Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 14:58:41 (2379)


[14:58]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég er alveg sammála hæstv. forsrh. að auðvitað skiptir friður á vinnumarkaði sköpum í sambandi við lækkun vaxta. Ég hefði hins vegar talið að gott samband og samstarf ríkisstjórnar við banka, lífeyrissjóði og aðila vinnumarkaðarins í þessum málum væri jafnframt forsenda þess að það væri hægt að ná betri árangri og halda utan um hann. Mér finnst að ræðuhöld hæstv. viðskrh. þessa dagana bendi ekki til þess að samstarfið um þessi mál sé mjög gott. Þvert á móti benda hans ræðuhöld og fyrirhugaðir fundir, sem hann hyggst eiga við þessa aðila fyrir hönd ríkisstjórnarinnar --- að vísu hefur hann haldið því fram

að ríkisstjórnin öll muni eiga þessa fundi með aðilunum --- það bendir til þess að þarna sé vont samband á milli. Og ég vildi spyrja hæstv. forsrh. um það: Telur hann að ríkisstjórnin muni ná árangri með þessum hætti? Telur hann ekki líklegra að ríkisstjórnin muni ná árangri með hljóðlátu samstarfi við þessa aðila í stað þess að vera í háværum orðræðum í fjölmiðlum dag eftir dag?