Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 22:39:08 (2338)


[22:39]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga hafa verið með sérstökum hætti í tíð þessarar ríkisstjórnar eins og kunnugt er. Það kom fram í máli hæstv. fjmrh. að það getur farið svo að á sveitarfélögin verði velt allt að 300 millj. út af þessu máli og þar að auki er ríkisstjórnin með sérstaka 500 millj. kr. skattheimtu á sveitarfélögin sem hún ætlar reyndar að auka á næsta ári upp í 600 millj. sem upphaflega var tengd löggæslu en endaði svo núna sem framlög í Atvinnuleysistryggingasjóð. Samanlagt eru bara þessir tveir liðir 900 millj. á ári sem ríkið er að velta yfir á sveitarfélögin. Mér finnst ástæða til þess að fulltrúar sveitarfélaga staldri aðeins við þegar svo háttar til að ríkisstjórnin stendur ekki betur við samninga við sveitarfélögin en raun ber vitni og er svo núna að gera stórfelldar breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem opna ýmsar smugur fyrir ríkissjóð til þess að næla sér í auknar tekjur umfram það sem þetta er. Þannig að ég hygg að hæstv. fjmrh. verði að skilja það þó að fulltrúar sveitarfélaga séu ekki mjög ginnkeyptir fyrir því og treysti ríkisstjórninni ekki allt of vel í fjármálalegum samskiptum þessara tveggja aðila.