Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 02:33:32 (2490)


[02:33]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það eru tvö eða þrjú atriði sem mig langar aðeins að koma að vegna ræðu hv. þm. eftir því sem tíminn endist. Hv. þm. sagði að kröfur Lánasjóðs ísl. námsmanna um námsframvindu væru oft í ósamræmi við kröfur skóla. Nú ætla ég ekki að fullyrða of mikið en ég held að þetta sé ekki rétt, að kröfur LÍN séu í ósamræmi við kröfur skóla. Hins vegar mun það vera rétt að kröfur sumra skóla eru mjög svo óraunhæfar. Einkum mun það vera í háskólum í Þýskalandi og mér er kunnugt um það að stjórn lánasjóðsins er með þetta mál til sérstakrar athugunar.
    Þá sagði hv. þm. það, sem oft hefur svo sem heyrst áður, að skorið hefði verið niður ofboðslega í Háskóla Íslands eins og hv. þm. orðaði það og að mjög væri þrengt að háskólanum. Ég veit ekki hvað ég hef oft reynt að koma réttum tölum til skila og býst svo sem ekkert við að mér verði trúað nú fremur en áður en það er ekki hægt að nota þau orð að þarna hafi verið um ofboðslegan niðurskurð að ræða.

Á föstu verðlagi er ráðstöfunarfé háskólans 1991 1.682,5 millj. en 1994 samkvæmt frv. 1.630 millj. Þetta eru lægri tölur sem nemur 50 millj. en skólagjöldin eru þarna inni í, ég tek það mjög skýrt fram. Þetta er ráðstöfunarfé háskólans þannig að þetta er ekki hægt að kalla ofboðslegan niðurskurð.
    Þá vildi ég aðeins segja vegna brtt. hv. þm. Svavars Gestssonar við brtt. um Staðarfell í Dölum að það mál hefur verið til nokkurrar meðferðar í menntmrn. vegna þess að þangað hefur borist erindi frá SÁÁ og í menntmrn. er engin andstaða við það að SÁÁ fái Staðarfell afhent en það kann að vera nokkur hængur á vegna þess að þegar Staðarfell komst til menntmrn. fyrir arf, þá var að háð ákveðnum skilyrðum, að þar skyldi vera skóli. Þegar skólahald þar lagðist niður, þá var gerður samningur við ættmenni arfleifanda um að meðferðarstöð mætti þar vera þannig að það þarf að ná samkomulagi við ættingja þess sem arfleiddi ráðuneytið að þessum skóla til þess að það megi afhenda staðinn. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé svo sem ástæða til að ætla að það verði þar neitt í veginum.