Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 15:04:26 (2382)


[15:04]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er kominn á dagskrá gamall kunningi undir nafninu Ráðstafanir í ríkisfjármálum. Og þótt margt nýtt sé í honum að finna þá eru líka á ferð gamalkunnug mál sem ýmist hafa verið í frumvarpi af þessu tagi eða verið bornir fram sem sérstök þingmál.
    Ég tek undir það með síðasta ræðumanni að þetta frumvarp er seint fram komið, ekki síst vegna þess hversu mörg mál er í því að finna, mörg mál og alvarleg. En það vakna auðvitað spurningar um vinnubrögð bæði ríkisstjórnarinnar og Alþingis í þessum málum. Við höfum rekið okkur á að það er auðvitað um ákveðinn tvíverknað að ræða þegar verið er að senda mál á milli nefnda og við erum einmitt í hv. efh.- og viðskn. með dæmi um það þar sem er frv. um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem hv. félmn. er búin að fara í gegnum málið og kalla til alla aðila og það er auðvitað spurning hvernig efh.- og viðskn. eigi síðan að standa að umsögn um málið. Og það sama gildir auðvitað um þetta frv. hér, hvort tveggja er að efh.- og viðskn. þarf að fara í gegnum öll þessi mál en jafnframt viðkomandi fagnefndir. Og þetta er bara eitt af þessum málum sem þingmenn og þingnefndir þurfa að ræða sín á milli í ljósi breytinga á þingsköpum. Því að það er auðvitað óþarfi að menn séu með tvíverknað af þessu tagi.

    En það sem ég les fyrst og fremst út úr þessu frv., sem hér er á ferð, er að þessi ríkisstjórn er auðvitað gjörsamlega strand í sinni efnhagsstefnu. Aumingjaskapurinn er svo algjör að það er engu lagi líkt. Þetta frv. er svona seint fram komið vegna þess að ráðherrar eru endalaust búnir að vera að rífast um efni þess og þegar hér er komið sögu er búið að taka út nánast allt það sem ágreiningi olli. Það hefur verið farin sú leið að sleppa deilumálunum og auka halla ríkissjóðs að sama skapi. Ég verð að segja það að þó að ég hafi verið mjög ósammála mörgum þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur gripið til í sínum niðurskurðaráformum og í þeirri viðleitni að halda hallanum á ríkissjóði í skefjum þá er það auðvitað mjög mikið áhyggjuefni hve hallinn á ríkissjóði vex ár frá ári. Það er mikið áhyggjuefni og það er verið að vísa vandamálunum til framtíðarinnar, það er ekkert annað sem verið er að gera. Og ríkisstjórn sem gefst upp á hverju málinu á fætur öðru er auðvitað ekki starfi sínu vaxin, það hlýtur að vera ljóst.
    Þegar við horfum aðeins á þau sparnaðaráform sem áttu að vera í þessu frv. en eru horfin, þá ber þar hæst heilbrigðismálin þar sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur orðið að hætta við nánast hvert einasta áform sem hann hafði uppi, hversu vond eða góð sem þau annars voru. Það var hætt við sjúklingaskatt upp á 400 milljónir, það var hætt við að leggja niður barnaheimili spítalanna eða koma þeim yfir á sveitarfélögin og það var hætt við sölu á Þvottahúsi Ríkisspítalanna. Og dómsmrh. gafst upp við að sameina sýslumannsembættin og eftir því sem ég best veit þá verður ekkert úr því að tveir eða þrír ráðherrar setjist niður við að leggja fram enn frekari sparnaðaráform. Þetta er allt gufað upp. Og eins og ég sagði, þó að þarna sé að mörgu leyti um vond áform að ræða, þá lýsir þetta því að ríkisstjórnin hefur gefist upp. Hún hefur gefist upp við þau áform sín að ná einhverjum tökum á ríkisfjármálunum.
    Og ég spyr: Hver er hallinn á þessari stundu? Geta ráðherrar ríkisstjórnarinnar upplýst mig um það, hver er staða ríkissjóðs á þessari stundu áður en við komum að 2. umr. um fjárlögin? Hvað stefnir í að niðurstöðutalan verði? Þetta er vissulega mikið áhyggjuefni og við höfum orðið vitni að örvæntingarfullri leit ráðþrota ráðherra að sparnaðarleiðum en niðurstaðan er þessi: Að hætta við allt sem er erfitt og óvinsælt og ávísa á framtíðina. Og ástæðurnar eru annars vegar það ósamkomulag sem hefur einkennt þessa ríkisstjórn og birst hér í umræðum og einkum þó í fjölmiðlum. En það er líka önnur ástæða. Hún er sú að það eru kosningar fram undan. Sjálfstæðisflokknum er mjög í mun að styrkja stöðu íhaldsins í Reykjavík og stöðu formannsins sem er fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík. Ég tel að það sé einmitt það sem ríkisstjórnin er að gera, hún er að fresta öllum óvinsælum aðgerðum fyrst og fremst til þess að bjarga íhaldinu í Reykjavík. Ég held að það sé engin önnur skýring á þessu vegna þess að auðvitað eru sparnaðarleiðirnar margar, þær eru margar. En þær felast ekki síst í því að menn takist á við það sem ég kalla strúktúrbreytingar, bæði sameiningu ríkisstofnana, að leggja niður stofnanir sem ríkið á ekki að vera að reka og að hefja breytingar einkum í heilbrigðis- og tryggingakerfinu sem horfa til þess að ná niður kostnaði í framtíðinni.
    Nú las ég það í blöðunum í morgun að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur sett á laggirnar samstarfsnefnd heilbrigðisráðuneytisins og BSRB, að því er mér skilst. Ég skil nú ekki af hverju aðrir koma ekki þar að málum, hann getur kannski upplýst okkur um það. En það er vissulega ástæða til þess að setjast niður og marka hér framtíðarstefnu í heilbrigðis- og tryggingamálum, ekki síst í því skyni að ná niður kostnaði sem auðvitað þarf að gera. Það þarf auðvitað að ná niður kostnaði í þessu kerfi, koma í veg fyrir ýmiss konar sjálftöku og stöðugan vöxt, vegna þess að það er hægt. Það er hægt fyrst og fremst með því að bæta heilsu þjóðarinnar, eins og ég hef svo margoft sagt í þessum ræðustóli.
    En sú spurning sem vaknar einmitt út frá þessu frumvarpi hér er: Hver er stefnan? Hver er stefnan í heilbrigðis- og tryggingamálum? Hver er stefnan í menntamálum, hæstv. menntmrh., sem ég ætla að beina orðum mínum að hér á eftir? ( Menntmrh.: Ágæt.) Hver er stefnan? Ég fæ ekki betur séð en að stefnuleysið sé algjört í hverjum málaflokknum á fætur öðrum.
    Ég ætla þá að víkja að frumvarpinu sjálfu og því sem í því er að finna en þar eru auðvitað ótal mörg atriði sem vekja spurningar og vekja til umhugsunar, ekki síst um það hver stefnan er. Þar er fyrst að nefna að þriðja árið í röð á að framlengja niðurskurð til grunnskólakerfisins sem við stjórnarandstæðingar höfum gagnrýnt mjög harðlega. Það á enn einu sinni að fresta því að fækka í bekkjum, það á að framlengja niðurskurð á kennslustundum í skólum og í þriðja lagi á að koma í veg fyrir að komið verði á máltíðum í skólum. Þetta undarlega fyrirbæri sem hefur fylgt þessum hluta laganna ár eftir ár vegna þess að það á fyrst og fremst við um sveitarfélögin, það er á kostnað sveitarfélaganna að koma á máltíðum í skólum. Og ég spyr í þriðja skipti, þriðja árið í röð: Hvers vegna í ósköpunum er ríkisvaldið að skipta sér af þessu? Af hverju mega ekki sveitarfélögin koma á máltíðum í skólum eftir því sem þau vilja í samstarfi við kennara og foreldra? Þetta er það sem þarf að gerast í íslensku skólakerfi að börnum verði tryggð næring, þetta er til skammar.
    Ég get auðvitað ekki látið hjá líða að minna á það að þegar ríkisstjórnin gengur hér fram með þessi niðurskurðaráform þá eiga þau að ganga fram á ári fjölskyldunnar, árið 1994. Sameinuðu þjóðirnar hafa útnefnt árið 1994 sem ár fjölskyldunnar og ríkisstjórnin sýnir hugarfar sitt til þess árs hér í verki með því að skera niður til skólakerfisins þriðja árið í röð.
    Og það er sama sagan á ríkisstjórnarheimilinu að vinstri höndin veit ekki hvað sú hægri gjörir. Á meðan menntmrh. undirbýr niðurskurðinn þriðja árið í röð, þetta sem átti að verða tímabundin aðgerð en er auðvitað orðin varanleg aðgerð, það verður erfitt að snúa til baka þegar kennsla hefur verið skorin niður þrjú

ár í röð með öllum þeim afleiðingum sem það hefur, það tekur tíma að vinna það upp. Á meðan hann er að undirbúa þennan niðurskurð þá situr nefnd á vegum félmrh. og undirbýr ár fjölskyldunnar, hvernig Íslendingar ætla að efla og bæta hag fjölskyldunnar á árinu 1994. Í gögnum þeirrar nefndar, sem fram hafa komið, er að sjálfsögðu vikið að skólunum. Að sjálfsögðu, vegna þess að skólarnir koma að miklu leyti inn í líf nánast hverrar einustu fjölskyldu í landinu. Í plöggum frá þessari nefnd félmrh. segir um verkefni fjölskyldunnar á árinu 1994, Verkefni fyrir alla:
    ,,Skólarnir. Stefnið að samfelldum skóladegi. Virkið heimilin til þátttöku í skólastarfi. Komið á fjölskylduráðum. Undirbúið nemendur undir heimilislíf og gagnkvæma ábyrgð á fjölskyldunni. Haldið þemaviku um heimilin og fjölskyldulíf. Standið fyrir samkeppni þar sem heimilin eru í brennidepli.``
    Og þetta kostar auðvitað allt peninga. Það kostar peninga að koma þessu í framkvæmd, ekki síst að komið verði á samfelldum skóladegi í öllum skólum. Þar hefur að vísu sem betur fer töluvert áunnist, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem að loksins, loksins hefur eitthvað verið gert í þeim efnum þó að reyndar megi gagnrýna hvernig þar hefur verið að málum staðið. En það kostar peninga að koma á samfelldum skóladegi og það kostar einhverja fjármuni að bæta og efla samskipti heimilanna og skólanna í landinu sem, ef ég man rétt, hefur nú verið sérstakt áhugaefni Sjálfstæðisflokksins. Og ef við horfum á það að beina sjónum nemenda að því hver þýðing fjölskyldunnar er og hvað felst í því að eiga börn og reka heimili þá kostar það auðvitað peninga. Við erum að tala um kennslu, við erum að tala um námskeið, þetta kostar allt saman peninga. Þemavikur og samkeppni, þetta kostar allt saman peninga þannig að um leið og við höldum inn í þetta ár fjölskyldunnar að þá er áframhaldandi skorið niður til skólanna og ég spyr nú hæstv. félmrh.: Ætlar hún að útvega peninga í þetta? Ætlar hæstv. félmrh. að útvega peninga til þess að Íslendingar geti staðið með einhverjum sóma að ári fjölskyldunnar?
    Sannleikurinn er nefnilega sá að því miður er sótt að fjölskyldunni úr öllum áttum og margar þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til í skattamálum og á fleiri sviðum, launamálum, beinast gegn fjölskyldunni, þær koma niður á fjölskyldum þessa lands. Þar er ekki síst mjög alvarlegur sá niðurskurður sem átt hefur sér stað í kennslu á landinu og mun auðvitað koma út í verri menntun.
    Fyrir nokkru lagði ég fyrirspurn til hæstv. fjmrh. vegna atvinnuleysis opinberra starfsmanna. Og það kemur fram í þeim gögnum að atvinnuleysi meðal kennara sem eru félagar í Kennarasambandi Íslands er verulegt, það er ótrúlega mikið. Það kemur fram í þessu svari að á árinu 1992 voru 79 félagsmenn í Kennarasambandi Íslands atvinnulausir, 79 manns. Og skyldi nú ekki þetta atvinnuleysi vera afleiðing af þessum niðurskurði til skólanna í landinu? Það held ég gefi auga leið því að kennslustundum hefur verið fækkað og það hefur verið fjölgað í bekkjum þannig að hægt væri að fækka kennurum og það kemur auðvitað fram í þessum tölum.
    Sá sparnaður sem ríkisstjórnin ætlar sér að ná með þessum niðurskurði til kennslumála er eins og í fyrra rúmlega 100 milljónir. Ég hef nú ekki reiknað út hvað þetta er í rauninni mikill niðurskurður, það kemur fram í greinargerðinni að ef lögum væri fylgt þá ættu kennslustundir að vera 314 en fara í 287 stundir. Nú veit ég ekki við hvað er miðað hér, hvort þetta er 314 stundir á nemanda eða hvað þetta er, við þurfum að kanna það í hv. menntmn. En þessi niðurskurður á að skila sparnaði upp á 110 millj. kr. á haustönninni 1994 og 130 millj. kr. á vorönn 1995, eftir því sem kemur hér fram. Þessi sparnaður er að sjálfsögðu miðaður við skólaárið, öðruvísi er ekki hægt að gera þetta.
    Og fjölgunin í bekkjardeildum á að spara 50 millj. kr. á haustönn 1994, 60 millj. kr. á vorönninni 1995, þannig að þar eru 110 millj. kr. á ferð. Þannig að þetta er allnokkur sparnaður sem menntmrn. nær fram með þessum hætti en þetta er dýrt spaug, hæstv. menntmrh. Þessi niðurskurður er dýrt spaug og hann kemur niður á börnum þessa lands og framtíð þessarar þjóðar. Og ég verð að segja það að mér finnst sú stefna sem lesa má út úr þessu, þegar maður horfir upp á það hvernig ríkisstjórnin hefur gefist upp á öðrum sparnaðarráðstöfunum, hversu réttmætar sem þær voru, þá er auðvitað nöturlegt upp á það að horfa að það skuli vera börn og ekkjur sem ríkisstjórnin er að ráðast á í sínum sparnaðaráformum. Það er nú ekki verið að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur.
    Það er búið að fresta fjármagnstekjuskatti, það er ekki verið að hækka hátekjuskattinn. Nei, það eru börn og það eru ekkjur og það eru áfengissjúklingar sem eiga að spara fyrir ríkið. Þetta er stórmennskan, þetta er stefna þessarar ríkisstjórnar. Þetta er ömurlegt, þetta er hreinlega ömurlegt upp á að horfa.
    Minni hlutinn í menntmn. lagði fram fyrirspurn fyrr á þessu ári um niðurskurðinn á kennslustundum. Og þar kom auðvitað fram í því svari að hann er verulegur. Niðurskurðurinn er verulegur og það kom fram í gögnum frá fræðslustjórum og skólatjórum, sem við kölluðum á okkar fund í byrjun þessa árs, að eins og við vorum búin að segja til um þá kom niðurskurðurinn auðvitað niður á íslenskukennslu, þó að það hafi átt að verja hana. Það verður auðvitað að skera niður þar sem hægt er að skera. Þannig að það er alveg ljóst að þessi niðurskurður og svokallaður sparnaður kemur niður á framtíðinni. Þetta er vond pólitík, hæstv. menntmrh.
    Í vor dagaði uppi í menntmn. frv. um Tækniskóla Íslands þar sem leitað var heimilda til þess að koma á skólagjöldum í Tækniskólanum. En það vill nú svo til að í þessu máli eins og mörgum öðrum eru vinnubrögðin vægast sagt furðuleg, því að þrjú ár í röð hefur verið gert ráð fyrir því í fjárlögum að Tækniskólinn aflaði sér sértekna með skólagjöldum. Hann hefur ekki haft til þess lagaheimild og ríkisstjórninni hefur ekki hingað til tekist að afla þeirrar heimldar, m.a. vegna mikillar andstöðu í menntmn. og víðar. Og

það er auðvitað alveg makalaust að horfa upp á svona vinnubrögð. Nú er farin sú leið að skella þessu máli inn í þetta frumvarp, skólagjöld Tækniskólans upp á 7 millj. kr., ég veit ekki hversu mikið það er á nemanda, mér hefur ekki gefist tækifæri til þess að kanna það, en ég er þessu algjörlega andvíg. Það þarf að afnema þessi skólagjöld. Þegar þeim var komið á af þeirri ríkisstjórn sem nú situr þá var það brot á reglu sem ríkt hefur hér um áratuga skeið í okkar skólakerfi og hefur gengið út á það að skólinn sé fyrir alla og að það sé hlutverk ríkisvaldsins að reka skólakerfið og bjóða upp á almenna menntun og framhaldsmenntun. En þessi ríkisstjórn hefur brotið þá reglu og hún hefur verið að reyna að koma skólagjöldum á í nánast öllum skólum á landinu fyrir ofan grunnskólastigið, þ.e. fyrir ofan skólaskylduna, og ég er því andvíg. Og sama gildir um búnaðarskólana og Garðyrkjuskóla ríkisins, frumvarp um það að koma á skólagjöldum dagaði líka uppi í landbn., m.a. vegna mikillar andstöðu.
    Það er ekki um háar upphæðir að ræða í bændaskólunum og í Garðyrkjuskólanum. Ég vil af því tilefni benda á það að það er villa í frumvarpinu, Bændaskólinn á Hvanneyri er tvítekinn, en ég reikna með að það sé átt við Bændaskólann á Hólum, en Bændaskólanum á Hvanneyri er ætlað að innheimta 800 þúsund kr. í skólagjöld, Hólum 600 þúsund kr. og Garðyrkjuskólanum einnig 600 þúsund kr. Þarna er ekki um háar upphæðir að ræða á nemendur en það er fyrst og fremst prinsippið eða reglan í þessu sem er aðalmálið. Og ekki síst það að þegar einu sinni er búið að koma á skólagjöldum í sveltu skólakerfi er ákaflega freistandi að hækka hlut nemenda og auka álögurnar á þá. Það hlýtur að verða ákaflega freistandi fyrir viðkomandi skóla þegar sífellt er verið að skera niður til skólanna. En ég ítreka það að ég er algjörlega andvíg þessari stefnu.
    Víkur þá sögunni að almannatryggingunum og ég get ekki annað en mótmælt því sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan um það að ekkjubæturnar væru barn síns tíma. Það er sjálfsagt að skoða þann bótaflokk eins og alla aðra. En að fara allt í einu að tekjutengja þennan flokk fremur öðrum, ég á mjög erfitt með að skilja þá röksemd. Það er 75 millj. kr. sparnaður sem á að nást með því að tekjutengja ekkjubætur þannig að þarna er um verulegan hóp að ræða, fyrst og fremst kvenna, og ég er nú ekki aldeilis tilbúin til þess að samþykkja niðurskurð til ekkna án þess að það mál hafi verið rækilega kannað hvaða hópur hér á í hlut. Ég get að mörgu leyti skilið það sjónarmið að auðvitað eru til konur --- það eru miklu fleiri konur í þessum hópi en karlar og tengist nú ástandinu í okkar þjóðfélagi og ýmsum líffræðilegum þáttum, en það eru auðvitað til vel efnaðar konur sem eru fyllilega færar um að sjá fyrir sér og sínum þó að þær missi maka sinn. En þetta þarfnast að sjálfsögðu náinnar skoðunar og þarf að horfa á þetta í samhengi við aðra þætti tryggingamála. Ég mótmæli því að þessi þáttur sé tekinn hérna út úr með þessum hætti.
    Mér þykir það merkilegt að í þeirri umræðu sem orðið hefur um fjárlög ríkisins hefur ekki borið mikið á mótmælum við þessum þætti. Það er verið að mótmæla hækkun á tekjuskatti, eins og eðlilegt er, og því hefur verið mótmælt af hálfu Alþýðusambandsins að það skuli ekki staðið við framlög til atvinnumála, en það er ekki mikið verið að horfa á þessar ekkjur sem hér eiga í hlut. Og það kemur auðvitað inn á það sem ég hef margoft nefnt hér að því miður eru karlasjónarmiðin allsráðandi í þeim samtökum eins og í ýmsum öðrum og menn ættu nú að vera meira vakandi fyrir a.m.k. helmingi sinna félagsmanna. Það þarf ekki að segja mér það að það séu ekki margar ekkjur í röðum félagsmanna ASÍ og fleiri samtaka launafólks.
    Þá kemur að því máli sem varðar áfengisjúklinga sem eiga nú að fara að borga hluta af þeirri meðferð sem þeir þurfa að ganga í gegnum. Og við munum það að hæstv. fyrrverandi heilbrrh. taldi að margir þessara sjúklinga væru að frílista sig á Vogi, færu þangað aftur og aftur til að njóta lífsins, að því er manni skildist. En ég vil benda á að þeir læknar sem fást við meðferð þessara sjúklinga hafa mótmælt þessum áformum mjög ákaft og benda á að þarna sé um hóp að ræða sem eigi mjög erfitt með að greiða og það tengist þeirra andlega og líkamlega ástandi. Þegar menn eru orðnir illa farnir af drykkjusýki þá eru þeir vart vinnufærir og hafa varla úr miklum tekjum að spila. Og ég vil sérstaklega minna á það að Tómas Helgason, yfirlæknir á Landspítalanum, skrifaði grein í Morgunblaðið um síðustu helgi þar sem hann var að benda á þessar staðreyndir og að spyrja þeirrar spurningar sem ég kom með hér áðan: Hver er stefnan? Hver er stefnan í þessum málum? Á þessi hópur sjúklinga að fara að borga fyrir meðferð en aðrir ekki? Og hver er ástæðan fyrir því, hver eru rökin fyrir því?
    Það er ekki eingöngu um það að ræða að það sé sjálfseignarstofnunin á Vogi sem sinnir áfengissjúklingum, það er líka stór deild á Landspítalanum og í tengslum við Landspítalann sem sinnir þessum sjúklingum. Þannig að spurningin er hver er stefnan og hvaða rök eru fyrir því að taka þennan hóp sjúklinga út úr. Það verður að rökstyðja það. Ég tel að hér sé ekki aldeilis um fyrirbyggjandi aðgerð að ræða, ef eitthvað er þá mun þetta auka á vandann ef menn hafa ekki einu sinni efni á því að fara í meðferð. En þetta mál þarf að skoða mjög rækilega. Það kann að vera að einhverjir séu aflögufærir eins og auðvitað gerist og gengur en þarna er auðvitað enn einu sinni um það að ræða að spyrja sig: Hver á reglan að vera? Út frá hverju göngum við í okkar heilbrigðiskerfi? Annað hvort förum við að taka gjöld af öllum alls staðar, sem ég er auðvitað andvíg, eða ekki. Það er ekki réttlætanlegt að taka einn hóp sjúklinga út úr með þessum hætti.
    Ég ætla þá aðeins að nefna hér það sem kemur upp varðandi rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Það er líka gamall kunningi sem var til meðhöndlunar í landbn. í fyrra. Þessi liður gengur út á að það verði heimilt að leggja sérstakt gjald á seldar búvélar og veita þá peninga til Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins. Hér

er um 8 millj. kr. gjald að ræða. Þessari gjaldtöku var mótmælt harðlega af hálfu bænda í vor og þarna er um það að ræða hvaða skatt er verið að leggja á með þessum hætti. Þarna er frjálshyggjustefnan í algleymingi. Þetta minnir mann á það sem verið var að gera varðandi sjávarútveginn og fleiri atvinnugreinar en ég vil minna á að við erum búin að sjá mörg dæmi um að það fjármagn sem hefur átt að renna til rannsókna skilar sér ekki. Það átti að fjármagna rannsóknir og rannsóknasjóði með fjárframlögum frá sölu ríkiseigna og þetta hefur ekki skilað sér. Og ég veit ekki hvaða ástæða er til að ætla það í þeim mikla samdrætti sem íslenskur landbúnaður hefur gengið í gegnum og stendur enn frammi fyrir því miður að þá muni skila sér 8 millj. kr. gjald til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Ég er því miður hrædd um að hér sé enn ein vitleysan á ferðinni.
    Hér munu aðrir þingmenn Kvennalistans fjalla um þau málefni sem snúa að félmn., atvinnuleysistryggingunum, orlofi og málefnum fatlaðra. Hér er um ýmiss konar breytingar að ræða og því er haldið fram í greinargerðinni að tekjuöflun komi á móti niðurskurði, en það atriði sem hér er lögfest að sveitarfélögin eigi að leggja fram 600 millj. kr. til atvinnusköpunar vil ég sérstaklega gera að umræðuefni, ekki síst í ljósi þess hvernig samskiptum ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna í landinu hefur verið háttað. Því vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. félmrh. hvort þetta sé gert í samráði við sveitarfélögin. Er þetta gert í samráði við sveitarfélögin? Því var haldið fram í fyrra og hittiðfyrra að ýmsar ákvarðanir væru í samráði við sveitarfélögin en Samband ísl. sveitarfélaga kannaðist ekkert við að um slíkt væri að ræða. Og ég verð að segja það svona almennt séð að það er býsna sérkennilegt að vera að binda sveitarfélögin með lögum til þess að leggja fram fé til ákveðins málefnis. Mér þykir þetta vera býsna sérkennileg vinnubrögð.
    Virðulegi forseti. Ég er þá komin að hinum svokölluðu ,,þrátt-fyrir``-ákvæðum og ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þau atriði. Hér er um endurtekningu að ræða frá fyrri árum en hún er jafnvond fyrir því og af því tilefni vil ég taka undir það sem síðasti ræðumaður sagði að þetta eru auðvitað alveg furðuleg vinnubrögð og gilda ekki bara um þessa ríkisstjórn heldur fleiri að vera með þessi ákvæði ár eftir ár eftir ár, taka af stofnunum þeirra tekjustofna í heilu í lagi í stað þess að breyta lögunum. Við eigum bara að taka okkur til að breyta lögunum ef það er vilji til þess að taka þessa tekjustofna af.
    Ég vil sérstaklega nefna hér Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins sem er tekinn í heilu lagi enn eitt árið og þýðir það auðvitað að ýmsar framkvæmdir á vegum Ríkisútvarpsins dragast. Ég vil af því tilefni beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. hvaða áform eru uppi varðandi Ríkisútvarpið. Það hefur dregist mjög að sjónvarpið flytji sínar höfuðstöðvar í nýja útvarpshúsið og ég vil spyrja hann hvort hætt er við þau áform og ef svo er, hvernig á þá að nýta þetta mikla hús? Það hljóta að vakna spurningar um það.
    Ég vil líka nefna varðandi húsfriðunarsjóðinn sem einnig heyrir undir hæstv. menntmrh. Hann er skorinn niður um hvorki meira né minna en 25,5 millj. kr. þrátt fyrir það að ljóst er að það eru mjög mikil verkefni sem bíða úrlausnar varðandi viðgerðir á húsum Þjóðminjasafnsins og það liggi fyrir skýrslur og áætlanir um það sem þarf að gera. Þetta skerta fjármagn sem húsfriðunarsjóðurinn fær ár eftir ár þrátt fyrir lög gerir erfitt um vik að standa við þau áform og ég minni hér enn á torfbæina og það ástand sem þeir eru í og minni á að þar er um ákaflega viðkvæm hús að ræða sem þarfnast stöðugs viðhalds. Ég veit að það hefur eitthvað verið gert, m.a. í Glaumbæ í Skagafirði til viðgerða á því húsi, en það gengur auðvitað ekki að auka stöðugt verkefni Þjóðminjasafnsins og bæta verkefnum þar á en veita svo ekki það fjármagn sem til þarf.
    Ég vil líka vekja athygli á því að lögbundið fjármagn er skorið niður til Vegagerðar ríkisins um 370 millj. kr. og það er vægast sagt afar sérkennilegt að ríkisstjórnin geri samkomulag við verkalýðshreyfinguna um aukið fé til framkvæmda, m.a. til vegagerðar en sker svo niður með hinni hendinni lögbundið fé til þeirra framkvæmda.
    Að lokum vil ég nefna Ferðamálaráð og Ferðamálasjóð, sem er skorinn niður um 134 millj. kr., hvorki meira né minna. Það er auðvitað afar slæmt að annars vegar er verið að leggja virðisaukaskatt á ferðaþjónustu í landinu þó að það kunni að vera fram undan einhverjar breytingar í þeim málum og hins vegar er fé til Ferðamálaráðs og Ferðamálasjóðs skorið niður um 134 millj. og menn horfa til ferðaþjónustunnar sem mikilvægs vaxtarbrodds í okkar atvinnumálum. Þar liggja miklir möguleikar en fjármagnið er skorið niður. Hvernig á þetta að koma heim og saman?
    Virðulegi forseti. Eins og ég hef hér rakið, þá eru mjög mörg mál á ferð í þessu frv. misjafnlega stór og misjafnlega alvarleg, en ég ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns að þetta frv. speglar fyrst og fremst uppgjöf ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálunum og dregur fram þær ömurlegu áherslur að það eru skólabörnin, það eru heimilin, það eru fjölskyldurnar, það eru ekkjurnar, það eru áfengissjúklingarnir sem eiga að borga brúsann.