Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 19:20:20 (2456)


[19:20]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Já, það getur verið rétt að það komu fram frómar óskir í álitum nefnda. Ég vil þó benda á að við fljóta yfirferð held ég að það sé engin nefnd sem gerir tillögur eins beint og umhvn. sameiginlega eins og þarna var gert. Áherslan sem ég lagði á í minni ræðu var einmitt að það ætti ekki að byrja ný verkefni á sama tíma og ekki væri hægt að ljúka við það sem búið er að skuldbinda sig til að taka að sér. Það er ekki síst það. Ég sé að hv. meiri hluti fjárln. leggur til ný verkefni á sama tíma og ekki er hægt að standa við þau sem við erum búin að gera samninga um og það mun kosta okkur mikið þegar til framtíðar er horft. Það getur vel verið að forstöðumaður stofnunarinnar telji að þarna sé hægt að halda áfram og er það vel, ég hef enn ekki kynnt mér það sérstaklega. En ég skora enn og aftur á þá að líta á þetta með jákvæðum augum og ég mun að sjálfsögðu einnig hafa samband við Landmælingar Íslands en það þarf kannski ekki vegna þess að fjárln. mun væntanlega gera það. En varðandi það sem hv. þm. las upp úr fjárlagafrv. þá vil ég einmitt gera athugasemdir við það og gerði það reyndar í ræðu minni. Ég gerði athugasemdir við það hvernig umhvrn. hefur staðið að þessum málum og hvernig þeir setja þetta fram. Þetta er bara misskilningur af þeirra hálfu. Ég ætlast ekki til þess að hv. þm., formaður fjárln., svari fyrir það en þetta er bara það sem ég gagnrýni að þeir skuli segja að stafrænni kortagerð ljúki á yfirstandandi ári þegar fyrir liggur að það er þriggja ára verkefni eftir. Mér finnst alveg forkastanlegt að umhvrn. skuli standa

með þessum hætti að framlagningu fjárlagatillagna. --- [Fundarhlé.]