Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 17:46:31 (2425)


[17:46]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Hv. þm. Jón Kristjánsson stóð að því að gera tillögu til fjárln. um það að brjóta skuldbindandi greiðslusamninga á Höfn og á Eskifirði til þess að veita 2 millj. til Fáskrúðsfjarðar og byggingu hjúkrunarheimilis þar. Það er mjög alvarlegt að brjóta slíka samninga og þar með að reyna að leiða aftur inn í kjördæmið grunnastefnuna sem gerði ekkert annað en að safna skuldum, hlaða skuldum á sveitarfélögin eins og á Eskifirði, 24 millj. kr. skuld á Eskifirði á hjúkrunarheimilið þar, tæprar 10 millj. kr. skuld á Vopnafirði. Ég tek ekki þátt í að endurtaka slíkt. Ég vil að Fáskrúðsfirðingar og Stöðfirðingar, sem einnig standa að þessu framtaki, fái að búa við sömu kjör og við bjóðum öðrum sveitarfélögum á Austurlandi við uppbyggingu sinna mannvirkja á heilbrigðissviði. Þetta er óábyrg sýndartillaga, ekki annað en ávísun á Fáskrúðsfjörð og Stöðvarfjörð til þess að safna skuldum á meðan ekki er samningur gerður.