Vaxtamál og viðskipti með húsbréf

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 13:56:33 (2362)


[13:56]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. viðskrh. og vil eiga við hann orðastað um vaxtamál og viðskipti með húsbréf. Hæstv. ráðherra fór mikinn, samkvæmt endursögn fjölmiðla, á kratafundi í gærkvöldi og skaut þar á báðar hendur í sambandi við vaxtamál, milli þess sem hann ræddi um stefnumörkun Alþb. sem er þeim alþýðuflokksmönnum eins og kunnugt er hugleikin og er það vel að þeir kynni sér slík gagnmerk rit. En ég saknaði þess að í þessari endursögn af málflutningi viðskrh. var ekkert minnst á stöðu vaxtamálanna hvað húsnæðismálin snertir, hvorki fjármögnun byggingarsjóðanna sem virðist stefna í hreint óefni, samanber það að í tveimur tilraunum hefur byggingarsjóðunum ekki tekist að afla sér fjármagns á innlendum markaði undir því vaxtaþaki sem ríkisstjórnin hefur sett sér. Hitt er svo mikið umhugsunarefni sem gerst hefur í viðskiptum með húsbréf og ég vil spyrja hæstv. viðskrh. sérstaklega um það. Fer vel á því að hæstv. félmrh., sem sór og sárt við lagði hér á árum áður að aldrei mundu verða afföll af húsbréfum, sitji á vinstri hönd hæstv. viðskrh., en afföll af húsbréfum fóru eins og kunnugt er upp undir 25% þegar best lét fyrir nokkru síðan.
    Nú hefur sú tilhögun verið tekin upp að húsbréf eru skilgreind hjá bönkunum sem laust fé og koma þess vegna bönkunum að sömu notum í þeim efnum í raun eins og peningalegar innstæður, húsbréfaeign banka. Samt gerist það að bankarnir kaupa nú ný húsbréf með afföllum og þau munu vera um 6%. Ég spyr hæstv. viðskrh.: Eru það eðlilegir viðskiptahættir að bankarnir sem mega nota húsbréfin eins og laust fé skuli samt sem áður kaupa þau með þessum afföllum? Telur hæstv. viðskrh. þetta eðlilega viðskiptahætti? Er hann tilbúinn til að beita sér í þessu máli af ekki minni krafti heldur en hann talaði á kratafundinum í gærkvöldi?