Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 14:56:59 (2412)

[14:56]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það frv. til fjárlaga fyrir næsta ár sem við erum hér að ræða er nú komið til 2. umr. Það er búið að gera allvel grein fyrir því af hálfu minni hlutans með framsöguræðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur og einnig hefur hv. þm. Guðmundur Bjarnason gert ítarlega grein fyrir því líka, ekki hvað síst þætti heilbrigðismálanna í þessu frv.
    Það fer ekki milli mála að þetta fjárlagafrv. sannar það endanlega að ríkisstjórnin hefur gefist upp á því að ná þeim markmiðum sem hún setti sér þegar hún tók við stjórnartaumum. Í raun og veru má segja að hún hafi enga stefnu lengur því að stefna hennar fólst fyrst og fremst í því að ná niður halla fjárlaga á tveimur árum og ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í þá sálma hér. Það hefur verið rakið að það var byrjað með því að leggja fram frv. með 4 milljarða halla sem urðu að 7. Næsta fjárlagafrv. var með 6 milljarða halla sem urðu að 14 milljörðum og nú er lagt fram frv. með 10 milljarða halla sem e.t.v., þó vonandi ekki, verða að 20. En þó svo það yrðu ekki nema 10 milljarðar sem er þó æðihá tala þá er á þessum þremur fjárlagaárum hallinn kominn í 31 milljarð kr. Það er engan veginn hægt að segja að það séu þær væntingar sem þeir höfðu sem trúðu á tilvist ríkisstjórnarinnar og að hún næði sínum markmiðum, að ná niður hallanum á tveimur árum, og þeir hafa sjálfsagt tapað sinni trú.
    Það sem fólst að öðru leyti í stefnu ríkisstjórnarinnar var að hækka þjónustugjöld og hækka sértekjur og það hefur henni tekist allvel, að færa skattabyrðar yfir á herðar landsmanna, og ekki að miða þá að öllu leyti við tekjur heldur að þeir sem þurfi á þjónustunni að halda greiði fyrir hana burt séð frá því hvernig aðstaða þeirra er til tekjuöflunar.
    Að selja ríkisstofnanir var líka ein af þeim áætlunum sem ríkisstjórnin hafði hátt um að einkavæða sem flest og við höfum heyrt hér oft og mörgum sinnum hvernig sú áætlun hefur tekist. Það átti heldur ekki að hækka skatta. Það átti að breikka skattstofna og einfalda kerfið. En það tókst ekki. Það virðist ekki ætla að takast því að nú er ekki verið að breikka skattstofna. Það er ekki verið að setja fleira undir t.d. virðisaukaskattinn og lækka skattþrepið þá um leið eins og hefði verið eðlilegast að gera heldur er verið að taka upp tvö skattþrep. Og það er líka ástæða til að ítreka það aftur, sem ég gerði raunar hér þegar við vorum að ræða fjáraukalagafrv., að þetta er ekki að frumkvæði aðila vinnumarkaðarins. Þetta er að frumkvæði ríkisstjórnarinnar vegna þess að á síðasta ári ákvað hún að taka upp 14% virðisaukaskatt, m.a.

á hitaveitur, orkufyrirtækin, á fjölmiðla, á bækur og blöð, afnotagjöld útvarps og sjónvarps, og núna á síðasti áfanginn að koma til framkvæmda um áramótin með því að setja 14% virðisaukaskatt á ferðaþjónustu.
    Við höfum rakið það nokkuð í nál. okkar minni hluti fjárln. hvaða áhrif þessi virðisaukaskattur muni koma til með að hafa á ferðaþjónustu. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa hér hluta úr því nál.:
    ,,Virðisaukaskattur á ferðaþjónustu á að taka gildi um áramót samkvæmt ákvörðun fjárlaga fyrir yfirstandandi ár. Sýnt er að það mun verða til þess að draga úr vexti þessarar atvinnugreinar. Þá er þessi skattur alveg sérstaklega erfiður landsbyggðarfólki og atvinnugreinum á landsbyggðinni sem oft þurfa að sækja þjónustu til Reykjavíkur þar sem skatturinn kemur til hækkunar á innanlandsfargjöldum flugfélaganna. Þá veldur skatturinn einnig mismun á milli flugferða innan lands og erlendis og getur orðið erfiður í framkvæmd. Minni hlutinn gagnrýnir þessar álögur sem mismuna fólki eftir búsetu og telur fráleitt að ríkisvaldið standi fyrir slíkri skattlagningu.``
    Með þessu er raunar fylgiskjal sem ég hygg að nokkuð margir hafi fengið að sjá ef þeir hafa þurft að ferðast síðustu vikurnar út á land, en það er auglýsing frá Flugleiðum um það hvað þeir sem þurfa að ferðast út á land þurfi að borga í átthagaskatt. Þetta er nokkuð skemmtilega sett upp þar sem Reykjavík þarf auðvitað engan átthagaskatt að borga, þó að ferðast sé á milli stofnana, en þeir sem þurfa að borga mest í þennan átthagaskatt eru að sjálfsögðu þeir sem borga dýrustu fargjöldin í dag og það eru þeir sem fara frá Egilsstöðum.
    Nú skal ég ekki um það segja hvort þetta muni koma til með að hafa áhrif á tekjuhlið frv. sem enn er eftir að ræða. Má vera að sú umræða sem búin er að vera í gangi um þennan skatt hafi haft einhver áhrif en ég hef hugsað mér að ræða það ekki frekar fyrr en við 3. umr. þegar tekjuhlið fjárlaga verður til umræðu.
    Hvað ferðamálum viðvíkur að öðru leyti þá eru einnig í þessum fjárlögum skert lögbundin framlög til Ferðamálaráðs og Ferðamálasjóðs sem kemur raunar fram í frv. um breytingar á skattalögum sem nú liggur fyrir í formi bandorms. Þannig er hert að starfsskilyrðum þeirrar atvinnugreinar sem hefur þó verið helsti vaxtarbroddur í atvinnumálum hérlendis. Þessi skerðing á næsta ári er hvorki meira né minna en 134 millj. kr. Og samkvæmt því sem mér sýnist að sé orðið frá því að þetta framlag átti að greiðast samkvæmt lögum til Ferðamálaráðs þá mun skerðingin í dag frá árinu 1986 vera orðin á milli 800 og 900 millj. kr. Þetta fer nokkuð eftir tekjum í Fríhöfninni, en það hefði alla vega verið í kringum 800 millj. kr. sem Ferðamálaráð hefði haft meira til ráðstöfunar ef þessi skerðing væri ekki á hverju ári. Aðeins einu sinni, það var á árinu 1985 þegar þessi lög voru sett, fékk Ferðamálaráð lögbundið framlag, síðan hefur það verið skert árlega.
    Það er ekki gott að segja hvernig Ferðamálaráð fer að því að bregðast við þessum niðurskurði en það er þó fullkomin ástæða til að óttast að það komi niður á starfsemi þess þar sem þetta hefur ekki einu sinni tekið verðlagsbreytingum, þessi upphæð er búin að vera sú sama í a.m.k. þrjú ár, jafnvel lengur. Það er ástæða til að óttast að það komi þá niður á starfseminni, e.t.v. á því sem Ferðamálaráð hefur verið að snúa sér að í vaxandi mæli á undanförnum tveimur árum, þ.e. alls kyns nauðsynlegum úrbótum í umhverfismálum. Á árinu 1992 varði Ferðamálaráð t.d. rúmum 10 millj. kr. af sínu ráðstöfunarfé sérstaklega til átaks í umhverfismálum.
    Ferðamálasamtök landshlutanna eru þau samtök sem hafa haldið víða uppi þróttmiklu starfi úti um landið og þar er um að ræða mikið sjálfboðastarf sem unnið er í því og þau hafa mörgu góðu getað komið þar til leiðar en þau hafa alltaf þurft að berjast fyrir framlögum til þeirrar starfsemi og hafa ekki einu sinni fengið því framgengt að fá að vera sérstakur liður á fjárlögum ársins heldur fæst sú upphæð, sem þeim er þó ætluð samkvæmt umræðum í fjárln., ekki skilgreind sérstaklega sem liður í fjárlögum heldur er inni í öðrum lið til ferðamála. Þrátt fyrir það að ferðamálasamtökin hafi komið á fund okkar í fjárln. og skýrt sitt mál þá hefur þetta ekki fengist leiðrétt.
    Eitt af því sem hefur mikil áhrif á fjárlög næsta árs er spáin um atvinnuleysið. Það kom fram í skýrslu um atvinnuleysi sem nýlega birtist að atvinnuleysið, með því sem áformað er að verði á næsta ári, stefnir í að kosta okkur 20 milljarða á þremur árum. Það eru nú bara 2 / 3 af því sem hefur verið halli fjárlaga núna á þremur árum. 20 milljarðar í atvinnuleysi, 30 milljarða halli. Ef hægt væri að stöðva þessa aukningu atvinnuleysis þá mundi það hafa þau áhrif að tekjur ríkissjóðs mundu aukast og hallinn þar af leiðandi minnka. En atvinnuleysið er meira en bara hluti af fjárlögum, það er líka ástand sem ekki er æskilegt í neinu þjóðfélagi. Það hefur komið fram í rannsókn sem gerð var hjá Evrópubandalagsþjóðum að þeir telja að það sem þurfi mestrar athugunar við sé að bæta úr atvinnuleysinu. Í skoðanakönnun sem nýlega var gerð meðal þeirra þjóða eru 70% sem telja að það sé brýnasta verkefni hverrar ríkisstjórnar að vinna bug á atvinnuleysinu. Það sé mest aðkallandi í efnahagsstjórn. Og þar sem ég veit að hæstv. núv. ríkisstjórn er gjarnan á því að fylgja ýmsu því sem Evrópuþjóðirnar og Evrópubandalagið hefur tekið sér fyrir hendur þá vænti ég þess að núna muni það verða til þess að þeir skoði hug sinn og reyni að leita leiða sem allra mest til þess að bæta úr því atvinnuleysi sem spáð er á næsta ári og er staðreynd í dag.
    Það er hægt að ræða um ýmislegt meira út frá því hvort hægt sé að leysa þetta atvinnuleysisvandamál. Við vitum auðvitað að hluti af þessu vandamáli er skerðing kvóta í sjávarútvegi og þar af leiðandi líka minnkandi afli. Þar er mikið vandamál á ferðinni og því miður verður það að segjast að hæstv. ríkisstjórn virðist algjörlega vanbúin því að geta tekið á því vandamáli. Fiskveiðistefna ríkisstjórnarinnar hefur ekki enn litið dagsins ljós, kannski verður hún engin. Mér fannst athyglisvert að heyra fréttir í morgun frá fundi sem tveir ráðherrar Alþfl. höfðu haldið og þar sagði hæstv. utanrrh., sem lætur nú ekki svo lítið að heiðra okkur hér með nærveru sinni þó verið sé að ræða um fjárlög, að ríkisstjórn ætti ekki að setja sér markmið. Pólitík væri ekki það að setja sér markmið. Pólitík væri það að finna skynsamlegustu leiðirnar. Mér fannst þetta svolítið undarlegt því ég hugsaði með mér: Ef maður setur sér ekki markmið og ef maður veit ekki hvert för er heitið hvernig á maður þá að velja leiðina að því? Ég hygg að fyrst verði að setja sér markmið og finna síðan leið, skynsamlegustu leiðina að því markmiði. En ríkisstjórnin virðist hvorki hafa getað sett sér markmið né fundið leiðir að því að finna heppilega og farsæla fiskveiðistefnu fyrir þessa þjóð.
    Í dagblaðinu Tímanum í morgun segir hæstv. sjútvrh. að það sé alveg óvíst hvort frumvörpin um stjórn fiskveiða og þróunarsjóð komi fram fyrir áramót, það muni skýrast í lok vikunnar. Þessi vika er að verða búin. Reyndar segir hér: ,,Hann útilokar ekki að hann muni sjálfur flytja frv. um breytingar á Hagræðingarsjóðnum ef ekki næst samkomulag um það milli stjórnarflokkanna.`` Þannig er ágreiningurinn á stjórnarheimilinu að í þessu mesta hagsmunamáli okkar Íslendinga og í okkar aðalatvinnuvegi sem við byggjum okkar útflutningstekjur á og má segja að fjárlög hins íslenska ríkis standi og falli með, er ekki hægt að vera sammála um stefnu. Svo ég geri ráð fyrir því að það verði mjög erfitt hjá hæstv. utanrrh. að finna skynsamlegar leiðir.
    Hæstv. menntmrh. svaraði því í andsvari áðan að hann væri mjög ánægður með það framlag sem væri til rannsókna- og þróunarstarfsemi. Að sjálfsögðu er ég mjög ánægð með að heyra það ef ríkisstjórnin ætlar að taka sig á í því að leggja meira fjármagn til rannsókna- og þróunarstarfsemi og ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann er einn til svara fyrir alla ríkisstjórnina og hæstv. sjútvrh. er hér ekki staddur. Mér sýnist að það verði allmikill niðurskurður á fjármunum til rannsókna í sjávarútvegsmálum. Í fjárlagaliðnum Gæðaátak, starfsmenntun, markaðsöflun og tilraunir, sem er liður í sjútvrn., var framlagið skorið niður í fyrra úr 51 millj. í 21 millj. kr. Í ár átti enn að vera sama skerðing á þessum málaflokki en reyndar er bætt við 5 millj. kr. hækkun á liðnum í brtt. meiri hluta fjárln. Ég tel þó að það breyti í sjálfu sér ekki miklu vegna þess að um leið og þessi tillaga kom fram um 5 millj. kr. viðbót þá var einnig bætt við verkefnum á þennan sama lið. Þannig að það er ekki að sjá að á þessu sviði, þ.e. í sjávarútvegsmálum, sé verið að auka rannsóknir og þróunarstarf heldur er þvert á móti verið að skera niður og það allverulega.
    Það má einnig nefna það að fulltrúar Hafrannsóknastofnunar komu á fund okkar í fjárln. og lýstu því m.a. að til þess að geta haldið áfram rannsóknum á þorskklaki þá þyrftu þeir 26 millj. kr. á næsta ári. Til skýringar segir hér í minnisblaði þeirra, með leyfi forseta:
    ,,Hrygningar- og klakrannsóknir voru t.d. styrktar í rúmt ár af hagsmunaaðilum í sjávarútvegi, en þessi hagsmunsamtök hafa hins vegar gert okkur ljóst að það verði ekki um frekari styrki að ræða. Markmið þessa verkefnis er að kanna ýmsa eiginleika hrygningar og klaks hjá þorski við Ísland`` --- og nú ættu menn að hlusta, hjá þorskinum sem við byggjum svo mikið af okkar afkomu á --- ,,og auka þannig skilning okkar á þeim þáttum sem segja til um nýliðun og lífsafkomu þorskungviðis. Áhersla er lögð á að meta framlag einstakrar stærðar hópa til hrygningar með því að bera saman lífslíkur hrogna og lirfa þessara hópa. Rannsóknir þessar hafa aðeins staðið í tvö ár en nauðsynlegt er að halda þeim áfram enda virðast þær vera að varpa nýju ljósi á þennan mikilvæga þátt í ævi þorsksins. Þannig benda niðurstöður til að líkurnar á að fá góða nýliðun aukist ef margir hlutfallslega gamlir árgangar eru til staðar í hrygningarstofninum og áframhaldandi rannsóknir munu því m.a. leiða í ljós hvort elstu árgangarnir leggja meira af mörkum til að viðhalda stofninum heldur en þeir árgangar sem eru tiltölulega nýkomnir inn í hrygningarstofninn. Þessar niðurstöður mundu hafa mjög mikil áhrif á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um nýtingu þorskstofnsins.``
    Ég tel, eftir að þeir komu og sögðu okkur frá þessari skýrslu sem þeir lögðu fram, að eitt af því mikilvægasta í rannsóknastarfi sem við erum að fást við um þessar mundir sé að halda áfram þessum rannsóknum þannig að þær stöðvist ekki heldur verði hægt að halda þeim áfram og byggja þá áfram þær ákvarðanir sem teknar eru um veiðar á þeim og á þeim niðurstöðum sem koma út úr þessum rannsóknum.
    Mér fannst það mjög merkilegt þegar Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, sagði frá því, sem kemur reyndar fram í því sem ég var að lesa, að líkurnar á því að fá góða nýliðun aukist ef margir hlutfallslega gamlir árgangar eru til staðar í hrygningarstofninum.
    Það er sem sagt greinilega komið í ljós að það er ekki endilega allt sem segir að meiri líkur séu á því að hrygning takist ef mikið er af fiski eða mikið magn af fiski heldur fyrst og fremst að það sé þá stærri fiskurinn sem skili þessum árangri. (Gripið fram í.) Það grípur einhver hér í salnum fram í og segir að þeir gömlu séu alltaf bestir. Ég held að menn verði sjálfir að dæma um það. En alla vega er það greinilegt að þessar rannsóknir mega ekki falla niður og ég verð að segja það að ég fagna því að hér skuli vera komin fram brtt. um það að framlag fari til Hafrannsóknastofnunar til þess að halda áfram þessum

rannsóknum. Sú tillaga gerir reyndar ekki ráð fyrir nema 14 millj. kr. en þeir töluðu um 26 millj. En e.t.v. er hægt að fá atvinnufyrirtækin til þess að halda áfram stuðningi við þetta mál eins og þau gerðu í upphafi til að koma því af stað. En þetta finnst mér afsanna þá kenningu sem hæstv. menntmrh. kom með hér áðan að það væri búið að gera stórátak í því að auka rannsókna- og þróunarstarfsemi í tíð þessarar ríkisstjórnar.
    Umhverfismál hafa yfirleitt ekki fengið mikinn hljómgrunn í fjárlagafrv. síðustu ára. Umhvrn. er ungt ráðuneyti og ungur maður líka sem stjórnar því í dag. En kannski sannar það tilgátuna sem hér kom áðan að þeir eldri væru sterkari að þessum unga manni hefur ekki tekist að fá meira framlag en raun ber vitni til starfsemi fyrir umhvrn.
    Það kom mjög ítarlegt nál. frá umhvn., sameiginlegt nál., þar sem ýmislegt er tínt til. Minni hluti fjárln. tekur undir álit fulltrúa, sem er raunar stjórnarandstöðunnar í umhvn. ( Gripið fram í: Allir.) Allir fulltrúar í umhvn. Það eru ekki bara fulltrúar stjórnarandstöðunnar það eru allir fulltrúar í umhvn. sem telja að í frv. til fjárlaga sé gert ráð fyrir allt of lágum fjárveitingum til umhvrn. í heild eins og ég var að lýsa hér áðan. Sérstaklega lýsa þeir yfir áhyggjum vegna lágra fjárveitinga til Náttúruverndarráðs. Þeir mótmæla því sérstaklega að Veðurstofunni sé ætlað að hefja gjaldtöku fyrir þjónustu við innanlandsflug og það hefur raunar verið fellt niður í brtt. meiri hlutans. En þeir tína margt til sem betur mætti fara í sínu áliti og minni hluti fjárln. tekur undir þær ábendingar. En hið eina sem náði eyrum meiri hluta fjárln. var að fella niður þá gjaldtöku sem hugsuð var af þjónustu Veðurstofunnar við innanlandsflugið.
    Við skiptingu fjár í menntmrn., viðhald og stofnkostnað, þá vakti það athygli að til skólanna í Reykjavík fer mjög lítið fjármagn og margir þeirra eru algjörlega sveltir, en nýr skóli á að rísa í Grafarvogi og til hans eru áætlaðir allmargir tugir milljóna --- ég er því miður ekki með þetta blað hér hjá mér (Gripið fram í.) en hæstv. menntmrh. upplýsir að það séu 120 millj. kr. Það er til að byggja nýjan skóla í Grafarvogi. Nú efast ég ekki um að það sé full nauðsyn á því að byggja nýjan skóla í Grafarvogi, þar er nýtt hverfi sem sjálfsagt þarf á því að halda og við vitum að skólar hér í Reykjavík eru margir mjög þétt setnir. Það breytir samt ekki því að ég tel að það væri heppilegri stefna að búa betur að þeim skólum sem fyrir eru. Sinna betur þeirra viðhaldi og taka tillit til ábendinga sem forsvarsmenn þessara skóla hafa komið á framfæri við okkur. Það er nokkuð einkennilegt að þingmenn Reykjavíkur skuli ekki koma saman til að ræða þessi mál, en hv. þm. Kristín Einarsdóttir hefur einmitt bent á það í sínum ábendingum sem hún hefur sent til fjárln. að þingmenn Reykjavíkur ræði aldrei um hagsmunamál Reykvíkinga, hvorki í skólamálum né heilbrigðismálum. Hvort það hefur einhvern tímann verið gert, það skal ég ekki um segja. ( GHelg: Það hefur verið gert.) Það hefur verið gert, upplýsir hv. þm. Guðrún Helgadóttir. En það hefur ekki verið gert að þessu sinni og mundi það sjálfsagt skrifast á reikning hæstv. forsrh. sem mun vera 1. þm. Reykv.
    Það sýnir líka í hnotskurn þá staðreynd að þingmenn Reykv. hafa ekki talið sig þurfa að standa sérstaklega vörð um hagsmuni sinna umbjóðenda rétt eins og aðrir þingmenn hafa þó reynt að vera sammála um þær fjárveitingar sem úthlutað hefur verið til t.d. skólamála í þeirra kjördæmum. Þar hafa menn reynt að jafna þessu út og hafa samstöðu um það hvert fjármagnið færi, reynt að meta þörfina á hverjum stað og vinna eftir því. En það hefur ekki verið talin þörf á því hér í Reykjavík að hafa einhverja samvinnu um slíkt og sannar það enn og aftur að þegar menn eru í nánd við stjórnsýsluna þá telja þeir sig ekki hafa neinna sérstakra hagsmuna að gæta hér inni á þingi.
    Það er einnig farið út í nýjar framkvæmdir í Keflavík. Þar á að byrja að byggja D-álmu sem reyndar er búið að standa til í mörg ár og hefur verið umdeilt verkefni. Nú á að leggja þar í kostnað sem er metinn á 322 millj. kr., þ.e. kostnaðaráætlunin, og gert er ráð fyrir því að byrjað verði á næsta ári, vel að merkja, án þess að samningur hafi verið gerður. Þær fjárveitingar sem deilt er út til sjúkrahússbygginga byggjast yfirleitt á þeim samningum sem búið er að gera eftir að búið er að gera vistunarmat og skoða málið og gera samning um bygginguna. En nú er sem sagt gert ráð fyrir að hefja þessa byggingu án þess að samningur hafi verið gerður og án þess að vistunarmat hafi farið fram. Hins vegar hefur mér alltaf heyrst það þegar verið er að ræða um önnur sjúkrahús, byggingar, hjúkrunarheimili eða annað, þá hefur fyrst komið fram krafa um að vistunarmat væri gert. Það virðist ekki hafa verið gert þarna.
    Það væri kannski rétt að beina þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh., ef hann er hér í húsinu, hver sé skýringin á því að nú sé nauðsynlegt að fara í þessa byggingu þrátt fyrir að ekki sé fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru annars staðar.
    Það kom líka fram í máli hv. formanns fjárln. að það væri nauðsynlegt að fara að taka pólitíska ákvörðun um það hvaða þjónustuhlutverki ætti að sinna af hálfu ríkisins. (Gripið fram í.) Ég segi nú bara við hv. formann, ja, mæl þú manna heilastur, því það er vissulega orðið mjög nauðsynlegt að skoða hvaða hlutverki ríkisvaldið ætlar að þjóna. Hingað til hefur bara verið skorið niður, ýmist flatur niðurskurður eða teknar fljótfærnislegar ákvarðanir um lokanir og breytingar og sameiningar á milli deilda og á milli sjúkrahúsa án þess að fyrst væri skoðað hvaða þjónustuhlutverki ríkið eigi að sinna og hvernig við ætlum að hafa þessi mál í næstu framtíð.
    Það er komin fram umdeild skýrsla um sjúkrahúsmál í landinu. Hún var rædd hér utan dagskrár

fyrir nokkru síðan. Menn gagnrýndu þá skýrslu og það er vissulega í henni mjög mikið af villum og rangfærslum. En það er þó eitt sem er athyglisvert, það hefur aldrei verið gerð slík úttekt, eftir því sem skýrslan upplýsir, það hefur aldrei verið gerð slík úttekt á þessum málum fyrr. Þrátt fyrir að það sé búið að fara í alls konar breytingar, sparnaðaráætlanir og framkvæmdir, án þess að það væri fyrst skoðað hvaða hlutverki þessar stofnanir eiga að þjóna og hvaða þjónustu við sem erum hér á Alþingi viljum að ríkið veiti og hvernig og hvar.
    Enn get ég komið að málaflokknum Rannsóknir og þróunarstarf. Beiðni landlæknis um að leggja fram fjármagn til nýjunga í heilbrigðisstarfi var algjörlega hafnað. Landlæknir kom á fund fjárln. og gerði grein fyrir nýrri tækni sem hægt væri að beita núorðið sem hann kallaði fjargreiningu. Það er kerfi fyrir símsendingu röntgenmynda á milli spítala, milli landshluta, þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Röntgenrannsóknir eru gerðar víða um land en sérfræðiþekking til að greina myndirnar er að langmestu leyti til staðar í Reykjavík og á Akureyri. Því þarf að senda myndirnar með pósti frá því héraðssjúkrahúsi eða heilsugæslustöð þar sem myndin var tekin til sérgreinasjúkrahúss sem sendir svar um hæl. Þetta tekur nokkurn tíma. Slíkar tafir geta valdið sjúklingi og læknum miklu óhagræði. Ef mynd af röntgenfilmu er send eftir símalínu í stað póstsendingar til sérgreinasjúkrahússins má stytta þennan tíma verulega. Slíkt fyrirkomulag má nefna fjargreiningu röntgenmynda.``
    Bent hefur verið á að samskipti af þessu tagi geta sparað marga legudaga og óþægilegan flutning sem samkvæmt reynslu gæti kostað allt upp undir 100 þús. kr. á sjúkling, sem er mjög algeng tala t.d. fyrir sjúkraflug. Kostnaðurinn við að flytja sjúkling frá Ísafirði eða t.d. Egilsstöðum kostar iðulega a.m.k. 100 þús. kr.
    Ef orðið hefði verið við þessari beiðni landlæknis þá hefðu líklega sparast, til lengri tíma litið a.m.k., allmiklir fjármunir og jafnframt hefði það orðið til þess að sjúkrahúsin og starfskraftar sjúkrahúsanna úti á landi mundu nýtast miklu betur. Aðstaða og læknar mundu nýtast miklu betur. Það var ekki verulega stór fjárhæð sem landlæknir fór fram á í þessu skyni. Það voru í kringum 10 millj. kr. sem hann taldi duga til að koma þessu verkefni af stað eða halda þessu verkefni áfram því að þetta er að vísu komið í gang en ekki hægt að halda því áfram nema með fjármagni til þess. En það var ekki orðið við því í tillögum meiri hluta fjárln. Þarna komum við því enn og aftur inn á það hvaða stefnu við ætlum að hafa í heilbrigðismálum.
    Það er ekki hægt að ræða svo fjárlög næsta árs að koma ekki inn á vaxtamálin. Vaxtamálin hafa spilað stórt hlutverk í allri efnahagsumræðu hér á landi og ekki hvað síst síðustu vikur þegar vaxandi fylgi ríkisstjórnarinnar var þakkað þeim áhrifum sem vaxtalækkunin hefði haft.
    Það er skemmst frá því að segja að það tókst ákveðin vaxtalækkun með handleiðslu ríkisstjórnarinnar fyrir nokkrum vikum síðan. En því miður virðist sú handleiðsla hafa misst marks að því leyti til að það virðist ekki vera um neitt áframhald á þessari vaxtalækkun að ræða. Hæstv. fjmrh. og viðskrh. standa núna báðir í stórhríð við að berja á bönkum og lífeyrissjóðum um það að þeir taki tillit til þessarar stefnu ríkisstjórnarinnar og lækki áfram vextina. En ekkert hefur skeð enn þá. Ég vildi sannarlega óska þess að þessi vaxtalækkun takist. En því miður sýnist mér ekki mikið útlit fyrir það á þessari stundu. Það er líka rétt að velta því upp: Hvernig í ósköpunum getur á því staðið að ekki skuli lækka vextir á óverðtryggðum lánum? Hingað til hafa vextir á óverðtryggðum lánum í gegnum árin alltaf fylgt lánskjaravísitölu og svarið hefur alltaf verið að þegar vextir hafa hækkað á óverðtryggðum lánum að þeir yrðu að fylgja þróuninni hjá lánskjaravísitölunni. Nú hafa vextir á verðtryggðum lánum lækkað, raunvextir eru þar miklu lægri en á óverðtryggðum lánum og þá allt í einu þurfa óverðtryggðu lánin ekki að fylgja eftir vaxtastiginu á verðtryggðu lánunum. Þannig að ég get verið sammála hæstv. viðskrh. í því að það er bara farið eftir því þegar verðbólgan stígur eitthvað, þá fer allt upp á við, en það fer hægara eða alls ekkert niður á við þó aðstæðurnar skapist til að vextir geti lækkað.
    Ég tel að það sé löngu kominn tími til að afnema þá verðtryggingu sem hér er á öllum lengri lánum og það verði að fara að gerast a.m.k. í áföngum. Því tímabili þegar taka þurfti upp verðtryggingu, sem var ákvörðun í sjálfu sér, hefði verið hægt að komast hjá ef vextir hefðu hækkað í takt við verðbólguna. En það var ekki gert. Það var tekin upp verðtrygging. Hún var skiljanleg á þeim tíma en hún er það ekki lengur. Hún er löngu komin úr takt við allt sem er að gerast og á ekki lengur að vera til í þessu kerfi.
    Hér hefur legið frammi frv. í mörg ár um að afnema tryggingu á langtímaskuldum en ég held að ég hafi séð það á því frv. núna síðast þegar það lá frammi að það væri í áttunda skipti. Kannski hefur það ekki verið raunhæft þegar það var lagt fram fyrir átta árum en það hefur a.m.k. verið raunhæft síðustu tvö til þrjú árin. Því ég fullyrði að það er löngu kominn tími til þess að afnema þá verðtryggingu sem hér er. Enda er sú fjárskuldbinding ekki notuð í löndunum hér í kringum okkur.
    Ég get ekki látið það hjá líða í þessari umfjöllun um fjárlögin að gera að nokkru umtalsefni fjárlagaliðinn hjá utanrrn. Fyrst kom í ljós að ráðgjafarnefnd EFTA átti hvergi samastað. Það þurfti á hverju einasta ári að ganga eftir framlagi til að standa undir kostnaði af störfum nefndarinnar og íslensku fulltrúarnir hafa átt erfitt með að taka þátt í störfum nefndarinnar eins og aðrir þátttakendur frá öðrum löndum af því að utanrrn. vildi aldrei viðurkenna þennan króa. Það vísaði yfirleitt á önnur ráðuneyti.

    Nú er reyndar valinn sá kostur að leggja til 2 millj. kr. í utanrrn. til að koma til móts við þetta. En það er sérstaklega erfitt að henda reiður á fjárveitingum í utanrrn. Þar eru miklar tilfærslur á milli flokka og breytingar milli málaflokka. Stofnanir eru settar á fót á einu árinu en lagðar niður á því næsta. Ýmsar alþjóðastofnanir eru fluttar á önnur ráðuneyti. Færð eru störf af viðskiptaskrifstofu til Brussel og með þeim eru færðar fjárveitingar þannig að sá samdráttur sem er sýndur í framlögum til ráðuneytis segir ekki allt. Einnig voru miklar fjárveitingar á árinu 1992 vegna EESsamningagerðar þannig að eðlilegt er að það dragist saman að einhverju leyti þegar samningum er lokið. Hins vegar kemur síðan aftur vinna við annað eins og kom fram í fjáraukalögum að þýðingar á ýmsum lögum og reglugerðum Evrópubandalagsins hafa farið nærri 100% fram úr áætlunum.
    Síðan eru fyrirhugaðir búferlaflutningar, m.a. á aðalskrifstofu og einnig í sendiráðum eins og eðlilegt getur talist. Þar eru því 7 millj. vegna flutninga, 5,9 millj. vegna aðalskrifstofu og vegna sendiráða 1,5 millj. og einnig vegna eignabreytinga 3,5 millj. Þarna eru framlög til utanrrn. hækkuð um 12,9 millj. Þetta er ráðherrann sem ætlaði að spara og ætlaði heilmikið að draga saman í fjárlögum, ætlaði að koma með nýjar tillögur við 2. umr. ásamt hæstv. fjmrh. sem er ekki einu sinni í salnum. Ég óska eftir því, hæstv. forseti, að fjmrh. sé í salnum á meðan verið er að ræða fjárlögin.
    ( Forseti (VS) : Forseti mun gera ráðstafanir til að fá hæstv. fjmrh. á fundinn.)
    Ég þakka, virðulegi forseti. Það væri tilvalið að spyrja hann að því hvort hann og hæstv. utanrrh. séu búnir að finna skynsamlegar leiðir til sparnaðar eins og hæstv. utanrrh. orðaði það.
    Ég get ekki séð annað en að nokkur feluleikur sé með tölur í þessum málaflokki hjá utanrrh., fært er á milli liða og mjög erfitt að átta sig á tölum. Hv. þm. Árni M. Mathiesen hefur einnig komist að raun um það því að hann hefur beðið um skýringar á þessum málslið þar sem honum finnst mjög erfitt að átta sig á því hvernig tilfærslur eru þar. Það er því ekki aðeins stjórnarandstaðan sem hefur eitthvað við þetta að athuga. --- Hér gengur hæstv. fjmrh. í salinn. Ég var að rekja hvernig væri fært á milli liða í utanrrn., sem hefði ætlað að spara mjög mikið, og hæstv. utanrrh. hefur lýst því yfir að það þurfi að spara meira í fjárlögum. Einnig var upplýst við 1. umr. um fjárlögin að hæstv. utanrrh. og fjmrh. væru búnir að mynda nefnd sem ætlaði að skoða það hvort hægt væri að tína eitthvað upp til að spara og væri ágætt að heyra það frá hæstv. ráðherra hvort eitthvað hefur gengið í þeim efnum og hvort hugsanlega verði reynt að spara líka í utanrrn. Kannski verður hætt við einhverja flutninga eða eitthvað slíkt.
    Ég get ekki látið hjá líða að nefna aðeins orkumál. Oft hefur verið sagt að ekki væri mikið að ræða um iðnrn., þar væri ekkert sérstakt hægt að skoða eða tiltaka sérstaklega. En það er nokkuð stór málaflokkur sem getur a.m.k. fallið undir iðnrn. og mig langar að nefna orkumál í því sambandi.
    Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er sama upphæð til niðurgreiðslu á hitunarkostnaði milli ára. Það eru 347 millj. kr. á næsta ári, alveg nákvæmlega sama upphæð og er í ár. Það er engin aukning. Það kom raunar í ljós í fsp. sem ég bar fram til hæstv. iðnrh. fyrir nokkru að engin aukning af hálfu ríkissjóðs hefur átt sér stað í niðurgreiðslu á orku til þess að lækka húshitunarkostnað frá 1. júní 1991.
    Þegar lítils háttar aukning varð um síðustu áramót, þ.e. þá hækkuðu niðurgreiðslur frá ríkinu um 6 aura á kwst., sem var vegna 14% virðisaukaskatts sem þá átti að taka upp á orkuveiturnar, og varð þetta til þess að neytendur fengu nokkra hækkun þrátt fyrir það að niðurgreiðslan væri aðeins hækkuð.
    Auðvitað liggur í hlutarins eðli og þarf ekki mikla reiknikúnst til að sjá það að þegar sama upphæð fer ævinlega ár eftir ár til þessara mála er ekki um neina lækkun á þessum kostnaði að ræða hjá notendum og þar af leiðandi heldur ekki um þá jöfnun sem hæstv. ríkisstjórn auglýsti svo fagurlega þegar hún hóf starf sitt og byrjaði reyndar myndarlega með því að lækka hitunarkostnað á svokölluðum köldum svæðum 1. júní 1991. En síðan hefur nákvæmlega ekkert gerst. Engin lækkun hefur komið til neytenda. Hitakostnaður neytenda er enn þá hinn sami. Hann var rúmlega tvöfaldur þegar þessi niðurgreiðsla byrjaði og hann er það enn þá. Þar hefur því ekki mikið átt sér stað.
    Það er líka vert að nefna það í sambandi við iðnrn. að nú er fyrirsjáanlegt að ekki verði hægt að treysta á skipasmíðaiðnaðinn til þess að halda uppi atvinnu á næstu árum þar sem hæstv. fjmrh. og hæstv. iðnrh. eru ósammála. Fjmrh. treystir sér ekki til að leggja jöfnunartoll á skipasmíðaiðnað samkvæmt nýjustu fréttum en hæstv. iðnrh. hefur þó haft manndóm í sér til að leggja það til. En ríkisstjórnin nær að sjálfsögðu ekki samkomulagi um það frekar en annað. Vert er að skoða það að í Finnlandi skapar skipasmíðaiðnaður og málmiðnaður þúsundir starfa og í löndunum í kringum okkur hafa stjórnvöld treyst sér til þess að styðja þennan iðnað. Þau hafa treyst sér til að gera það með því að leggja t.d. á jöfnunargjöld. Hér hefur það aldrei fengist í gegn heldur hefur þessi iðngrein verið látin drabbast niður og hún hefur ekki getað staðið í samkeppni við erlendan niðurgreiddan skipasmíðaiðnað og það þýðir að við erum að tapa öllum þeim atvinnutækifærum sem byggjast á þessum iðnaði.
    Nýlega var settur á fót starfshópur í iðnrn. og kom fram í úttekt hans að öll skilyrði væru til þess að leggja á jöfnunartolla t.d. gagnvart ríkisstyrkjum Norðmanna til skipasmíða. Við vitum að mörg skip eru smíðuð í Noregi fyrir okkur Íslendinga. Í grein í Tímanum í morgun kemur fram að skipaiðnaðurinn rær lífróður fyrir tilveru sinni því að markaðshlutdeild hans hefur hrunið úr 70% í 8%. Vert væri að beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort ríkisstjórnin ætlar virkilega ekki að gera neitt í málefnum skipasmíðaiðnaðarins. Ég er hrædd um að þá verði atvinnuleysið ekki bara 4,5% heldur mun meira ef ekkert verður gert í því.
    Ég hefði gjarnan viljað ræða málefni Lánasjóð ísl. námsmanna en raunar er eftir að ræða B-hluta fjárlaga. Þar inni eru málefni lánasjóðsins þannig að ég er að hugsa um að lofa þingheimi því að ég taki heldur góða rispu á það við 3. umr. og geyma það í þetta sinn. Ég vil þó ekki láta hjá líða að nefna aðeins það reglugerðarfargan sem þar dynur yfir námsmenn árlega, árlega er verið að breyta reglugerðum, það er ekki bara hér á Alþingi þar sem alltaf er verið að breyta lögum, heldur er árlega verið að breyta reglugerðum sem eiga að byggjast á þessum lögum. Þær reglugerðir koma á margan hátt mjög illa við námsmenn. Ég get nefnt eitt dæmi.
    Í Kennaraháskólanum þurfa nemendur að skila 90 einingum í þriggja ára námi. Til þess að fá fullt lán þá þurfa þeir að ljúka 15 einingum á hverri af þessum sex önnum. Þegar lögin tóku gildi fyrir tveimur árum þá var ekki hægt að færa þessar einingar á milli. Sem dæmi má nefna að hefði nemandi kannski fengið 32 einingar eftir árið 1991--1992 var ekki hægt að færa þær einingar sem umfram voru yfir á næsta ár. Síðan var reglugerðinni breytt í fyrra og þá mátti færa einingarnar á milli þannig að þeir nemendur gætu fengið 100% lán. En þeir sem hafa ekki fengið viðurkennt að þeir gætu fengið einingarnar færðar frá námsárinu í hittiðfyrra geta staðið frammi fyrir því í ár að hafa ekki nægilegan fjölda eininga til þess að fá 100% lán enda þótt þeir skili sínum afköstum og vinni samkvæmt skipulagi skóla. Þótt þeir skili öllu sínu eins og þeir eigi að gera og hafi fengið loforð um 100% lán þá fá þeir það ekki vegna þess að það gilti önnur reglugerð fyrir tveimur árum en gildir núna. Nemendur geta því staðið frammi fyrir því að fá kannski ekki nema 75% lán á fyrri helmingi ársins í ár vegna þess að skipulag skóla segir e.t.v. að þeir skuli skila 11 eða 12 einingum fyrri hlutann og síðan 17 eða 18 einingum á seinni hlutanum.
    Þetta er eitt lítið dæmi um það óréttlæti sem viðgengst í sambandi við reglugerðarsetningu hjá Lánasjóði ísl. námsmanna og erum við þá ekki að ræða um þau lög sem við höfum margoft rætt og hafa orðið til þess að tugir nemenda og ekki síst konur hafa hrökklast frá námi. En þetta eina atriði er líka til þess að nemendur hrökklast frá námi því að þeir geta staðið þar frammi fyrir því að hafa verið búnir að fá bráðabirgðalán sem byggir á 100% afköstum og skipulagi skóla, standa síðan frammi fyrir því nú í desember að lánasjóðurinn viðurkennir ekki samkvæmt reglum sínum að þeir séu að stunda 100% nám og þeir fá bara 75%. Það getur alveg eins orðið til þess að þeir gefist upp.
    Þeir sem hafa talað á undan mér hafa allmikið rætt um vinnubrögð á fjárlagafrv., bæði hv. formaður fjárln. og frsm. minni hluta og hv. 1. þm. Norðurl. e.
    Með fskj. nál. minni hluta fjárln. fylgir frásögn af ferð fjárlaganefndarmanna til Noregs fyrir tæpu ári, þ.e. í janúar 1993. Sú ferð var farin til að kynna sér starfsemi fjárlaganefndar norska Stórþingsins og aðallega fjárlagavinnuna. Ferðin hefur einstöku sinnum verið nefnd í umræðum í þinginu en þó hefur aldrei verið lögð fram frásögn eða skýrsla um þessa ferð. En ég var ein af þeim sem fóru þessa ferð af hálfu fjárln. og mér fannst mjög athyglisvert hvernig norska fjárln. vinnur fjárlagagerðina. Vinnutilhögun, skipulag vinnunnar, tímamörkin, að formaður norsku fjárlaganefndarinnar er úr stjórnarandstöðu en varaformaður úr stjórnarflokknum, að formenn annarra nefnda eru kosnir eftir þingstyrk og því talsvert um það að stjórnarandstaðan eigi formenn nefnda vakti athygli mína og einnig að þinghald norska þingsins er yfirleitt í mjög föstum skorðum eins og segir í skýrslu um ferðina í nál. minni hlutans. Vegna þess að hér hefur oft verið rætt um það að fagnefndir ættu að taka á sig meira af vinnu fjárln. og vinna það inni í sínum nefndum finnst mér rétt að nefna aðeins það sem ég segi í miðri skýrslunni, með leyfi forseta. ( Fjmrh.: Hvað mega menn tala lengi í norska þinginu?) Það eru nokkrir klukkutímar sem samið er um en ég get lesið þetta fyrir hæstv. fjmrh. ef hann langar til að hlusta á þetta.
    ,,Þegar fjármálaráðherra leggur fram fjárlagafrumvarp í fyrstu viku október fara engar umræður fram. Frumvarpinu er vísað til fjárlaganefndar og einstökum köflum frumvarpsins er vísað til viðkomandi fagnefnda. Fjárlaganefndin vinnur málið í nefndinni í um einn mánuð og leggur fram nefndarálit (Dokument I) í byrjun nóvember. Þá fer fram umræða í Stórþinginu og samið er um það fyrir fram hve langan tíma hún á að taka. Venjulega eru það tveir dagar, tíu tímar hvorn dag. Tillaga um tímamörkin er borin upp í þinginu og er þá hægt að gera athugasemdir og hugsanlega lengja eða stytta tímann. Ræðutíma er skipt niður á flokka eftir þingstyrk þeirra og menn þurfa að setja sig á mælendaskrá daginn áður en umræðan fer fram. Ræðumenn mega tala tvisvar, 30 mínútur í fyrra skiptið og tíu mínútur í seinna skiptið``. --- Hæstv. ráðherra, ég er ekki enn þá búin með þennan tíma. --- ,,Einnig eru leyfð fimm andsvör eftir hverja ræðu. Daginn sem umræðan fer fram er hægt að setja sig á mælendaskrá en þá fær ræðumaður aðeins þrjár mínútur til umráða tvisvar sinnum. Tímamörk sem ákveðin hafa verið standast því nokkuð, geta í mesta lagi farið 2--4 tíma fram úr áætlun í heildina tekið og er þá umræðu haldið áfram fram eftir kvöldi seinni daginn þar til henni lýkur. Af 165 þingmönnum Stórþingsins er algengt að um helmingur þeirra taki til máls um fjárlögin.
    Þessar reglur gilda einnig um önnur mál þingsins en þá er venjulega ákveðinn tími styttri, t.d. er algengt að fjórir tímar séu teknir í umræður um lagafrumvörp. Þau eru fyrst tekin fyrir í viðkomandi fagnefnd sem leggur þau fyrir óðalsþingið og ákveður um leið í samráði við forsætisnefndina hve langan

tíma umræðan taki. Forseti skiptir tímanum á milli flokka og þingmenn raða sér á þann tíma. Einstakir þingmenn geta fengið orðið í þrjár mínútur tvisvar. Framsögumenn tala yfirleitt í 15--20 mínútur.
    Fagnefndir skila síðan af sér hver af annarri sínum málaflokki í fjárlagafrumvarpinu beint inn í Stórþingið (ekki með milligöngu fjárlaganefndar) og umræða um það fer fram eftir því sem það berst og lýkur í nóvember. Frumvarpið getur tekið nokkrum breytingum í meðferð nefndanna en þeim er þó uppálagt að halda sig innan rammans. Þær fjalla bæði um tekjur og gjöld fyrir viðkomandi málaflokk. Verkaskipting er í föstum skorðum í öllum nefndum. Hver nefndarmaður ber ábyrgð á einum málaflokki nefndarinnar, t.d. er í fjárlaganefnd einn með skattamál, annar með gengismál o.s.frv. Í samgöngunefnd er einn með flugmál, annar með hafnir, þriðji með vegamál o.s.frv.
    Þegar allar fagnefndir hafa skilað af sér er tekin fyrir svokölluð ,,salderingstillaga`` ríkisstjórnar í fjárlaganefnd og rædd þar í um viku. Að því loknu leggur fjárlaganefnd fram endanlegar tillögur á þingskjali sem merkt er II. Þá er kominn miður desember og lokaumræða um fjárlög og atkvæðagreiðsla er afgreidd á einum degi í Stórþinginu.
    Þegar ég spurði hvort aldrei væru ótímabundnar umræður í þinginu var svarið að það hefði verið fyrir 50 árum og fyrir allmörgum árum var tímalengd ein klukkustund á mann en nú er hálf klukkustund hámark.
    Ráðherrar taka varamenn inn þegar þeir taka sæti í ríkisstjórn og starfa ekki sem þingmenn en þeir sitja í þinginu þegar mál sem þá varða eru á dagskrá.`` --- Hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstjórn eru nú ekki að fara eftir því.
    Í lokafaflanum segir: ,,Yfirleitt er þinghald norska þingsins í mjög föstum skorðum og það er öruggt að þingmenn þar eiga hægara um vik með að skipuleggja tíma sinn en íslenskir kollegar þeirra. Hægt er að velta fyrir sér hvort hið norska lýðræði sé nokkru lakara en hið íslenska þrátt fyrir allströng tímamörk í umræðum. Og fullyrða má að umræður hér á Alþingi fari á stundum fram úr því sem eðlilegt getur talist. Hins vegar þarf á öllum tímum að gæta þess að vinnubrögð séu þannig að sjónarmið, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, komist skilmerkilega á framfæri.`` --- Þar er t.d. formennsku í nefndum skipt eftir þingstyrk sem ekki er gert hér en raunar hefur þó nokkuð verið bætt úr því með breytingum sem gerðar voru í haust á þingsköpum þar sem stjórnarandstaðan fékk formennsku og varaformennsku í nokkrum nefndum og breyting var raunar líka gerð á ræðutíma við 1. umr. um frv. Ég tel þó að áfram þurfi að vinna í þeim málum að gera alla þingmenn jafnábyrga fyrir vinnunni hér, að menn taki á sig ákveðna ábyrgð í þeim málum. Það var tekið lítið skref í þessa átt með því að breyta þingsköpum í haust en ég tel að áfram þurfi að vinna til að bæði stjórn og stjórnarandstaða hafi hér eðlileg áhrif.
    Fjárln. ætti að taka sér þessa skýrslu til fyrirmyndar, a.m.k. hv. meiri hluti nefndarinnar, að tileinka sér þar betri vinnubrögð. Það hefur raunar verið nefnt fyrr í umræðum og getið um það sérstaklega í nál. minni hlutans. Ég hygg að það væri betra fyrir þingið og þinghaldið að það færi fram skilmerkilegra starf og væri betri vinnuandi í fjárlaganefnd en hefur verið í sambandi við vinnuna núna upp á síðkastið. Það hefur nánast verið sama hvað minni hluti fjárln. hefur komið með, það hefur ekki verið hlustað á neitt af því og ekki verið tekið tillit til þess þannig að þar þarf úr að bæta.
    Að lokum ætla ég að segja að meiri hluti nefndarinnar gæti einnig tekið sér þá vinnureglu til fyrirmyndar sem við í minni hluta fjárln. höfum komið á að vinna sameiginlega að nál. Það var mjög góð samvinna um það nál. sem hér liggur frammi frá minni hlutanum og með því verður samstaðan betri og vinnan léttari. Ég hygg að meiri hluti fjárln. gæti tekið sér ýmislegt til fyrirmyndar í þeim efnum.
    Það er svo sem ýmislegt fleira hægt að ræða en þar sem hér eru margir á mælendaskrá þá ætla ég ekki að lengja þetta að þessu sinni en get þá komið upp í síðari ræðutíma ef þörf er á.