Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 15:42:54 (2385)


[15:42]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér er kominn á dagskrá enn einn bandormurinn frá hæstv. ríkisstjórn og ekki sá minnsti. Hér á í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994, eins og það heitir, að breyta ákvæðum um 26 gildandi laga. Það er býsna drjúgur hluti af lagasafninu sem hérna er verið að krukka í með þessum bandormi. Það eru efnisbreytingar hér á níu mismunandi lagaákvæðum í I. kafla frv., sem auðvitað hafa veruleg áhrif á stefnuna í þeim málaflokkum sem þar eiga undir svo sem skólamál, tryggingamál og annað því um líkt. Síðan eru hér í 17 tilvikum skert framlög eða afnumin með öllu til ýmissa verkefna í svonefndum ,,þrátt-fyrir``-kafla og þar er að vísu um margan gamlan kunningjann að ræða.
    Ég ætla aðallega að renna í gegnum ákvæði fyrri kaflans sem lúta að meiri háttar áherslubreytingum eða áherslum eins og þær birtast í gegnum framlög hæstv. ríkisstjórnar eins og þau verða ef ákvæði þessa frv. ná fram að ganga. Það er reyndar ástæða til að fara aðeins yfir það fyrst því vegna þess að þetta er að verða árlegur viðburður hér að það sé ekki hægt að loka fjárlögum, það sé ekki hægt að afgreiða hlutina með venjulegum hætti í gegnum fjárlagafrv. og þá með breytingum á einstökum lögum heldur þurfi sífellt að grípa til þess að flytja einhver sérstök fylgifrv. um ráðstafanir, víðtækar ráðstafanir sem grípa inn í framkvæmd hinna einstöku málaflokka svo sem málefni grunnskólans, framhaldsskólanna, Tryggingastofnunar o.s.frv. Auðvitað er það að verða þannig, hæstv. forseti, að maður spyr sig æ oftar að því hvað það hefur eiginlega upp á sig að vera að setja hér lög og vinna faglega að því í nefndum þingsins að móta áherslu t.d. eins og um málefni grunnskólans og það skuli stefnt að ákveðnum úrbótum. Síðan koma menn hér með sérstakan bandorm, gjarnan um miðjan desember, þannig að það sé örugglega enginn tími eftir til að fara yfir hvað þar er á ferðinni og svo er honum sullað hérna í gegnum þingið, menn rétta upp hendurnar og búmm! Þar fór það. Þar með er bara út af borðinu með hugmyndir um skólamáltíðir, lengingu skóladagsins, kennslu hér eða úrbætur þar. Þetta er auðvitað ekki mjög fagleg vinnubrögð svo ekki sé nú fastar að orði kveðið og verður held ég að takast til nokkurrar skoðunar eins og þetta hefur gerst á undanförnum árum að í raun og veru eru hinar faglegu og efnislegu áherslur ekki lengur mótaðar þegar heildarendurskoðun einstakra lagaflokka fer fram. Eða þegar fagnefndir þingsins sitja við það vikum saman að vanda sig við að leggja línur fyrir málefni einstakra sviða í þjóðfélaginu. Nei, það er ekki þar sem þessar ákvarðanir eða áherslur eru í reynd mótaðar vegna þess að þær eru jafnharðan gerðar ómerkar með niðurskurðarfári og bandormasmíð af þessu tagi. Þetta hefur auðvitað alveg keyrt um þverbak í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Ég leyfi mér að fullyrða það að annað eins hefur ekki tíðkast. Hér eiga nánast allir fagráðherrarnir við það að búa í þessum bandormi að einhverjar af áherslum eða stefnumótandi samþykktum sem gerðar hafa verið í þeirra málaflokkum á undanförnum árum eru gerðar fullkomlega ómerkar, gerðar bara upptækar með tillögum í þessum bandormi. Þannig er auðvitað með grunnskólalögin og þau ákvæði þar, sem full samstaða varð um á Alþingi á árinu 1991 að setja, að hér er enn eina ferðina lagt til að gera

þá stefnumörkun í raun og veru að engu og fresta flestu því sem til úrbóta horfði og framfara í málefnum grunnskólans með því frv. Við verðum auðvitað að spyrja okkur að því, ekki bara samþykkja þetta svona með einni handauppréttingu af því að það sé hart í ári eins og sagt er gjarnan og notað sem allsherjarréttlæting fyrir hverju sem er þegar verið er að sulla þessu hér í gegn. Er svo hart í ári á Íslandi að við höfum ekki efni á því að hrinda í framkvæmd neinu af þeim umbótum í grunnskólunum sem stefnt var að með heildarendurskoðun laganna árið 1991? Þetta snýr ekkert í mínum huga að spurningu um stjórn eða stjórnarandstöðu. Það vill svo til að allir flokkar á Alþingi samþykktu þessi lög þá. Það voru gerðar á þeim sérstakar breytingar ef ég man rétt m.a. til að auðvelda þingflokki Sjálfstfl. sem þá var í stjórnarandstöðu að standa að afgreiðslu laganna. Þannig að þetta er í raun og veru ekki mál sem á að draga niður í þær skotgrafir að þetta snúist bara um metnað stjórnar eða stjórnarandstöðu, þetta er spurningin um það hvort það sé einhver alvara að baki ákvörðunum af þessu tagi og það snýr að okkur öllum sem hér á Alþingi störfum. Mér finnst það óskaplega dapurlegt svo ekki sé meira sagt, hæstv. forseti, að sjá þarna þessi ákvæði að engu gerð eina ferðina enn.
    Það þarf ekki að fara yfir það, það verður sjálfsagt gert vandlegar af öðrum sem betur eru til þess færir, sem þarna er á ferðinni en í grófum dráttum er það það að með því að fresta gildistöku 3. mgr. 4. gr. þá detta skólamáltíðirnar upp fyrir eina ferðina enn. Með 1. og 6. mgr. 46. gr. er lengingu skólatímans frestað og að komið verði upp skólaathvarfi, og svo í 2. gr. er fækkun í bekkjardeildum frestað. Það á sem sagt enn þá að hrúga saman 28 nemendum eða hvað það nú er í hverri einstakri bekkjardeild. Þetta er allt saman harla dapurlegt og ekki í miklu samræmi við það að síðan halda menn á sunnudögum fallegar ræður um það að framtíðin liggi í menntuninni, mestu verðmæti hverrar þjóðar sé mannauðurinn, vel menntuð og upplitsdjörf ung kynslóð sem gangi á vit nýrrar aldar og allt það. Það er satt best að segja spurning hvort ráðamenn þjóðarinnar hafi mikil efni á slíkum ræðuhöldum á hátíðisdögum eins og að þessu hefur verið staðið núna undanfarin ár.
    Þá kem ég að sérskólunum eða framhaldsskólastiginu sem hér er lítillega vikið að og þar er nú að mínu mati um öllu verri málafylgju að ræða því að þar er ríkisstjórnin að reyna að festa í sessi og geirnegla alveg inn í skólakerfið eins og það leggur sig kostnaðarþátttökustefnu sína, gjaldtökuna, skólagjöldin, þ.e. að menntunin hætti að vera greidd úr sameiginlegum sjóðum og þeim hefur fundist það auðvitað stílbrjótur og beinlínis ósmekklegt að það fyndust einhverjir skólar í landinu þar sem ekki væri hægt að leggja á skólagjöld og það hefur verið farið í það að leita hér hvort enn væru einhverjir sem slyppu undan þessu. Jú, það hafa fundist nokkrir aðilar, Tækniskólinn, búnaðarskólarnir og Garðyrkjuskólinn og að er auðvitað stórhneyksli að það skuli ekki vera lögð á skólagjöld í Garðyrkjuskólanum og því skal snarlega breyta. Þetta er auðvitað afar ógeðfelld þróun svo að ekki sé meira sagt en eins og þegar hefur verið bent á hér þá er þetta ekki bara spurningin um þær upphæðir sem hér eru settar á í fyrstu umferð heldur um þá pólitísku stefnumörkun sem að baki liggur. Hún er stórháskaleg og hefur reynst alveg skelfilega illa hjá þeim þjóðum sem hafa asnast út á þessa braut því að það er auðvitað segin saga að í næstu umferð munu menn hækka þessi gjöld með vísan til þess að það sé erfitt í ári, það sé enn tómur kassinn hjá hæstv. fjmrh. og nauðsynlegt að afla meiri tekna í ríkissjóð og það er ákaflega auðvelt og freistandi fyrir gíruga fjmrh. og ístöðulitla menntmrh. sem eru með lina hnjáliði að bogna gagnvart kröfum um að þessi gjöld verði hækkuð í næstu umferð. Og hvar eru menn svo staddir áður en þeir vita af því? Þeir eru staddir þar að það er búið að auka þannig þessa gjaldtöku að hún er farin að mismuna nemendunum stórkostlega eftir efnahag. Auðvitað endar það þannig og það má segja að hver einasta króna sem tekin er með þessum hætti endi þannig. Og til þess hafa menn almenna fjáröflun ríkisins, til þess hafa menn skattkerfi, persónufrádrætti og annað því um líkt að jafna aðstöðu manna og afla teknanna eftir almennum leiðum og þær á að nota til að fjármagna þann almenna rekstur og þá samneyslu sem menn eru sammála um að hafa í þjóðfélaginu. Auðvitað er það eins og hreinasta rugl sem oft hefur verið tuggið á að það sé nauðsynlegt að hafa svona gjaldtöku, að hún þjóni einhverjum ákveðnum tilgangi, auki kostnaðarvitund og hvað að nú er sem kratarnir fundu upp á árunum þegar þeir voru að réttlæta það og reyna að selja mönnum þessa nýju stefnu. Sú níðstöng verður lengi uppi yfir Alþfl. að hafa átt forustu um það hér að innleiða þessa gjaldtöku og þessa sjúklingaskatta, skólagjöld og allt það dót. Það er auðvitað alveg til reginskammar fyrir þann flokk sem kennir sig við alþýðu manna og montast af því að hann hafi innleitt hér á árum áður eða átt þátt í því að innleiða ýmsa þætti velferðarkerfisins. Það er það. Og þessi fyrirmynd, það er náttúrlega þekkt hvaðan hún er sótt. Hún er sótt í frjálshyggjusýkina sem gekk yfir og smitaði fleiri en bara hægri flokka á Vesturlöndum, náð langt inn í raðir til að mynda sósíaldemókratískra flokka í Evrópu, Nýja-Sjálandi og víðar. Hver er svo uppskeran af þessu brölti? Hún er víðast hvar sú að skynsamari menn á þessum kanti eru alls staðar að hverfa frá þessu nema hér. Þá vaknar náttúrlega sú spurning: Eru það þá skynsamir menn sem t.d. ráða ferðinni í Alþfl. í dag? Að berjast áfram fyrir þessari stefnu hér uppi á Íslandi þegar menn eru að hverfa frá henni í öðrum löndum? Það er alla vega ljóst að ráðandi öfl í Alþfl. eru rígföst í þessu hjólfari enn þá eins og sést í þessu frv. því að það hefur væntanlega ekki verið flutt í andstöðu við Alþfl. að halda hér áfram og lengra inn á þessa braut sem sést á skólagjaldtökunni núna þar sem er verið að tína upp síðustu skólana í landinu og afla heimilda til þess að leggja þar á skólagjöld, þar sem er verið að leita að aðilum eins og áfengissjúklingum til þess að leggja á þá sérstaka skatta og dugar þá ekki lengur að nota samheitið sjúklingaskattar. Það verður væntanlega að búa út þarna undirflokk sem heitir áfengissjúklingaskattar og fer nú vel á því að það skuli koma í hlut hæstv. ráðherra Alþfl. að leggja það hér til.
    Það er ekki hátt risið á öllu hér eins og t.d. í 7. gr. frv. þar sem farið er út í það að innheimta sérstakt gjald af tilraunum með búvélar og prófanir hjá bútæknideild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Það eru ekki stór mál að mínu mati og hefur ekki velt miklu um í þessu þjóðfélagi þó að það fyrirkomulag yrði við lýði áfram, en þar er samt skattstofn sem ríkisstjórnin fann, það er skattstofn. Það væri hægt að nurla einhverju inn af því að leggja þarna gjald á innflutning á tækjum til landbúnaðarins eins og hann er nú í stakk búinn til þess að mæta því einmitt núna búandi við þann tekjusamdrátt og þá váboða alla sem við honum blasa við sjóndeildarhringinn. En það er sennilega sáluhjálparatriði hjá hæstv. ríkisstjórn og samræmingaratriði og fagurfræðilegt atriði að landbúnaðurinn skuli ekki sleppa þarna frekar en aðrir.
    Þá kem ég að 8. gr. Þar er fjallað um orlof og hér er lögð til sú breyting á lögum um orlof að ábyrgðin á vangreiddu orlofi og kostnaður af þeim málaflokki skuli færast yfir á ábyrgðasjóð launa, þann sem ríkisstjórnin stofnaði fyrir einum tveimur árum síðan og lagði yfir á herðar atvinnulífsins að fjármagna eins og hann leggur sig. Þar var einni byrðinni enn velt yfir af útgjöldum sem áður höfðu verið úr sameiginlegum sjóðum og hér er verið að færa orlofsgreiðslurnar, vangreidda orlofið yfir á þennan sjóð. Hvað tilhögun snertir má vel vera að það sé ekki óvitlaus aðferð og ekki verri en sú sem við lýði er að Tryggingastofnun annist þetta en það er rétt að vekja athygli á því að þar með er kostnaðinum velt yfir á þennan sama aðila. Þetta er ekki eingöngu framkvæmdalegt atriði þó svo að hér sé sagt að ekki verði um að ræða hækkun á ábyrgðagjaldinu sjálfu. Ég hef ekki farið ofan í saumana á því hvernig fjárhagsstaðan þar er og getur vel verið að þetta sleppi til. Þó þykir mér það nú mesta furða ef svo er að ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota sé svo vel staddur einmitt nú í ljósi gjaldþrotahrinunnar að hann geti tekið við þessum byrðum, en það kemur þá í ljós.
    Þá er lögð til í 9. gr. sú breyting á málefnum fatlaðra að allt að fjórðungur af ráðstöfunarfé þess sjóðs megi renna til að fjármagna rekstur í þessum málaflokki, fjármagna reksturinn, hrein rekstrarútgjöld eins og síðan eru skilgreind þarna í stafliðum a, b og c. Ég veit ekki hvað menn vilja segja um þessa þróun almennt. Það geta auðvitað skapast þær aðstæður tímabundið að það sé skynsamlegt eða réttlætanlegt að draga úr uppbyggingu og þá þurfi og sé jafnvel meiri þörf fyrir fjármunina með öðrum hætti til rekstrar, en menn skulu ekki láta sér detta það í hug eitt einasta augnablik að það verði auðvelt að snúa til baka af þeirri braut ef búið er að binda ráðstöfunartekjur sjóðsins í verulegum mæli í það að fjármagna reksturinn. Ég læt mér ekki detta það í hug eitt augnablik að það beri að taka minnsta mark á því þó að hlutunum sé stillt upp svo að þarna sé um tímabundna ráðstöfun að ræða. Þetta er sett upp sem ,,þrátt-fyrir``-ákvæði gagnvart árinu 1994, en ég hefði gaman af því að fá þá a.m.k. heyra loforð frá hæstv. ráðherra um að þetta yrði aldrei gert aftur og fá þau hér inn í þingtíðindin. Ekki það að ég mundi taka mjög mikið mark á þeim, reynslunni ríkari af því hvernig slíkt hefur haldið, en það væri þá a.m.k. tilraunarinnar virði að kalla slíkt fram. Hvað segir t.d. hæstv. félmrh.? Hefur hann eitthvert samkomulag á bak við sig í ríkisstjórn um það að þetta verði ekki að viðvarandi fyrirkomulagi? Og er það þá eitthvað sem er ásættanlegt? Ég reyndar efast um það. Mér er ekki kunnugt um annað en þrátt fyrir allt séu gífurleg verkefni óunnin í þessu þjóðfélagi á sviði uppbyggingar í málefnum fatlaðra.
    Þá kem ég að breytingum á lögum um almannatryggingar sem fjallað er um í 10. og 11. gr. Þar er í fyrri greininni um að ræða heimild til að tekjutengja ekkjulífeyri og þar hefur ríkisstjórnin fundið enn eitt smekksatriðið og það er auðvitað alveg lífsnauðsynlegt að koma í þennan volduga tekjustofn, ekkjulífeyrinn og krukka aðeins í hann og er nú mikill skaði að því að hv. varaþm. Sjálfstfl. sem mest talaði um ekkjuskatt hér á árunum skuli ekki sitja á þinginu einmitt um þessar mundir því að það væri fróðlegt að eiga orðastað við hv. varaþm. Þuríði nokkra Pálsdóttur. Eins og kunnugt er stóð hún í mikilli herferð hér á árunum út af ekkjuskatti og hún taldi sérstakan níðingsskap af þáv. hæstv. fjmrh. að leggja á ekkjuskatt og voru um það mikil fundahöld og mikill lúðrablástur í Sjálfstfl. að þarna væri þessum fjöndum rétt lýst og fyndu akkúrat matarholuna þar sem væri eyrir ekkjunnar. En hvað er svo að gerast hér undir forustu hæstv. forsrh. sjálfs sem flytur þetta frv.? Jú, það er alveg sérstaklega búið að finna tekjustofn í ekkjunum. Og segi menn svo að eitthvað sé nýtt undir sólinni. Þar eru breiðu bökin og hvar er hv. forkólfur sjálfstæðismanna sem stóð fyrir herferðinni um ekkjuskattinn? Ég tel það alveg bráðnauðsynlegt að Sjálfstfl. hagi þannig til að henni gefist kostur á að komast inn á þing áður en það fer í jólaleyfi og ræða svolítið um þetta við okkur, útskýra muninn á þessum ekkjuskatti og hinum sem var lagður á fyrr á öldinni. Það er alveg nauðsynlegt.
    En svo kemur að öllu snyrtilegra atriði í 11. gr. og það er áfengissjúklingaskatturinn. Það er búið að finna upp sérstakan flokk sjúklinga í þjóðfélaginu sem ber að skattleggja umfram aðra og það eru áfengissjúklingar. Þetta er alveg lýsandi fyrir viðhorf ríkisstjórnarinnar eins og það hefur verið mótað af Alþfl. sérstaklega, samanber ummæli hæstv. fyrrv. heilbrrh. og studd af núv. hæstv. heilbrrh. með þessari málafylgju, að áfengissjúklingarnir séu alveg sérstakur markhópur sem þurfi að þjarma að. Annars vegar beri náttúrlega að koma í veg fyrir þá ósvinnu að þeir séu að frílista sig á meðferðarheimilunum sem var sett upp sem mikið hneyksli af hæstv. fyrrv. heilbrrh. og nú ríður arftaki hans í slóðina með því að leggja til að sérstök skattlagning verði á áfengissjúklinga sem eru þó að reyna að ná tökum á vandamálinu og leita sér meðferðar eins og ástatt er nú yfirleitt hjá þeim mönnum sem þannig er komið fyrir að þeir sjá sig knúna til að leita sér læknismeðferðar út af þessum sjúkdómi. Og ég vil spyrja hæstv. heilbrrh. að því, liggur á bak við þetta einhver fagleg röksemd af hálfu heilbrrn.? Er búið að taka upp þá stefnu í heilbrrn. Íslendinga að áfengissýki sé eitthvað öðruvísi en aðrir sjúkdómar, það sé einhvers konar annars flokks sjúkdómur eða annars flokks menn sem eiga við þá erfiðleika að stríða? Þess vegna sé réttlætanlegt að skattleggja þá og þeirra meðferð, þeirra lækningu alveg sérstaklega umfram aðra. Og ég spyr: Hvers eiga þeir að gjalda? Eru þá bara ekki fleiri slíkir sjúkdómar sem ástæða er til að . . .  Hæstv. forseti, ég spyr. Er tíma mínum lokið? Var ekki lengdur ræðutími?
    ( Forseti (SalÞ) : Hann er hálfnaður.)
    Hann er hálfnaður nefnilega, það er heppilegt því að ég er ekki alveg búinn.
    Nei, þetta er auðvitað alveg makalaust og ég tel að það eigi ekki að sleppa hæstv. ríkisstjórn og allra síst hæstv. heilbrrh. við það að koma hér og standa fyrir máli sínu hvað þetta varðar. Hver eru faglegu rökin á bak við það að skattleggja sérstaklega meðferð áfengissjúklinga? Liggja þau í einhverjum félagssfræðilegum eða læknisfræðilegum aðstæðum í þessum málum sem mæla sérstaklega með því að það sé minni ástæða til þess að þessir sjúklingar njóti ókeypis heilbrigðisþjónustu en aðrir? Er það minna nauðsynlegt að reyna að ráðast að rótum þess vanda sem áfengissýkin er í þjóðfélaginu og draga úr því að hvetja til þess að menn leiti sér meðferðar? Er það þjóðhagslega skynsamlegt? Er það efnahagslega gáfulegt að hvetja þannig beinlínis ekki til þess eða hvernig sem menn eiga nú að snúa því, draga úr því sem full ástæða er til að óttast að verði að menn leiti sér þá meðferðar. Nú held ég að flestir séu sammála um það að áfengisvandamálin eru einhver allra dýrustu og erfiðustu heilbrigðisvandamál sem vestrænar þjóðir eiga við að glíma. Ég veit ekki betur en fyrir liggi áætlun bæði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og heilbrigðisáætlun Íslendinga um að að setja sér sérstök markmið um að draga úr áfengisneyslu um tiltekinn hundraðshluta á nokkurra ára bili. Er þetta innlegg í það mál að leggja hér sérstaka skatta á áfengismeðferð? Og þegar maður svo horfir til þess að á sama tíma er verið að skera mjög harkalega niður fjárveitingar til velferðarstofnananna þannig að það verður e.t.v. að loka fleiri en einni og fleiri en tveimur stofnunum á næsta ári, þá spyr ég mig nú eiginlega bara að því, hvar eru menn staddir? Og liggja þó fyrir nýjar tölur um það að áfengisvandamálið er á hraðri uppleið hér á Íslandi. M.a. hefur drykkjan færst niður í aldurshópum ískyggilega frá því og með því að hér var innleiddur áfengur bjór hvort sem það er eina orsökin eða samverkandi með öðru. Mönnum væri nær að snúa sér að því að reyna að móta einhverja stefnu og glíma við þau vaxandi vandamál heldur en hitt. Og maður spyr sig líka að því hvort það sé að verða svo að sú viðleitni sem t.d. norrænar þjóðir hafa sýnt í þessum efnum og hefur nú verið fordæmi þeirra þjóða í heiminum sem eitthvað hafa viljað glíma við þetta vandamál sé í raun og veru verið að gera hana að engu a.m.k. hér uppi á Íslandi. Nú liggur fyrir að Evrópubandalagið hefur áhuga á því að brjóta niður áfengiseinkasölukerfi Norðurlandanna og menn óttast að Norðurlandaþjóðirnar munu tapa því í málaferlum innan EES og missa þannig úr höndum sér það stýritæki sem einkasala ríkisins hefur verið í þessum efnum. Allt ber því þarna að sama brunni. Það á að skattleggja sérstaklega meðferð áfengissjúklinga. Það eru skorin niður mjög harkalega framlög til meðferðarheimila og til heilbrigðisstofnana sem eru að sinna þessu vandamáli í þjóðfélaginu. Það liggja fyrir tölulegar upplýsingar um að vandamálið er að aukast, drykkja m.a. að færast niður í aldurshópum og svo er jafnvel ógnað því stýrikerfi eða skipulagi sem norrænar þjóðir hafa haft á í gegnum einkasölu sína á áfengi og þar með viss takmörk á aðgengi manna að þessri vöru þannig að ég sé fátt jákvætt í þróuninni eins og hún er. Við þær aðstæður finnst mér það alveg sérlega aumingjalegt, satt best að segja, alveg sérlega aumingjalegt að velja svo þennan markhóp, áfengissjúklingana, til sérstakrar gjaldtöku.
    Ég ætla ekki að segja meira um þetta, hæstv. forseti. Maður talar hér sjálfsagt yfir daufum eyrum og þessi hæstv. ríkisstjórn Íslands hefur e.t.v minni áhuga á því en ýmsar aðrar að glíma við áfengisvandamálið, um það veit ég ekki neitt. Ég hef ekki annað til að ganga út frá í mati mínu á því heldur en verk hennar og þau tala sínu máli.
    Þá kem ég að 12.--20. gr. frv. sem fjalla um atvinnuleysistryggingarnar og það sem þar er á ferðinni. Þar er frá því að segja að hæstv. ríkisstjórn er þarna að gera ýmsar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem mér virðast sumar hverjar ekki mjög vel ígrundaðar eða í miklu samhengi við það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Nú er ég ekki að mæla á móti því að þörf sé einhverrar endurskoðunar á framkvæmd þessara hluta og til að mynda virðist næsta sjálfsagt að gera þá lagfæringu sem 15. gr. frv. gerir ráð fyrir því það er auðvitað hárrétt að það má ekki vera nein óvissa um það með hvaða hætti atvinnuleysisbætur skuli skerðast vegna annarra tekna eða annarra bóta og sama má segja í sjálfu sér um 14. gr. að hún sé eðlileg lagfæringargrein.
    Um 12. gr. á í sjálfu sér það sama við að þar er verið að breyta þeirri viðmiðun sem fjárveitingar til Atvinnuleysistryggingasjóðs taka nú mið af, þ.e. tryggingagjaldið í staðinn fyrir fjárveitingarhlutföll ríkis og annarra aðila en ég vil hins vegar spyrja um og fá skýringar á ákvæðum 13. og 16. gr. sérstaklega, hvaða tekjur og tekjuígildi er þarna verið að tala um þegar skerða á hámarksbætur atvinnuleysistrygginga, hvað er þarna á ferðinni í formi útgjalda. Mér finnst sá rökstuðningur sem fylgir hér í greinargerð afar götóttur. Það er til að mynda ekki gefin upp nein tala hvað varðar áhrif 16. gr. en þar er lagt til að 5. mgr. 24. gr. laganna falli brott. Rökstuðningurinn er vægast sagt einfaldur eins og hann kom fram í máli hæstv. fosrh. og reyndar líka í greinargerð með frv. að þetta ákvæði hafi verið misnotað og því sé lagt til að að falli brott.

    Nú er það þannig t.d. með ýmislegt í skattkerfinu að það er talið að það sé misnotað. En það er samt ekki lagt til að það falli brott, t.d. þó að menn svíki eitthvað undan tekjuskatti, þá er ekki lagt til að hann sé felldur niður. Nei. Það er vegna þess að það er kannski talið að þrátt fyrir vissa misnotkun geti verið ástæða til að meta hið góða sem fyrirkomulagið hefur í för með sér og ég spyr hvað þessi ákvæði 16. gr. þýði. E.t.v. getur hæstv. heilbr.- og trmrh. svarað þessu. Og í hve miklum mæli hafa menn nýtt sér þennan möguleika að greiða að hluta til atvinnuleysisbætur á móti þeirri vinnu sem menn þó hafa í fyrirtækjum eftir að til að mynda hráefni hefur dregist saman í fiskvinnslu og þar er orðið um hlutavinnu að ræða? Er það endilega skynsamlegt að henda þessu fyrirkomulagi? Ég spyr. Er ekki til að mynda viss hætta á því að þetta geti haft þau áhrif að fyrirtækin segi upp fólki sem þau sjá sér ella fært að hafa í vinnu ef fólkið getur haft atvinnuleysisbætur á móti hlutastörfum sem eftir eru þó í viðkomandi starfsemi? Ég ímynda mér að þetta geti átt við ekki síst um fiskvinnsluna og spyr að því: Er búið að ræða það og skoða hvaða áhrif þessi breyting geti haft? Mér finnt þetta afar fljótfærnislegt eins og þetta er lagt hér fram án nokkurs rökstuðnings, án þess að nokkrar tölulegar upplýsingar séu færðar fram og ég vona að annaðhvort hæstv. heilbrrh. eða hæstv. forsrh. geti gefið um þetta upplýsingar. Málið er í raun og veru ekki frambærilegt eins og það er hér lagt fyrir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Mér dugar ekki svona billeg röksemdafærsla að þetta hafi verið misnotað og þar með skuli þetta falla brott.
    Síðan eru hér í 17. og 18. gr. laganna allsérkennilegar breytingar á stjórnsýslulegri meðferð þessara mála og þær ganga ósköp einfaldlega út á eitt og aðeins eitt: Að fela ráðherra stóraukin völd í þessum efnum. Ráðherra geti til að mynda með reglugerð ákveðið að sameina úthlutunarnefndir. Ber að skilja það svo að það skuli vera bara per se, ráðherrann geti það bara ef honum sýnist eða hvað? Þarf ekkert samkomulag að liggja að baki t.d. hjá viðkomandi úthlutunarnefndum eða samkomlag við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs svo að dæmi sé tekið? Hvaða vald er ráðherra með þessum breytingum að fá í hendur? Telja menn það eðlilegt að galopið reglugerðarákvæði af þessu tagi sé sett í lögin með þessum hætti? Ráðherra á að fá verkefni og völd sem áður voru hjá stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Enn undarlegri eru þó ákvæði 18. gr. en þau ganga út á það að 1. mgr. 30. gr. laganna um atvinnuleysistryggingar skuli orðast svo: ,,Úthlutunarnefndir annast greiðslu bóta til einstakra bótaþega nema ráðherra ákveði annað.`` Hvers konar stjórnkerfi er það? Með öðrum orðum, ráðherra getur gert það sem honum sýnist. Ef hann ákveður eittvað annað en það að úthlutunarnefndirnar annist útborgun, þá gildir það. Og ég sé ekki annað en ráðherra gæti með þessu ákveðið að annast sjálfur útborgun allra atvinnuleysisbóta í landinu. Í raun og veru þýðir þetta ákvæði það. Hann hefði nóg að gera þá, hæstv. heilbrrh. Nei, ég tel afar sérkennilega um þetta búið hér í þessum frumvarpsdrögum og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað vakir hér fyrir mönnum? Er samkomulag um þetta við verkalýðshreyfinguna? Mér er ekki kunnugt um að það samráð sem átti að fara í gang og tengjast endurskoðun á þessum málum sé svo langt komið að það sé líklegt að þetta liggi nú þegar fyrir sem samkomulag, það eru þá nýjar fréttir fyrir mig. Og ég spyr hæstv. ráðherra að því, á hvaða grundvelli er þetta ákvæði flutt svo og hvaða völd hefur hæstv. ráðherra í hyggju að fá sér í hendur eða nota sér á grundvelli þessa ákvæðis?
    Og þá að lokum um 20. gr. Þar er verið að festa í sessi það sem upphaflega hóf göngu sína hér á Alþingi undir nafninu lögguskatturinn en þá ákvað ríkisstjórnin einhliða að leggja 600 millj. kr. nefskatt sveitarfélögin í landinu og datt það snjallræði í hug að merkja hann útgjöldum vegna löggæslu. Það væri óeðlilegt að sveitarfélögin bæru ekki einhvern kostnað af löggæslunni í landinu og þess vegna væri rétt að þau borguðu svona eins og 600 millj. í ríkissjóð vegna löggæslu. Þessu var breytt og eftir dálítið japl, jaml og fuður var fundið á þetta nýtt nafn og síðan látið ganga í næstu umferð inn í Atvinnuleysistryggingasjóð og hér er þetta einfaldlega að festast í sessi sem viðbótargreiðsla sveitarfélaga inn í þetta samhengi og það má í raun og veru einu gilda hvort þetta er tengt Atvinnuleysistryggingasjóði, löggæslunni eða bara hverju sem er. Það mætti alveg eins tengja þetta Landhelgisgæslunni og bara hverju sem er, það skiptir ekki nokkru máli. Það sem hér er á ferðinni er ósköp einfaldlega það að ríkisstjórnin er smátt og smátt að komast upp með þetta ofbeldi gagnvart sveitarfélögum í landinu. Það er ekkert annað og ég verð að segja það alveg eins og er, hæstv. forseti, að það hefur oft undrað mig hversu mikið langlundargeð sveitarstjórnarmanna í landinu er gagnvart þessari ríkisstjórn að þola það ár eftir ár að samskipti þessara stjórnsýslustiga sé af þessu tagi. Hér eru þverbrotin öll ákvæði laga um óhæði þessara stjórnsýslustiga hvort gagnvart öðru, þverbrotinn Evrópusáttmálinn um sjálfstæði sveitarfélaga sem hér er búið að lögfesta, þverbrotið samráðsákvæði sveitarstjórnarlaganna milli ríkisstjórnar og sveitarfélaga o.s.frv. og það er alveg með ólíkindum satt best að segja að sveitarfélögin og sveitarstjórnarmenn skuli ekki vera búnir að afsegja hæstv. félmrh. eftir þessa framkomu trekk í trekk og ár eftir ár og verður sú saga væntanlega einhvern tíma skrifuð hvernig samskipti þessara stjórnsýslustiga hafa verið í valdatíð hæstv. félmrh. en eins og kunnugt er, þá er hæstv. félmrh. búinn að sitja í því embætti síðan 1987 og er að verða með eldri ráðherrum í embætti þó að hæstv. ráðherra beiti gjarnan þeirri aðferð að tala eins og hún hafi hvergi nærri neinu komið, a.m.k. ekki verið á Íslandi undanfarin 6--7 ár, þegar fátækt ber á góma, erfiðleika í húsnæðismálum, vaxtamál, greiðsluerfiðleika og svo því um líkt, þá kemur hæstv. félmrh. engilhreinn utan úr tóminu, ber ekki nokkra ábyrgð á nokkrum hlut, er með blæðandi hjarta gagnvart öllum þessum erfiðleikum og fátækt og erfiðleikum hjá almenningi og láglaunafólkinu í landinu. Það er ekki að heyra að þar fari ráðherra sem hefur í 7 ár nærfellt axlað ábyrgð af því að fara með tiltekin mál í Stjórnarráði Íslands. Nei. Það eru einhverjir aðrir vondir sem þar hafa um vélað þegar svo er talað. Og svo ekki sé nú spurt að því hversu jákvæður hæstv. félmrh. hefur verið í garð sveitarfélaganna alla tíð og annt um samráð við þau o.s.frv. Hér er ávöxtur af þeim samskiptum, þessi 600 millj. kr. lögguskattur sem að vísu á að renna til Atvinnuleysistryggingasjóðs á næsta ári.
    Kem ég þá, hæstv. forseti, að ,,þrátt-fyrir``- ákvæðunum sem hér eru í II. kafla. Þar eru nú margt gamlir kunningjar og ætla ég ekki að hafa um þau mörg orð. Þó eru þar sumir hlutir verri en aðrir, sumir nýir og ég vil þá sérstaklega nefna skerðingu á mörkuðum tekjum Vegasjóðs sem er auðvitað ákaflega bagaleg, ekki síst í ljósi þess að það er búið að skerða ráðstöfunartekjur Vegagerðarinnar með öðrum hætti, þ.e. um 530 millj. kr. til að mynda á næsta ári með því að láta öll útgjöld af rekstri ferja og flóabáta lenda yfir á Vegagerðinni bótalaust til hennar, þ.e. útgjöld sem áður voru greidd úr ríkissjóði eru færð yfir á Vegasjóð og honum ætlað að axla þau án þess að vera það í nokkru bætt og svo til viðbótar missir hann af mörkuðum tekjum sínum 370 millj. kr. inn í ríkissjóð þannig að þetta tvennt eru 900 millj., sem þarna eru í raun teknar af vegafé til annarra verkefna og skerðir að sjálfsögðu framkvæmdagetu Vegagerðarinnar sem þessu nemur. Enda er hún allt of lítil, nær tæplega að halda í horfinu og er þó haldið uppi að stórum hluta til með lántökum. Þannig verður það að ef hæstv. samgrh. auðnast að sitja út kjörtímabilið þá mun hann skilja þannig við vegamálin að Vegasjóður skuldi ríkinu á fjórða milljarð kr., að Vegasjóður hafi misst í mörkuðum tekjum til annarra verkefna inn í ríkissjóð eða í rekstur ferja og flóabáta líklega um 2 milljarða kr. og þetta verður staðan. Svo slá stjórnarliðar sér gjarnan á brjóst og tala um miklar framkvæmdir í samgöngumálum. Það er afar holt undir þeim málflutningi þegar staðreyndir málsins eru skoðaðar og munu auðvitað verða mönnum ljósar og ég er alveg sannfærður um að það verður leitun að því að a.m.k. nokkur samgrh. í lýðveldissögunni hafi tekið við verra búi heldur en sá sem fær það erfiða hlutskipti að taka við af hæstv. núv. samgrh.
    Þá aðeins um 34. gr. sem fjallar um skerðingu á framlögum til ferðamála og Ferðamálasjóðs. Þar á að leggja til þriðja árið í röð, ef ég man rétt, óbreytta krónutölu til þeirra verkefna, landkynningarverkefna og umhverfisverkefna á vegum Ferðamálaráðs og það er afar dapurlegt að hæstv. núv. ríkisstjórn skuli ekki hafa sýnt lit á því að leggja aukið fé til uppbyggingar í þessum málaflokki sem er þó einn af þeim fáu sem menn binda verulegar vonir við sem vaxtarbrodd í okkar atvinnumálum og er það nú um stundir. Í tíð fyrri ríkisstjórnar var þetta framlag hækkað á hverju einasta ári. Ætli það hafi ekki verið innan við 30 millj. þegar sú stjórn tók við en var hækkað úr um 30 millj. í 68 millj. í þremur áföngum en síðan hefur það staðið þar óbreytt í krónutölu þó að tekjustofninn, þ.e. sölutekjur fríhafnarinnar hafi aukist verulega á þessu árabili þannig að skerðingin er náttúrlega alltaf að vaxa með þessari frammistöðu hæstv. ríkisstjórnar. Og læt ég hér ónefnd þau ósköp og þær hremmingar sem ríkisstjórnin er að leggja á ferðaþjónustuna að öðru leyti með virðisaukaskatti og öðru slíku.
    Hér er svo, hæstv. forseti, að lokum ein kostuleg lagagrein, 37. gr. með breytingu á ákvæðum laga um eyðingu refa og minka. Mætti margt segja um þann óskapnað sem þar er á orðinn. Þannig er t.d. ákveðið að það skuli gilda sérstakar reglur um þessa eyðingu eftir því hvort íbúar í sveitarfélagi eru 1.999 eða 2.000 og veit ég ekki hvað það kemur refnum við hvort færri eða fleiri manns búa á einhverju landsvæði. Sömuleiðis er sú stórspeki sett hér fram að ríkissjóður muni ekki taka þátt í kostnaði við leit að áður óþekktum tófugrenjum. Þetta tel ég alveg tímamótaupplýsingar sem hér koma fram og ríkisstjórninni alveg sérstaklega til hróss að hún skuli hafa uppgötvað þessi sannindi að það sé ekki ástæða til, hæstv. forsrh., ég gratúlera, að það sé ekki ástæða til að ríkissjóður taki þátt í kostnaði við leit að áður óþekktum tófugrenjum.