Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 02:31:47 (2489)


[02:31]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi misskilninginn sem hæstv. menntmrh. segir að hafi verið á milli menntmrn. og fjmrn. Mér sýnist að ef það eru 2,7% sé það þó nokkuð mikil upphæð ef hún er víðar en í framhaldsskólunum. ( Fjmrh.: Það var kannski 1,7%.) Og ég vil þá einfaldlega spyrja: Er orðið samkomulag á milli menntmrn. og fjmrn. um þetta mál? Telja menn að það sé komin lending í þessu máli? Ef þetta eru 2,7% er það talsvert miklu hærri upphæð en sú sem nefnd hefur verið á framhaldsskólana. Og í ræðu formanns fjárln. sem flutt var í dag segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Í fjárlagafrv. eru engar fjárhæðir til að mæta launaskriði og aldursflokkahækkunum.`` Ég veit að í fjárlagafrv., eða venjulega hefur verið í því liður sem heitir laun og verðlagsmál eða eitthvað því um líkt þannig að ég átta mig ekki alveg á því hvernig þetta fer saman að annars vegar er sagt: Það eru engar upphæðir í þetta. Svo er mismunur á þessum tveimur ráðuneytum upp á 1,7% eða 2,7%. Það er því eitthvað sem þarna fer á milli mála og ef svo er í málum af þessu tagi, þá getur það mjög fljótlega munað nokkrum tugum eða jafnvel hundruðum milljóna eins og hæstv. fjmrh. þekkir auðvitað manna best.
    Í öðru lagi lít ég svo á að í bréfi sínu hafi hæstv. fjmrh. verið að hafna bréfi borgarstjórans í Reykjavík um að skattbreytingin verði látin ganga yfir og að gamla kerfið verði ekki framlengt fyrir árið 1994.