Kirkjumálasjóður

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 18:01:09 (2304)


[18:01]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að hv. þm. hafi rétt fyrir sér þegar hann segir að ég hafi ekki kynnt mér frv. mjög náið. Þrátt fyrir ræðu hans sýnist mér samt að mál séu þannig, eins og ég lýsti í minni ræðu, að kirkjumálasjóður verður á vegum þjóðkirkjunnar. Það er ekki nýtt deilumál hvort hv. Alþingi á að geta takmarkað fjármuni kirkjunnar sem kirkjan telur sig eiga fullt tilkall til. Ég hygg að hv. þm. kannist mjög vel við það að á sínum tíma, þegar hann var ráðherra, þá lýsti kirkjan því yfir að hún teldi það ekki vera sæmandi Alþingi að skerða tekjustofna kirkjunnar og reyndar fékk sá sem hér stendur að kenna á því jafnframt þegar hann endurtók þann leik skömmu eftir að hann varð fjmrh. Það er nefnilega þannig að sóknargjöldin, sem áður voru borguð með öðrum hætti, voru heimt inn ásamt og með tekjustofnum ríkisins eftir að sú breyting var gerð að um staðgreiðsluinnheimtu væri að ræða. Ég ætla ekki að halda því fram að sjálfstæði kirkjunnar sé svo mikið að Alþingi geti ekki skert gjöld með þessum hætti, en eigi að síður hefur kirkjan talið að hún ætti þessa fjármuni.
    Ég vil einungis minna á það til viðbótar að auðvitað er óhagræði af því, jafnt fyrir alþingismenn sem kirkjunnar þjóna, að þurfa að fara úr sinni heimabyggð og dvelja annars staðar og fyrir það hafa menn fengið dagpeninga. Alþingismenn sem dveljast erlendis fá til að mynda dagpeninga, ferðakostnaðinn greiddan o.s.frv., jafnvel þó að þeir séu á föstum launum. Og ég hygg að það sé ekkert ósanngjarnt að opinberir starfsmenn, eins og kirkjunnar þjónar eru, fái líka greitt fyrir þetta óhagræði þegar þeir þurfa að yfirgefa sína heimabyggð og taka þátt í fundum sem þessum. En ég ítreka það að ég vænti þess að hér verði ekki um einhverja grundvallarbreytingu að ræða í upphæðum, upphæðum í veraldlegri merkingu þess orðs, frá því sem nú gildir.