Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 21:15:23 (2325)


[21:15]
     Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) :
    Virðulegi forseti. Hér við 3. umr. fjáraukalaga hefur komið upp brtt. frá fjmrn. þar sem skotist hafa upp á yfirborðið litlar 250 millj. kr. Með þessari hækkun er halli fjárlaga á yfirstandandi ári sýnilega kominn yfir 14 milljarða kr. Það verður ekki hjá því komist að fjalla um þessa brtt. ekki síst vegna þess að um hana hefur ekkert verið fjallað í fjárln. og ég sé að það sér ekki nokkur þingmaður úr meiri hluta nefndarinnar ástæðu til að vera við þessa umræðu, 3. umr. um fjáraukalögin. Það mál vel vera að þetta hafi verið upplýst hjá meiri hlutanum en minni hlutinn hefur ekki fjallað um þetta mál né fengið á því skýringar. Þess vegna er óhjákvæmilegt að fara um það nokkrum orðum við þessa umræðu.
    Þetta mál eins og það leggur sig er eitt af mörgum dæmum um að fjárlög yfirstandandi árs voru uppfull af áætlunum sem reynast vera vitlausar og ekki ganga eftir þegar farið er að gera upp árið núna á síðustu vikunum. Í ítarlegum umræðum við 2. umr. um fjáraukalögin var þetta rakið og þetta er náttúrlega eitt dæmið af mörgum um þessar skökku áætlanir sem skildar voru eftir í uppnámi við afgreiðslu síðustu fjárlaga.
    Hv. 9. þm. Reykv. minntist hér á útreikninga hv. 5. þm. Vestf. í þessu máli. Það er alveg rétt, hann aðvaraði um þetta mál sem og stjórnarandstaðan. Ég sé að ég hef fjallað um þetta mál við 3. umr. fjárlaga í fyrra um þetta leyti og sagði þá svo, með leyfi forseta:
    ,,Varðandi gjaldahliðina er ljóst að það er algjör óvissa um hve háa upphæð Jöfnunarsjóður sveitarfélaga þarf að greiða til Innheimtustofnunar sveitarfélaga vegna aukinna vanskila sem stafa af hækkun meðlagsgreiðslna sem fylgja frv. til laga um almannatryggingar.``
    Ég held að það sé komið á daginn að þarna hafi nú ekki verið mjög vel búið um hnútana. Og þannig stóð nefnilega á fyrir ári síðan að það var allt í uppnámi á milli sveitarfélaganna og ríkisins. Formaður Sambands ísl. sveitarfélaga var kominn í verkfall, í vinnu fyrir félmrn. og þann 10. okt. var gerður griðasáttmáli milli Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisins um að nú ætti að taka upp betri siði og fara að semja um mál. Hæstv. fjmrh. upplýsti áðan að þetta væri einn anginn af samningum ríkis og sveitarfélaga, þetta mál væri eins og hann orðaði það orðrétt, ,,hluti að drögum að samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga`` sem mér skilst að sé væntanlegt núna á næstunni. Í byrjun desember í fyrra var einmitt allt að fara í uppnám út af þessu máli milli ríkis og sveitarfélaga og ég sagði þá, með leyfi forseta:
    ,,Við fengum af því fregnir í hv. félmn., sem ég á sæti í jafnframt fjárln., að einhverjar viðræður hefðu farið fram milli formanns Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar um þak á greiðslum Jöfnunarsjóðsins til Innheimtustofnunar sveitarfélaga sem ætti að vera 300 millj. kr. Við fengum af þessu óljósar fregnir í fjárln. en ekkert sem hönd má festa á og ljóst er þó að það gangi eftir að allt þar umfram verður að greiðast úr ríkissjóði. Um málefni Jöfnunarsjóðsins og fjárútlát ríkissjóðs í tengslum við Jöfnunarsjóðinn er því fullkomin óvissa.``
    Nú er komið fram að þarna eru litlar 250 millj. kr. sem ber á milli og það kemur auðvitað ekkert á óvart. Það hefði kannski verið betra að hafa verið raunsæir í þessum málum þegar fjárlög voru afgreidd. Það kom auðvitað á daginn að þessi hækkun meðlaga skilaði sér ekki og því er kennt um að það séu einhverjar tölvur og breytingar á dómskipuninni í landinu sem valdi. Það veldur þar auðvitað um að þessi gjöld hafa hækkað og vafalaust er það fyrir þá hækkun sem innheimta gengur verr. Síðan eftir að þetta er leiðrétt núna og gengið frá þessu þá er lagt upp í næsta ár með hlutina alveg nákvæmlega eins. Það á að skilja allt eftir í uppnámi á næsta ári og það er látið nægja að segja: Það verður leitað nýrra leiða á næsta ári til að herða innheimtu og, ef ég skildi hæstv. fjmrh. rétt, að skuldskeyta innheimtu þessara gjalda. Ég held að það sé mjög vafasamt að þetta skili árangri og ég er ekki búinn að sjá það.
    Það vakna þær spurningar við þessar aðfarir allar saman: Hvað var unnið fyrir ríkissjóð með hækkun meðlaganna? Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. ef hann hefur um það tölur: Hver er í rauninni nettóhagnaður ríkissjóðs af hækkunum á meðlagsgreiðslum þegar þessar 250 millj. eru færðar til bókar? Hefur hæstv. ráðherra upplýsingar um það eða getur hann aflað þeirra? Það hefði auðvitað verið hægt að spyrja um þetta í fjárln. ef málið hefði þar komið til umræðu og ég hefði þá ekki þurft að koma hér og spyrja þessara spurninga. En það væri fróðlegt að vita þetta.
    Hæstv. fjmrh. sagði áðan að meðlög hafi hækkað umtalsvert. Það var auðvitað umtalsverð hækkun á meðlögum og þar með er ég ekki að segja að þeir sem hafa forræði barna séu ofhaldnir af þessum upphæðum. Það er langt frá því. En þessi hækkun varð til þess að þetta innheimtist ekki og lendir meira og minna á ríkinu meðan við teljum það rétt að ganga í ábyrgð fyrir þessar greiðslur, sem ég vona að menn fari nú ekki að hverfa frá, að þeir sem hafa forræði barnanna hafi einhverja tryggingu fyrir að fá þessar greiðslur. Það vona ég að verði þó áfram og ríki og sveitarfélög hafi þar ábyrgð á og endurkröfurétt. En það er mjög vafasamt, svo ekki sé meira sagt, hver hagnaðurinn hefur orðið af þessu í fyrra sem og fleiri vanhugsuðum ákvörðunum sem teknar voru við fjárlagagerð síðast. Og þessi brtt. bætist þá við þau skrautblóm sem eru í þessu fjáraukalagafrv. um vitlausar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar, vitlausar áætlanir sem ekki ganga eftir og kosta það að við erum að leita hér eftir viðbótarheimildum um milljarða kr. í þessu fjáraukalagafrv. og halli ríkissjóðs er kominn yfir 14 milljarða kr. nú þegar á þessu ári með þessari tillögu sem hér um ræðir.