Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 10:51:02 (2401)


[10:51]
     Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigbjörn Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Í ræðu minni við 1. umr. fjárlaga á dögunum sagði ég að sérhagsmunir hefðu fengið of miklu um ráðið í ríkisfjármálum á undangengnum tveimur áratugum. Heildarvandinn hefði setið á hakanum en öll orka farið til deilna um hin smæstu atriði. Einn helsti vandi íslensku þjóðarinnar væri ístöðuleysi þeirra sem með fjármuni hennar fara. Þegar á hefur bjátað hafa verið slegin ný lán og látið undan þörfum, þörfum sem á stundum hafa ekki verið raunverulegar eða brýnar. Þannig hafa lántökur síðustu áratuga í allt of ríkum mæli farið til þess að viðhalda lífsstíl og samneyslu á tímum samdráttar í efnahagslífi í stað þess að fara til gjöfulli verkefna sem megi í framtíðinni skila þjóðinni auknum arði og velsæld. Við höfum gjarnan eytt fjármununum fyrir fram í þeirri von að handan við hornið bíði ávinningur. Sú von um ávinning sem blundað hefur í brjóstum okkar hefur hvað eftir annað brostið á síðustu árum, reynst tálvon. Af þessari braut verður að snúa. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur tekist á við vandann með ýmsum aðgerðum sem nánar verður vikið að síðar. Ýmsar þær aðgerðir hafa verið sársaukafullar en til þeirra hefur verið gripið til að komast hjá enn meiri sársauka fyrir þá sem landið munu erfa. Við höfum ekki til þess nokkurn rétt að skila börnum okkar skuldbindingum sem munu reynast þeim óbærilegar og hefta möguleika þeirra til sjálfstæðra ákvarðana. Þessar eru hinar einföldu staðreyndir sem við þingmenn og þjóð stöndum frammi fyrir. Smærri hagsmunir verða að víkja fyrir hinum stærri.
    Eitt af meginverkefnum Alþingis er að afgreiða fjárlög. Þær ákvarðanir sem teknar eru við afgreiðslu fjárlaga eru mikilvægur þáttur í efnahagsstjórn í landinu á hverjum tíma og geta skipt sköpum um árangur hennar. Ljóst er að þau markmið sem núverandi ríkisstjórn setti sér um að eyða ríkissjóðshallanum hafa ekki náð fram að ganga. Ástæðu þess má fyrst og fremst rekja til óhagstæðra ytri skilyrða innan lands sem utan. Þar ber fyrst að nefna skertar aflaheimildir og þá hefur mikil alþjóðleg efnahagskreppa haft veruleg áhrif til hins verra á viðskiptakjör okkar Íslendinga. Efnahagssamdrátturinn sem fylgt hefur í kjölfar þessarar þróunar hefur veikt stöðu atvinnulífsins sem leitt hefur til meira atvinnuleysis hér á landi en þekkst hefur um langt árabil. Aukið atvinnuleysi og minni atvinna hefur svo leitt til að staða heimila í landinu hefur versnað til muna.
    Ríkisstjórnin hefur gripið til margvíslegra aðgerða til að mæta þessum vanda, m.a. með því að veita framlög úr ríkissjóði til framkvæmda og atvinnuskapandi verkefna. Þá hafa skattar á atvinnufyrirtæki verið lækkaðir. Allt er þetta gert til að styrkja atvinnulífið í landinu og verjast því að atvinnuleysi hér á landi verði svipað og gerist í nágrannalöndum okkar.
    Þjóðhagsáætlun sem lögð var fram hér í upphafi þings, gerir ráð fyrir því að á árinu 1994 dragist bæði landsframleiðsla og þjóðartekjur saman um 2,6%. Það stefnir því í aukinn samdrátt miðað við yfirstandandi ár en á þessu ári er reiknað með að landsframleiðslan aukist um 0,5% en þjóðartekjur minnki um 1,9% vegna mikillar lækkunar á verði sjávarafurða.
    Þá er atvinnuleysi talið aukast á næsta ári vegna samdráttar í þjóðarbúskapnum og stefnir í 5,5% atvinnuleysi á árinu 1994 miðað við 4,5% á þessu ári. Því er spáð að verðbólga muni verða 3% á milli áranna 1993 og 1994. Ef litið er til lengri tíma má ætla að botni hagsveiflunnar verði náð á næsta ári og því megi búast við nokkrum hagvexti næstu ár þar á eftir. Sá bati er þó að mörgu leyti háður ytri aðstæðum. Efnahagslægðin í helstu viðskiptalöndum okkar hefur nú varað um alllangt skeið og horfur um bata bæði óvissar og afar mismunandi eftir löndum. Þó er því spáð að hagvöxtur í iðnríkjum muni smám saman glæðast á næstu mánuðum.
    Áætlað er að heildarafli landsmanna á árinu 1993 verði um 1.865 þús. tonn sem er tæplega 19% meiri afli í tonnum en árið 1992. Þessi aukning skýrist öll af aukningu loðnuafla um 300 þús. tonn. Hins vegar stefnir í að þorskaflinn 1993 verði sá minnsti sem veiðst hefur á Íslandsmiðum í marga áratugi.
    Úthlutun aflaheimilda á Íslandsmiðum fyrir yfirstandandi fiskveiðiár felur í sér verulega minnkun þorskafla eða um 30% og því stefnir í talsverðan samdrátt heildarafla milli ára þrátt fyrir aukningu annars afla en þorsks. Talið er að heildaraflinn á árinu 1994 verði 7,6% minni en hann var á því ári sem nú

er að líða, reiknað á föstu verði. Erfiðara er að áætla afla af öðrum miðum en Íslandsmiðum en veiðar í Smugunni hafa verið umtalsverð búbót fyrir þjóðarbú okkar í haust. Ekki er ólíklegt að fleiri möguleikar verði reyndir á næstunni en erfitt er að áætla umfang þeirra.
    Viðvarandi halli á ríkissjóði á liðnum árum hefur aukið á skuldastöðu hans. Skuldir ríkissjóðs í árslok 1992 námu 236 milljörðum kr., en á því ári hækkuðu skuldir ríkissjóðs um rúmlega 25 milljarða kr. Af heildarskuldum ríkissjóðs námu lífeyrisskuldbindingar vegna opinberrar starfsemi tæplega 58 milljörðum kr. Þegar tekið hefur verið tillit til peningalegra eigna og þær dregnar frá skuldum eru nettó peningalegar skuldir ríkissjóðs í árslok 1992 um 150 milljarðar kr. Það þýðir með öðrum orðum að ef greiða ætti upp allar skuldirnar þyrfti að ráðstafa öllum tekjum ríkisins í næstum eitt og hálft ár til greiðslu skulda.
    Þá hafa fjármagnsgjöld vegna þessara skulda verið að vaxa á liðnum árum og er svo komið að um 12% af tekjum ríkissjóðs er ráðstafað til greiðslna þeirra. Þó svo að fjármagnstekjur séu dregnar frá nema nettó fjármagnsgjöld um 7 milljörðum kr. Þegar þessi tala er borin saman við heildarútgjöld einstakra ráðuneyta eru það einungis menntmrn. og heilbr.- og trmrn. sem eru með hærri útgjöld í krónum talið en nemur nettó fjármagnsgjöldum sem ríkissjóður þarf að greiða.
    Af þessu má ráða að eitt brýnasta verkefnið á sviði ríkisfjármála er að minnka skuldsetningu ríkissjóðs. Ljóst er að þrátt fyrir að ekki hafi tekist hjá núverandi ríkisstjórn að vinna bug á rekstrarhallanum hafa ýmsar aðgerðir til að ná fram hagræðingu og sparnaði borið árangur. Hvers vegna það hefur ekki birst í minnkandi rekstrarhalla má skýra með því að samdrátturinn í efnahagslífinu hefur leitt til minni tekna ríkissjóðs að raungildi og svo hinu að aukin útgjöld vegna atvinnuleysis, svo og aðgerða stjórnvalda í tengslum við almenna kjarasamninga, hafa að stórum hluta vegið upp þann sparnað sem náðst hefur.
    Mikil umræða hefur farið fram um skattsvik á undanförnum mánuðum í kjölfar skýrslu fjmrn. um skattsvik og aðgerðir til úrbóta gegn þeim. Ein meginniðurstaðan í þeirri skýrslu var að óframtaldar tekjur hafi numið sem svarar tæpum 4,5% af landsframleiðslu fyrir árið 1992. Þetta samsvarar því að um 16 milljarðar hafi ekki verið gefnir upp til skatts og tekjutap ríkis og sveitarfélaga sé um 11 milljarðar vegna þessara skattsvika, auk ofáætlaðs innskatts. M.a. þess vegna hafa margir talið að lækkun matarskatts nái ekki tilætluðum árangri þar sem stærstur hluti lækkunarinnar lendi í vasa skattsvikara en ekki á borði neytenda, auk þess sem skattbreytingin kalli á aukinn mannafla í skattkerfinu.
    Afleiðingar skattsvika eru margar og alvarlegar. Ein af þeim er sú sem að framan er lýst, þ.e. vegna þess að opinberir aðilar verða af umtalsverðum skatttekjum sem aftur leiðir til þess að skattgreiðendur nú og í framtíð þurfa að bera þyngri byrðar en ella. Skýrsluhöfundar telja brýnt að yfirvöld skattamála breyti áherslum sínum og taki upp markvissa stefnu til þess að uppræta skattsvik.
    Ríkisstjórnin hyggst bregðast hart við skattsvikum á næsta ári og er lagt til nú við 2. umr. að veita aukið fé til skatteftirlits og til að efla starfsemi skattyfirvalda.
    Eins og ég gat um hér að framan hefur verið unnið að sparnaði í ríkisrekstri á undanförnum árum. Þær aðgerðir hafa yfirleitt gengið út á að draga saman rekstrarkostnað að óbreyttu rekstrarumfangi stofnana með flötum niðurskurði. Það er ljóst að sú sjálfvirkni sem var á árum áður í útgjöldum ríkisins hefur að mestu leyti verið stöðvuð. Í því samandi má benda á að sú stöðuga aukning sem varð á fjölgun ríkisstarfsmanna er ekki fyrir hendi í dag. Telja verður að tími ákvarðana er varða flatan niðurskurð sé að lokum kominn og nú þurfi að taka pólitíska ákvörðun um hvaða þjónustuhlutverki hið opinbera á að sinna. Þá tel ég mjög mikilvægt að ráðist verði í það með skipulögðum hætti að meta árangur af rekstri ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja.
    Í því sambandi tel ég ástæðu til að vekja athygli hv. alþm. á því sem fram kemur í endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna um ríkisreikninginn 1992, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fullyrða má að enn megi ná talsverðum árangri með aukinni hagræðingu og minni sóun á verðmætum í rekstri ríkisstofnana án þess að draga úr þeirri þjónustu sem veitt er. Þó þannig sé fyrir hendi ákveðið svigrúm til að lækka kostnað kemur að því að minni framlög til ákveðins málaflokks hljóta að hafa í för með sér skerta þjónustu af hálfu þeirra aðila sem í hlut eiga. Til þess að standa megi skynsamlega að ákvarðanatöku um skerðingu framlaga er nauðsynlegt að fyrir hendi séu aðferðir til að meta árangur af rekstri ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana. Slíkur mælikvarði yrði þá lagður til grundvallar við forgangsröðun verkefna og ákvarðanir um nýja útgjaldaliði. Eins og staðan er í dag er stofnunum settur ákveðinn útgjaldarammi í fjárlögum hvers árs til að sinna þeirri þjónustu sem þeim lögum samkvæmt er ætlað að veita. Hins vegar er hvergi skilgreint hve mikla þjónustu viðkomandi stofnanir skulu inna af hendi né hver gæði hennar skuli vera. Árangur stofnana er oft mældur eftir því hvernig þeim tekst að haga rekstri sínum innan ramma fjárlaga án tillits til þess hvort dregið sé úr veittri þjónustu. Á sama hátt eru stofnunum stundum settir útgjaldarammar sem fengnir eru með flötum niðurskurði á útgjöldum fyrra fjárlagaárs.
    Mat á rekstrarárangri er mun erfiðara en mat á árangri einkafyrirtækja. Ólíkt afkomutölum atvinnufyrirtækja sem rekin eru í ágóðaskyni liggur ekki fyrir neinn einhlítur mælikvarði á árangri ríkisstofnana. Mismunur tekna og gjalda segir ekki til um hvort þau verðmæti sem til verða við starfsemi stofnunar séu meiri eða minni en þau verðmæti sem ráðstafað er til starfseminnar. Úr ríkisreikningi verður ekki lesið hversu vel eða illa einstakar stofnanir ríkisins hafa staðið sig á árinu. Ýmsar aðferðir hafa verið þróaðar í öðrum löndum í þeim tilgangi að meta árangur af starfsemi opinberra aðila. Þó ekki sé hægt að segja

að fundist hafi algildir mælikvarðar sem nota megi í þessum tilgangi, má fullyrða að sú viðleitni hafi orðið til þess að efla kostnaðarvitund og ef að líkum lætur orðið til þess að skynsamlegar sé staðið að ákvörðunum um útgjöld en ella. Þessu tengist einnig sú eðlilega krafa skattborgaranna að stofnanir ríkisins geri skilmerkilega grein fyrir árangri af þeirri starfsemi sem þeir bera kostnaðinn af.``
    Ég vil taka undir þessar ábendingar og tel mikilvægt að slíkri vinnu sem að framan er getið sé hrint í framkvæmd en grundvöllur að slíku mati er að stofnunum verði sett skýr markmið um þjónustu og að þróaður verði mælikvarði sem nota má til að meta árangur þeirra.
    Meginforsenda fjárlagafrv. fyrir árið 1994 tekur mið af annars vegar framvindu ríkisfjármála á árinu 1993, horfum um umtalsverðan samdrátt í efnahagslífinu á árinu 1994 og að stjórnvöld hafa gengist undir ákveðnar skuldbindingar í tengslum við gerð kjarasamninga á sl. vori og ber frv. þess merki.
    Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 9,8 milljarða kr. halla á ríkissjóði á árinu 1994. Hallinn nemur 2,5% af landsframleiðslu samanborið við 3,2% áætlaðan halla á þessu ári. Hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs er áætluð 12 milljarðar kr.
    Við þær aðstæður sem lýst hefur verið hér að framan ber brýna nauðsyn til að horfa fram á veginn og leggja grunn að framfarasókn. Það er enn mikilvægara nú en áður vegna þess að með auknum alþjóðasamskiptum, með aukinni sókn íslenskra ungmenna í menntun erlendis á síðustu árum og auknum möguleikum til starfa erlendis eykst samkeppni um hæfileikaríkustu og dugmestu einstaklingana. Verkefnið sem við er að glíma er ekki einungis að fá þessu fólki störf við hæfi, heldur einnig að skapa þær ytri aðstæður að sá kraftur sem í því býr fái að njóta sín við arðbær og skapandi verkefni.
    Sem fyrr er fjármagn eitt þeirra grundvallarskilyrða að þetta megi takast. Án fjármagns verður engin nýsköpun. Stuðningur við hagnýtar rannsóknir og þróunarstarf fyrirtækja á sviði hönnunar, vöruþróunar, framleiðslutækni og markaðsaðgerða er í reynd einn mikilvægasti þátturinn í atvinnustefnu stjórnvalda. Því ber að fagna að þessi mál eru nú orðin ríkur þáttur í efnahags- og atvinnumálaumræðunni og eru metnir að verðleikum sem snar þáttur í nauðsynlegum efnahagsaðgerðum.
    Ólíkt því sem var á fyrstu áratugum aldarinnar þegar blásið var til sóknar í íslensku atvinnulífi er þjóðin ekki lengur fjárvana. Það ríður á miklu að nýta fjármagnið vel og beina því í verkefni sem treysta grunn atvinnulífsins og örva vöxt þess og viðgang. Ekki síst þarf að örva nýjar útflutningsgreinar. Þetta er stóra verkefnið sem blasir við.
    Við Íslendingar eigum meira undir alþjóðaviðskiptum komið en flestar aðrar þjóðir. Milliríkjaviðskipti eru driffjöður hagvaxtar ef framleiðslukostnaður hvers lands og hvers fyrirtækis fá að njóta sin hindrunarlaust. Þá gerir hver og einn hvað hann best getur. Snúist hagþróun í helstu viðskiptalöndum okkar til betri vegar, virðast horfur fyrir íslenskan þjóðarbúskap allgóðar nokkur næstu ár. Þótt nokkur samdráttur landsframleiðslu sýnist óumflýjanlegur á árinu 1994 vegna skerðingar í þorskafla, virðist mega ætla að á næstu árum þar á eftir fari fiskverndin á undanförnum árum að skila árangri í auknum afla. Síðustu spár benda til að um og eftir miðjan þennan áratug verði hagvöxtur á ný meiri en fólksfjölgun.
    Ekki leikur á því vafi að samkeppnisstaða íslenskra atvinnuvega hefur verið að batna að undanförnu vegna aðgerða ríkisstjórnar sem tryggja lága verðbólgu, lágt raungengi, lækkun skatta á fyrirtækjum með afnámi aðstöðugjalds og lækkun tekjuskatts og vegna opnunar markaða bæði innan lands og milli landa. Þegar á því ári sem nú er að líða má greina slík áhrif í auknum útflutningi nýrra greina á Íslandi.
    Til þess að bætt starfsskilyrði fái notið sín til fulls er mikilvægast að milliríkjaviðskipti glæðist. Þar eru vonir við það bundnar að á næstu sólarhringum liggi fyrir farsæl niðurstaða í GATT-viðræðunum sem kenndar eru við Úrúgvæ og hafa senn staðið yfir í sjö ár. Staðfesting EES-samningsins og NAFTA, fríverslunarsamnings Norður-Ameríkuríkjanna þriggja, eru ekki síður mikilvæg skref til að styðja batann í efnahag iðnríkjanna á Vesturlöndum. Það sem sameinar flesta ef ekki alla möguleika til framfara á Íslandi í framtíðinni er að þeir þurfa á opnum möguleikum og hagvexti í umheiminum að halda.
    Ég hef hér á undan vikið að nauðsyn þess að draga úr halla ríkissjóðs. Ég minni á óleystan skipulagsvanda í hefðbundnum atvinnugreinum þjóðar okkar, sjávarútvegi og landbúnaði. Í skipulagsumbótum í þessum greinum eru reyndar fólgnir mikilvægir möguleikar til framfara. Með umbótum á fjármagnsmarkaði og minnkandi lánsfjárþörf má stuðla að lækkun verðbólgu, jafnari og lægri nafnvöxtum og lægri raunvöxtum til frambúðar. Mikilvægustu skilyrði til framfara eru nú stöðugleiki í efnahagsmálum og örvun til nýsköpunar. Fljótt á litið gæti svo virst að í þessu felist mótsögn, þ.e. að nýsköpun og stöðugleiki séu andstæður. Svo er ekki. Peningamálastefna sem miðar að verðstöðugleika bætir skilyrði fyrir lágum langtímavöxtum. Slík stefna í peningamálum er brýn til að mynda stöðugt efnahagsumhverfi, sem hvetur til nýjunga og fjárfestingar fyrirtækja og einstaklinga sem er undirstaða hagvaxtar þegar til lengdar lætur. Þetta á ekki aðeins við um stöðugt verðlag heldur einnig gengi og vexti og önnur starfsskilyrði atvinnulífsins. Þannig styður stöðugleikinn nýsköpun.
    Fjárlaganefnd hóf undirbúning að afgreiðslu fjárlagafrv. 27. sept. sl. með viðræðum við sveitarstjórnarmenn. Eins og áður auglýsti nefndin viðtalstíma þar sem þeim aðilum sem þess óskuðu var gefinn kostur á að bera upp erindi sín við nefndina. Þá kallaði nefndin fyrir sig forsvarsmenn helstu stofnana ríkisins svo og ráðuneyta til viðræðna um starfsemi þeirra og fjárframlög.
    Eins og undanfarin ár fengu fastanefndir Alþingis til umsagnar þann þátt fjárlagafrv. sem fjallaði um málefnasvið þeirra. Nefndirnar skiluðu áliti sínu og fylgja þau með áliti meiri hluta fjárln. Þessi háttur er skilyrðislaust til bóta fyrir störf fjárln. Það hefur einnig komið fram að þessi yfirferð fagnefnda eykur nefndarmönnum þekkingu á fjárhagslegum málefnum viðkomandi stofnana og ráðuneyta. Eigi að síður er tekið undir þau sjónarmið sem fram koma í álitsgerðum nokkurra fastanefnda að nauðsyn beri til að koma á fastari skipan á fyrirkomulag samskipta fjárln. og annarra fastanefnda þingsins. Nú þegar hefur verið haldinn fundur formanna nefnda þingsins þar sem viðhorfum var lýst og sammælst um að taka þráðinn upp á nýju ári undir forustu fjárln.
    Nefndin hefur haldið 38 sameiginlega fundi og fjöldi aðila hefur komið á fund nefndarinnar. Þá hafa einstök ráðuneyti og að sjálfsögðu fjmrn. veitt nefndinni aðstoð við úrvinnslu frv. Fyrir hönd nefndarmanna vil ég þakka öllum aðilum fyrir gott samstarf í hvívetna.
    Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem til hennar bárust. Fyrir liggja breytingartillögur frá meiri hluta nefndarinnar sem hér eru til umfjöllunar að upphæð samtals 681,4 millj. kr. til hækkunar á 4. gr. frv. Rétt er að geta þess í þessu sambandi að hækkanir vegna Vegagerðar ríkisins nema 345 milljónum kr. en lækkanir þar á móti koma fram við 3. umr. þegar fjallað verður um tekjuhliðina og þá munu ýmsar aðrar lækkanir koma fram.
    Samkvæmt venju bíða 3. umr. afgreiðsla á tekjuhlið frv., B-hluta, og heimildir skv. 6. gr. Auk þess bíða ýmis viðfangsefni 3. umr., bæði smærri og stærri, sem nefndin hefur enn til umfjöllunar. Í því sambandi má nefna Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og sjúkrahúsin í Reykjavík.
    Mun ég nú víkja að einstökum þáttum þeirra brtt. sem meiri hlutinn leggur til og flytja við þær skýringar. Undir álit meiri hlutans rita Sigbjörn Gunnarsson, Sturla Böðvarsson, Árni Johnsen, Árni M. Mathiesen, Einar K. Guðfinnsson og Gunnlaugur Stefánsson.
    1. brtt. Á aðalskrifstofu forsrn. er í fjárlögum 1993 sérstök fjárveiting til fjarvinnslu og er styrkurinn hluti af sérstöku átaki til að efla fjarvinnslu tölvufyrirtækja utan höfuborgarsvæðisins fyrir opinberar stofnanir. Fjárhæðin hefur verið notuð til að skrá aðalefnisyfirlit Alþingistíðinda í tölvugagnagrunn. Nú er gerð tillaga um að fjárhæð þessi verði færð undir þingmálaskrifstofu Alþingis til að hægt verði að sinna þessu verkefni á næsta ári. Gert er ráð fyrir að hægt verði að skrá 4--7 árganga Alþingistíðinda til viðbótar.
    2. brtt. Framlag til launa hæstaréttardómara lækkar um 3,2 millj. kr. í 38,5 millj. kr. í kjölfar nýfallins úrskurðar Kjaradóms þar sem greiddum yfirvinnustundum hæstaréttardómara var fækkað frá því sem áður var.
    3. brtt. Framlag til umboðsmanns Alþingis er hækkað um 3 millj. kr. Launagjöld eru hækkuð um 1,3 millj. kr. Ekki er um að ræða fjölgun starfsmanna heldur er tekið mið af fyrirsjáanlegri yfirvinnu við umfjöllun kvartana og fyrir tímabundna aðstoð vegna afleysinga og vinnu við ársskýrslu umboðsmannsins. Hækkun annarra rekstrargjalda og eignakaupa í rekstri er m.a. vegna prentunarkostnaðar við ársskýrslu og nauðsynlegrar endurnýjunar og viðbóta við tölvubúnað embættisins.
    4. brtt. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1994 varð misskilningur varðandi skiptingu á kostnaði af rekstri Þjóðhagsstofnunar. Lagt er til að þetta verði leiðrétt og að sértekjur lækki af þeim sökum.
    5. brtt. Framlag til Byggðastofnunar er hækkað um 15 millj. kr. vegna atvinnuráðgjafa í landshlutunum. Í fjárlögum 1992 var kostnaður vegna atvinnuráðgjafa færður til Byggðastofnunar í samræmi við ákvæði laga nr. 39/1991, um breytingar á lögum um Byggðastofnun, sem kveður á um þátttöku stofnunarinnar í kostnaði við starfsemi atvinnuráðgjafa. Þessari breytingu fylgdi ekki viðbótarfjárveiting til Byggðastofnunar og er hér með lagt til að bætt verði úr því.
    6. brtt. Rannsóknastarfsemi á vegum Háskóla Íslands hefur verið komið á allvíða um land með góðum árangri og nú síðast hafa Vestmannaeyjabær og Háskóli Íslands gert með sér samning á sviði rannsókna og þróunar. Einnig er fyrirhugað að útibú Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnunar í Vestmannaeyjum reki sameiginlega aðstöðu með Háskóla Íslands. Tillaga fjárln. um framlag er annars vegar ætlað til að kosta stöðu starfsmanns sem annast á daglegan rekstur í Vestmannaeyjum og hafa verkefnisumsjón í einstökum verkefnum. Hins vegar eru ætlaðar 12 millj. kr. til kaupa og umbóta á húsnæði í Vestmannaeyjum. Heildaráætlun hljóðar upp á 20 millj. kr. og mun Vestmannaeyjabær greiða það sem upp á vantar eða 8 millj. kr.
    7. brtt. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1993 gerði fjárln. tillögu um hækkun framlags til Raunvísindastofnunar Háskólans vegna hálfrar stöðu sérfræðings við NMR-kjarnarófstækið. Tæki þetta er mjög vandmeðfarið í notkun og krefst því meðhöndlunar sérfræðings. Nú er gerð tillaga um að hækka launagjöld um 0,8 millj. kr. til að unnt verði að ráða sérfræðing í heila stöðu sem geti einbeitt sér óskiptur að rannsóknum og þjónustuvinnu á sviði kjarnarófsgreiningar.
    8. brtt. Framlag til Stofnunar Sigurðar Nordals er hækkað um 0,4 millj. kr. og þar með fær stofnunin sömu fjárhæð og á yfirstandandi ári.
    9. brtt. Kennaraháskóli Íslands hefur fengið húsnæði fyrrum hússtjórnarskóla að Varmalandi til ráðstöfunar og í fjárlagafrv. er fjárveiting vegna endurbóta og viðgerða. Ekki er þó gert ráð fyrir fjárveitingu vegna rekstrar hússins en óhjákvæmilegt er að greiða af því ýmis gjöld eins og brunatryggingar og orku ásamt umsjón með húsinu. Er hér gerð tillaga um 2,5 m. kr. hækkun á rekstri fasteigna Kennaraháskólans sem er ætluð sérstaklega til þessa. Einnig er gerð tillaga um 5 millj. kr. hækkun fjárveitingar til tækja og búnaðar skólans.

    10. brtt. Fjárveiting til óskipta liðarins undir almennri háskóla- og rannsóknastarfsemi er hækkuð um 1,5 millj. kr. og er sérstaklega ætluð Félagsstofnun stúdenta á Akureyri. Félagsstofnunin hefur staðið í verulegum byggingarframkvæmdum á undanförnum árum og hefur nú yfir að ráða 54 íbúðum og einstaklingsherbergjum.
    11. brtt. Lagt er til að viðhald framhaldsskóla lækki um 3 millj. kr. en sú fjárhæð er færð yfir á byggingarframkvæmdir. Til viðbótar við þessar 3 millj. kr. er framlag til framkvæmda hækkað um 30,5 millj. kr. Heildarframlag til viðhalds og byggingarframkvæmda verður þá 616,5 millj. kr. og er sundurliðun sýnd í brtt. meiri hluta fjárln. á þskj. 326.
    12. brtt. Lagt er til að óskiptur liður framhaldsskóla hækki um 50 millj. kr. Í fjárlagafrv. eru engar fjárhæðir til að mæta launaskriði og aldursflokkahækkunum sem kunna að eiga sér stað milli áranna 1993 og 1994 né heldur hafa verið bættar hækkanir vegna launasamninga sem gerðir hafa verið án þátttöku samninganefndar ríkisins eða fjmrn. Menntmrn. telur útilokað að skólakerfið geti mætt öllum þessum þáttum óbættum þar sem svigrúm til túlkunar á kjarasamningum kennara er mjög þröngt. Að auki hafa verið útfærðar bókanir í kjarasamningum við kennara með þátttöku samninganefndar ríkisins. Hækkunin er færð á óskiptan lið en verður dreift á einstaka skóla við gerð greiðsluáætlunar í upphafi næsta árs.
    13. brtt. Framlag til Flensborgarskóla er hækkað um 1,6 millj. kr. vegna kennslulauna.
    14. brtt. Lögð er til hækkun framlags til annars kostnaðar en kennslulauna Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi en þar er um að ræða launagreiðslur annarra starfsmanna en kennara í skólanum svo sem starfsfólk á skrifstofu, bókasafni, við ræstingar og húsvörslu. Eftir að ríkissjóður tók alfarið við rekstri framhaldsskóla hefur framlag á fjárlögum til skólans verið lægra en raunkostnaður var við yfirtökuna. Með þessari hækkun er komið á jafnvægi kostnaðar og fjárveitingar.
    15. brtt. Heildarframlag til Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu er hækkar um 900 þús. kr. en þar af eru 500 þús. kr. vegna lækkunar sértekna sem hafa verið ofmetnar og 400 þús. kr. vegna hækkunar annarra rekstrargjalda en launa.
    16. brtt. Kennslulaun Þroskaþjálfaskóla Íslands eru hækkuð um 0,6 millj. kr. en þau hafa lækkað að raungildi milli ára. Stjórnendur skólans hafa sýnt mikla ráðdeild í rekstri og ekki er réttlætanlegt að lækka fjárveitingu til skólans frekar. Á hverju ári sækja mun fleiri um nám við skólann en unnt er að taka við.
    17. brtt. Framlag til Héraðsskólans Reykholti í fjárlagafrv. tók mið af 60 nemendum. Í reynd er fjöldi nemenda við skólann nú um 100 talsins. Fjárveiting skólans er því hækkuð til samræmis við þann fjölda. Verði beyting á fjölda nemenda á næsta ári frá því sem nú er breytist greiðsluáætlun skólans til samræmis við það.
    18. brtt. Lagt er til að hækka framlag til byggða- og minjasafna, sem fært er á fjárlagalið Þjóðminjasafns Íslands, um 4,7 millj. kr. og verður heildarrekstrarframlag til þessara safna því 13 millj. kr. Þjóðminjavörður mun gera tillögu um ráðstöfun þessa fjár í samráði við fjárln. Að auki er í frv. til fjárlaga fyrir árið 1994 stofnkostnaðarframlag til byggða- og minjasafna að fjárhæð 5,7 millj. kr. en ekki er gerð hér tillaga um breytingu á þeirri fjárhæð. Til að mæta þessari hækkun að hluta er gerð tillaga um lækkun á óskiptum lið fjárlaga, Söfn, ýmis framlög.
    19. brtt. Lagt er til að veittar verði 20 millj. kr. til viðgerða á húsnæði Þjóðskjalasafns. Nú eru sjö ár liðin frá því að Þjóðskjalasafn flutti starfsemi sína að hluta að Laugavegi 162 og eru húsakynni safnsins þar nú fullnýtt en ekki hefur verið gengið frá geymslum safnsins né búnaði í þær. Framlagið er einkum ætlað til viðhalds utan húss og að koma í veg fyrir varanlegar skemmdir og dýrar viðgerðir síðar. Auk þess verði lögð áhersla á að tryggja örugga geymslu þeirra gagna sem þar eru varðveitt.
    20. brtt. Gerð er tillaga um hækkun framlags til Listasafns Sigurjóns Ólafssonar og eins og áður er getið lækkar framlag til óskipts liðar safna, að hluta til vegna hækkunar framlags til byggða- og minjasafna undir fjárlagalið Þjóðminjasafns.
    21. brtt. Framlag til æskulýðsmála er hækkað um 5,5 millj. kr. og er m.a. lögð til hækkun til Ungmennafélags Íslands og Bandalags íslenskra skáta. Heildarframlag til æskulýðsmála verður þá 30,5 millj. kr.
    22. brtt. Fjárlagaliðurinn Ýmis íþróttamál hækkar alls um 4 millj. kr. Framlag til Íþróttasambands fatlaðra hækkar um eina milljón króna en verkefni sambandsins eru umfangsmikil og kostnaðarsöm. Styrkir til íþróttafélaga hækka um 500 þús. kr. frá fjárlagafrv. og verða 14,5 millj. kr. og mun fjárln. að venju skipta þeirri fjárhæð í samráði við menntmrn. Framlag til Skákskóla Íslands að fjárhæð 2,5 millj. kr. er nú fært á sérlið en framlag til hans hefur verið veitt af safnlið undanfarin ár. Um skólann gilda lög nr. 76/1990 og þótti fjárln. eðlilegra að framlag til hans yrði sýnt í fjárlögum.
    23. brtt. Lögð er til hækkun framlags til aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins en búferlaflutningar manna í utanríkisþjónustunni munu verða meiri á næsta ári en gert hafði verið ráð fyrir við gerð fjárlagafrv. og kemur þessi viðbótarfjárveiting aðallega til af þeim sökum.
    24. og 25. brtt. Fjárveiting til sendiráðs Íslands í Washington hækkar um 3,5 millj. kr. en í ráði er að selja núverandi skrifstofuhúsnæði sendiráðsins á næsta ári og flytja í leiguhúsnæði og er gert ráð fyrir húsaleigu af þeim sökum. Einnig er lögð til hækkun tækjabúnaðarfjárveitinga sendiráða almennt og verður hún þá 10,3 millj. kr.
    26. brtt. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að taka þátt í stuðningi Norðurlandanna við Palestínumenn

á hernumdum svæðum Ísraela sem kemur til í framhaldi af friðarsamningum milli Palestínu og Ísraels. Stuðningur Íslands nemur alls 1,3 milljónum Bandaríkjadala og verður greiddur á næstu þremur árum. Á árinu 1994 er gert ráð fyrir að komi til greiðslu 0,5 milljóna dala eða um 36 milljóna íslenskra króna.
    27. brtt. Eins og fram kemur í nál. meiri hluta fjárln. er hækkun framlags til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins ætluð til afborgana af lánum vegna framkvæmda við tilraunastöðina á Stóra-Ármóti. Skuldastaða búsins er þannig að á búinu hvíla um 20 millj. kr. í langtímaskuldum og greiðslubyrði er um 2,7 millj. kr. á ári. Gert er ráð fyrir að ríkið komi að hálfu inn í afborganir á móti sunnlenskum bændum.
    28. brtt. Framlag til yfirdýralæknis er hækkað um 5,5 m.kr. vegna vaktakerfis dýralækna. Landbrh. skipaði í nóvember 1993 nefnd sem hafði það hlutverk að ganga endanlega frá vaktafyrirkomulagi héraðsdýralækna þannig að greitt yrði að fullu fyrir bakvaktir um helgar og á stórhátíðum í samræmi við bókun með kjarasamningi fjármálaráðherra og Dýralæknafélags Íslands frá 18. maí 1989. Nefndin skilaði áliti í mars sl. á þann veg að til að fullnusta samkomulagið þyrfti fjárveitingu að upphæð 7 millj. kr. á ári. Fyrir er fjárveiting að upphæð 1,5 millj. kr. og er því gerð tillaga um hækkun að fjárhæð 5,5 millj. kr.
    29. brtt. Breytingar á fjárlagalið Búnaðarfélags Íslands eru með tvennum hætti. Annars vegar er framlag til Búnaðarfélagsins lækkað um 2 millj. kr. og framlag til héraðsbúnaðarsambanda hækkað um jafnháa upphæð. Með þessari breytingu vill fjárln. leggja áherslu á að verkefni verði færð frá Búnaðarfélaginu til héraðsbúnaðarsambanda. Hins vegar eru teknar fjárhæðir út af viðfangsefnum Búnaðarfélags Íslands og héraðsbúnaðarsambanda sem svarar til greiðslu á uppbótum á lífeyri fyrrum starfsmanna þessara samtaka sem eru aðilar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og færðar á sérstakt viðfangsefni merkt Uppbætur á lífeyri. Fjárln. hefur lagt til hækkanir á framlögum til þessara aðila vegna lífeyrisskuldbindinga í fjárlögum og fjáraukalögum á undanförnum árum og telur rétt að sérmerkja þennan lið.
    30. brtt. Tekinn er inn nýr liður Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðið með 5 millj. kr. framlagi. Ráðið var stofnsett í september á árinu 1992 með þátttöku Íslands. Hins vegar láðist að gera ráð fyrir árgjaldinu til ráðsins í fjárlagafrv. Lagt er til að bætt verði úr því við afgreiðslu fjárlaga. Þá er lögð til 5 millj. kr. hækkun á viðfangsefni 132 undir fjárlagalið 190 Ýmis verkefni í sjávarútvegsráðuneyti. Hækkunin er ætluð til kynningar á sjónarmiðum Íslendinga í hvalveiðimálum.
    31. brtt. varðar framlag til Fiskifélags Íslands er hækkað um 500 þús. kr. og er ætlað til tæknideildar félagsins.
    30.--38. brtt. snerta embætti héraðsdómara. Flest embætti héraðsdómara hækka en laun héraðsdómara hækka samtals um 11 millj. kr. í kjölfar úrskurðar Kjaradóms. Héraðsdómurum voru úrskurðaðar auknar yfirvinnustundir frá því sem nú er.
    39. brtt. er um að Landhelgisgæsla Íslands greiði á tímabilinu septemer 1993 til 1. apríl 1994 laun sex skipstjórnarmanna sem stunda nám í varðskipadeild Sjómannaskólans í Reykjavík. Próf frá varðskipadeild veitir réttindi til skipstjórnar á varðskipum og var slík deild síðast hjá Sjómannaskólanum veturinn 1988--1989. Talið er nauðsynlegt að fleiri stýrimenn hjá Landhelgisgæslunni hefðu fullgild réttindi til skipstjórnar á varðskipunum en til að mæta þeim útgjöldum þarf að koma til hækkun framlags um 4 millj. kr. sem hér er gerð tillaga um.
    40. brtt. Við vinnslu fjárlagafrv. urðu mistök sem snúa að fyrirhugaðri sameiningu sýslumannsembættanna í Vík og á Hvolsvelli en viðbót við löggæslukostnað sameiginlega embættisins vegna áframhaldandi rekstrar lögreglunnar í Vík féll niður. Kostnaður þessi nemur um 5,3 millj. kr. og er hér gerð tillaga um hækkun til sýslumannsins á Hvolsvelli vegna þessa.
    Í 41. brtt. er lögð til 9 millj. kr. hækkun framlags til Hallgrímskirkju en kirkjan skuldar nú opinberum aðilum u.þ.b. 26 millj. kr. Framlagið er ætlað til að greiða 9 millj. kr. skuld við embætti húsameistara ríkisins. Fjárþörf kirkjunnar til áframhaldandi viðgerða og lúkningar á ýmsum byggingaframkvæmdum er mikil þó mikið hafi áunnist.
    42. brtt. Leigusamningur svæðisskrifstofunnar í málefnum fatlaðra á Norðurlandi eystra rennur út á næsta ári. Af endurnýjun þessa samnings getur ekki orðið og er hér lögð til hækkun vegna fyrirsjáanlegs aukins húsnæðiskostnaðar. Viðræður hafa átt sér stað milli svæðisskrifstofunnar, fræðsluskrifstofu Norðurlands eystra og Félagsmálastofnunar Akureyrar um samvinnu um húsnæðismál og samnýtingu á aðstöðu og búnaði.
    Í 43. brtt. er lagt er til að fjárveiting merkt Alþýðusambandi Íslands undir fjárlagalið 981 Vinnumál í félagsmálaráðuneyti verði felld niður og bætt við viðfangsefnið 190 Ýmislegt undir sama fjárlagalið. Meiri hluti fjárln. telur ekki eðlilegt að sérmerkja einum samtökum aðila vinnumarkaðarins fjárveitingu í fjárlögum heldur verði ráðherra falið að ráðstafa fé til aðila er sinna vinnumálum af óskiptum liðum. Þá vill meiri hluti fjárln. beina þeim tilmælum til ráðherra að af þeim lið verði veitt fé vegna þátttöku aðila vinnumarkaðarins í ráðgjafanefnd EFTA.
    44. brtt. fjallar um lífeyristryggingar sem hækka um 25 millj. kr. þar sem tekjutenging á greiðslum ekkjulífeyris er talin gefa 50 millj. kr. lækkun útgjalda í stað 75 millj. kr. eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrv.
    Í 45. brtt. er lagt er til að sjúkratryggingar lækki um 180 millj. kr. frá áætlun fjárlagafrv. Áætlun fyrir útgjöld sjúkratrygginga á næsta ári hefur verið endurskoðuð á grundvelli greiðslna á yfirstandandi

ári. Komið hefur í ljós að útgreiðslur á síðari hluta ársins eru til muna minni en talið var í sumar þegar áætlun fjárlagafrv. var gerð. Í ljósi þessa hefur áætlun næsta árs verið lækkuð um 400 millj. kr. Fallið hefur verið frá útgáfu á heilsukortum á næsta ári sem áttu að skila 400 millj. kr. til sjúkratrygginga. Þess í stað verður gripið til aðgerða innan sjúkratrygginga sem eiga að lækka útgjöldin um 180 millj. á næsta ári. Þar ber hæst áform um að lækka útgjöld vegna magasárslyfja um 100 millj. kr. Útgjöld sjúkratrygginga vegna slíkra lyfja eru talin nema um 400 millj. kr. í ár. Á grundvelli upplýsinga frá nágrannalöndunum má ætla að með útboðum og magninnkaupum á hjálpartækjum megi lækka þann kostnað um 50 millj. kr. eða sem svarar til um 10%. Þá er talið að með fjölgun hjartaaðgerða innan lands megi lækka erlendan ferða- og sjúkrakostnað sjúklinga um 15 millj. kr. Loks á að herða eftirlit með útgreiðslu sjúkradagpeninga sem á að spara 15 millj. kr. Að öllu samanlögðu lækka útgjöld sjúkratrygginga um 180 millj. kr. frá áætlun fjárlagafrv.
    46. brtt. fjallar um Krýsuvíkursamtökin. Framlag til Krýsuvíkursamtaka hefur verið fært hjá landlækni og verið undir eftirliti hans. Gerð er tillaga um að framlag þetta verði 11 millj. kr. á næsta ári. Samtökin reka vist- og meðferðarheimilið í Krýsuvík og reyna að mæta fyrst og fremst þörfum þeirra sem verst eru staddir vegna langvarandi vímuefnaneyslu og þarfnast langtímameðferðar og endurhæfingar.
    47. brtt. fjallar um Hollustuvernd og er eingöngu vegna óska um að breyta dreifingu framlaga á viðfangsefni. Heildarframlag til stofnunarinnar breytist ekki.
    48. brtt. fjallar endurhæfingarstöð hjarta- og lungnasjúklinga á Akureyri og hækkar vegna aukins rekstrarumfangs.
    51.--55. og 68. till. fjalla um framlög til nokkurra sjúkrahúsa sem hækka vegna leikskólareksturs en sem kunnugt er er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir að ríkið hætti rekstri leikskóla. Þessi áform hafa ekki gengið eftir og þarf því að koma til hækkun rekstrargjalda. Að hluta til er komið til móts við þessa hækkun með því að lækka rekstrarhagræðingarfé helbrigðisráðuneytisins.
    Brtt. merkt 53.b fjallar um sértekjur Ríkisspítala sem lækka þar sem horfið hefur verið frá því að selja hlutabréf í þvottahúsi spítalans. Áætlað söluverð nam um 60 millj. kr. og lækka því sértekjur um samsvarandi fjárhæð.
    56. brtt. Við fjárlagaliðinn Sjúkrahús og læknisbústaðir bætist nýr liður sem fær heitið Viðhald starfsmannaíbúða, óskipt. Framlag er 20 millj. kr. en sértekjur hækka um sömu fjárhæð og nettóáhrif því engin. Um næstu áramót verður sú breyting að leigutekjur allra starfsmannaíbúða renna í sameiginlegan sjóð sem standa mun undir rekstri og viðhaldi allra starfsmannaíbúða. Tekjur og gjöld heilsugæslustöðva hafa verið leiðrétt með tilliti til þessarar breytingar.
    59. brtt. Í fjárlögum 1993 er 10 millj. kr. framlag til Bláalónsnefndar og er hér gerð tillaga um sambærilega fjárveitingu. Fyrirhugaðar eru frekari rannsóknir á lækningamætti Bláa lónsins og að þær fari fram á næsta ári. Um lokaafgreiðslu er að ræða.
    Breytingar á framlagi til vistheimilisins Hlaðgerðarkots er af tvennum toga. Annars vegar er tillaga um 10 millj. kr. hækkun á rekstrarframlagi. Fjárveitingin í fjárlagafrv. var 18 millj. kr. lægri en í fjárlögum yfirstandandi árs. Með þessari hækkun er talið að rekstur heimilisins sé tryggður á næsta ári. Hins vegar er gerð tillaga um 5 millj. kr. framlag til endurbóta á húsnæði fyrir vistmenn. Um er að ræða seinni hluta framlags en í fjárlögum 1993 var veittur 6 millj. kr. styrkur til þessa verkefnis.
    63.--66. brtt. eru gerðar að ósk stjórna heilsugæsluumdæma í Reykjavík þar sem um er að ræða nokkrar innbyrðis breytingar milli einstakra heilsugæslustöðva og heilsugæsluumdæma. Ekki er um hækkun á heildarframlögum að ræða.
    67. brtt. fjallar um Heilsugæslustöðina á Patreksfirði þar sem rekstrargjöld eru hækkuð um 1 millj. kr. en önnur gjöld voru lækkuð of mikið við tilfærslu á rekstri starfsmannaíbúða frá heilsugæslustöðinni yfir til sérstaks viðhaldssjóðs starfsmannaíbúða.
    69.--70. brtt. Leitað er viðbótarfjárheimildar í fjárlögum 1994 til skattframkvæmdar og skatteftirlits og kemur margt til.
    Í fyrsta lagi liggur fyrir álit svokallaðrar skattsvikanefndar um eflingu skatteftirlits og skattrannsókna. Í öðru lagi er það mat fjmrn. og embættis ríkisskattstjóra að upptaka tveggja þrepa virðisaukaskatts feli í sér flóknari skattframkvæmd og kalli á aukið eftirlit með framkvæmd og skilum skattsins. Í þriðja lagi hefur fjmrn. unnið greinargerð um skipulag skatteftirlits en meginefni tillagnanna er að marka þurfi skatteftirliti skýran sess í starfi skattstofanna og að fjölga þurfi starfsmönnum við skatteftirlit. Í fjórða lagi hafa aðilar vinnumarkaðarins og samtök opinberra starfsmanna lýst yfir vilja til samráðs og hvatt til eflingar skatteftirlits og aðgerða til að draga úr skattsvikum.
    Þær tillögur sem fjárln. gerir um auknar fjárheimildir beinast að þremur þáttum. Gerð er tillaga um 10 millj. kr. hækkun vegna kostnaðar við upptöku tveggja þrepa virðisaukaskatts og er þar um að ræða undirbúnings-, kynningar- og útgáfukostnað og nauðsynlegar breytingar á tölvu- og vinnslubúnaði. Lagt er til að framlag til skatteftirlits hækki um 30 millj. kr. Að lokum eru veittar 12 millj. kr. til embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins vegna fjölgunar starfsmanna en fjmrh. ákvað í haust sem leið að fjölga starfsmönnum við embættið. Útgjöld sem af þessu hljótast á þessu ári eru borin af óskiptum lið til skatteftirlits á fjárlögum 1993.
    71. brtt. fjallar um framlag til Landsbjargar sem hækkar um 3 millj. kr. en þar af eru 2 millj. sérstaklega ætlaðar Björgunarfélagi Vestmannaeyja.
    72. brtt. fjallar um Vegagerð ríkisins. Töluverðar breytingar verða á framlögum til Vegagerðarinnar en heildarhækkun vegna þessa er 345 millj. kr. Við 3. umr. verður gerð tillaga um breytingar á tekjuhlið fjárlagafrv. til að mæta þessum útgjaldaauka. Gert er ráð fyrir að bætt innheimta þungaskatts muni skila um 60 millj. kr. en áformuð 5% hækkun á bensíngjaldi um 285 millj. kr. Verður gerð nánar grein fyrir þessum breytingum við 3. umr. fjárlaga.
    Nokkrar breytingar eru gerðar milli liða á fjárlagaliðnum í 73. brtt.
    74. brtt. fjallar um hafnamál. Sundurliðun á fjárveitingum er sýnd á þskj. 326. Til ferjubryggja er lögð til 10 millj. kr. hækkun, enn fremur er get ráð fyrir breytingu á heiti liðarins en það er Ferjubryggjur við Ísafjarðardjúp. Liðurinn Hafnarmannvirki lækkar um 6,7 millj. kr. og liðurinn Hafnarmannvirki (fjármagnskostnaður) Sandgerði lækkar um 3,3 millj. kr. vegna breytinga á vöxtum.
    77. og 78. brtt. fjalla um tillögur frá iðnrn. og viðskrn. en þar eru óskir gerðar um tilfærslur milli stofnana sem ekki hafa áhrif til hækkunar og verða ekki raktar nánar hér.
    Í 81. brtt. er lögð er til 1,3 millj. kr. hækkun til ýmissa verkefna umhvrn. vegna náttúrustofu á Austurlandi og tekinn er inn nýr liður, Náttúrugripasafn á Vestfjörðum.
    Í 82. brtt. er gerð tillaga um að framlag til Landmælinga Íslands hækki um 6 millj. kr. vegna verkefnis við stafræna kortagerð. Kort þessi eru unnin í samvinnu við Landmælingastofnun varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna.
    83. brtt. fjallar um sérstakt þjónustugjald í innanlandsflugi. Fyrirhugað var að leggja á sérstakt þjónustugjald í innanlandsflugi en horfið hefur verið frá því. Af þeim sökum lækka sértekjur Veðurstofu Íslands um 10 millj. kr.
    Áður en ég lýk við þennan kafla, herra forseti, vil ég koma að einni leiðréttingu á 15. brtt. a-lið, Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu. Þar segir að viðfangsefnið 101 Kennsla í dagskóla hækki um 400 þús. kr. en hið rétta er að viðfangsefnið 102 Annað en kennsla á að hækka um þessa upphæð. Vona ég að þetta leiðréttist hér með.
    Virðulegi forseti. Þá hef ég lokið yfirferð yfir breytingartillögur á þskj. 326. Til viðbótar við það sem ég hef sagt um einstakar tillögur vil ég taka eftirfarandi fram:
    Undanfarin ár hefur verið starfrækt svokallað skíðaval við Framhaldsskóla Vestfjarða á Ísafirði. Ekki er gerð sérstök tillaga um fjárveitingu til þeirrar starfsemi. Gert er ráð fyrir henni áfram innan fjárhagsramma skólans.
    Enn fremur skal þess getið að nefndinni barst erindi frá fyrirtækinu Skeggja hf. sem hefur að undanförnu unnið að fjarvinnsluverkefni fyrir Þjóðminjasafnið. Samkvæmt upplýsingum þjóðminjavarðar er gert ráð fyrir þessari starfsemi áfram á árinu 1994 og rúmast verkefnið innan þess ramma sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv.
    Undanfarin ár hefur verið unnið að þýðingu Gamla testamentisins. Gert er ráð fyrir að af fjárlagalið 06-701, Biskup Íslands, verði veitt fé til þýðingarinnar líkt og á þessu ári.
    Árið 1987 var gerður samningur milli heilbr.- og trn., fjmrn. og heimamanna um framkvæmdir við byggingu Dvalarheimilis aldraðra á Sauðárkróki. Kostnaður við bygginguna hefur orðið nokkru hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Til þess að hægt sé að ljúka við verkið þarf því auknar fjárveitingar, 6,5 milljónir króna samkvæmt áætlun. Heilbrrh. mun beita sér fyrir því að fram fari endurskoðun á samningi um byggingu Dvalarheimilis aldraðra á Sauðárkróki þar sem gert verði ráð fyrir að framkvæmdir eigi sér stað á árinu 1994 og að til þeirra fáist fjárveitingar á fjárlögum árið 1995 þannig að starfsemin megi hefjast.
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrir hönd nefndarinnar þakka starfsmanni nefndarinnar, Sigurði Rúnari Sigurjónssyni, fyrir frábært samstarf og mikla eljusemi. Einnig vil ég þakka Halldóri Árnasyni, starfsmanni fjmrn. sérstaklega gott samstarf. Þá hefur nefndin notið góðrar liðveislu starfsfólks Ríkisendurskoðunar og fjmrn. Einnig ber að færa starfsfólki Alþingis þakkir og þá ekki síst því fólki sem starfar í Austurstræti 14 sem lagt hefur sig í líma við að greiða götu okkar.
    Ég flyt öllum samnefndarmönnum mínum þakkir fyrir gott samstarf og umburðarlyndi en allir hafa þeir lagt sig fram um að störf nefndarinnar gætu gengið sem greiðast.
    Eins og ég gat um hér að framan er ýmsum málum vísað til 3. umr. Fyrir þá umræðu verður að taka ýmsar ákvarðanir sem styrkja fjárlagafrv. Þá verða eflaust ýmsar óvinsælar ákvarðanir teknar. Það er nú einu sinni svo að fleira þarf að gera en gott þykir, ekki síst við aðstæður sem nú ríkja í samfélagi okkar.
    Virðulegi forseti. Halldór Laxness ritar í Innansveitarkroníku sinni, með leyfi forseta: ,,Því hefur verið haldið fram að Íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsmlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít sem ekki kemur málinu við, en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.``
    Víst er það svo að oft birtist hin pólitíska umræða í þeirri mynd sem nóbelsskáldið lýsir svo kostulega í tilvitnuðum orðum hér á undan. Orðhengilsháttur og eins og Laxness orðar það, tittlingaskítur, skyggja gjarnan á skynsamleg rök og kjarna máls. Það er von mín að lýsingar úr Innansveitarkroníkunni muni ekki eiga við um þær umræður sem fara munu fram um fjárlög ríkisins.