setu á kirkjuþingi og þau störf sem því tengjast.
    Nú ætla ég ekkert að leggjast gegn því að menn fái greitt fyrir það að sitja kirkjuþing, en við vitum hins vegar að launakerfi ríkisins er með þeim hætti að menn hafa frekar stefnt í það horf að samræming sé varðandi greiðslur og ákvarðanir hvað ýmsar þóknanir snertir og verulegar umræður hafa verið um setu fulltrúa á búnaðarþingi og fiskiþingi. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort í þessu felist einhver ákveðin stefnubreyting eða hver sé hugsunin á bak við það að opna þannig fyrir sjálfsákvörðun kirkjuþings á launagreiðslum til kirkjuþingsmanna, því mér sýnist frv. vera orðað á þann veg að það sé ótakmörkuð heimild fyrir þingfararkaupsnefnd kirkjuþings að ákveða greiðslur til kirkjuþingsmanna.