Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 16:50:07 (2421)


[16:50]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil aðeins, vegna þess að ég níddist örlítið á tíma og þolinmæði forseta hér áðan, undirstrika það að ég hef ekki nokkrar minnstu efasemdir um að það sé mikilvægt að lagfæra rekstrarmál skóla sem hér eru tilgreindir í brtt. En ég er alveg viss um að ýmis önnur erindi sem lágu fyrir hafa verið svipaðs eðlis og það var það sem ég var að reyna að undirstrika hér í máli mínu áðan. Og ég tel að það hefði verið bæði eðlilegt og rétt að nefndin hefði öll farið yfir þau verkefni í starfi sínu og metið það sameiginlega, ef það var eitthvert svigrúm til að laga einhverja þætti, hvaða þætti ætti að lagfæra.
    Nú hefur meiri hluti fjárln. komist að þeirri niðurstöðu, án aðstoðar okkar hinna, að þetta séu þau verkefni sem séu brýnni heldur en önnur sem lágu fyrir og það verði þess vegna að leiðrétta það og þá er það auðvitað dómur og ákvörðun sem meiri hlutinn hefur tekið. Það er ekki þar með sagt að við teljum verkefni skynsamleg þó að þeir hafi talið þau það. Og ég ítreka það aðeins að okkar skilningur og vilji var sá að nefndin ynni öll að þessu sameiginlega, það ræddi ég dálítið um áðan, og kæmi að þessu mati þegar farið yrði yfir erindin sem fyrir nefndinni lægju. En ég óttast að það kunni að vera eitthvað í undirmeðvitund hjá hv. 1. þm. Vesturl. sem gerir það að verkum að hann er eitthvað viðkvæmur fyrir því sem hér hefur verið rætt í því efni.