Umræða um skýrslu Byggðastofnunar

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 10:36:23 (2390)


[10:36]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með málshefjanda að það ber ekki góðan svip varðandi störf þingsins að það þurfi að koma til sérstaks eftirrekstrar varðandi stórmál sem eru búin að fá fastan sess í starfsáætlun en er síðan frestað af ástæðum sem ekki er ástæða til að gera athugasemdir við á tilteknum degi. En þá hljótum við að ganga út frá því að viðkomandi liður komi við fyrstu hentugleika á dagskrá

þingsins og það þurfi ekki að hafa um það mörg orð hér.
    Hér er nú ekki um annað og minna að ræða heldur en skýrslu Byggðastofnunar varðandi byggðamál. Það er orðið ansi langt síðan þau efni hafa verið rædd hér, síðan þau hafa komið hér til umræðu. Ég vil reyndar ekki fullyrða um dagsetningar en mig minnir að því hafi verið frestað á síðasta þingi að taka málin til umræðu og það sé mikil þörf á því að þessi mál séu rædd hér, m.a. í tengslum við afgreiðslu fjárlaga sem er dagskrármál fundarins, fjárlagafrv. til 2. umr. Auðvitað hefðu þessi byggðamál þurft að vera komin hér á dagskrá og vera rædd áður en þessi umræða fer fram. Því tek ég eindregið undir áskorun málshefjanda um það að úr þessu verði bætt en hér boðar forseti að þessi mál eigi að liggja fram á næsta ár án þess að þau komi til umræðu. En ég treysti forseta til að endurskoða þá skipan mála.