Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 16:42:04 (2387)


[16:42]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þeir ræðumenn úr stjórnarandstöðuflokkunum sem þegar hafa talað hafa gert allítarlega grein fyrir almennum viðhorfum til frumvarpsins sem hér liggur fyrir og heitir frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, en ætti auðvitað að heita frumvarp til laga um að breyta velferðarkerfinu. Því þegar frumvarpið er skoðað þá kemur í ljós að það er auðvitað fyrst og fremst velferðarkerfinu sem hér er verið að breyta. Það eru lög um skóla, lög um orlof, lög um málefni fatlaðra, lög um almannatryggingar, lög um atvinnuleysistryggingar, þetta eru stofnlög velferðarkerfisins sem hér á að fara að breyta.
    Það er auðvitað rétt, sem hér hefur komið fram áður, að það er býsna athyglisvert að atlagan að þessu kerfi er engu mýkri þegar Alþfl. á sæti í ríkisstjórn heldur en ella og hlýtur að vera nokkurt umhugsunarefni þeim sem hafa litið til Alþfl. sem vonarneista í baráttunni fyrir jöfnuði í þjóðfélaginu.
    Varðandi frumvarpið í einstökum atriðum mætti svo sem ýmislegt um það segja. Ég ætla að víkja fyrst lauslega að þáttunum sem lúta að skólamálum, síðan aðeins að ákvæðunum um almannatryggingar og loks um atvinnuleysistryggingar.
    Fyrst um skólamálin. Staðreyndin er sú að sú frestun sem á sér stað hér á grunnskólalögunum er ekki aðeins fráleit frá uppeldislegu sjónarmiði, hún er líka fráleit frá efnahagslegu sjónarmiði. Íslendingar verja minni fjármunum til skólamála en nokkur önnur þjóð í Norður-Evrópu. Þegar við skoðum framlög til skólamála á hvern mann á Íslandi og berum það saman við það sem gerist innan OECD þá eru Íslendingar á svipuðu róli og gerist í Tyrklandi, Grikklandi og á Spáni. Ef við berum saman framlög til skólamála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu þá erum við með hlutfall hér á landi sem er um helmingur af því sem það er í Danmörku. Þannig að ef menn ætluðu sér að verja svipuðum fjármunum til skólamála á Íslandi og gert er í Danmörku þá mundu menn auka þar við mjög verulega frá því sem gert er ráð fyrir í dag.
    Með því að skera niður framlög til skólamála eru menn að mínu mati að dæma sig til verri lífskjara í framtíðinni, það er hinn alvarlegi veruleiki þessa máls. Vegna þess að þjóð sem ekki sinnir sínum menntunarmálum betur en við er að dæma sig til lakari lífskjara þegar fram í sækir og þannig eru menntunarmálin orðin grunnþáttur í efnahagsframförum í raun og veru. Þeir sem ætla sér að byggja upp framtíðarþjóðfélag, framtíðarþjóðfélag fyrir börn okkar og barnabörn í þessu landi, eiga þess vegna að láta skólamálin hafa forgang.
    Það er stundum sagt að skólamálin og heilbrigðismálin gleypi í raun og veru öll ríkisútgjöldin og skólamálin og heilbrigðismálin eru sett á sama bás. Því vísa ég á bug. Staðreyndin er sú að þegar útgjöld til heilbrigðismála á mann eru skoðuð þá erum við á svipuðu róli og gerist með grannþjóðum okkar í röðinni innan OECD.
    Ef við aftur á móti berum skólamálin saman þá erum við á allt öðrum slóðum. Það er því tvímælalaust þannig að í heilbrigðismálunum höfum við út af fyrir sig haldið í að því er þetta varðar, sérstaklega ef við tökum tillit til þjónustunnar við aldraða líka, sem er þó sums staðar reiknuð sem partur af félagsþjónustunni. Ef við tökum hins vegar menntamálin þá erum við langt á eftir öðrum þjóðum með svipuð lífskjör. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það eigi að krefja stjórnmálaflokkana og stjórnmálamennina um svör við því: Vilja þeir verja menntamálin frekar en aðra málaflokka á samdráttar- og niðurskurðartímum? Vilja þeir auka við menntamálin, jafnvel þó að skorið sé niður til annarra málaflokka á kreppu og samdráttartímum?
    Fyrir utan það að í 1. gr. þessa frv. felst auðvitað storkun við framtíðina, storkun við börnin og framtíð þeirra í landinu, þá er efni frumvarpsins og textans svo vitlaust að það tekur engu tali. Skoðum hér a-lið 1. gr., hvað stendur þar? Það stendur þar að ákvæði 3. mgr. 4. gr. grunnskólalaganna eigi ekki að koma til framkvæmda --- skulu ekki koma til framkvæmda á árinu 1994--1995.
    Hvaða ákvæði eru það? Það eru ákvæðin um skólamáltíðir. Hverjir borga þær? Sveitarfélögin. Er ákvæðið þannig að það sé skylt að koma á skólamáltíðum? Nei. Ákvæðið er þannig að það er heimilt að gera það í áföngum og sveitarfélögin borga. Þetta er svo inni í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum, það á ekkert erindi þar inn. Það er vitleysa.
    Sérstaklega er þetta auðvitað hrópandi í himininn á árinu 1993--1994 þegar borgarstjórnaríhaldið í Reykjavík er að velta sér upp úr því og hæla sér af því og senda skrautbæklinga inn á hvert einasta heimili þar sem börn eru í Reykjavík, að hér sé verið að taka upp það sem kallað er heilsdagsskóli, sem er ágæt hugmynd að öllu öðru leyti en því að það er hvorki heilsdags né skóli. Að öðru leyti er hugmyndin fín. Það er ekki heilsdags vegna þess að það nær ekki yfir allan daginn fyrir öll börn, og það er ekki skóli vegna þess að þetta er yfirleitt gæsla eða geymsla frekar en uppeldisúrræði. En þarna er þó snarl eða matur í mörgum tilvikum, sem börnin borga fyrir. Samkvæmt orðanna hljóðan í þessu frumvarpi er þetta bannað. Árni Sigfússon er bannaður hér í þessu stjórnarfrumvarpi, bara bannaður. Það stendur hérna ,,skulu ekki koma til framkvæmda á árinu 1993--1994``. Þannig að hæstv. menntmrh. vill greinilega stoppa heilsdagsskólann eftir þessu að dæma.
    Af hverju er menn að setja hér inn svona vitleysu endalaust? Til hvers eru menn að því? Ég veit auðvitað að núverandi ríkisstjórn hefur vanið sig á það og núverandi ráðherrar hlusta alls ekki á neitt sem kemur frá stjórnarandstöðunni, ekki neitt. En væri nú ekki ráð að brjóta kannski aðeins odd af oflæti sínu, þegar það kostar nú einu sinni ekki krónu, og viðurkenna að það er endileysa að hafa þetta ákvæði hérna inni eins og það lítur út?
    Ég minni á að sparnaðurinn sem á svo að nást með b-lið 1. gr. er 160 millj. kr. í fjárlögum ársins 1994, 160 millj. kr. Það er ekki stór upphæð. Mig minnir að grunnskólinn sé milli 5 og 6 milljarðar króna, allur grunnskólinn. Hérna er í raun og veru ekki verið að gera neitt annað en það að hinir ráðherrarnir í ríkisstjórninni eru að segja við menntmrh.: Þú verður að gera eins og við hinir. Jafnvel þó að það séu í raun og veru engin rök fyrir því önnur, engin rök fyrir því. Ég bendi á að á síðasta þingi flutti ég, ásamt fleiri þingmönnum, tillögu um það að fella niður framlag til þessa ótrúlega Hæstaréttarhúss, sem á að fara að byggja uppi á bílastæðinu fyrir aftan Landsbókasafnið. Það var nokkurn veginn alveg sama upphæð sem átti að fara í það og hefði sparast á þessu ári við að skera niður grunnskólann með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.
    Ég held að það þurfi, virðulegi forseti, líka að tala nokkuð skýrt út með það, hvað ætla flokkarnir að gera varðandi þetta ákvæði framvegis? Ætla flokkarnir t.d. þegar kemur að kosningunum 1994 og 1995, að standa að því að framkvæma niðurskurðinn á grunnskólanum áfram? Verður þetta liður í kosningastefnuskrá Sjálfstfl., að halda áfram niðurskurði í grunnskólanum? Það verður auðvitað gengið mjög rækilega eftir því í kosningabaráttunni 1994 og 1995 hvort Sjálfstfl. ætlar að ganga áfram með þetta flagg.
    Hið sama er auðvitað að segja hér, virðulegur forseti, um Tækniskólann. Það er 3. og 4. gr. þessa frv. Tækniskólafrv. kom inn í þingið í fyrra, fyrr á þessu ári, og urðu miklar umræður um það. Það frv. var stoppað. Það var óeining um það í stjórnarflokkunum. Össur Skarphéðinsson, hæstv. umhvrh. núna, hefur verið forframaður ef svo mætti segja, þó það sé nú vafamál að svo sé því formennska í þingflokki er eins og kunnugt er virðulegt starf, eins og hæstv. menntmrh. þekkir. En hæstv. umhvrh. barðist um á hæl og hnakka á móti því að það yrðu tekin upp skólagjöld í Tækniskólanum. Ég hefði gjarnan viljað kanna það, virðulegi forseti, hvort hugsanlegt er að hæstv. umhvrh. sé hér í húsinu, til að það mætti spyrja hann að því hvort hann standi að því núna að leggja á skólagjöld í Tækniskólanum.
    ( Forseti (VS) : Hæstv. umhvrh. er í húsinu.)
    Mundi hæstv. forseti vilja vera svo vænn að kanna hvort ráðherrann vildi sýna okkur þann sóma að vera hér nærstaddur þessa umræðu.
    ( Forseti (VS) : Forseti mun gera ráðstafanir til þess.)

    Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fram komi upplýsingar um það hvort hæstv. umhvrh. er hlynntur þessu ákvæði miðað við það sem fram kom hér í hans máli í fyrra. Því þetta mál stöðvaðist hjá krötum í fyrra, þetta Tækniskólamál, það gerði það alveg örugglega. Og ég vil inna eftir því hvort þar hafi orðið á skoðanabreyting.
    Við skulum aðeins fara yfir skólagjaldamálið. Það var haustið 1991 sem umræða hófst um þessi skólagjöld. Við sögðum þá, stjórnarandstæðingar, það er ekki heimilt að leggja á skólagjald samkvæmt framhaldsskólalögum. Við töldum það ekki vera heimilt að leggja á skólagjald eftir framhaldsskólalögum eins og þau hljóða. Ég er í raun og veru þeirrar skoðunar að það sé alveg ótvírætt þannig að það sé ekki heimilt, vegna þess að í framhaldsskólalögum stendur að ríkið eigi að borga rekstrarkostnað framhaldsskólans alveg 100%. Engu að síður hefur núv. ríkisstjórn ákveðið að innheimta sérstök skólagjöld í framhaldsskólunum, en hún hefur ekki breytt lögum í því skyni, þ.e. ekki framhaldsskólalögunum. Framhaldsskólalögunum hefur ekki verið breytt. Mér er kunnugt um það að Alþfl. stóð þar fastur fyrir, var á móti því að taka upp skólagjöld í framhaldsskólunum, Alþfl. var svo góður við framhaldsskólanemendur þá. Nú er það hins vegar svo að allt í einu er flutt hér stjfrv. þar sem smyglað er inn ákvæði um skólagjöld í Tækniskólanum, smyglað inn í þetta frv. Og það er óhjákvæmilegt að inna nánar eftir því hvernig á því stendur. Þau ákvæði sem lúta að Tækniskólanum eru í raun og veru tvær greinar. Í fyrri greininni segir:
    ,,Síðasta málsgrein 1. gr. laganna [nr. 66/1972] falli brott.``
    Hvað stendur nú þar, með leyfi forseta? Í síðustu málsgrein stendur:
    ,,Kostnaður við stofnun og rekstur skólans greiðist úr ríkissjóði.``
    Kostnaður við stofnun og rekstur skólans greiðist úr ríkissjóði. Þessa setningu á að fella alveg niður um leið og skólagjöldin eru tekin upp. Það er auðvitað mjög athyglisvert að á sama tíma og í 4. gr. er gerð tillaga um að taka upp skólagjöld, þá er sett inn ákvæði um að fella niður skyldur ríkisins til að kosta rekstur og stofnkostnað Tækniskóla Íslands. Þýðir með öðrum það að fræðilega séð, teorískt séð, er hugsanlegt að fjármagna allan rekstur Tækniskólans með skólagjöldum. ( Menntmrh.: Þetta er algert rugl, algert rugl.) Hæstv. ráðherra getur væntanlega beðið um orðið hér er það ekki? (Gripið fram í.) Algert rugl að gefa honum orðið? Nei, það er það ekki, það er alveg stórsniðugt að gefa honum orðið. (Gripið fram í.) Það er rétt, það er rétt, það væri algert rugl hjá hæstv. ráðherra. ( Menntmrh.: Það er búið að fara í gegnum þetta allt áður.) Nei, ekki fyrir hæstv. umhvrh. sem nú er kominn í salinn og er boðinn sérstaklega . . .   ( Menntmrh.: Það er búið að fara í gegnum þetta allt áður.) Nei, það er misskilningur. Þetta frv. hefur aldrei verið rætt hér á Alþingi áður, hæstv. ráðherra, aldrei nokkurn tímann. ( Menntmrh.: Ég er nú hræddur um það.) Nei, þetta frv. hefur aldrei verið rætt hér. (Gripið fram í.) Nei, ekki þetta akkúrat. ( Menntmrh.: Sömu ákvæðin.) Ja, ekki þetta frv.
    ( Forseti (VS) : Það er hv. 9. þm. Reykv. sem hefur orðið.)
    Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því, hæstv. forseti, að fella niður þessi orð úr lögunum um Tækniskólann, hæstv. umhvrh.: ,,Kostnaður við stofnun og rekstur skólans . . .  
    ( Forseti (VS) : Forseta þykir leitt að þurfa að tilkynna að nú er kl. orðin fimm og það hafði verið ákveðið að nú hæfust þingflokksfundir.)
    Spurningin er, hæstv. forseti, hvort ég mætti ljúka spurningu minni til hæstv. umhvrh., þannig að hann mætti hugsa um hana í skjóli náttmyrkurs einhvers staðar annars staðar í bænum og svara svo síðar?
    ( Forseti (VS) : Ef það tekur mjög stuttan tíma þá er hv. þm. heimilt að bera upp spurninguna.)
    Það tekur hálfa mínútu. Það eru felld niður þessi orð:
    ,,Kostnaður við stofnun og rekstur skólans greiðist úr ríkissjóði.``
    Sem þýðir það að í raun og veru væri hægt að kosta allan reksturinn og stofnkostnað Tækniskólans með skólagjöldum. Hæstv. umhvrh. var á móti þessari ósvinnu í fyrra. Og ég spyr: Hefur honum snúist hugur? Ef svo er, af hverju?
    Þetta var spurningin, hæstv. forseti, og ég þakka þolinmæðina og mun þá halda ræðu minni áfram í fyllingu tímans.