Samkeppnislög

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 18:53:46 (2313)


[18:53]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hér er í fyrsta lagi nauðsynlegt að gera skýran greinarmun á hæfi annars vegar og hæfni hins vegar. Það er ljóst að við erum ekki á nokkurn hátt að draga í efa að hæfni margra til að skipa þessum störfum er óumdeild úti á markaðinum. Hins vegar er það sú aðferð sem valin er hjá mörgum þjóðum að reyna að tryggja að einhver hluti a.m.k. manna sem fara með svona vandasamt og í raun og veru valdamikið hlutverk eins og það er að sitja í samkeppnisráðum samkvæmt þeim verkefnum sem þau nú hafa í nútímalegri löggjöf þjóða eins og í Bretlandi, Danmörku og á Íslandi, t.d. að úrskurða um samruna fyrirtækja, að einhver hluti þeirra sem þann úrskurð fella séu óháðir í beinum skilningi þess orðs, eigi ekki neinna hagsmuna að gæta vegna starfa sinna á einhverju tilteknu sviði. Og t.d. ef ég man rétt í ,,konkúranslögunum`` dönsku, þá er ósköp einfaldlega séð fyrir þessu með því að frá háskólanum koma tilteknir menn sem ekki eiga þá neina rekstrarhagsmuni í því, menn sem kenna hagfræði úti í háskóla, að þetta gangi svona eða hinn veginn til. Það má að sjálfsögðu setja svo reglur um það hversu smávægilegum tengslum í formi einhverra lítilla eignarhluta eða jafnvel starfa megi líta fram hjá við slíka skipun og það held ég að væri tiltölulega auðvelt að gera og kannski nauðsynlegt að gera til þess að það séu alveg skýrar reglur um það hvernig svona skipun megi gerast. Ég held að allt annað sé ákaflega óheppilegt og það t.d. má ekki endurtaka sig að hlutir gerist eins og þeir hafa gerst á þessu ári. Ég tel að framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands eigi t.d. ekki að sitja í samkeppnisráði þó að við breytum þessum reglum. Hann er framkvæmdastjóri heildarsamtaka sem hafa m.a. innan sinna vébanda 60 fyrirtæki sem eru beinir aðilar að VSÍ, ekki í gegnum starfsgreinar og þar á meðal nokkur stærstu fyrirtæki landsins. Og hin almenna hagsmunagæsla í þágu slíkra aðila gerir það að verkum að við eigum að skipa málum þannig að slíkir aðilar sitji ekki í ráðinu.