Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 02:29:09 (2488)


[02:29]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér gefst nú ekki tækifæri til þess að fjalla um nema tvö atriði sem hv. ræðumaður gaf tilefni til að ég gerði. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að þær 50 millj. sem nú koma inn í frv. sem brtt. og snerta framhaldsskólana eru vegna HÍK fyrst og fremst. Þetta eru hækkanir sem urðu vegna kjarasamninga sem gerðir voru fyrr á árinu og giltu aftur í tímann við BHMR og HÍK. Ástæðan fyrir því að þetta átti sér stað eingöngu í menntmrn. með þessum hætti var misskilningur á milli fjmrn. og menntmrn. um verðlagið sem frv. byggðist á. Það kom í ljós að menntmrn. byggði á janúarverðlagi en aðrir, fjmrn. og önnur ráðuneyti, á verðlagi sem við köllum verðlag frumvarpsins. Þetta er skýringin. Ég held að hækkunin hafi verið 2,7% og síðan einhverjar eingreiðslur og slíkt sem kom til skjalanna. Þetta er fyrst og fremst það sem verið er að bæta með þessum hætti.
    Í öðru lagi vegna bréfs borgarstjóra til félmn. sem þingmenn Reykvíkinga hafa fengið afrit af, þá vil ég láta það koma mjög skýrt fram hér að þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur gert eru byggðar á sameiginlegu starfi sveitarfélaganna, ríkisins og atvinnulífsins og það er alveg hárrétt að á milli sveitarfélaganna verða tilfærslur. Reykjavík tapar nokkrum upphæðum, önnur sveitarfélög vinna til sín upphæðir en þegar upp er staðið kemur þetta nokkurn veginn niður á jöfnu, á atvinnulífinu, sveitarfélögunum sem heild að meðtöldum Jöfnunarsjóðnum og ríkinu og þessu er lýst ákaflega vel í svokölluðum skattabandormi. Auðvitað hlustum við á rök borgarstjórans í Reykjavík og borgarstjórnarinnar, en því miður er mjög erfitt að fresta þessu máli vegna þess að það er erfitt að fylgja eitt ár í viðbót eftir því að eltast við aðstöðugjaldsstofninn því að það verður erfitt fyrir framteljendur að halda honum til haga eins og var á fyrsta árinu sem átti aðeins að vera til bráðabirgða.