Samkeppnislög

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 18:05:13 (2307)


[18:05]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á samkeppnislögum, nr. 8 frá 25. febr. 1993. Í frv. er lagt til að 1. mgr. 6. gr. laganna orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra skipar fimm menn í samkeppnisráð og jafnmarga til vara. Skulu þeir hafa sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum. Ráðherra skipar formann og varaformann ráðsins. Samkeppnisráð setur sér reglur um málsmeðferð``.
    Hinn 25. febr. sl. voru samþykkt ný samkeppnislög nr. 8/1993, sem leystu af hólmi lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, nr. 56/1978. Í 1. mgr. 6. gr. nefndra laga var kveðið á um að ráðherra skipaði fimm menn í samkeppnisráð og jafnmarga til vara. Skyldu þeir hafa sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og vera óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til. Samkvæmt þessu skipaði þáv. viðskrh. í samkeppnisráð Brynjólf Sigurðsson prófessor, sem formann ráðsins, Atla Frey Guðmundsson skrifstofustjóra, varaformann þess, Ingibjörgu Rafnar héraðsdómslögmann, Magnús K. Geirsson rafvirkja og Þórarin V. Þórarinsson lögfræðing til setu í ráðinu.
    Hinn 5. apríl sl. bar Jóhannes Gunnarsson fram þá kvörtun fyrir hönd Neytendasamtakanna, en hann er framkvæmdastjóri þeirra, að þeir sem skipaðir hefðu verið í samkeppnisráð uppfylltu ekki allir það almenna hæfisskilyrði að vera óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem samkeppnislög nr. 8 taka til. Hinn 30. ágúst sl. sendi umboðsmaður Alþingis álit sitt í tilefni af kvörtun Neytendasamtakanna til viðskrh., þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að þrír af fimm fulltrúum í samkeppnisráði uppfylltu ekki þau skilyrði að vera óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til. Þessir þrír fulltrúar lýstu því þegar yfir að óhjákvæmilegt væri að nýir menn tækju sæti í ráðinu, þannig að enginn vafi léki á að skipan þess væri í samræmi við gildandi lagaákvæði. Í fyrrnefndu áliti umboðsmanns Alþingis segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Almennar hæfisreglur, sem settar eru til að draga úr líkum á hagsmunaárekstrum, geta verið mjög áhrifaríkar og stuðlað að auknu réttaröryggi. Hins vegar verður að gæta þess að sú hætta getur fylgt mjög ströngum hæfisskilyrðum að þeir sem mesta þekkingu og reynslu hafa á hlutaðeigandi sviði verði útilokaðir frá því að gegna opinberu starfi.``
    Þá segir enn fremur í áliti umboðsmanns, með leyfi forseta:
    ,,Ég tel því rétt að beina því til viðskrh. að hann taki það til athugunar hvort leggja beri til við Alþingi að endurskoða orðalag áðurgreindrar hæfisreglu með það fyrir augum að gera það markvissara, m.a. með því að tilgreina skýrar þau tengsl og hagsmuni er leiði til vanhæfis manna til setu í samkeppnisráði.``
    Ljóst þykir, að hið stranga hæfisskilyrði í 1. mgr. 6. gr. útilokar fjölmarga hæfa og reynslumikla menn frá setu í samkeppnisráði. Það er því lagt til að orðalagið ,,að vera óháður fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til`` falli niður.
    Hvað varðar þá sem ráðherra skipar í samkeppnisráð eru tilgreindir þeir kostir sem þeir verða að bera, þ.e. sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum. Með þessu er átt við alhliða þekkingu á grundvelli menntunar og reynslu. Samkvæmt þeim breytingum sem hér eru lagðar til eru almennar hæfiskröfur samkeppnisráðsmanna gerðar mun skýrari án þess þó að hæfisskilyrðin séu það ströng að þau útiloki menn með reynslu og þekkingu á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins.

    Áréttað skal að hér er eingöngu fjallað um almennt hæfi manna til setu í samkeppnisráði. Ekki verða því breytingar á öðrum ákvæðum laganna um almennt hæfi, svo sem 2. mgr. 9. gr. þar sem almenn hæfisskilyrði fyrir setu í áfrýjunarnefnd samkeppnismála koma fram, né heldur ákvæðum um sérstakt hæfi manna.
    Í 2. mgr. 50. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, og í 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er fjallað um sérstakt hæfi, þ.e. hæfi til meðferðar einstaks máls og kunna ráðsmenn í einstökum tilvikum að vera vanhæfir á grundvelli þessara ákvæða.
    Lagt er til að tekið verði upp það nýmæli í lokamálslið 1. mgr. 6. gr. að samkepnisráð setji sér reglur um málsmeðferð. Þó verður að gera ráð fyrir ákveðnum umþóttunartíma í þessu sambandi á meðan venjur skapast í afgreiðslu mála fyrir ráðinu. Verður að telja aukið réttaröryggi felast í ákvæði sem þessu enda afar mikilvægt fyrir einstaklinga eða lögaðila sem samkeppnisráð fjallar um að fyrir liggi reglur um málsmeðferð. Með tilliti til sjálfstæðis samkeppnisráðs, sem fer ásamt Samkeppnisstofnun og áfrýjunarnefnd með daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til, þykir eðlilegt að samkeppnisráðið sjálft setji sér málsmeðferðarreglurnar.
    Virðulegi forseti. Að lokum skal vakin athygli á ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir 2. mgr. 6. gr. lýkur skipunartíma starfandi samkeppnisráðs við gildistöku laga þessara.``
    Eðlilegt þótti að hafa slíkt ákvæði til bráðabirgða í lagatextanum.
    Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að þessari umræðu lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.