Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 14:44:09 (2409)


[14:44]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðmundur Bjarnason spurði hvað mér þætti um vísindastefnuna sem fram kæmi í fjárlagafrv. Í stuttu máli sagt er ég ánægður með hana og þykir satt að segja hv. þm. fremur seinheppinn að velja sér þennan málaflokk til þess að gagnrýna. Því engin ríkisstjórn hefur gert meira á sviði vísinda og rannsókna en einmitt þessi.
    Það er hins vegar rétt hjá hv. þm. að sala ríkisfyrirtækja skilaði ekki þeim fjárhæðum sem ætlað var en hluti þeirra átti að ganga til vísinda og rannsókna. Engu að síður hefur verið staðið við það sem var lofað. Þannig er staðið við það fyrirheit sem gefið var í fyrra að Rannsóknasjóður Rannsóknaráðs hefði til ráðstöfunar á þessu ári 165 millj. kr. sem er 50 millj. kr. hækkun frá því í fyrra. Á sama hátt verður staðið við þá samþykkt ríkisstjórnarinnar frá í fyrra að Rannsóknasjóður verði kominn í 200 millj. á næsta ári 1994 og þá hefur Rannsóknasjóðurinn nær tvöfaldast á þessu kjörtímabili.
    Það hefur verið stofnaður rannsóknanámssjóður til að standa undir kostnaði við rannsóknatengt framhaldsnám. Tryggðar eru 8 millj. kr. á þessu ári og 25 millj. á hinu næsta með brtt. frá meiri hluta fjárln. sem ég vonast til að verði samþykkt. Auk þess hefur verulegum upphæðum á þessu ári, og verður á því næsta, verið varið til ýmissa samstarfsverkefna hjá Evrópubandalaginu á sviði vísinda, tækni og þróunar. Og ég fullyrði að það eru yfir 230 millj. kr. sem hefur verið bætt við þennan málaflokk nú á síðustu missirum. Ég er þess vegna ánægður með þá stefnu sem þessi mál hafa tekið á yfirstandandi kjörtímabili.
    Um menntamálin og áhyggjur hv. þm. af þeim hef ég ekki tíma til að ræða núna, það gefst tækifæri til þess á morgun, í framhaldsumræðu um frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum.
    Aðeins örfá orð vegna fyrirspurnar um hvað mér þætti um brtt. frá meiri hluta fjárln. vegna samstarfs háskólans við Vestmannaeyjar. (Forseti hringir.) Ég veit að þar er hið besta mál á ferðinni en sú tillaga kom ekki frá ráðuneytinu vegna þess að þetta var málefni háskólans alfarið en ekki ráðuneytisins. Það var háskólinn sem gerði samningana við Vestmannaeyjabæ en ekki ráðuneytið.