Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 14:41:13 (2407)


[14:41]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta eru alls ekki neinar stælur og ég gleðst bara yfir að fá tækifæri til að gefa þær upplýsingar sem mér ber að gefa.
    Til þess að skýra þetta mál skal það sagt að það var ágreiningur á milli ríkisstjórnar, segjum kannski frekar fjmrh. annars vegar og ASÍ-forustunnar hins vegar hvað hefði falist í loforði ríkisstjórnarinnar frá því vor varðandi næsta ár. Og sá ágreiningur var m.a. kominn til af því að við töldum að sjálfsögðu ekki með fjárfestingum skuldagreiðslur af gömlum kaupum eða gömlum tilfærslum á milli ríkis og sveitarfélaga en það hafði verið inni í heildarupphæðinni þegar menn voru að skoða upphæðir frá fyrri árum. Þess vegna til vonar og vara og til að sýna að allir væru nú ánægðir með niðurstöðuna var þessi texti valinn. Áður en hann var skrifaður hafði það legið fyrir af minni hálfu eins og hv. þm. veit, því frá því sagði ég í sumar í fjárln., að það hefur aldrei annað staðið til en að þessi tiltekni milljarður sem við vitum nákvæmlega hvernig skiptist á tilteknar framkvæmdir eða viðhald, við hann verður staðið og það mun verða gert í ár og á næsta ári og að því leytinu sem milljarðurinn færist yfir á næsta ár þá gerist það utan fjárlaga. Það á ekki að koma að mikilli sök því það má búast við því að á milli áranna 1994 og 1995 færist einhverjar framkvæmdir einnig og önnur viðfangsefni þó að sjálfsögðu ekki nákvæmlega þessi sömu. Þetta allt saman gerist vegna breyttra vinnubragða en nú háttar þannig að ríkisstjórnin heimilar færslu á milli ára bæði inneignar og einnig skuldbindinga. Og ég tel að það sé kannski markverðasta sporið sem stigið hefur verið á undanförnum árum til að ná betri tökum á ríkisfjármálum.