Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 01:42:31 (2484)


[01:42]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Austurl. hafði á orði að í þeirri litlu fjárveitingu, 0,8 millj. kr., vegna náttúrugripasafns á Vestfjörðum, hafi hann séð ákveðið ljós í myrkrinu. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta heldur lítil týra, en engu að síður er ég sammála hv. þm. um það að þetta er hið þarfasta og merkasta mál.
    Það er þannig til komið að í Bolungarvík hafa menn á undanförnum árum unnið hörðum höndum að því að undirbúa gott náttúrugripasafn sem þeir hafa vænst að gæti orðið leiðandi í kjördæminu sem náttúrugripasafn og jafnvel eygt þá von að þegar fram liðu stundir þá gæti þetta orðið náttúrustofa fyrir fjórðunginn. Þetta litla safn eða vísir að safni komst nokkuð í fjölmiðla í sumar og tengdist tilteknu dýri, ísbirni, sem felldur var norður af Íslandi ( Gripið fram í: Var það að frumkvæði þingmannsins?) --- sem var ekki að frumkvæði þingmannsins, sem var ekki einu sinni viðstaddur þegar hann var dreginn á land. Þá bar það til að hæstv. umhvrh. hafði á orði að e.t.v. mætti ánafna þessu ágæta safni ísbirninum. En það er aukaatriði. Aðalatriðið er að umsókn varðandi þetta náttúrugripasafn kom frá bæjarstjórn Bolungarvíkur og hafði raunar líka borist á síðasta ári, en var því miður ekki sinnt á þeim tíma. Hugsunin að baki fjárveitingu að þessu sinni er einfaldlega sú að með því að leggja fram lítið fé í upphafi mætti auðvelda það að koma þessu ágæta safni á laggirnar. Ég vona að verði þessi tillaga meiri hluta fjárln. samþykkt, þá geti þetta orðið upphafið að góðu starfi náttúrugripasafns á Vestfjörðum, í Bolungarvík, og með því að ríkisvaldið komi þarna til móts í upphafi, þá verði það til þess að þetta náttúrugripasafn verði myndarlegt strax í byrjun og rísi undir nafni sem slíkt.