Umræða um skýrslu Byggðastofnunar

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 10:33:09 (2388)

[10:34]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Virðulegur forseti. Nú er það svo að það situr aðeins einn forseti í stólnum á hverjum tíma og hann tilkynnir að sjálfsögðu hvað er á dagskrá. Við þingmenn höfum fengið prentað skjal í hendur þar sem farið er yfir þá dagskrá sem ætlað er að taka fyrir á haustþingi. Þar var skýrsla Byggðastofnunar sett niður á ákveðinn tíma en þegar kom að því að hún yrði rædd var tilkynnt að hæstv. forsrh. væri veikur. Nú rengi ég ekki þá tilkynningu á þeim tíma og þeirri stundu. Hins vegar þykist ég hafa sannfrétt það að hæstv. forsrh. sé kominn til hinnar bestu heilsu. Því er það mín spurning til forseta: Þegar það gerist að tilkynntur er frestur með þessum hætti færist þá það verkefni sjálfkrafa aftast í röðina eða má gera ráð fyrir því að það sé fært til og að það haldi velli á haustþingi? Það hlýtur að vera ærið umhugsunarefni fyrir venjulegan þingmann sem horfir á dagskrá haustsins hvort hann megi búast við því að ef það verði veikindi hjá ráðherra þá fari málin endanlega út af dagskrá og komi kannski ekki fyrr en á vorþingi. Ég leita þess vegna mjög ákveðið eftir svari við þessu og vænti þess að hæstv. forseti geri grein fyrir málinu.