Vaxtamál og viðskipti með húsbréf

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 14:02:18 (2365)


[14:02]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það var mjög eðlilegt að ég teldi að einhvers misskilnings gætti í máli hæstv. fyrirspyrjanda því hann kallaði bæði þessi bréf húsnæðisbréf og húsbréf, kallaði hvort tveggja húsbréf. Það hlaut að vera misskilningur hans ellegar þá þráfaldlegt mismæli, en það hlýtur þó að vera hið síðara fyrst það hefur komið fram að hér er ekki um misskilning að ræða. Húsbréf hafa verið á yfirgengi þannig að dæmi eru um það að húsbréf hafi verið keypt á yfirgengi og bankarnir gerðu það. Það er alveg rétt að það var liðkað til þannig að bankarnir geta með ákveðnum takmörkunum þó talið húsbréf með lausafé sínu. Þarna er um að ræða viðskipti sem eru frjáls. Það er hverjum heimilt að kaupa og hverjum heimilt að selja. Þetta eru þau gildi sem eru á markaði með húsbréf í dag. Þau eru seld með þessum kjörum og þau eru keypt með þessum kjörum. Við því er fátt að segja. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að það kemur mér á óvart ef lífeyrissjóðirnir ætla að verða fyrstir til þess að reyna að brjóta niður ákvörðun ríkisstjórnarinnar um vaxtalækkun.