Fjölgun frystitogara

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 13:34:42 (2343)


[13:34]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Hér er verið að efna til almennari umræðu en almennt er litið á að eigi að gera í fyrirspurnatíma af þessu tagi. Nauðsynlegt væri í tilefni af þessari fsp. að gera mjög ítarlega grein fyrir þeim umfangsmiklu ráðstöfunum sem gerðar hafa verið á síðasta ári til þess að rétta við stöðu útflutningsgreinanna og sjávarútvegisins sem alþjóð er kunnugt um, en greinilega hafa farið fram hjá hv. 5. þm. Suðurl.
    Varðandi frystitogarana og sölu á aflaheimildum til þeirra þá fara þær fram á grundvelli laga sem hv. 1. þm. Austurl. beitti sér fyrir sem sjútvrh. og hv. 5. þm. Suðurl. samþykki í lok síðasta kjörtímabils. Á þeim grundvelli fara sölur á aflaheimildum fram og þar á meðal til frystitogara. Núv. ríkisstjórn beitti sér fyrir því að Alþingi setti á þessu kjörtímabili nýja löggjöf til þess að takmarka á ýmsan hátt þá miklu aukningu sem var í augsýn á fjölgun frystitogara. Það var fyrst gert eftir að núv. ríkisstjórn kom til valda. Eins og alkunna er flutti sjútvn. brtt. á þessum lögum til þess að auðvelda kaupfélagi vestur á fjörðum að koma nýjum frystitogara í starfrækslu. Ég held að að hafi verið eðlileg ráðstöfun og nauðsynleg miðað við allar aðstæður. En þessi skip hafa sannarlega skilað góðum árangri og menn mega ekki gleyma því að þau hafa verið ein aðalforsenda fyrir því að við höfum verið að auka sókn okkar í vannýttar tegundir. Við höfum verið að stækka þá auðlind sem við getum veitt úr með því að beina þeim á úthafið og á úthafsveiðar. Afli íslenskra skipa og tekjur þjóðarbúsins væru mun minni ef þessi skip hefðu ekki verið fyrir hendi og getað nýtt þá möguleika og þá útrás sem sjávarútvegurinn hefur hafið í þessu efni.