Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 20:44:41 (2317)


[20:44]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekki skal ég gera lítið úr hyggjuviti hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar (Gripið fram í.) sem er nú gamall nemandi minn. (Gripið fram í) Já, já, til viðbótar, ekki versnaði hann við það. En nákvæmlega sömu niðurstöðu höfðu aðrir komist að, þar á meðal Sigurjón Pétursson sem átti sæti í sjóðstjórninni, þ.e. Innheimtustofnunar, og Sigurgeir Sigurðsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og margir fleiri menn sem bentu á að svona gæti farið. Það breytir hins vegar ekki því að Ríkisendurskoðun skoðaði þessi mál mjög nákvæmlega og niðurstaða Ríkisendurskoðunar varð sú að þetta væri fyrst og fremst slaki í innheimtu af tveimur ástæðum: Önnur er sú að það varð breyting á dómaskipuninni. Hin er sú að tækjabúnaður stofnunarinnar vegna flutnings var í molum og það var ekki fyrr en seint á þessu ári að hægt var að fara með lögfræðilega innheimtu af stað.
    Hér er ekki á ferðinni hjá mér nein hótun um það að fara að taka örorkubætur eða aðrar slíkar bætur af fólki heldur er einungis verið að benda á að í sumum tilvikum er verið að greiða út skatttengdar bætur, barnabætur, jafnvel virðisaukaskatt sem er endurgreiddur, beinlínis til þeirra sem ekki hafa staðið skil á þessum sjálfsögðu greiðslum sem ég hélt satt að segja að flestir skildu að væri eitt af því sem við gætum kallað frumskyldu okkar, þ.e að greiða með þeim börnum sem við eigum.