Kirkjumálasjóður

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 17:58:52 (2303)

[17:58]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er greinilegt að hæstv. fjmrh. hefur kannski ekki skoðað þetta mjög náið og ég lái honum það í sjálfu sér ekki. En ég vil benda hæstv. ráðherra á það að í 2. gr. frv. kemur auðvitað skýrt fram, sem við öll vitum, að tekjur kirkjumálasjóðs eru hluti af tekjuskatti, þannig að sá tekjuskattur sem hæstv. fjmrh. lætur innheimta árlega er tekjustofn kirkjumálasjóðs. Það er því ekki hægt að tala um þetta eins og kirkjan sé hér að fá einhvern sérstakan sjóð sem sé ríkisvaldinu gjörsamlega óviðkomandi, þvert á móti. Þessi sjóður verður til með tekjuskattinum sem lagður er á, enda stendur hér:
    ,,Ríkissjóði ber að skila kirkjumálasjóði árlega af tekjuskatti gjaldi er nemur 11,3% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld.``
    Þetta er hluti af þeirri kerfisbreytingu sem varð 1987, að í stað þess að kirkjan væri sjálf að innheimta sín sérstöku gjöld og mátti þess vegna segja að þau væru meira tengd kirkjunni, var þetta hluti af hinum almenna tekjuskatti í landinu.
    Í öðru lagi vil ég benda hæstv. ráðherra á það að sá er munurinn á fulltrúum á fiskiþingi og búnaðarþingi og þeim sem sækja kirkjuþing, að meginhluti fulltrúa á búnaðarþingi og fiskiþingi eru menn sem ekki þiggja laun sín frá ríkissjóði heldur eru starfandi í atvinnulífinu eða á sviði landbúnaðar og þarf kannski að bæta þeim eitthvað fyrir tekjutap vegna þeirra starfa. En meginhluti þeirra sem sækja kirkjuþing, ef ég kann það rétt, eru hins vegar á föstum launum hjá ríkinu. Og það var tilefni mitt til þess að spyrja, hvort að til viðbótar við þau föstu laun sem þeir fá sem ríkisstarfsmenn, eigi líka að fara að borga þóknun fyrir að sækja kirkjuþing í vinnutímanum sem launagreiðslurnar til þeirra sem ríkisstarfsmanna eiga væntanlega að mæta. Ekki vegna þess að ég telji það eitthvað óeðlilegt að menn fái einhverja smágreiðslu fyrir þetta, en það verður að vera eitthvert kerfi á því hvernig þessi mál eru meðhöndluð.