Skotmörk langdrægra kjarnorkueldflauga

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 13:45:11 (2352)


[13:45]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þau válegu tíðindi bárust vestan um haf fyrir svo sem tveimur dögum að Bandaríkjamenn og Rússar hyggist breyta stöðu langdrægra kjarnorkueldflauga sinna og beina þeim út á Norður-Atlantshaf í stað skotmarka á landi þessara fornu fjenda. Þessar hugmyndir lýsa auðvitað hrikalegu hugarfari til norðurhafa og þess lífs sem þar þrífst. Í Morgunblaðinu í morgun kemur fram að hæstv. utanrrh. hefur sett könnun af stað á þessu máli og ég vil spyrja hann af því tilefni hvort hann hafi fengið einhverjar skýringar á því hvað hér er á ferð, hversu langt þessar hugmyndir eru komnar og er það rétt að bæði Bandaríkjamenn og Rússar séu að huga að þessu?
    Í öðru lagi, hvernig hyggst hann halda á þessu máli næstu vikur?
    Og í þriðja lagi, hvernig og hvar ætlar ríkisstjórn Íslands að mótmæla þessum áformum kjarnorkuveldanna tveggja?