Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 02:36:40 (2491)


[02:36]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að krafa lánasjóðsins um 100% námsframvindu sé í sumum greinum allt of ströng, allt of stíf og ég tel þess vegna að ráðuneytið ætti að beita sér fyrir endurskoðun á þeim reglum, m.a. með þeim rökum að ég er sannfærður um að þegar litið væri til lengri tíma, mundi það ekki hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir lánasjóðinn.
    Í öðru lagi varðandi útgjöldin til háskólans þá held ég að það séu út af fyrir sig réttar tölur sem hæstv. ráðherra var með þó að það beri að taka það fram, eins og hann gerði, að skólagjöldin eru þarna inni í, en það ber líka að taka það fram að auðvitað er það svo að það er ekki bara skrið í launum, þróun í launum eða efnahagslegum stærðum, heldur er líka framskrið í þróun þátta eins og þeirra sem háskólar byggjast á og það er ekki hægt að halda háskóla föstum. Það er alltaf þannig að þar er kallað á nýja hluti og ný verkefni. Það hljóta menn að skilja. Þess vegna tel ég að háskólinn búi í raun og veru við gífurlega þröngan kost.
    Varðandi Staðarfell í Dölum þá heyrðist mér á því sem hæstv. ráðherra sagði að ótímabært sé að slá því föstu að það sé hægt að afhenda Staðarfell. Ég tel að það sé einboðið og ég hvet hæstv. ráðherra, bæði menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra, til þess að ganga ekki frá því máli öðruvísi en í samvinnu og samráði við heimamenn á því svæði.