Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 14:38:42 (2406)


[14:38]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans við spurningum mínum um héraðsdóm og um skattstofur. Hitt vitum við svo auðvitað að aukin og bætt vegagerð og bættar samgöngur geta líka breytt áherslum og fært til þjónustumiðstöðvar. Það er bara staðreynd sem allir verða að horfast í augu við og hafa væntanlega vart á móti því að bæta samgöngurnar. Varla trúi ég því að nokkur vilji að dregið sé úr samgöngubótunum eða að samgöngur hindri það að menn geti leitað þjónustu víðar.
    En mér þykir leitt að þurfa að vera í hálfgerðum stælum við hæstv. fjmrh. um þær fjárveitingar sem ríkisstjórnin hefur lofað að verja til þess að auka framkvæmdir til þess að efla atvinnustigið. Ég dreg það ekki lengur í efa að hæstv. fjmrh. er ákveðinn í því að þessi milljarður sem lofað var í sumar og ekki eyðist allur núna verði færður yfir á næsta ár í fjáraukalögum og hann verði nýttur þá, vonandi komi til framkvæmda betur heldur en gert var núna. En það sem mig undraði og ég þykist nú skilja enn þá svo er það að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til aðila vinnumarkaðarins er hluti af þeim milljarði, 600 millj. segir hér í yfirlýsingunni, sem ekki verði unnið fyrir á þessu ári, sem verður hluti af þeim 16 milljörðum, hygg ég hafi verið, sem ríkisstjórnin lofaði að yrðu til fjárfestingar í heild á næsta ári. Og ef það voru 17 milljarðar í ár og 16 á næsta ári og það er hægt að taka hálfan milljarð af þessu ári og færa yfir á næsta ár þá er annaðhvort verið að svíkja loforðið í ár eða á næsta ári um þennan hálfa milljarð. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi, virðulegur forseti og hæstv. fjmrh., það er þá eitthvað að mínum þykka haus en svona segir mér mín reikningskúnst að þetta dæmi líti út.