Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 22:30:13 (2468)


[22:30]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ræðumaður gerði hér að umtalsefni tvö atriði sem raunar hafa verið nefnd fyrr í umræðunni í dag og ég hygg að það sé nauðsynlegt að eyða nokkrum misskilningi sem þar hefur gengið aftur. Í fyrsta lagi varðandi tekjutengingu ekkjulífeyris, þá er við það miðað að tekjutengingin verði með svipuðum hætti og gerist með ellilífeyri og hann fari að skerðast í kringum 70 þús. kr. markið og lækki síðan og verði ekki greitt með tekjum umfram 120 þús. kr. Þetta er ekki ósvipað og gerist um ýmsa aðra bótaflokka og ég hygg að ekki sé unnt að halda því fram að þarna sé um slíkt óréttlæti að ræða, eins og margir ræðumenn hafa haldið fram.
    Í öðru lagi hafa menn staldrað við í umræðu í dag og raunar í gær um bandorm ríkisstjórnarinnar varðandi sértekjur eða gjaldtöku vegna áfengissjúkra. Til að taka af öll tvímæli í þeim efnum líka, þá vil ég láta þess getið og upplýsa það hér að viðkomandi aðilar sem hlut eiga að máli og hafa verið eyrnamerktar sértekjur vegna þess arna þar sem SÁÁ er stærst á því sviði, hafa fengið bréf þar sem þess er vænst að þessir aðilar skili tillögum um fyrirkomulag þessarar gjaldtöku, hyggist þeir nota gjaldtökuheimildina. Kjósi stjórnendur þessara stofnana að nota ekki heimild til gjaldtöku og verða þannig af tilgreindum sértekjum verða þeir á hinn bóginn að haga rekstri stofnana í því ljósi, enda kemur ekki til annarra framlaga úr ríkissjóði umfram það sem fjárlög 1994 segja til um. Með öðrum orðum, það er kallað eftir reglum frá þessum aðilum sjálfum. Ég vil minna á að þetta er ekki allsendis ókunnugt í þessum hópi SÁÁ því fyrir árið 1987 voru tekin gjöld af þeim toga sem hér um ræðir.
    Rétt í bláendann, virðulegur forseti, er rétt að upplýsa það líka að sjúkradagpeningar til þeirra sem í meðferð fara, til áfengissjúklinga, eru á bilinu 30--50 millj. kr. á ári hverju.