Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 19:15:13 (2452)


[19:15]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Ég orðaði það alls ekki þannig að meiri hlutinn hefði verið með nöldur, því það er ekki nöldur. Ég las það hér upp að þeir voru með ákveðinn fyrirvara. En það breytir því ekki að það stendur skýrum stöfum á bls. 26 í áliti meiri hluta fjárln., sem er álit umhvn., með leyfi forseta:
    ,,Umhverfisnefnd telur mikilvægt að fjárveitingar til stofnunarinnar verði hækkaðar sem þessum fjárhæðum nemur þannig að unnt verði að ljúka verkefninu.``
    Síðan segir að því er varðar Skipulag ríkisins:
    ,,Umhverfisnefnd leggur áherslu á mikilvægi þess að tryggð verði fjárveiting til að standa straum af kostnaði við störf nefndarinnar, en hann hefur verið áætlaður 2,5 millj. kr.``
    Undir þetta skrifa allir nefndarmenn, Árni M. Mathiesen, með fyrirvara, og eins og ég las áðan þá hafa fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. fyrirvara að því er varðar Landmælingar Íslands og Skipulag ríkisins og leggja áherslu á, orðrétt: ,, . . .  að fjárlaganefnd leiti leiða til að standa við samningsbundar skuldbindingar og lagafyrirmæli innan þeirra marka sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir.``
    Að þessu leyti vorum við sammála þó að þetta sé fyrirvarinn, að fjárveiting væri innan þeirra marka sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Ég gerði grein fyrir þessu þannig að álitið varð sameiginlegt þrátt fyrir það.

Þetta er því ekki bara smá nöldur í lokin, eins og hv. þm. sagði, og það er ekki í veigamiklum atriðum, þessar tillögur sem þarna koma að því er varðar þessar tvær stofnanir, þ.e. Landmælingar Íslands og Skipulag ríkisins.