Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 22:27:12 (2336)


[22:27]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en mér fannst það ekki koma nógu skýrt fram áðan hjá hæstv. fjmrh. að það væri ekki gert ráð fyrir því að ríkissjóður þyrfti að koma inn með svipuðum hætti á næsta ári. Hann nefndi þar einhverja samninga sem væru í gangi en ef ekki gengur eftir hert innheimtuátak eða annað slíkt í sambandi við þetta, er það þá meiningin að sveitarfélögin taki á sig það sem ekki innheimtist af meðlagi? Ég vil þá minna hæstv. ráðherra á það að í umræðunum fyrir einu ári síðan kom það í ljós að meðlagsskuldir voru þá í kringum 3 milljarðar kr., uppsafnaðar skuldir voru þá í kringum 3 milljarðar kr., og þá voru yfir 800 manns sem skulduðu 500 þús. þó þeir væru ekki með nema eitt barn sem þeir skulduðu fyrir. En það hefur verið upplýst í umræðum og ég held að það hafi verið hæstv. ráðherra sem upplýsti það að á þessu ári eru 550 millj. kr. útistandandi af meðlögum og það hlýtur að vera til viðbótar við þessa 3 milljarða sem hafa verið útistandandi fyrir ári síðan. Ég spyr bara hæstv. fjmrh.: Er það þá meiningin að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga eigi að taka á sig þessar greiðslur?