Skotmörk langdrægra kjarnorkueldflauga

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 13:48:56 (2355)


[13:48]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir því að eðlilegt sé að taka þetta mál einnig upp við rússnesk stjórnvöld, þ.e. að krefja þau líka skýringa. Það var hins vegar ekki gert á þessum tíma af þeirri einföldu ástæðu að fréttin gaf ekki tilefni til þess, vegna þess að það var skýrt tekið fram samkvæmt henni að Rússar hefðu fyrir sitt leyti ekki breytt skotmörkunum.
    Ég tek undir það með hv. þm. að það er undarlegt að heyra það haft eftir nafngreindum bandarískum herforingja að annaðhvort hafi verið tekin ákvörðun eða standi til að taka ákvörðun um að beina eldflaugum að skotmörkum á norðurhöfum, þar sem sagt er beinlínis að slíkt muni væntanlega ekki koma að sök, þar sem þeir muni í besta falli hitta höfuðskeljarnar á nokkrum hvölum. Og að þetta komi frá stjórnvöldum sem hafa talið þær höfuðskepnur úthafanna vegna greindarstigs og þroska, verðar þess að vera verndaðar um aldur og ævi, og hóta öðrum þjóðum viðskiptastríði af því tilefni, þá er þetta dálítið sérkennileg yfirlýsing.