Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 01:41:17 (2483)


[01:41]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sem þarf að gerast ef menn vilja fá breytt vinnubrögð hér á Alþingi er að stíga skref sem menn hafa verið að hika við, sýna smávegis lit með því að deila völdum milli stjórnar og stjórnarandstöðu í litlu í sambandi við formennsku í þingnefndum. Það er lítið skref en skref til bóta. En það sem máli skiptir er að forusta þingsins, forsetadæmi þingsins, lyfti sér yfir stjórn og stjórnarandstöðu og stjórnarandstaðan hafi þar áhrif ekki síður en ríkjandi meiri hluti í sambandi við þinghaldið og við fáum hér yfirstjórn í þinginu sem njóti þannig óskoraðs trausts. Þetta segi ég ekki vegna neinna einstaklinga eða hverjir það skipa, heldur að menn geti komið málum hér í annan og skikkanlegri farveg. Það er lykillinn að því að fá annan svip á þinghald á Alþingi Íslendinga.