Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 18:34:10 (2445)


[18:34]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það heils hugar með hv. þm. að það er nauðsynlegt fyrir hv. þm. að lesa fjárlagafrv. og þær forsendur sem þar liggja að baki mjög gaumgæfilega. Það var augljóst af ræðu hans áðan að það hafði hann alls ekki gert. Hann fór yfir nokkur atriði sem lúta að heilbrigðismálunum og gerði hvað hann gat til að snúa út úr þeim á alla kanta. Með eða án betri vitundar, ég skal ekki um segja. En allt að einu eru þær tillögur ígrundaðar, bæði í upphaflegu frv., í mjög ítarlegum greinargerðum með þeim brtt. sem fram hafa komið og eiga hugsanlega eftir að koma enn frekar við 3. umr. Og ég hygg og segi það eitt, ég spyr að leikslokum um það hvernig framkvæmd og niðurstaða í þessum efnum verður að ári. Við skulum þá taka tal saman um það en aðalatriði málsins er að það hefur tekist á umliðnum árum að hefta þennan viðvarandi útgjaldavöxt sem verið hefur í heilbrigðis- og tryggingamálunum sem hv. þm. átti nú aðild að með veru sinni í heilbrrn. á árum áður. Það hefur tekist að stöðva hann þrátt fyrir það að ekki yrði slakað á ströngustu kröfum um þjónustu, ekki yrði slakað á þeirri meginhugsun að heilbrigðiskerfið væri fyrir alla burt séð frá félagslegri eða fjárhagslegri stöðu. Þetta hefur tekist. Auðvitað hafa menn stundum mætt andstreymi, stundum hafa menn farið í blindgötur og til baka aftur, það er eðli máls samkvæmt. En meginatriðinu verður ekki hægt að gleyma eða horfa fram hjá. Það hefur tekist að stöðva þessa sjálfvirku útgjaldaaukningu án þess að draga úr grundvallarstoðum velferðarkerfisins. Og nákvæmlega þeirri stefnu er framhaldið í þeim tillögum sem eru vel ígrundaðar í því fjárlagafrv. sem hv. þing fer nú höndum um og ræðir hér. Ég hygg að þegar menn gefa sér tíma og ráðrúm og leyfa betri vitund að ráða ferð þá sjái þeir það og viðurkenni með sjálfum sér þó þeir tali öðruvísi í ræðustól.