Samkeppnislög

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 18:49:30 (2311)


[18:49]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. núv. viðskrh. hefur gert
allítarlega grein fyrir þeim erfiðleikum sem hann telur að því hafi verið samfara að finna menn í ráðið sem uppfylltu þessi ströngu hæfnisskilyrði og ég ætla út af fyrir sig ekkert að gera lítið úr því veseni. Ég get sagt það fyrir mitt leyti, eins og ég gerði reyndar áðan, að ég tel að þegar þessi breyting var afgreidd á sínum tíma á Alþingi á sl. vetri þá hafi menn haft í huga rýmri túlkun á þessu orðalagi heldur en var niðurstaða umboðsmanns Alþingis. Ég tel mig geta fullyrt það, a.m.k fyrir mitt leyti, eins og umræður hnigu í efh.- og viðskn. þá áttuðu menn sig ekki á því að túlkunin á þessu orðalagi gæti orðið svona þröng. Ég held að menn hafi einmitt haft þar í huga að einhver minni háttar eignaraðild og annað því um líkt þyrfti ekki að gera menn háða fyrirtækjum eða samtökum í beinum skilningi þess orðs. Það að hafa þarna eitthvað rýmra orðalag kæmi þess vegna vel til greina, og það er náttúrlega mikill millivegur frá því að hafa þetta eins og það var óbreytt í ljósi þessarar túlkunar og hinu að fella þetta alveg burtu. Þá vakna auðvitað ýmis álitamál um það hversu háðir beinum hagsmunum samtaka eða fyrirtækja menn gætu orðið og samt hlotið skipun í ráðið og væri ekki eðlilegt að þarna væri mælt fyrir um þetta með einhverjum hætti. Ég bakka ekki með þá hugmynd að sú hugsun sem var í fyrsta uppkastinu væri alls ekki galin í þessum efnum að tryggt væri að einhver hluti ráðsmannanna væri skipaður óháð þessum hagsmunum. Það er ekkert vandamál í sjálfu sér fyrir ráðherrann að ganga þannig frá hlutunum, gæti þvert í móti haft ýmsa kosti í för með sér.
    Varðandi úrskurðinn eins og hann snýr að framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands þá var hann nákvæmlega á þeim forsendum sem ég spáði, þ.e. ekki út frá því hlutverki Vinnuveitendasambandsins að semja um laun heldur út frá hinu almenna hagsmunagæsluhlutverki Vinnuveitendasambandsins, samskiptum við stjórnvöld o.s.frv. Sá úrskurður var því nákvæmlega eins og fyrir hafði verið spáð.