Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 21:44:35 (2327)


[21:44]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka þau viðurkenningarorð sem hv. þm. lét falla hér um þá reglu sem komið var á í tíð síðustu ríkisstjórnar að leggja fram fjáraukalagafrv. á réttum tíma. Hins vegar vil ég vekja athygli hv. þm. á því að afleiðingin af því að Kennarasambandi Íslands var afhent gamla kennaraskólahúsið er sú að á rúmu ári var það hús endurnýjað og gert þannig úr garði að það er nú hrein bæjarprýði að innan sem og utan. Í húsið er komin lifandi starfsemi og þar er ætlað gott rými fyrir minjar um sögu kennaramenntunar á Íslandi. Ég er sannfærður um það, ef horft er á fjármögnun til viðgerða á opinberum húsum, að gamla kennaraskólahúsið stæði enn þá ryðgað, illa farið og borginni og hinu opinbera lítt til sóma ef þáv. hæstv. menntmrh. Svavar Gestsson og ýmsir aðrir hefðu ekki fundið það snjallræði að fela Kennarasambandi Íslands að varðveita þetta hús. Ég tel þess vegna að það hafi verið góð ákvörðun sem ekki ber að gagnrýna og bið hv. þm. að fara nú í heimsókn í gamla kennaraskólahúsið og sannfærast sjálfur um það hvað þar er vel að verki staðið og heimsækja síðan ýmsar aðrar opinberar byggingar hér í miðbæ Reykjavíkur og sjá hve þær eru illa farnar af því að það hefur orðið að heyja harða glímu með litlum árangri til þess að fá nægilegt fé til að endurnýja þær. Þess vegna vona ég að hv. þm. endurskoði nú hug sinn til gamla kennaraskólahússins.