Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 15:00:27 (2380)


[15:00]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :     Hæstv. forseti. Ég tel mikilvægt að eiga gott samstarf við alla þessa aðila og í tengslum við lækkun vaxta eða aðgerðir ríkisstjórnarinnar í því sambandi voru haldnir fundir með forráðamönnum lífeyrissjóða, með forráðamönnum í atvinnulífinu og ítarlegir fundir með bankakerfinu, viðskiptabönkum, sparisjóðum og slíkum aðilum. Og það voru mjög mikilvægir fundir einmitt til að skapa traust á þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til.
    Ég tel líka að menn megi ekki um of leggja þunga merkingu í það þó að vextir á óverðtryggðum bréfum hafi ekki lækkað enn um sinn að sama skapi og aðrir vextir hafa lækkað. Ég tel að eftir áramótin, þegar ekki eru lengur bundnir þeir reikningar sem bankarnir voru bundnir með þegar til vaxtalækkunaraðgerðanna var gripið þá muni skapast skilyrði til þess að lækka óverðtryggða vexti og þá muni þeir lækka. Ég tel jafnframt að þegar líður fram á næsta ár að þá muni það gerast að greiðslubyrði skuldenda, greiðslubyrði almennings muni lækka verulega, menn tala um jafnvel 4--5% þegar líður fram á árið, og það muni verða til þess að styrkja stöðu bankakerfisins og bankarnir muni fylgja eftir vaxtalækkun því að hún er þeim sjálfum til framdráttar. Og ég tek undir með hv. þm. að það er mjög mikilvægt að eiga gott samstarf við þessa aðila um allar þessar aðgerðir og ég vænti þess að þeir sem ábyrgir aðilar í þessu þjóðfélagi muni fylgja þessum mikilvægu hagsmunum fast eftir. Það er mikilvægt fyrir þessa aðila sjálfa, fyrir umbjóðendur þeirra sem og fyrir atvinnulífið í landinu og ríkisstjórn og þing og alla þá sem að málum koma.