Samkeppnislög

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 18:35:42 (2310)

[18:35]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hér hafa talað. Um þær spurningar sem hv. 18. þm. Reykv. bar fram áðan vil ég aðeins segja þetta:
    Í síðustu viku eða vikunni þar áður svaraði ég fyrirspurn frá einum þingmanni einmitt um þau atriði sem hv. þm. spurði um. Það var hv. 4. þm. Suðurl. sem var með fyrirspurn í Alþingi um nákvæmlega þessi atriði og ég svaraði henni fyrir nokkrum dögum. Ég held að það væri einfaldast að ég afhenti hv. þm. sem spurði sömu spurninga áðan eintak af svari mínu sem ég flutti þá því þessum spurningum var öllum svarað. Ég treysti mér ekki til þess að fara með það eftir minni. Í bréfi frá samkeppnisráði kemur m.a. fram, svo ég fari örfáum orðum um bæði fjölda erinda og hvers eðlis þau eru o.s.frv., að nú standa yfir miklar breytingar hjá samkeppnisráði. Þetta er ekki lengur Verðlagsstofnun, þetta er Samkeppnisstofnun. Við það aukast ekki verkefnin heldur gjörbreytast en það er ekki verið að vinna sömu verkefni í Samkeppnisstofnun og unnin voru í Verðlagsstofnun með einhverju viðbættu heldur er verið að vinna þarna algjörlega ný verkefni. Samkeppnisráð er að setja sér starfsreglur og ég taldi eðlilegt að orða það í frv., eins og hér er gert, að það skuli gert til þess að það liggi fyrir í lögum að samkeppnisráðið eigi að vinna eftir starfsreglum sem það setur sér og auglýsir opinberlega, þannig að þeir sem þurfa til samkeppnisráðsins að leita geti vitað hverjar þær reglur eru sem samkeppnisráðið hefur markað sér.
    Um það sem hér hefur verið sagt að öðru leyti þá er ég sammála mönnum um að auðvitað á Alþingi að vanda verk sín eins og föng eru en fyrr má nú vanda en vanda svo vel að framkvæmdarvaldið geti nánast ekki framfylgt þeim lögum sem hv. Alþingi setur því miðað við úrskurð umboðsmanns eins og hann liggur fyrir, þá tel ég að nánast sé ekki hægt fyrir ráðherra að framfylgja lögunum eins og þau eru túlkuð af umboðsmanni. Ég vil aðeins, með leyfi forseta, vitna í nokkur atriði sem umboðsmaður tiltekur í úrskurði sínum:
    ,,Líta verður svo á að menn teljist fyrst og fremst háðir fyrirtækjum og samtökum þannig að þeir fullnægi ekki hæfisskilyrðum 1. mgr. 6. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, ef þeir vegna starfa sinna í þágu slíkra aðila eða eignar í þeim eiga verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta eða eru í fyrirsvari fyrir aðila sem svo er ástatt um. Fleiri atriði geta komið til álita svo sem sérstakar starfsskyldur við aðila sem undir lögin falla eða samtök þeirra.``
    Þetta er túlkun umboðsmanns Alþingis og sú túlkun útilokar talsvert marga í íslensku samfélagi. Ég skal fúslega viðurkenna að ég átti í hinum mestu erfiðleikum með að finna einstaklinga sem hugsanlega gætu uppfyllt þau ströngu hæfisskilyrði sem umboðsmaður gerir í úrskurði sínum á grundvelli þeirra vönduðu laga sem Alþingi setti. Ég held að enginn viðskrh. sem í mínum sporum stæði mundi óska eftir því að þurfa að fara svo náið í saumana á persónulegum högum manna.
    Ég vil aðeins í þessu sambandi lesa annan þátt í yfirlýsingu umboðsmanns, þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Brynjólfur Sigurðsson er formaður samkeppnisráðs. Hann er prófessor við Háskóla Íslands að aðalstarfi. Samkvæmt gögnum sem fyrir mig hafa verið lögð á Brynjólfur hlutafé í þremur hlutafélögum sem lögin taka til. Hlutur Brynjólfs í tveimur af þessum fyrirtækjum er innan við 0,02% af hlutafé fyrirtækjanna. Með tilliti til fjárhæða hlutanna verður að telja að hér sé um svo óverulega hagsmuni að ræða að ekki hafi þýðingu skv. 2. mgr. 6. gr. samkeppnislaga. Brynjólfur er hins vegar formaður stjórnar í hlutafélagi þar sem hann á 11,8% hlutafjár. Með tilliti til þess að hér er um að ræða lítið hlutafélag en hlutafé fyrirtækisins er nokkuð innan við 1 millj. kr. og að umfang rekstrar þess er takmarkaður verður að mínum dómi naumast talið að Brynjólfur geti talist háður umræddu hlutafélagi í merkingu 2. mgr. 6. gr.``
    Með öðrum orðum, áður en viðskrh. gengur frá skipun manns í samkeppnisráð þá verður hann að óska eftir því að fá yfirlit frá viðkomandi einstaklingi um hugsanlega hlutafjáreign hans í fyrirtækjum, þ.e. í hvaða fyrirtækjum á viðkomandi einstaklingur hugsanlega eitthvert hlutafé? Á hann sæti í stjórn einhvers hlutafélags? Er hann starfsmaður einhvers hlutafélags? Hvað um nánustu ættingja, svo sem eiginkonu eða börn, eiga þau hlut í hlutafélagi? Er það hár hlutur eða er það lágur hlutur? Er það hlutafélag sem ætla má að hafi einhver áhrif í atvinnulífi eða ekki? --- Þetta væru upplýsingar sem viðskrh. yrði að kalla eftir samkvæmt þessum úrskurði sem ég veit ekki til að aðrir geti kallað eftir með lögum og rétti en skattyfirvöld. Ég segi fyrr má nú gera lög vönduð en svo að viðskrh. sem ætlar að skipa menn í samkeppnisráð þurfi að leita slíkra upplýsinga.
    Því miður mun hafa láðst að geta þess að formaður samkeppnisráðs á sæti í stjórn Hagfræðistofnunar háskólans. Hagfræðistofnun háskólans er ,,fyrirtæki`` sem vinnur á samkeppnisgrundvelli gagnvart öðrum fyrirtækjum í sambandi við alls konar úttektarstörf eins og kunnugt er svo og ráðgjafarstörf svo að segja má að það hefði mátt telja líklegt að ef þessar upplýsingar hefðu legið fyrir þá hefði formaður samkeppnisráðs einnig verið dæmdur óhæfur til setu í ráðinu, þar sem hann ætti sæti í stjórn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
    Um annan mann er það sagt að hann verði ekki úrskurðaður vanhæfur þar sem fyrir liggi að hann eigi ekkert hlutafé í neinu fyrirtæki, sitji ekki í stjórn neinna fyrirtækja né samtaka. Hann mætti t.d. væntanlega ekki eiga sæti í stjórn Sambandsins, ekki í stjórn kaupfélags, ekki í stjórn verkalýðsfélags, ekki í stjórn slíkra aðila.
    Við skulum taka annað dæmi um þriðja mann sem dæmdur var vanhæfur. Hann er framkvæmdastjóri stéttasamtaka. Hann situr í miðstjórn Alþýðusambands Íslands sem á hlutabréf í þremur hlutafélögum, m.a. á grundvelli þess er hann talinn vanhæfur til setu í samkeppnisráði.
    Mig langar af því að hér var talað sérstaklega um Þórarin V. Þórarinsson að lesa úrskurð umboðsmanns um hans tilvik vegna þess að niðurstaða umboðsmanns er allt önnur heldur en sú sem rætt var um að mundi orsaka vanhæfi Þórarins um það leyti sem hann var skipaður. Í umsögn umboðsmanns segir:
    ,,Viðkomandi er framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands. Þar sem samkeppnislög, nr. 8/1993, taka ekki til launa eða annarra starfskjara launþega samkvæmt kjarasamningum er ljóst að það meginviðfangsefni Vinnuveitendasambands Íslands að koma fram fyrir hönd aðildarfyrirtækja við gerð kjarasamninga fellur utan gildissvið samkeppnislaga.``
    Með öðrum orðum: Framkvæmdstjóri Vinnuveitendasambands Íslands er ekki vanhæfur að áliti umboðsmanns fyrir það að vera framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands, þvert gegn því sem talið var þegar sú skipun var gagnrýnd. Hins vegar segir, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt 2. gr. laga Vinnuveitendasambands Íslands er það hins vegar einnig tilgangur sambandsins að vera í forsvari fyrir vinnuveitendur gagnvart almenningi og hinu opinbera, svo og að móta og koma á framfæri stefnu í málum sem snerta atvinnurekstur. Í þeim málum sem komið geta til kasta samkeppnisráðs getur því komið til þess að Þórarinn verði ekki talinn óháður fyrirtækjum sem samkeppnislögin taka til.``
    Síðan er rætt um óverulega hlutafjáreign viðkomandi sem ekki gerir hann vanhæfan, en það er sem sé fyrir það að vera starfsmaður samtaka sem hafa m.a. það að hlutverki sínu að koma á framfæri stefnu í málum sem snerta atvinnurekstur sem viðkomandi er dæmdur vanhæfur.
    Með sama hætti er annar ráðsmaður dæmdur vanhæfur sem á sæti í miðstjórn Alþýðusambandsins, ekki fyrir það að eiga sæti í miðstjórn gagnaðilans, hins samningsaðilans, Þórarinn var ekki heldur dæmdur vanhæfur fyrir slíkt heldur telst hann vera vanhæfur af því að miðstjórn Alþýðusambands Íslands sem hann situr í stjórn hjá á hlutafé í einhverjum félögum.
    Virðulegi forseti. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að sá hafi ekki verið tilgangur hins vandaða löggjafa að þessi væri túlkunin. En engu að síður er þetta niðurstaðan og um þessa niðurstöðu deilum við að sjálfsögðu ekki heldur verða Alþingi og viðkomandi ráðherra að reyna að bregðast við með einhverjum hætti enda bendir umboðsmaður á það í úrskurði sínum að rétt sé af viðskrh. að hann taki málið upp. Hann segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Ég tel því rétt að beina því til viðskrh. að hann taki það til athugunar hvort leggja beri til við Alþingi að endurskoða orðalag áðurgreindrar hæfisreglu með það fyrir augum að gera það markvissara, m.a. með því að tilgreina skýrar þau tengsl og hagsmuni sem leiði til vanhæfis manna til setu í samkeppnisráði.``
    Þannig að það er umboðsmaður sjálfur sem gerir sér grein fyrir því hver eru áhrifin af úrskurði hans. Þau eru, og það skal hreinlega viðurkennast að það var ekkert auðhlaupið verk, ekkert auðunnið verk, að finna menn í stað þeirra sem urðu að víkja úr samkeppnisráði samkvæmt úrskurði umboðsmanns sem uppfylltu þau ströngu hæfisskilyrði. Það er ekkert áhlaupaverk fyrir einn ráðherra að þurfa að yfirheyra þá aðila sem hann hugsar sér að skipa í samkeppnisráð um persónulegan fjárhag þeirra og e.t.v. nánustu vandamanna. Menn eiga ekki að ganga frá lagasetningu með þeim hætti.

    Hins vegar bendi ég á 2. mgr. 50. gr. þessara laga sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Enginn má af hálfu stjórnvalda taka þátt í úrlausn máls er lög þessi ná til ef hann hefur þar persónulegra hagsmuna að gæta . . .
``
    Sama regla er orðuð með enn strengilegri hætti í 3. gr. stjórnsýslulaganna sem Alþingi setti í fyrra. Það er mitt álit að þessi hæfisskilyrði séu það ströng að þau eigi að nægja til þess að koma í veg fyrir það að aðili í samkeppnisráði taki þátt í úrskurði máls þar sem hann hafi hagsmuna að gæta. Það tel ég meginatriði málsins.
    Mér líst hins vegar ekki vel á þá hugmynd að gera mismunandi hæfiskröfur til þeirra fulltrúa sem í ráðinu eiga sæti. Mér finnst rétt að gerðar skuli sömu hæfiskröfur til þeirra allra og ég bið hv. efh.- og viðskn. endilega um það að leggja ekki þær byrðar á herðar viðskrh., hver sem hann er, að ætlast til þess að hann framfylgi hæfiskröfum í gildandi lögum gagnvart einhverjum hluta ráðsmanna. Ég tel að viðskrh., sem reynir að velja hæfa menn í samkeppnisráð, eigi ekki áður en hann tekur ákvörðun um það að þurfa að ganga þau svipugöng að grennslast fyrir um persónulegar fjárreiður manna.