Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 14:22:29 (2376)


[14:22]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum árið 1994. Til þess að unnt verði að standa við áform ríkisstjórnarinnar hvað snertir útgjöld ríkissjóðs á næsta ári er nauðsynlegt að breyta nokkrum lögum. Rétt þótti að safna þeim breytingum saman í eitt frv. til þess að leggja á það áherslu að öll tengjast þau stefnu ríkisstjórnarinnar um lækkun ríkisútgjalda og viðleitni hennar til þess að draga úr halla í ríkisbúskapnum. Frv. þetta nær þó ekki til allra þeirra laga sem breyta þarf til að markmið fjárlagafrv. nái fram að ganga.
    Lengst af þeim tíma sem núv. ríkisstjórn hefur setið hefur hún þurft að glíma við samdrátt í þjóðarbúskapnum og erfiðar efnahagsaðstæður. Meginverkefni efnahagsstjórnarinnar hafa verið að milda áhrifin af samdrættinum á atvinnulíf og heimili, tryggja stöðugleika í efnahagslífinu og búa í haginn fyrir hagvöxt og bætt lífskjör þegar fram í sækir. Vegna mikilla skuldasafnana ríkisins mörg undanfarin ár hefur svigrúm til aðgerða hins vegar verið þrengra en ella.
    Markmið stefnunnar í ríkisfjármálum er skýrt. Þrátt fyrir erfiðar efnahagsaðstæður verður að draga úr hallarekstri ríkissjóðs án þess að hækka skatta. Þess vegna verður að lækka ríkisútgjöld.
    Þegar ríkisstjórnin tók við völdum fyrir rúmum tveimur árum setti hún sér það markmið að koma ríkisfjármálunum í viðunandi horf. Tvennt hefur raskað þessu áformi. Annars vegar reyndist vandinn mun meiri en gert var ráð fyrir m.a. vegna ýmissa skuldbindinga sem ríkisstjórnin fékk í arf frá fyrri tíð. Hins vegar hafa versnandi efnahagsaðstæður innan lands og utan leitt mikinn samdrátt yfir þjóðarbúið sem hefur enn aukið hallarekstur ríkissjóðs. Eigi að síður hefur ríkisstjórninni tekist að stöðva útgjaldavöxt hjá ríkinu og hamla þannig gegn halla á ríkissjóði án þess að grípa til skattahækkana.
    Ef ekki hefði komið til samdráttar í efnahagslífinu hefði upphaflegt markmið um hallalaus fjárlög nú verið innan seilingar. Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar á sl. ári og á þessu ári eru grundvöllur þess að kjarasamningar voru á þessu ári gerðir til lengri tíma en oftast áður, en friður á vinnumarkaði er mikilvægur þáttur í því að tryggja stöðugleika í efnahagsmálunum. Þrátt fyrir lækkun á gengi krónunnar hefur verðbólga ekki farið úr böndum og verður á næsta ári minni en að meðaltali í Evrópuríkjunum. Viðskiptahalli hefur farið minnkandi eins og að var stefnt með aðgerðum ríkisstjórnarinnar í fyrrahaust og í júní sl. og skuldir þjóðarbúsins aukast ekki lengur að raungildi. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur skilað þeim árangri sem til var ætlast við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja. Þessari stefnu verður einnig fylgt á næsta ári. Verkefnið er að halda halla á ríkissjóði í skefjum og sporna gegn vaxandi atvinnuleysi án þess að fórna því sem áunnist hefur í hjöðnun verðbólgu og minnkandi viðskiptahalla.
    Í kjarasamningum þeim sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði í vor var kveðið svo á um að forsendur samninganna skyldu endurmetnar fyrir 10. nóv. Á fundi launanefndar Alþýðusambands Íslands og vinnuveitenda með formönnum ríkisstjórnarflokkanna 14. okt. sl. var rætt um forsendur kjarasamninga í ljósi þjóðhagsáætlunar og fjárlagafrv. fyrir árið 1994. Þar lýstu nefndarmenn áhyggjum sínum vegna atvinnumála og töldu þeir m.a. ekki nægilega hafa verið beitt þeim tækjum sem stjórnvöld höfðu yfir að ráða til að lækka vexti. Í framhaldi af þessum fundi fjallaði ríkisstjórnin um þau mál sem þar voru nefnd og ekki síst vaxtamál. Niðurstaða þeirrar umfjöllunar var sú yfirlýsing um samræmdar aðgerðir til lækkunar vaxta sem ríkisstjórnin samþykkti hinn 29. okt. sl. Með þeim aðgerðum hugðist ríkisstjórnin ná því markmiði að lækka vexti verulega. Stefnt var að því að vextir á verðtryggðum ríkisskuldabréfum lækkuðu í 5%. Þetta hefur nú þegar gengið eftir og vextir af verðtryggðum fjárskuldbindingum banka og lánasjóða hafa lækkað til samræmis. Með samstilltu átaki allra aðila tókst að ná fram verulegri vaxtalækkun vegna þess að ríkisstjórnin hafði með efnahagsstefnu sinni skapað þær forsendur sem nauðsynlegar voru til þess að árangur næðist. Hvarvetna í nágrannalöndum hafa stjórnvöld lagt mesta áherslu á vaxtalækkun til að stöðva samdrátt og efla hagvöxt og hér á landi ríkir einnig víðtæk samstaða um það að veruleg lækkun vaxta sé mikilvægasta aðgerðin til að örva atvinnulífið og sporna gegn atvinnuleysi. Til þess að árangur af vaxtalækkuninni verði varanlegur er afar mikilvægt að stöðugleiki ríki í efnahagslífinu á næstunni. Það má ekki raska þeim forsendum sem vaxtalækkunin byggir á. Þar skiptir staða ríkisfjármála og lánsfjárþörf ríkisins afar miklu máli. Aðgerðirnar í vaxtamálum voru reistar á þeirri forsendu að halli á ríkissjóði á næsta ári verði alls ekki meiri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Viðbótarútgjöld án frekari tekjuöflunar hvort sem er til rekstrar eða fjárfestingar mundu raska þessari forsendu og stefna vaxtalækkun í tvísýnu. Aðgerðirnar í vaxtamálum og þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin tók í tengslum við endurmat kjarasamninga og lýst er í bréfi til launanefndar 5. nóv. sl. voru teknar í trausti þess að ekki kæmi til uppsagna kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og vinnuveitenda, enda taldi ríkisstjórnin að með þessum ákvörðunum hefði hún uppfyllt þær forsendur samningsins er lúta að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út þegar samningurinn var gerður í maí sl. Jafnframt ítrekaði ríkisstjórnin mikilvægi þess að eyða óvissu í kjaramálum, tryggja frið á vinnumarkaði og treysta þannig stöðugleika í efnahagsmálum.
    Eins og kunnugt er varð niðurstaða launanefndar einróma sú að ekki væri tilefni til uppsagnar kjarasamnings og samningar mundu því gilda óbreyttir út næsta ár. Friður á vinnumarkaði og lækkun vaxta munu búa í haginn fyrir framfarir og bætt lífskjör þegar þjóðhagsleg skilyrði batna. Það þarf að stilla saman ákvarðanir í ríkisfjármálum og á peningamarkaðnum þannig að lækkun raunvaxta verði varanleg.
    Hæstv. forseti. Ég mun fara nokkrum orðum um helstu efnisatriði þess frv. sem hér er til umræðu. Í 1. og 2. gr. er lagt til að enn verði frestað að hrinda í framkvæmd nokkrum útgjaldaskapandi nýmælum sem fest voru í ný heildarlög um grunnskóla vorið 1991 án þess að þeim væru tryggðir tekjustofnar, en ógerlegt er að segja til um hversu mikill kostnaður mundi leggjast á sveitarfélögin af þessum sökum. Að þessu sinni er því lagt til að ákvæðum um skólamáltíðir, lengingu kennslutíma, fækkun nemenda í bekkjum og skólaathvarf verði enn frestað um eitt ár.
    Í 3. og 4. gr. er lagt til að lagaákvæði um Tækniskóla Íslands verði færð til samræmis við önnur lög um sambærilega skóla á framhaldsskólastigi þannig að eðlilegt jafnræði sé með nemendum á þessu skólastigi. Fjárveiting til skólans verði eftir sem áður ákveðin í fjárlögum.
    Í 5. og 6. gr. er enn lagt til að heimildir til gjaldtöku fyrir skólavist verði samræmdar á öllu framhaldsskólastiginu. Ákvæði þessi eiga við um Bændaskólann á Hvanneyri, Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal og Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi.
    Ákvæði 7. gr. er í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að atvinnuvegirnir standi að hluta sjálfir undir kostnaði af opinberri þjónustu í þeirra þágu. Hér er lagt til að söluaðilar búvéla standi að mestu leyti sjálfir undir kostnaði við rannsóknir, tilraunir og prófanir á búvélum með því að heimilt verði að leggja sérstakt gjald á kaupverð þeirra. Reyndar er hér aðeins um nánari útfærslu á núverandi gjaldtökukerfi að ræða með því að þeim söluaðilum sem látið hafa vélar til prófunar hjá bútæknideild er þegar gert að greiða fyrir þá þjónustu sérstaklega.
    Framkvæmd ríkisábyrgðar á launum og ríkisábyrgðar á orlofi hefur að undanförnu verið á sömu hendi. Ábyrgðasjóður launa hefur fjármagnað launagreiðslur vegna gjaldþrota en tekjustofn sjóðsins er sérstakt ábyrgðagjald af greiddum vinnulaunum, þóknun og reiknuðu endurgjaldi sem skattskylt er samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Ríkissjóður hefur hins vegar greitt kostnað vegna ríkisábyrgðar á orlofi. Í athugasemd sem Ríkisendurskoðun gerði snemma á þessu ári við ríkisábyrgð á orlofi er lagt til að athugað verði hvort ekki sé eðlilegt að ábyrgðasjóður launa yfirtaki ábyrgð á orlofsgreiðslum vegna greiðsluerfiðleika líkt og með aðrar launagreiðslur vegna gjaldþrota. Í því sambandi bendir Ríkisendurskoðun á að verulegur hluti þeirra launagreiðenda sem er í greiðsluerfiðleikum og geta ekki greitt orlofslaunakröfur fara síðan í gjaldþrot. Með hliðsjón af þessu er lagt til í 8. gr. að ábyrgðasjóði launa verði falið að ábyrgjast greiðslur á orlofi vegna greiðsluerfiðleika launagreiðenda. Ekki er lagt til að ábyrgðagjaldið hækki frá því sem nú er.
    Á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil uppbygging þjónustustofnana fyrir fatlaða. Framkvæmdasjóður fatlaðra markaði á sínum tíma tímamót í þessu efni. Kostnaður við rekstur og þjónustu í þágu fatlaðra hefur vaxið ár frá ári í takt við uppbyggingu þjónustustofnana. Í lögum um málefni fatlaðra, sem tóku gildi á sl. ári, er lögð áhersla á að auka hvers konar stoðþjónustu í þágu fatlaðra. Með tilvísun til þessa þykir nú rétt, þrátt fyrir ákvæði laga um málefni fatlaðra um hlutverk Framkvæmdasjóðs fatlaðra, að leggja til í 9. gr. að á árinu 1994 verði heimilt að verja allt að 15% af ráðstöfunarfé sjóðsins til tiltekinna rekstrarverkefna en það er einkum til liðveislu, skv. 25. gr. laganna, og félagslegrar endurhæfingar, skv. 27. gr. laganna.
    Gert er ráð fyrir tvenns konar breytingum á lögum almannatryggingar. Annars vegar er lagt til að sett verði heimild í 19. gr. laganna um að tekjutengja greiðslu ekkjulífeyris. Greiðsla ekkjulífeyris er nú óháð tekjum. Ákvæði almannatryggingalaga um ekkjulífeyri eru barn síns tíma og sett í lögin er atvinnuþátttaka kvenna var verulega minni en nú er. Athugasemdir hafa verið gerðar við þetta ákvæði út frá jafnréttissjónarmiðum því sambærileg heimild um bætur gagnvart ekklum er ekki fyrir hendi. Nágrannaríki okkar, sem flest höfðu ákvæði um ekkjulífeyri í sinni löggjöf, hafa flest fellt þennan bótaþátt niður en ekki þykir ástæða til að ganga svo langt að sinni. Hin breytingin er að lagt er til að sett verði heimild í 41. gr. laganna um að setja megi reglugerð ákvæði um að sjúkratryggður taki þátt í kostnaði vegna dvalar á stofnun en sjúktatryggingar greiða fyrir. Fyrirhugað er á árinu 1994 að hefja innheimtu hlutdeildar sjúkratryggðs í kostnaði vegna dvalar á áfengis- og meðferðarstofnunum.
    Í fjárlagafrv. er greint frá því að gert verði ráð fyrir því að útgjöld til atvinnuleysisbóta verði lækkuð um 250 millj. kr. með auknu eftirliti, fræðslu og samræmingum á störfum úthlutunarnefnda auk þess sem áformað er að úthlutunarreglum verði breytt.
    Í tengslum við endurmat kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í byrjun nóvember sl. lýsti ríkisstjórnin því yfir að breytingar á úthlutunarreglum atvinnuleysisbóta til launþega verði kannaðar í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Undirbúningur að slíkri könnun er hafinn og hefur ríkisstjórnin ákveðið að sett verði á fót samstarfshópur, starfshópur, skipaður fulltrúum forsrn., fjmrn., heilbr.- og trmrn. og félmrn. til þess að ræða við aðila vinnumarkaðarins um breytingar á löggjöf og framvkæmd atvinnuleysistrygginga. Niðurstöður skulu liggja fyrir í lok janúar þannig að breytingar komist til framkvæmda sem fyrst á næsta ári.
    Í ljósi fenginnar reynslu af framkvæmd laga um atvinnuleysistryggingar er líka lagt til að þegar verði gerðar á þeim eftirtaldar breytingar: Í fyrsta lagi er þess að geta að í frv. til laga um breytingar í skattamálum er gert ráð fyrir að hlutur Atvinnuleysistryggingasjóðs í tekjum af tryggingagjaldi verði aukinn í 0,5%. Í gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar er mælt svo fyrir að framlag ríkissjóðs skuli nema þrefalt hærri fjárhæð en tekjur sjóðsins af tryggingagjaldi. Með auknum tekjum af tryggingagjaldinu er því lagt til að framlag ríkissjóðs verði jafnhátt framlagi atvinnurekenda. Þrátt fyrir þessa breytingu mun framlag ríkissjóðs á árinu 1994 hækka um sem nemur 0,45% af stofni til tryggingagjalds í 0,5%. Jafnframt er rétt að taka fram að ríkissjóði verður eftir sem áður skylt að leggja fram fé til að bæta úr fjárþörf sjóðsins ef til þess kemur að hann geti ekki staðið við skuldbindingar sínar með þessum tekjum.
    Í öðru lagi að sett verði ákvæði sem taki af öll tvímæli um að grunnlífeyrir elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkur skerði atvinnuleysisbætur í hlutfalli við rétt til atvinnuleysisbóta. Nýmæli þess efnis að þessar bætur skerði atvinnuleysisbætur voru sett í lögin sl. vor. Í ljós hefur komið að það ákvæði er ekki nægilega skýrt að því leyti að atvinnuleysisbætur ber aldrei að skerða að fullu um greiddan elli- eða örorkulífeyri eða örorkustyrk nema bótaþegi fái fullar atvinnuleysisbætur. Af þessu mun leiða nokkurn kostnaðarauka fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð.
    Í þriðja lagi er lagt til að felld verði niður heimild til að greiða atvinnuleysisbætur vegna samdráttar í starfsemi fyrirtækis en þá hefur starfsmaður átt rétt til atvinnuleysisbóta sem svarar til skerðingar dagvinnutíma af þessum sökum. Í ljós hefur komið misnotkun þessa ákvæðis og því lagt til að heimildin falli brott.
    Í fjórða lagi er lagt til að ákvæði um úthlutunarnefndir atvinnuleysisbóta verði breytt þannig að unnt verði að sameina úthlutunarnefndir tveggja eða fleiri félaga eða félagasambanda með reglugerð. Úthlutunarnefndir eru nú 150 talsins. Nauðsynlegt þykir að fækka nefndunum og því er mikilvægt að afla til þess reglugerðarheimildar. Jafnframt er lagt til að ákvörðun um þóknun vegna nefndarstarfanna svo og hver fari með umsýslu með greiðslu bótanna verði færð í hendur ráðherra í stað stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Talið er að ná megi fram verulegum sparnaði með fækkun nefndanna, bættri fræðslu til þeirra og auknu eftirliti með starfsemi þeirra.
    Í fimmta lagi er lagt til að 34. gr. laganna falli brott enda þykir ekki ástæða til að lána úr Atvinnuleysistryggingasjóði til stéttarfélaga og félaga atvinnurekenda til að koma upp húsnæði fyrir félagsstarfsemi eða til orlofsheimila launþega. Þá er gert ráð fyrir að sveitarfélögin styrki Atvinnuleysistryggingasjóð með framlagi til atvinnuskapandi verkefna í sveitarfélögunum á árinu 1994 með sama hætti og árið 1993. Í 20. gr. er lagt til að samþykkt þessi verði fest í lög og er þá gert ráð fyrir að framlagið hækki úr 500 millj. kr. á þessu ári í 600 á því næsta. Sveitarfélög með 300 íbúa eða fleiri greiða þá kr. 2.312 á hvern íbúa en greiddu kr. 1.950 á þessu ári. Sveitarfélög með færri en 300 íbúa greiða kr. 1.387 fyrir hvern þeirra en greiddu 1.170 á þessu ári. Þessum fjárhæðum hefur verið slegið saman við prentun þess frumvarps sem dreift var hér í fyrrakvöld þannig að virtist sem framlag í fjölmennari sveitarfélagi mundi hækka úr 1.170 í 2.312. Misritun þessi hefur nú verið leiðrétt með endurprentun frumvarpsins sem dreift var í gær og ítrekast hér með.
    Loks er lagt til að gerðar verði nokkrar minni háttar breytingar á lögunum í því skyni að gera framkvæmdina liprari og túlkun þeirra skýrari.
    Í 21.--37. gr. er lögð til skerðing á sjálfvirkum framlögum til ýmissa aðila sem bundin eru í sérlögum í samræmi við markmið fjárlagafrv. Slíkur kafli hefur venjulega verið í frumvarpi til lánsfjárlaga en samræmis vegna þykir eðlilegra að flytja hann í þessu frumvarpi.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu þáttum frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994 og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.