Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 22:07:32 (2332)


[22:07]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans og þær upplýsingar sem hann gefur okkur hér. Hann viðurkennir að á þessu ári sé trúlega ekki um neinn sparnað af þessum hugmyndum og tillögum að ræða og öllu þessu brölti, e.t.v. sé meira að segja af því hreinlega tap, það hafi orðið útgjaldaauki fyrir ríkissjóð þar sem hér var lagt til og hér er verið að fjalla um.
    Ég ítreka þess vegna ósk mína til hæstv. ráðherra að hann sendi fjárln. greinargerð um þetta mál. Ég skora á hann að gera það vegna þess hvernig að málinu var staðið og kynningu þess í nefndinni og tel að það sé ekki ofætlan að fara fram á það að nefndin fái þessar upplýsingar þó seint sé þannig að þær liggi þar fyrir og séu til þar skjalfestar.
    En síðan talar hæstv. ráðherra um það að þetta muni geta leitt til sparnaðar á næsta ári. Það datt fáum í hug fyrir ári síðan að þetta kynni að kosta 250 millj. kr. Ég held ekki, hæstv. ráðherra, ég held að það hafi ekki verið hugmyndin, a.m.k. ekki hæstv. ríkisstjórnar og hv. stjórnarliða. Það voru hins vegar efasemdir uppi um ágæti þessara hugmynda hjá stjórnarandstöðunni eins og hér hefur verið rakið og hér hefur komið fram og sumir hv. þm. töldu að kostnaðurinn gæti jafnvel numið allt að þessari upphæð. En það var ekki skoðun hæstv. ríkisstjórnar og þess vegna leyfi ég mér að efast um það að hæstv. ráðherra muni ná inn þessum tekjum sem hann áætlar af þessu á næsta ári.
    Aðeins að lokum, virðulegur forseti, um nefndarstörfin. Það er út af fyrir sig ekki von að meiri hluti fjárln. geri sér grein fyrir því hvenær nefndin er öll að störfum og hvenær það er bara meiri hlutinn vegna þess að að undanförnu hefur það bara verið meiri hlutinn sem hefur verið að störfum. Það er meiri hlutinn sem hefur verið að vinna, vænti ég, að þessu frv. og fjárlagafrv. sem við tökum til 2. umr. einhvern næsta dag, og þess vegna skil ég það vel að þeir séu hættir að gera greinarmun á því því að þeim er nokkuð sama hvort stjórnarandstaðan er við eða tekur þátt í nefndarstörfunum.