Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 20:49:16 (2320)



[20:49]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að víkja að öðrum þætti þessa fjáraukalagafrv. en þeim sem hæstv. fjmrh. var að mæla hér fyrir, en á þskj. 131 flytjum við þingmenn Alþb. brtt. sem felur það í sér að sá liður í frv. til fjáraukalaga, þar sem sótt er um heimild til þess að fjármagna launahækkanir Hæstaréttar, er felldur niður. Ég og við þingmenn Alþb. sem erum fulltrúar í fjárln. höfum óskað eftir upplýsingum síðustu daga frá Ríkisendurskoðun og starfsmanni fjárln. um það hvað felist í úrskurði Kjaradóms varðandi launagreiðslur til Hæstaréttar og hvað Hæstiréttur hafi fengið greitt á þessu ári. Áður en ég kem að þeim tölum er nauðsynlegt að ítreka það hér að Kjaradómur ákveður laun Hæstaréttar, hann ákveður laun ráðherra og þingmanna. Kjaradómur er endanlegur úrskurðaraðili í þeim málum. Úrskurði hans verður ekki áfrýjað til Hæstaréttar eða annarra aðila, hann hefur lokaorðið.
    Atburðarásin í þessu máli hefur verið nokkuð flókin, en hún hefur verið á þann veg að Hæstiréttur sendi bréf til forsrh. og kaus að túlka úrskurð Kjaradóms á þann veg að Hæstarétti bæri að fá yfirvinnugreiðslur allnokkrar er næmu um það bil 100 þús. kr. á mánuði. Forsrh. svaraði á þann veg að hann deildi ekki við dómarann og sendi þetta erindi til fjmrn. og fjmrn. hóf að greiða þessar yfirvinnugreiðslur til Hæstaréttar og sækir nú um heimild í fjáraukalagafrv. fyrir árið 1993 til þess að geta greitt þær úr ríkissjóði.
    Nú gerist það hins vegar fyrir nokkrum vikum síðan að Kjaradómur fellir úrskurð um launakjör hæstaréttardómara. Þá kemur í ljós að úrskurður Kjaradóms samrýmist á engan hátt þeirri sjálftökutúlkun sem Hæstiréttur hafði sent í bréfi til forsrn. og fjmrn. greitt í samræmi við það. Þess vegna óskuðum við þingmenn Alþb. eftir því að Ríkisendurskoðun svaraði þeirri spurningu, hverjar ættu launagreiðslur til Hæstaréttar að vera á árinu 1993 í samræmi við úrskurð Kjaradóms. Eða með öðrum orðum, ef fylgt er niðurstöðu þess aðila sem samkvæmt lögum á að ákveða launakjör Hæstaréttar. Svar Ríkisendurskoðunar er alveg skýrt. Þar segir:
    ,,Heildarlaunagreiðslur til hæstaréttardómara 1993 miðað við úrskurð Kjaradóms eiga að vera samtals 27.259.828 kr. ( Gripið fram í: Viltu endurtaka.) 27 milljónir 259 þúsund 828 krónur. ( Gripið fram í: Getur ekki skakkað krónum?) Þetta er síðan sundurliðað annars vegar í greiðslur til forseta réttarins og hins vegar til annarra dómara og síðan í mánaðarlaun, yfirvinnu og orlof. Samtalan 27 millj. rúmar.
    Starfsmaður fjárln. hefur síðan upplýst samkvæmt eftirgrennslan sinni að heildarlaunagreiðslur til hæstaréttardómara á þessu ári muni nema 41,4 millj. kr. eða um það bil 50% meira en Ríkisendurskoðun telur að hæstaréttardómarar eigi að hafa samkvæmt úrskurði Kjaradóms. Þessar 41,4 millj. eru sundurliðaðar á þann veg að föst laun eru 24,6 millj., yfirvinna 11,6 millj., orlof 1,3 millj., launatengd gjöld 3,9 millj. Samtals 41,4 millj. kr.
    Hér er þess vegna komin upp sú staða að Hæstiréttur Íslands er að fá á árinu 1993 50% meira í greidd laun en Kjaradómur hefur úrskurðað honum og þessi munur er byggður á túlkun réttarins sjálfs á því hvað hann eigi að fá. En Hæstiréttur er ekki dómari í eigin máli hvað þetta snertir, það er Kjaradómur. Og Kjaradómur hefur nýlega kveðið upp úrskurð sem felur það í sér að túlkun Hæstaréttar á því hvað hæstaréttardómarar eigi að fá er alröng. Kjaradómur hefur þess vegna sagt: Það sem Hæstiréttur las í vilja Kjaradóms um launakjör Hæstaréttar, var rangt og það skakkaði ekki litlu, það skakkaði heilum 50%. Í stað þess að fá 27 millj. hefur rétturinn tekið sér 41,4 millj. Fjmrh. er þess vegna í þeim vanda staddur: Ætlar hann að halda með málið áfram og óska eftir þessari heimild í frv. þegar þetta blasir nú við sem gerst hefur eftir að hann lagði frv. fram? Og ætli hann að gera það, þá er líka ljóst að hann verður að hækka þá upphæð sem hann lagði upphaflega fram í frv. vegna þess að hún dugir ekki heldur til þess að dekka þær greiðslur sem hæstaréttardómarar eru að fá á árinu, þær 13 millj. til viðbótar sem þar er sótt um.
    Ég heyrði hæstv. fjmrh. segja það í sjónvarpsviðtali nú um kvöldmatarleytið að þetta byggðist á því að úrskurður Kjaradóms nú væri nýr og það yrði greitt samkvæmt honum framvegis. Mín fyrsta spurning er þá til hæstv. fjmrh.: Er hann þar með að segja að hann ætli að lækka raunlaun hæstaréttardómara um rúmlega 30% núna um áramótin? Að það sem muni gerast í raunlaunum hæstaréttardómara um áramótin sé lækkun upp á rúm 30%? Það væri mjög fróðlegt að fá svar við þessu. En það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að sá formlegi aðili sem úrskurðar um launakjör Hæstaréttar hefur úrskurðað það samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar að þeir hafi fengið of mikið vegna þess að það var ekki Kjaradómur sem heimilaði þessa sjálftöku Hæstaréttar. Það var Hæstiréttur sjálfur sem úrskurðaði hvað hún ætti að vera mikil og hvers eðlis og að hún ætti yfir höfuð að eiga sér stað.
    Þess vegna er það nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. tjái sig mjög rækilega um þetta mál hér við þessa 3. og

síðustu umræðu. Ég vil enn fremur upplýsa það að samkvæmt upplýsingum fjmrn. í dag er fjárlagatalan 1993 fyrir launagreiðslur hæstaréttardómara eins og hún er í bókum fjmrn. 29,2 millj., eða með öðrum orðum, hún er hærri heldur en sú upphæð sem Ríkisendurskoðun segir að hæstaréttardómarar eigi að fá samkvæmt úrskurði Kjaradóms. Það þarf þess vegna ekki eina einustu krónu í þessu fjáraukalagafrv. til þess að fjmrn. geti greitt hæstaréttardómurum það sem þeim ber samkvæmt úrskurði Kjaradóms. Ekki krónu. Þess vegna stendur sú tillaga sem við fluttum, þingmenn Alþb., um að fella liðinn Hæstiréttur brott úr fjáraukalagafrv. að upphæð 13 millj. fyllilega eftir þessa athugun.
    Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh.: Er það virkilega ætlun hans að láta það ganga eftir að þessar launagreiðslur umfram úrskurð Kjaradóms verði látnar standa? Ef hann ætlar að gera það, þá er líka ljóst að sú upphæð sem hann fer fram á í þessu fjáraukalagafrv. dugir ekki. Hann verður að hækka hana þannig að ef hæstv. fjmrh. ætlar að vera sjálfum sér samkvæmur, þá verður hann líka að flytja brtt. nú við 3. umr. um að hækka þessa upphæð til að geta greitt Hæstarétti því að hann á ekki peninga samkvæmt sínum eigin röksemdafærslum til þess að geta greitt þær um það bil 14 millj. sem Hæstiréttur er hér að fá umfram.
    Þetta gefur auðvitað einnig tilefni til þess að spyrja hæstv. fjmrh. að því hvað sé eiginlega að gerast í launamálum ríkisins. Ég ætla að nefna nokkur atriði.
    Í fyrsta lagi voru á sínum tíma sett bráðabirgðalög sem voru staðfest á Alþingi um það að nema kjaradóm úr gildi. Síðan fer Hæstiréttur einn fram á það að fá greidda yfirvinnu með sérstökum hætti og fer að túlka kjaradóm sér í hag. Sú túlkun hefur hins vegar verið afnumin af Kjaradómi sjálfum þannig að um áramótin mun koma til framkvæmda rúmlega 30% launalækkun hæstaréttardómara sem sýnir hve stórvægileg sjálftakan var umfram það sem Kjaradómur leyfir.
    Síðan kemur kjaranefnd og úrskurðar prestum launahækkanir upp á tugi prósenta. Á sama tíma er hæstv. fjmrh. að ganga eftir kjarasamningum við opinbera starfsmenn þar sem hann segir að ekki komi til greina að veita öðrum opinberum starfsmönnum neitt annað en það sem er í samningum ASÍ og hann geti ekki gert neitt varðandi úrskurði Kjaradóms og kjaranefndar. Það sé annað kerfi. En síðan upplýsir DV það á laugardaginn var að á sama tíma og fjmrh. er að segja þetta, þá sé formaður samninganefndar ríkisins, sem jafnframt er ráðuneytisstjóri í dómsmrn., að gera samninga um það að fangaverðir fái sem samsvarar 10% launahækkun umfram ASÍ-samkomulagið, umfram það sem öðrum félagssamtökum BSRB er boðið, hækkun um 2--4 launaflokka. Í öðru lagi að tollverðir hafi fengið launahækkun um 2,5% umfram ASÍ-samkomulagið. Og í þriðja lagi að lögreglumenn hafi fengið tveggja launaflokka hækkun á þessu sama tímabili.
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Er það virkilega þannig að til viðbótar við það sem er að gerast hér í launamálum hæstaréttardómara og í launamálum presta sé búið að setja í gang mismunarkerfi af hálfu samninganefndar ríkisins þar sem gagnvart Starfsmannafélagi ríkisstofnana er sagt: Ekki prósent í almenna hækkun. Gagnvart símamönnum er sagt: Ekki prósent í almenna hækkun. En svo séu einstakir hópar, sem vill svo til að heyra allir embættislega undir það ráðuneyti sem formaður samninganefndar ríkisins er jafnframt ráðuneytisstjóri, Þorsteinn Geirsson, fangaverðirnir og lögreglumennirnir, þeir eru hækkaðir. Ég er í sjálfu sér ekki að gagnrýna þá hækkun en ég vil bara fá að vita af hálfu hæstv. fjmrh.: Hver er stefnan í þessum launamálum? Er stefnan sú sem sumum hópum opinberra starfsmanna hefur verið sagt núna síðustu daga: Þið skuluð skrifa undir samning og það er ekki eitt prósent í hækkun? Eða er stefnan sú að það eru teknir út úr einstakir hópar til viðbótar við þá sem eru undir kjaranefnd og Kjaradómi og þeir fá þessar hækkanir?
    Ég hélt satt að segja að kerfið væri þannig að yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um að engir hópar hjá opinberum starfsmönnum fengju hækkanir umfram ASÍ, það væri stefnan. Ég vil þess vegna í fyrstu spyrja að því, þó að ég treysti þessum fréttaflutningi út af fyrir sig í DV: Er þessi frétt virkilega rétt? Er hún virkilega rétt? Og ef hún er það, hver eru þá rökin fyrir þeirri mismunun sem hér kemur fram?
    Virðulegi forseti. Ég vil því óska eftir því að hæstv. fjmrh. tjái sig um þessi launamál en sérstaklega lýsi hann afstöðu sinni gagnvart þessu með hæstaréttardómarana því að við höfum þessar tölur alveg skýrt hér hjá okkur, Ríkisendurskoðun og starfsmaður fjárln. hafa veitt þessar upplýsingar og þær tala sínu máli eins og ég hef lýst fyrr í minni ræðu. Það stendur þess vegna fyrir dyrum að þingið greiði atkvæði um það nú við lok 3. umr. þessa frv. hvort þingið ætli að veita fjmrh. heimild til að greiða hæstaréttardómurum meira --- ég endurtek --- meira en Kjaradómur hefur dæmt þeim. Þessi liður í fjáraukalagafrv. hæstv. fjmrh. er ósk um það að þingið samþykki að hann greiði hæstaréttardómurum 50% meira en Kjaradómur hefur sagt að þeir eigi að fá. Ætlar Alþingi Íslendinga virkilega að segja já við því? Og hvernig ætla menn þá að standa frammi fyrir launafólkinu í landinu, fólkinu í BSRB, fólkinu í ASÍ, láglaunafólkinu í landinu sem hefur þessa dagana verið neitað um eitt einasta prósent eða brot úr prósenti, og hefur fallist á það --- að þjóðþingið hér skrifi upp á það að fjmrh. megi greiða hæstaréttardómurum 50% meira en Kjaradómur hefur heimilað að þeir eigi að fá? Þess vegna flytjum við þessa brtt. svo að hver og einn þingmaður verði að gera það upp við samvisku sína hvort hann ætli virkilega að taka þátt í því sem hér er lagt til af hálfu ríkisstjórnarinnar að verði gert.