Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 14:36:58 (2377)


[14:36]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Eftir þessa ræðu hæstv. forsrh. er nú ærin ástæða til þess að ræða nokkuð um efnhagsmál almennt en ég skal nú hins vegar stilla mig um það að þessu sinni og reyna eftir fremsta mætti að halda mig við helstu efnisatriði frv. en síðar munu aðrir hv. þm. Framsfl. koma inn á einstök efnisatriði þessa máls með ítarlegri hætti.
    Hæstv. forsrh. lét þess getið að ef ekki hefði átt sér stað samdráttur í efnahagslífinu þá væri líklegt að það hefði náðst fram að fjárlög væru nokkurn veginn hallalaus. Ég skal ekki hafa uppi neinar efasemdir um þessi orð hans en aðalatriðið er hins vegar það að samdrátturinn er mikill og hann er af ýmsum toga.
    Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. að við höfum orðið fyrir miklum búsifjum vegna aflasamdráttar og verðfalls í efnahagslífinu. En ég vil hins vegar minna á það að ýmsar aðgerðir hafa átt sér stað sem hafa

dregið úr umfanginu í efnahagslífinu og má þar fyrst og fremst nefna það að ríkisstjórnin hefur verið afar svifasein í vaxtamálum og þar tók hún allt of seint við sér sem varð til þess að mikið tjón hefur hlotist af.
    Það er líka nauðsynlegt að vera ekki allt of fljótur að lýsa yfir fullum sigri í því máli og þótt þar hafi náðst árangur, sem að sjálfsögðu er rétt að viðurkenna, þá verður að halda því til haga að þessi árangur næst m.a. með því að tæplega 9 milljörðum kr. er veitt út í efnahagslífið með lægri bindiskyldu, með breyttu lausafjárhlutfalli og ýmsum öðrum aðgerðum á peningamarkaði.
    Þessar aðgerðir skila allmiklum árangri í upphafi, ekki skal borið á móti því. En aðeins getur þessi árangur orðið varanlegur ef því er fast fylgt eftir og ég er sammála hæstv. ráðherra í þeim efnum að hluti af því er að hafa sem minnstan halla á ríkissjóði. Það vekur hins vegar athygli að vextir bankanna á óverðtryggðum lánum hafa lækkað sáralítið nú að undanförnu og t.d. eru vextir á yfirdráttarlánum yfir 15% og algengir vextir á veðskuldabréfum og víxlum eru 14%. Þar að auki þekkjast mun hærri vextir í bankakerfinu.
    Hæstv. viðskrh. hefur brugðist þannig við að hann skammar bankana á fundi í Alþýðuflokknum og ætlar sér greinilega að glíma við þá með þeim hætti. Þessi ræðuhöld viðskiptaráðherrans eru síðan spiluð í fjölmiðlum þar sem hann lýsir því hvernig hann ætlar að taka í hnakkadrambið á þessum mönnum, jafnt bankastjórum, verkalýðsleiðtogum, forsvarsmönnum Vinnuveitendasambandsins og öðrum þeim sem að málinu koma.
    Það má vel vera að ríkisstjórnin telji að slíkar aðfarir í vaxtamálum séu til framdráttar, en ég leyfi mér að efast mjög um það að þessi ræðuhöld viðskiptaráðherrans muni skila miklum árangri. Ég hafði haldið það að hæstv. ríkisstjórn hefði ákveðið að taka upp samvinnu við alla aðila á peningamarkaði sem fælist í því að náið samráð væri haft frá degi til dags þar sem allir væru sammála um að það bæri að ná árangri í þessum málum. En að það gerist með þeim hætti að hæstv. viðskrh. tilkynni það fyrir fram í fjölmiðlum að hann hafi hugsað sér að kalla á þessa menn og síðan tilgreinir hann spurningarnar í fjölmiðlunum jafnframt, hvernig fundirnir munu fara fram í viðskrn. ( SvG: Og leikur báða.) Já, og leikur kannski báða. Það eru alveg ný vinnubrögð í sambandi við samvinnuaðila hvort sem það er á vinnumarkaði eða fjármagnsmarkaði og væri fróðlegt að spyrja hæstv. forsrh. hvort að hann telji þetta árangursríkar aðferðir.
    Það hefur mjög verið um það talað hvaða aðferðum beri að beita til þess að ná niður vöxtunum og mest hefur nú verið talað um handafl í því sambandi. En ég lýsi yfir undrun minni á þeim samskiptaháttum sem þarna virðast hafa verið teknir upp. Ekki það að ég sé að öllu leyti ósammála hæstv. viðskrh. En ég er hins vegar ósammála slíkum vinnubrögðum af hálfu ríkisstjórnar og tel að það muni fremur spilla fyrir heldur en greiða fyrir málum, á sama hátt og ég held nú að í viðkvæmum málum geti það líka spillt fyrir að skamma ríkisstjórnina um of þótt að hún verði að sætta sig við það að til hennar sé beint ýmsum spjótum í sambandi við framkvæmd hinna margvíslegu mála.
    Ég vil jafnframt vekja athygli á því að ríkisstjórnin hefur ekki hlíft ýmsum greinum atvinnulífsins við skattahækkunum, þ.e. þeim greinum atvinnulífsins sem mestar vonir eru bundnar við. Ég vil í því sambandi sérstaklega nefna ferðaþjónustuna sem er sú atvinnugrein sem getur skapað hvað mesta atvinnu hér á landi á næstunni. Það hefur líka komið í ljós nú að undanförnu að þar hefur náðst mikill árangur en sá árangur er í mikilli hættu vegna skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Það er góðra gjalda vert að hafa það markmið að minnka halla á ríkissjóði en það stoðar lítið að gera það með þeim hætti að það er augljóst að verðmætasköpunin í samfélaginu minnkar. Þetta hefur svo sem oft verið rætt hér á Alþingi áður, m.a. af þeim sem hér stendur, og ég skal ekki gera það að frekara umtalsefni hér. En ríkisstjórn sem vill auka umsvifin í þjóðfélaginu og kraftinn í atvinnulífinu grípur ekki til slíkra ráðstafana nema þá að þar sé um alvarleg mistök að ræða. Það er enn tími til að bæta þarna um og væri fróðlegt að heyra frá hæstv. forsrh. hvort að hann telji ekki rétt í ljósi þess hvernig ástand er í atvinnumálum að framkvæma endurskoðun á þessum fyrirætlunum.
    Ég vil segja almennt um þær fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar að draga úr útgjöldum í fjárlagafrumvarpinu að ég er sammála því að það sé reynt eftir því sem nokkur kostur er. Ég get tekið undir það að við eigum við verulegan útgjaldavanda að glíma í fjárlögunum og það verður ekki undan því vikist að minnka fjárlagahallann eftir því sem nokkur kostur er, án þess að þar sé gripið til mjög óréttmætra aðgerða eða þá að gripið sé til slíkra óyndisúrræða að draga úr umsvifunum í þjóðfélaginu. Og það er helsta gagnrýnisatriði mitt í sambandi við þetta mál. Ég ætla ekki að fara út í einstaka liði þess, það munu aðrir gera frá mínum flokki, en ég vil nefna sem dæmi í þessu sambandi að þótt nauðsynlegt sé að draga úr útgjöldum í almannatrygginga- og heilbrigðiskerfinu þá má ekki gera það með þeim hætti að það sé gripinn þessi hópurinn í dag og hinn á morgun. Sem dæmi má nefna að samkvæmt 10. gr. á að draga úr kostnaði almannatrygginga vegna greiðslu ekkjulífeyris, en það er lagt til að það verði heimilt að tekjutengja greiðslu þessara einstöku bóta. Mér finnst með öllu óeðlilegt að það sé farið út í það að tekjutengja sérstaklega þessa tegund bóta. Ég tel það fyllilega koma til greina að tekjutengja fleiri greiðslur úr almannatryggingakerfinu og það er mál sem lengi hefur verið unnið að. Í því sambandi verður líka að nefna að tekjuhugtakið er ekki nægilega vel útfært til þess að slík tekjutenging geti skilað góðum árangri. Og á ég þá sérstaklega við þá staðreynd að vaxtatekjur koma ekki inn í tekjuhugtakið, hvorki í skilningi þessara laga né skilningi skattalaga. Nú er það í sjálfu sér ekkert nýtt en það hefði verið mun réttlátara að tekjutengja lífeyri almannatrygginga ef menn hefðu gengið fram í því máli á rösklegri hátt.

    Ég vil líka nefna það sem dæmi að hér er gert ráð fyrir því að taka upp greiðsluhlutdeild sjúklinga vegna áfengismeðferðar og þar er vitnað til þess að greiðsluhlutdeild sú sem þar er fyrirhuguð sé af svipuðum toga og tíðkast hjá heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands. Ég tel að hér sé um algjörlega ósambærileg mál að ræða. Þeir aðilar sem dvelja á þessari stofnun sem þarna er tilgreind í Hveragerði eru margir hverjir einstaklingar sem leita þangað sér til hressingar og heilsubótar, jafnvel á ári hverju, þótt það sé með mjög mismunandi hætti. En eitt er þó víst að þeir aðilar búa við allt aðrar aðstæður en áfengissjúklingar yfirleitt. Þetta er dæmi um ósamræmi og flumbrugang sem viðgengst í þessum niðurskurðarmálum. Það er einn hópur valinn í dag og annar á morgun og það sem er ákveðið að morgni er hætt við að kvöldi. Þetta eru hlutir sem ekki eiga að viðgangast og það verður að fara yfir útgjaldahliðina á mun heilsteyptari hátt.
    Það er líka mjög gagnrýnisvert og styður þá gagnrýni sem ég set hér fram að þetta frv. sem við nú erum að byrja að fjalla um er lagt fram hér á Alþingi 6. eða 7. des. og á að afgreiðast u.þ.b. 10 dögum síðar. Þetta sýnir ljóslega að undirbúningi er afar ábótavant. Og jafnvel þótt allur þessi tími hafi verið notaður í það að undirbúa frumvarpið þá er ýmislegt í því sem ekki hefur fengið mjög nákvæma skoðun. Þetta gerist ár eftir ár jafnvel þó að hér sé verið að leggja til gamla kunningja að miklu leyti sem hafa komið til umræðu áður. Það er t.d. ekkert alveg nýtt þær skerðingar sem eru lagðar fram að því er varðar grunnskóla og menntakerfið, þetta eru mál sem áður hafa verið rædd á Alþingi og fóru í gegnum umræðu á síðasta ári og mig minnir að hæstv. ríkisstjórn hafi þá fullyrt að þetta yrði þá aðeins gert í það eina skipti. Það er hins vegar, svo réttlætis sé nú gætt, ekki einsdæmi í sambandi við skerðingu á útgjöldum fjárlaga því hér er í II. kafla upptalning á ýmsum sjóðum og útgjöldum sem skert eru til eins árs í senn, sem hefur verið fastur liður og venjulega fylgt frv. til laga um lánsfjárlög mjög svo lengi. Ætli það sé ekki komið töluvert á annan áratug með mörg þessara mála.
    Núv. hæstv. ríkisstjórn verður ekki ein dregin til ábyrgðar í því máli. En það hlýtur að vera verkefni okkar hér á Alþingi að fara í gegnum það hvort ekki sé ástæða til þess að taka ákvarðanir um varanlega breytingu á þessum lögum að einhverju leyti. Hér er um að ræða breytingar sem hafa gengið í gegn margar hverjar á annan áratug og ætti það að vera nægileg ástæða til þess að þarna yrði gerð annars konar breyting á.
    Þetta mál mun koma til umfjöllunar í hæstv. efh.-og viðskn. þar sem ég á sæti og þess vegna ætla ég ekki að eyða miklum tíma í að fjalla um málið hér við 1. umr. Það er líka ljóst að það mun þurfa að koma til rækilegrar umfjöllunar í ýmsum fagnefndum þingsins því að flest þessara mála sem hér er getið um heyra undir verksvið þeirra og það hefur verið venjan að um þau sé fjallað sérstaklega í þeim nefndum þingsins sem sérstaklega fjalla um þau mál eins og t.d. hæstv. menntmn. og heilbr.- og trn. og félmn. Þetta eru málefni sem þeir þingmenn sem í þessum nefndum sitja þekkja sérstaklega og betur en aðrir þingmenn sem sitja í öðrum nefndum og því er mjög eðlilegt að þeir muni fá þau til umfjöllunar.
    Virðulegur forseti. Ég vildi aðeins að þessi sjónarmið kæmu hér fram við upphaf þessarar umræðu. En að lokum vil ég sérstaklega harma að þetta mál skuli þurfa að koma svona seint fram því að það má segja að stefnan í þessum málum öllum hafi verið mörkuð þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram og því hefði ekkert átt að vera til fyrirstöðu að leggja það frumvarp sem hér er til umræðu fram samhliða fjárlagafrumvarpinu. Þótt ég sé ekki að gera kröfur um að það kæmi nákvæmlega sama daginn þá er með öllu óeðlilegt að það komi fram rúmum tveimur mánuðum eftir að fjárlagafrumvarpið kemur fram og fráleitt að gera um það kröfur að það sé afgreitt hér á Alþingi á aðeins tíu dögum.