Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 22:35:22 (2470)

[22:35]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að mæla fyrir brtt. sem ég flyt við frv. til fjárlaga sem hér er til umræðu. Flm. ásamt mér er Guðni Ágústsson, hv. 5. þm. Suðurl. Hún er á þá leið að við 4. gr., lið 04-311, Landgræðsla ríkisins, komi nýr liður til að stöðva eyðingu Lakagíga og Skaftáreldahrauns af völdum Skaftárhlaupa 10 millj. kr.
    Í nýútkomnum Landgræðslufréttum er stutt grein sem ber fyrirsögnina: Lakagígar í hættu, og ég ætla að lesa hana hér, með leyfi hæstv. forseta.
    ,,Hlaup í Skaftá sem eiga upptök sín í Vatnajökli bera með sér mikinn sand upp á bakka árinnar. Sandurinn berst síðan undan vindi og hefur eytt þúsundum hektara af gróðri og ógnar náttúruperlum á borð við Lakagíga og Skaftáreldahraun. Hlaup fóru ekki að koma í Skaftá að ráði fyrr en 1955. Vandamál vegna sandfoks frá henni eru því ný tilkomin og náttúruöflin eiga þar ein sök. Reyndar má segja að um náttúruhamfarir sé að ræða. Frá sandburði árinnar stafar hætta allt frá upptökum til sjávar. Sandur sem berst ofarlega úr ánni stefnir í átt til Lagagíga hægt en örugglega. Hætta er á að hluti þessarar sögufrægu eldsprungu hverfi í sand. Einn gígurinn er nú þegar að fyllast af sandi. Sandurinn spillir víða gróðri og hraunið sem rann í Skaftáreldum gæti hulist sandi að hluta til. Reyndar blasir eyðileggingarmáttur sandsins við vegfarendum nokkru vestan Kirkjubæjarklausturs. Þar fór allbreið sandtunga yfir veginn fyrir nokkrum árum og stefnir í átt til sjávar. Melgresi hefur verið sáð til að koma í veg fyrir að sandfok hindri umferð um þjóðveginn. Þá hefur verið unnið að því að gera kort af sandleiðum. Rannsóknir sýna að varnaraðgerðir þola ekki bið.``
    Þetta eru í stuttu máli þær staðreyndir sem þarna blasa við. Í framhaldi vil ég geta þess að það hafa verið gerðar allumfangsmiklar athuganir og áætlanir um það hvernig megi draga úr afleiðingum þessara náttúruhamfara og stöðva sandinn. Þær áætlanir liggja fyrir, en það er með þær eins og svo margar aðrar að þeim verður ekki hrint í framkvæmd nema til þess komi eitthvert fjármagn. Beiðni um þetta barst hv. fjárln., en hún hefur ekki séð sér enn þá fært að verða við því og því er þessi brtt. flutt hér.
    Á næsta ári eru 50 ár liðin frá stofnun íslenska lýðveldisins. Í sambandi við þann merka áfanga fyrir 50 árum var unnið að átaki og stofnaður landgræðslusjóður til að vekja áhuga og vera bakhjarl áhugamannsstarfs að landgræðslu. Til þess að örva áhuga almennings og hvetja hann til að leggja þessu máli lið þá voru flutt nokkur útvarpserindi í maí 1944 og ég vil hér taka upp örfáar setningar sem þáv. hæstv. forsrh. Björn Þórðarson sagði: ,,Allur landslýður þarf að sameinast um að leggja sem ríflegastan skerf til stofnunar landgræðslusjóðsins, hins nýja landssjóðs.``
    Þáv. skógræktarstjóri Hákon Bjarnason sagði svo, með leyfi hæstv. forseta: ,, . . .  hornsteinn velferðar þjóðarinnar um ókomnar aldir því í þessu landi viljum vér allir búa.``
    Steingrímur Steinþórsson, síðar forsætisráðherra, vitnaði til Guðmundar Friðjónssonar skálds og sagði, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þjóðin öll sameinuð getur nú lagt gull í lófa framtíðarinnar sem komandi kynslóðir munu blessa hana fyrir.``
    Pálmi Hannesson notaði orðin, með leyfi hæstv. forseta: ,,Minnumst skuldar vorrar við landið.``
    Þannig voru viðhorfin fyrir 50 árum þegar lýðveldið var stofnað, en því miður virðist þetta viðhorf ekki haldast nægilega vel enn hjá núv. hæstv. ríkisstjórn þegar við ætlum að fara að minnast 50 ára afmælis lýðveldisstofnunarinnar.
    Það er að sjálfsögðu álitamál hversu miklu fjármagni hægt er að verja til einstakra verkefna, ekki

síst þegar þröngur stakkur er skorinn. En hér er um að ræða landeyðingu, náttúruhamfarir, sem magnast með hverju ári sem líður, hverjum mánuði og jafnvel getur ein vika haft mikil áhrif ef þannig viðrar og sífellt verður erfiðara að stöðva þennan vágest og sigrast á honum eftir því sem lengur er dregið að hefjast handa. Landgræðslustjóri hefur sagt að vandinn muni margfaldast á næstu árum ef ekkert verður aðhafst. Aðgerðarleysi þýðir því gífurlega sóun. Það er sóun náttúruminja sem hverfa undir sandinn, það er sóun gróðurs sem einnig fer undir og það er beinlínis sóun á fjármunum ríkissjóðs, því við verðum að trúa því að sem allra fyrst komi önnur ríkisstjórn sem hafi önnur viðhorf til landsins og verðmæta þess og muni þá snúast til varnar, en þá þarf miklu meira til.
    En því miður verður að segja það að þessi gróðureyðing af völdum Skaftárhlaupanna minnir okkur óþyrmilega á það hvernig núv. hæstv. ríkisstjórn hefur gengið um sinn völl. Þar er því miður allt of víða að koma í ljós sviðin jörð og mun ég víkja meira að því síðar. Á það hefur verið bent í þessari umræðu um fjárlagafrv. að sú staðreynd setur sitt mark á það. Það er gífurlegur halli á þessu fjárlagafrv. þrátt fyrir harkalegan niðurskurð. Þetta er fjárlagafrv. fyrir þriðja heila ár núv. ríkisstjórnar, ef hún lifir næsta ár. Þegar ríkisstjórnin var mynduð þá er þetta fyrsta árið sem fjárlög áttu að vera hallalaus. Því marki átti að ná án þess að leggja nýja skatta og margir töluðu um að lækka skatta. Það voru að vísu fleiri markmið sem ríkisstjórnin setti sér. Hæstv. utanrrh. sagði að Alþfl. hefði gengið til þessa samstarfs til þess að hrinda í framkvæmd tveimur aðalbaráttumálum Alþfl. Það var að tryggja inngöngu Íslands í Evrópska efnahagssvæðið og reisa nýtt álver.
    Það er lítið talað um það nú í sambandi við þessa fjárlagagerð eða spá um horfur á næsta ári, hinar miklu tekjur og ávinning sem þjóðin á að hafa af inngöngunni í Evrópska efnahagssvæðið og allir vita hver skýjaborg þetta nýja álver var. En þó hamaðist fyrrv. hæstv. iðnrh. við þá skýjaborg eins og rjúpan við staurinn og sinnti lítt öðrum atvinnuverkefnum með þeim afleiðingum sem nú blasa við m.a. í umræðu um stöðu skipasmíðaiðnaðarins.
    Eitt stefnumarkmið ríkisstjórnarinnar enn var það, og kannski það sem höfuðáhersla var lögð á, að hún ætlaði ekkert að skipta sér af atvinnulífi þjóðarinnar. Það áttu aðrir að sjá um það, að þessu álveri slepptu. Það verður að segjast að því miður þá hefur ríkisstjórnin ekki einu sinni staðið við það að láta atvinnulífið í friði því svo margt hefur gerst hjá henni sem hefur orðið atvinnulífinu þrándur í götu. Allir þekkja hina háu vexti sem hún keyrði upp með handafli á fyrstu dögum valdaferils síns og hafa staðið og standa enn þrátt fyrir það að fyrir fáum vikum uppgötvaði hæstv. viðskrh. að það væri líka til handafl eða handleiðsla til að koma vöxtunum niður. En þeirri spurningu hefur ekki verið svarað enn, af hverju það var þá ekki gert fyrr?
    En þessi staða atvinnulífsins, sem setur mark sitt á fjárlagafrv., er að sjálfsögðu afleiðing þess að mjólkurkýrnar, undirstöðuatvinnulífið, hefur verið svelt.
    Í nál. meiri hluta fjárln. eru álit frá öðrum nefndum um einstaka kafla fjárlagafrv. Þar á meðal er álit frá minni hluta allshn. og er það undirritað af hv. þingmönnum Önnu Ólafsdóttur Björnsson, Ólafi Þ. Þórðarsyni og Kristni H. Gunnarssyni, auk mín.
    Í athugun allshn. á fjárlagafrv. var m.a. fjallað um þær breytingar sem frv. gerir ráð fyrir á sýslumannsembættum í landinu, þar sem lagt er til að fækka þeim um níu. Af þeim ástæðum reyndum við að gera okkur nokkuð grein fyrir því máli og að því er aðeins vikið í áliti minni hlutans. Ætla ég að lesa þann kafla, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á fund nefndarinnar komu m.a. fulltrúar frá Sýslumannafélagi Íslands. Bentu þeir á ýmis atriði sem verið væri að vinna að til hagræðingar í rekstri embættanna og að áfram væri hægt að halda á þeirri braut. Einnig gæti komið til greina sameining einhverra sýslumannsembætta. Það ætti að gerast að undangenginni ítarlegri athugun á öllum hliðum málsins þannig að sparnaður yrði sem mestur án þess að draga um of úr þjónustu. Slík athugun lægi alls ekki fyrir nú og því væri rennt alveg blint í sjóinn með hvaða sparnaður yrði af þeirri tillögu sem liggur fyrir og drógu þeir stórlega í efa að hann yrði nokkur eða töldu að hann yrði jafnvel minni en enginn. Töldu þeir að mjög víða væri sameining sýslumannsembættanna útilokuð nema haldið væri áfram að hafa útibú á þeim stöðum þar sem embætti verða lögð niður. Engin áætlun lægi hins vegar fyrir um hversu mikil þjónusta yrði veitt og þá ekki heldur hversu fjölmennt starfslið þyrfti til að inna hana af hendi, hvorki hvað varðar fast starfslið eða með heimsóknum sýslumanns og fulltrúa hans á staðinn.
    Dómsmálaráðuneytið hefur þegar gert tillögu um að hækka framlag til löggæslu á Hvolsvelli um 5,3 millj. kr. vegna vanáætlunar í frumvarpinu. Víðar hafa komið fram efasemdir um að tölur standist og hefur sýslumaðurinn í Vestur-Skaftafellssýslu bent á að verið sé að færa kostnað frá ríkinu til þeirra sem á þjónustunni þurfa að halda og muni ferðakostnaður Vestur-Skaftfellinga til Hvolsvallar geta numið allt að 5--6 millj. kr. Þá virðist vafasamt að tekjur af eignasölu muni standast þar sem sala mun víða verða erfið þegar samdráttur vegna niðurlagningar embættanna bætist við þann samdrátt sem fyrir er í þessum byggðarlögum.
    Sýslumennirnir í Kópavogi og Hafnarfirði afhentu allsherjarnefnd greinargerð um embætti sín og bentu á ýmis atriði sem valda því að aukinn kostnaður og óþægindi munu fylgja skipulagsbreytingunni. Það

er líka athyglisvert að sjá í töflu frá ríkisbókhaldi, sem fylgir með áliti sýslumannsins í Kópavogi, að í árslok 1992 hefði verið komið um 1.460 millj. kr. meira í ríkissjóð ef innheimtuhlutfall Gjaldheimtunnar í Reykjavík hefði verið það sama og í Kópavogi.``
    Eins og ég sagði áður þá hlutum við í allshn. að taka alvarlega þá uppsetningu sem er á þessu máli í fjárlagafrv. og er hún óbreytt nú þegar frv. kemur endurskoðað frá hv. fjárln. til 2. umr. En það vekur hins vegar athygli að ekkert bólar á frv. sem er óhjákvæmilegt að fylgi í kjölfarið eða komi samhliða, þar sem breytt er skipan þessara mála sem bundin er með lögum. Það fer að verða skammur tími til stefnu þar sem breytingin á flestum embættunum á að taka gildi 1. mars nk. miðað við athugasemdir fjárlagafrv. og þær tölur sem þar eru settar fram.
    Það er að vísu ekki nýlunda að frumvörp séu lögð fram á síðustu stundu og því kynnumst við reyndar í allshn. þegar til nefndarinnar voru að koma tvö frumvörp frá hæstv. dóms- og kirkjumrh. sem gjörbreytir stöðu kirkjunnar í landinu. Sagt er að við eigum að afgreiða málið á einni viku og þá hlýtur það að verða að lítt athuguðu máli miðað við þær annir sem nú eru í þingstörfum í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.
Samt sem áður þá er ótrúlegt að frv. um breytingar eigi eftir að koma fram fyrir jól og því hlýtur hv. fjárln. að taka þetta mál til endurskoðunar.
    En ég vil hér víkja að öðrum lið sem allshn. fjallaði einnig um og það eru fjárveitingar til Byggðastofnunar. Til þess að fá upplýsingar um það mál fékk nefndin á sinn fund formann og forstjóra stofnunarinnar og um þær upplýsingar er drepið á í örstuttu máli í áliti minni hlutans. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    Hjá formanni stjórnar Byggðastofnunar og forstjóra hennar komu fram athyglisverðar upplýsingar. Formaður sagði að framlög til stofnunarinnar hefðu farið minnkandi allt frá árinu 1977 þegar þau voru um eða yfir einn milljarður kr. á núgildandi verðlagi og að sá samdráttur héldi áfram með þessu fjárlagafrv. Engin sérstök fjárveiting hefði komið til Byggðastofnunar þegar hún tók að sér greiðslu launa iðnráðgjafa fyrir tveimur árum en þeir nefnast nú atvinnuráðgjafar og það væri líklegt að í stað 350 millj. kr., sem stofnunin hefði til ráðstöfunar á þessu ári, mundi sú tala lækka niður undir 300 millj. kr. miðað við þetta fjárlagafrv. Áætlað er að veita 80 millj. kr. í styrki á þessu ári, þar af 25 millj. til atvinnumálafélaga, en úr því mundi draga á næsta ári. Engin fjárveiting hefði komið til að standa við ákvæði búvörusamnings um 100 millj. kr. til atvinnuuppbyggingar í sauðfjárrækt. Hins vegar væri ríkisábyrgð á 20 millj. kr. lántöku sem ætti að skoðast sem áhættufjármagn. Lánveitingar, sem hægt væri að flokka undir þennan lið, yrðu þó langt innan við 100 millj. kr. Þau byggðarlög, sem höllustum fæti standa, hafa ekki bolmagn til mikillar lántöku og þurfa því á hlutafjárframlögum að halda. Því væri mjög brýnt að breyta reglugerð um Byggðastofnun en hún kemur í veg fyrir að stofnunin hafi heimild til slíks. Staða atvinnuveganna fari nú mjög versnandi, sérstaklega sjávarútvegs sem aflasamdrátturinn bitnaði mjög þungt á. Vegna þessara þrenginga hefur Byggðastofnun nú eignast skip og verksmiðju sem veldur henni auknum erfiðleikum. Það er því ljóst að staða Byggðastofnunar verður ákaflega erfið á næsta ári miðað við þær þröngu skorður sem fjárlagafrv. setur henni.
    Það er rétt að geta þess að eftir að þessu áliti var skilað kom fram brtt. í fjáraukalögum um að 20 millj. kr. láni með ríkisábyrgð væri breytt í framlag. Það hefur líka gerst síðan þessu áliti var skilað að Byggðastofnun hefur sent frá sér ósk um nýtt fjármagn að upphæð 300 millj. kr. til að styðja við bakið á atvinnulífi á Vestfjörðum. Ekki virðist sú beiðni hafa fengið neinn hljómgrunn hjá hv. fjárln. því engin ný tala er sett í brtt. hennar til Byggðastofnunar. --- Fyrirgefið, það eru 15 millj. Liðurinn Byggðastofnun hækkar um 15 millj., en það segir lítt upp í þær 300 millj. (Gripið fram í.) --- Það er til atvinnuráðgjafanna. Það segir lítt upp í þær 300 millj. sem talin er bráð þörf á til atvinnulífsins á Vestfjörðum. Því miður er vandi atvinnulífsins á Vestfjörðum of mikil spegilmynd af ástandi víðs vegar annars staðar á landinu.
    Hv. 3. þm. Suðurl., Árni Johnsen, vék að því sem hann kallaði uppsafnaðan vanda á árunum 1988--1992. Í opinberum skýrslum kemur fram að á árinu 1990, árinu áður en núv. ríkisstjórn tók við völdum, þá var afkoma sjávarútvegs og iðnaðar góð hér á landi og sú besta sem verið hefur um langt skeið. Það er því erfitt að skilja að það sé vandi þess árs sem veldur erfiðleikum nú. Ef áfram hefði verið haldið á spilunum eins og gert var á því ári af fyrrv. ríkisstjórn og afkoma atvinnuveganna hefði haldist sú sama, þá þyrftum við ekki að ræða málin á þeim nótum sem nú verður því miður að gera.
    Hér hefur verið vikið að því hvernig algjört stefnuleysi ríkir í sjávarútvegsmálum hjá núv. hæstv. ríkisstjórn og horfur þar vægast sagt ískyggilegar þegar ekki er samstaða um neitt í þeim málum innan ríkisstjórnarinnar. Það berast sífellt fréttir um átök og ósamkomulag og margendurteknar yfirlýsingar um frumvörp um einhver úrræði standast ekki því engin frumvörp koma fram sem taka á vandanum.
    Hv. 2. þm. Austurl. vék í sinni ræðu að því hvernig hv. fjárln. afgreiddi álit hv. landbn. á sínum þætti fjárlagafrv. Það var ekki aðeins að ekkert tillit væri tekið til þeirra ábendinga sem þar voru settar fram heldur var farið í öfuga átt. Það mátti heyra hér undir umræðunni á hv. formanni landbn. að hann ætlaði að knýja þar fram einhverja breytingu og vonandi verður honum ágengt að þoka einhverju til betri vegar, en það er óhætt að fullyrða að það verður aðeins dropi í hafið á móti þeim gífurlega samdrætti sem þar hefur orðið.
    Margir fagna þeim samdrætti og segja að þarna sjáist árangur af stefnu ríkisstjórnar í aðhaldi og sparnaði. En það hefur ekki fengist lagt mat á það hversu dýrkeyptur þjóðinni þessi samdráttur er. Það hefur verið margítrekað og gengið eftir við hæstv. forsrh. að Þjóðhagsstofnun gerði ítarlega úttekt á afleiðingunum samdráttar í landbúnaði nú síðustu tvö árin. Það hefur ekki enn þá fengist gert og vonandi fer að fækka vikunum sem líða þangað til niðurstaðan kemur af því, en lítið þýðir að beina spurningum til hæstv. ríkisstjórnar því hún er gjörsamlega gufuð upp og líka meiri hluti fjárln. ( ÓÞÞ: Komin á fyllirí.) Þannig að ekki virðist vera mikill áhugi á þessum málefnum þjóðarinnar hjá hæstv. ríkisstjórn. Enda er það athyglisvert að á sama tíma og þessi vandi blasir við í landbúnaðinum, í afkomu þar, og allir eru sammála um að sé geigvænlegur hjá sauðfjárbændum, þá kemur ekkert frá hæstv. landbrh. annað en tillögur um nýjar álögur og nýja skatta, sérstaklega á þessa atvinnugrein. Og ef hæstv. ráðherra er spurður um hvenær komi eitthvað annað frá honum, þá er svarið að það sé enn ekki samstaða í ríkisstjórninni um neitt.
    Það er því ekki nóg sem hv. 3. þm. Suðurl., Árni Johnsen, sagði áðan, að við hefðum mikla möguleika. Við eigum vatn og við eigum orku og við eigum land fyrir ferðaþjónustu. Hvernig er stefna ríkisstjórnarinnar í sambandi við ferðaþjónustu? Í hólf okkar þingmanna var að koma fréttabréf frá Sambandi veitinga- og gistihúsaeigenda og þar er á forsíðu ,,Vaskur á villigötum``. Nú vitum við það að vaskur, virðisaukaskatturinn, er ekki lifandi vera, hann er tæki ríkisstjórnarinnar. Þannig að hér er á kurteislegan hátt sagt: Ríkisstjórn á villigötum, og þar er vikið að þeirri nýju skattlagningu sem lögð er á þessa atvinnugrein sem margir hafa þó viljað vona að gæti verið vaxtarbroddur í okkar þjóðfélagi.
    Því miður er það svo að það er ekki aðeins að hæstv. ríkisstjórn lendi á villigötum heldur leiðir hún þjóðina líka í ógöngur með sínum villum. Það eru þessar ógöngur sem eru að birtast í þessu fjárlagafrv. og hér hefur verið drepið á í umræðum. Það eru gjaldþrot fyrirtækjanna og heimilanna, það er atvinnuleysið, það er halli á ríkissjóði. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar teljum það skyldu okkar að gera það sem í okkar valdi stendur til að vekja athygli á þessari eyðimerkurgöngu sem hæstv. ríkisstjórn virðist stefna í. Og þó að hæstv. ríkisstjórn telji að þetta fjárlagafrv. sé svo ómerkilegt að ekki taki því fyrir hæstv. ráðherra að vera viðstadda umræður um það, þá er það því miður örlagaríkt fyrir þjóðina og þess vegna alveg ótrúleg lítilsvirðing. --- Hér kemur þó einn hæstv. ráðherra, hæstv. umhvrh. og býð ég hann velkominn í salinn, þó að ég sé að ljúka máli mínu.
    Ég sagði að það væri skylda okkar að vekja athygli á þeim vítahring sem við erum komin í og birtist m.a. í fjárlagagerðinni. Með samdráttarstefnu í atvinnulífinu, þar sem ekki hefur farið fram hjá neinum hinn gífurlegi áhugi fyrir að flytja inn okkar neysluvörur í staðinn fyrir að framleiða þær hér, þá hlýtur auðvitað að draga úr okkar framleiðslu, okkar verðmætasköpun. Það þýðir minni atvinnu, minni umsvif, minni tekjur fyrir ríkissjóð og síðan kemur atvinnuleysið sem, eins og hér hefur komið fram, mun kosta ríkissjóð beint og óbeint í útgjöldum og minni tekjum um 20 milljarða á valdatíma þessarar ríkisstjórnar, það sem af er. En þrátt fyrir það, þó að staðan sé svona, þá verðum við að hvetja þjóðina til að leggja ekki árar í bát heldur reyna að hrinda af sér þessu þungbæra oki.