Samkeppnislög

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 18:20:37 (2309)


[18:20]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það kemur mér ekki á óvart að þetta mál skuli þurfa að koma hér fyrir þingið einungis ári eftir eða á næsta þingi eftir því sem afgreiddi eftir ítarlega skoðun og vandaða vinnu ný samkeppnislög. Ástæðan fyrir því er ósköp einföld. Ég tel að hæstv. fyrrv. viðskrh. hafi gert reginmistök við skipan samkeppnisráðs á sl. vori og vakti strax athygli á því að það kynni ekki góðri lukku að stýra þegar hæstv. ráðherra umgengist óhæfisákvæði 6. gr. laganna með þeim hætti sem hann gerði og hafði þá sérstaklega í huga skipun framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands í ráðið. Hæstv. fyrrv. viðskrh. var ítrekað varaður við því að þessi skipan mundi kalla á umræður um vanhæfi á grundvelli 6. gr. og hafa væntanlega tilheyrandi afleiðingar, þessi skipan mundi draga dilk á eftir sér sem nú er orðin raunin á. Ég hef fulla ástæðu til að ætla að hefði þessi tiltekni einstaklingur, sem gegnir því starfi að vera framkvæmdastjóri heildarsamtaka atvinnurekenda í landinu, ekki verið skipaður í ráðið þá hefðu ekki risið umræður um vanhæfi annarra ráðsmanna, þó svo að þær hafi síðan komið til skoðunar þegar mál var risið af þessu hvort eð var.
    Það var þannig að strax 1. apríl 1993, eða reyndar í marsmánuði 1993, lagði ég fram fyrirspurn í beinu framhaldi af því að hæstv. viðskrh. hafði skipað í samkeppnisráð. Ég spurði hæstv. þáv. viðskrh. hverju það sætti að standa að skipan samkeppnisráðs með þeim hætti sem raun bar vitni og þá einkum og sér í lagi hvernig á því stæði að hæstv. ráðherra kaus að skipa framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands einn af ráðsmönnum.
    Ég rakti það í greinargerð með fyrirspurn minni hvernig þessi mál þróuðust í meðförum þingsins. Þannig var að í frv. eins og það var upphaflega lagt fram var gert ráð fyrir því að í ráðinu yrði blanda af fulltrúum hagsmunaaðila, þ.e. fulltrúar Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins, en síðan skipaði Hæstiréttur tvo menn í ráðið og skyldu þeir hafa þekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og vera óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til. Þaðan er þetta orðalag komið. Þetta orðalag var í upphaflegu frumvarpsgerðinni eins og hún var fram borin af viðskrh., en átti þá eingöngu við um þá fulltrúa í ráðinu sem Hæstiréttur skipaði og er svo rökstutt í greinargerð að með því eigi að tryggja að óháðir aðilar hafi veruleg áhrif og vigt inni í ráðinu. Það var síðan niðurstaða í meðförum þingsins að láta þessi skilyrði ná yfir alla ráðsmenn enda var tilnefningum breytt, fallið frá því að hagsmunaaðilar, aðilar vinnumarkaðarins, tilnefndu þarna fulltrúa, þess í stað skyldi viðskrh. gera það, tilnefna alla ráðsmenn en þeir uppfylltu þá líka allir þessi skilyrði.
    Ég spurði svo, í framhaldi af þessum rökstuðningi mínum og því mati mínu að það væri svo gjörsamlega útilokað að líta svo á að starfandi framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands fullnægði þeim skilyrðum um að vera óháður fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til, hæstv. fyrrv. viðskrh., Jón Sigurðsson, núv. seðlabankastjóra og verðandi stórbankastjóra úti í heimi, hverju það sætti að þessi tilhögun hefði verið viðhöfð. Það stóð ekki á svörum frá hæstv. ráðherra. Í umræðum á Alþingi 1. apríl sl. svaraði hann m.a. spurningum mínum, um það hverju þetta sætti með framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins og hvort ekki væri ástæða til að óttast að álitamál kynnu að rísa um hæfi framkvæmdastjórans, með eftirfarandi hætti, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Því er fyrst til að svara að við skipun hins nýja samkeppnisráðs var að sjálfsögðu reynt að finna til starfa í því einstaklinga sem eru til þess fallnir að marka hinu nýja ráði virðingu og áhrif í okkar samfélagi um leið og þeir væru óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til.`` --- Síðan kom þetta:     ,,Þórarinn V. Þórarinsson er án alls efa slíkur maður`` --- sagði hæstv. fyrrv. viðskrh. 1. apríl 1993. ( Gripið fram í: 1. apríl.) Já. ,,Þórarinn V. Þórarinsson er án alls efa slíkur maður.``

    Ég var ekki sammála þessari niðurstöðu ráðherrans og lét það koma fram og spáði því að hæstv. ráðherra tæki að mínu mati stóra áhættu gagnvart því að hann fengi í hausinn málaferli eða vanhæfismál, t.d. þegar hið nýja samkeppnisráð færi að fella úrskurði eða beita sektum sem það hefur heimild til að gera samkvæmt lögunum. Menn verða að átta sig á því í þessu sambandi að samkeppnisráð fer með mjög umfangsmikil völd. Það hefur á hendi sinni úrræði til að knýja fram úrskurði og koma úrskurðum sínum í framkvæmd, m.a. með beitingu viðurlaga. Þannig að það var auðvitað afar alvarlegt mál að í ráðinu sitji menn sem nokkur minnsti vafi geti leikið á um að fullnægi öllum hæfisskilyrðum og séu óháðir þeim aðilum sem þeir beri að vera.
    Ég ítrekaði svo í lokin óskir mínar og áskoranir til hæstv. ráðherra um að endurskoða þessa skipun sína og beindi því reyndar einnig til viðkomandi einstaklings að hann ætti þann kost vænstan að óska eftir því að þurfa ekki að sitja í ráðinu.
    Fjórum dögum síðar óskuðu Neytendasamtökin eftir því áliti umboðsmanns Alþingis sem hér hefur síðan leitt til þess að flutt er nú frv. til laga um breytingu á ákvæðum 6. gr. samkeppnislaganna.
    Ég vil láta það koma fram fyrir mitt leyti að ég tel að úrskurður umboðsmanns --- það kom mér á óvart hversu þröngt hann kaus að túlka þessi ákvæði, einkum gagnvart þeim einstaklingum öðrum sem hér áttu hlut að og ég hef ekki gert að umtalsefni, svo sem eins og starfandi lögmanni hér í bæ --- en ég tel að það sé auðvitað enginn annar kostur en taka fullt tillit til þessarar niðurstöðu og hún hljóti að verða leiðandi um framhaldið og þess vegna sé rétt að bregðast þá við með einhverjum þeim hætti sem mönnum finnst eðlilegastur. Ég tel svo að vísu að það sé í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að menn geti byggt á óbreyttum lagaákvæðum um samkeppnisráð, það er ekki nokkur vafi á því í mínum huga. Það eru fjölmargir vel hæfir einstaklingar til staðar í þjóðfélaginu sem geta fullnægt öllum þessum skilyrðum, jafnvel þó þau séu svona þröngt túlkuð. Það er ekki vandinn í sjálfu sér. Hitt er álitamál hvort menn séu um of með svona ströngum ákvæðum og þröngri túlkun að takmarka þann hóp sem hægt er að velja úr og hvort það geti til að mynda verið ákjósanlegt að hafa í samkeppnisráðinu að einhverju leyti menn sem eru í beinni tengslum við atvinnulífið og jafnvel starfandi í því á einhvern hátt.
    Ég vil þess vegna hreyfa því sjónarmiði hér að þarna gæti verið skynsamlegt að hverfa aftur til hinnar upphaflegu hugmyndar að nokkru leyti og þá þannig að óbreytt hæfisskilyrði yrðu gerð til a.m.k. tveggja af fimm ráðsmönnum. Þetta yrði þá þannig orðað að viðskrh. skyldi skipa fimm manns í samkeppnisráð og skuli þeir hafa sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og a.m.k. tveir þeirra vera óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til. Reyndar held ég að þarna mætti nota ofurlítið rýmra orðalag og e.t.v. væri skynsamlegt í ljósi úrskurðar eða álits umboðsmanns að talað væri um að þeir skyldu ekki hafa beinna hagsmuna að gæta gagnvart einstökum fyrirtækjum eða samtökum sem undir lögin falla. Það mundi þá væntanlega afmarka þetta við að þeir væru ekki beinir hagsmunaaðilar í þeim skilningi að þeir væru eigendur að fyrirtækjum eða ættu hagsmuna að gæta í gegnum arðgreiðslur, starf sitt með beinum hætti o.s.frv.
    Ef sú tilhögun væri viðhöfð þá mundu menn væntanlega leita hófanna hjá til að mynda sérfróðum aðilum í viðskiptamálum innan raða háskólastofnana, rannsóknastofnana, þeirra sem annast kennslu eða fræðslu á þessu sviði og ýmissa slíkra, sem óumdeilanlega fullnægðu þessum skilyrðum, en afgangurinn af ráðsmönnum gæti þá komið beint úr atvinnulífinu. Þetta er sú tilhögun sem viðhöfð er sums staðar í nágrannalöndunum, þá gjarnan að vísu á því formi að hæstiréttur viðkomandi lands eða háskólar á viðkomandi sviði tilnefna einhvern hluta af fulltrúum í samkeppnisráði. Þannig mun það til að mynda vera í Danmörku að úr háskólanum kemur einhver hluti þeirra sem situr í ráðinu og með því er reynt að tryggja að a.m.k. hluti ráðsmanna sé óháður og geti á faglegum og fræðilegum grunni nálgast þetta viðfangsefni meira heldur en undir þrýstingi eða af áhrifum á beinum hagsmunum einstakra aðila.
    Ég held að það sé óheppilegt að gefast með öllu upp við það að gera slíkar kröfur til a.m.k. einhvers hluta ráðsmanna. Ég held að það sé þá afturför frá upphaflegu hugmyndinni án þess að ég sé í sjálfu sér að mæla með því að menn fari alla leið yfir í að hagsmunaaðilar tilnefni tvo menn, eins og þá var gert ráð fyrir, þ.e. Vinnuveitendasambandið og Alþýðusambandið sem ég leyfi mér að kalla þeim nöfnum í þessu samhengi.
    Sú tilhögun sem er nokkuð algeng í íslenskum lögum, að Hæstiréttur taki að sér einhvers konar óháð hlutverk í þeim efnum og tilnefni menn í svona starf, hvort sem það er Kjaradómur eða samkeppnisráð eða annað því um líkt, hefur sætt gagnrýni og að nokkru leyti með réttu. Það má setja spurningarmerki við það hvort það samræmist í raun og veru óhæði Hæstaréttar og hlutverki hans sem slíks að annast slíkar tilnefningar í stjórnsýsluna. Margir eru þeirrar skoðunar að það sé ekki heppilegt það fyrirkomulag sem á Íslandi hefur tíðkast í nokkuð ríkum mæli að þrátt fyrir hinn heilaga aðskilnað dómsvalds, framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og allt það og stöðu Hæstaréttar, þá hefur hann í allmiklum mæli verið látinn standa í því að tilnefna svona fulltrúa. Síðan eru þeir að störfum og fella úrskurði og taka þátt í málum og geta gerst aðilar að málum sem endanlega koma svo fyrir Hæstarétt á einhverju formi og þá vakna spurningar um það hvort þessum aðskilnaði hafi verið nógu vel til haga haldið. Þannig að ég get alveg fallist á það að frekar heldur en að láta Hæstarétt annast um slíkt þá sé þetta tilnefningarvald hjá viðskrh. en það séu gerð ákveðin skilyrði um það hvernig með það skuli farið.
    En ég segi það strax að ég á erfitt með að sætta mig við að þessu verði breytt á þennan veg sem frv. gerir ráð fyrir að menn gefist einfaldlega upp við það að láta einhver skilyrði, þó rýmra væri orðuð en þau

sem fyrir voru, gilda að þessu leyti og þá t.d. um hluta ráðsmanna. Maður gæti hugsað sér að fyrir því væri m.a. sá rökstuðningur að þetta væru tveir menn, þá gæti fulltrúi ráðherra í raun verið í oddaaðstöðu ef svo bæri undir milli þeirra sem kæmu þá kannski með öðrum hætti að ráðinu og hinna sem væru sérstaklega valdir á grundvelli þess eða með hliðsjón af því að þeir væru óháðir öllum hagsmunum í málinu.
    Þetta þurfa menn að vanda mjög, og ég segi það að lokum hæstv. forseti, að í ljósi þess hversu að mörgu leyti tókst ánægjulega til með góða samstöðu um vinnu að þessu máli á síðasta vetri og ég tel að í heildina tekið hafi verkið tekist vel þá er leiðinlegt að geta ekki leyst með farsælum hætti úr þessu klúðri sem verður að segjast eins og er að er ósköp einfaldlega klúður. Ég ætla ekkert endilega að segja að það klúður eigi 100% að reiknast á viðkomandi viðskrh., e.t.v. var það svolítið óraunsætt af Alþingi, af okkur öllum, sem ákváðum í fyrra að vera svona ströng í þessum skilyrðum og þar ber efh.- og viðskn. og ég þar með talinn vissulega verulega ábyrgð því okkar var það að vinna þetta efnislega. Það má alveg um það deila hvort þetta hafi verið raunsætt í ljósi þessa litla þjóðfélags sem við búum í og hagsmunatengslanna sem fléttast víða um þetta fámenna samfélag. En eftir sem áður verða menn að reyna, ekki satt, að halda til haga og í heiðri svona grundvallarreglur um svona hluti og ég tel að það sé ekki nokkur vafi á því að það sem gerði þetta mál að því vandræðamáli sem það er orðið, var þessi lítt grundaða tilnefning á einstaklingum og sérstaklega einum aðila inn í ráðið sem borðleggjandi var að stóðst ekki óhæðiskröfu laganna. Það var borðleggjandi og þann úrskurð fengu menn í hausinn eins og spáð hafði verið.
    Það væri fróðlegt að heyra aðeins sjónarmið núv. hæstv. viðskrh. gagnvart þessum hugmyndum sem hér hefur verið hreyft um að menn kannski leiti leiða til þess að finna einhverja málamiðlun milli þessara sjónarmiða sem öll eiga nokkurn rétt á sér og ég hef verið að gera grein fyrir.