Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 02:44:32 (2496)


[02:44]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Klukkan er nú langt gengin í þrjú og þingfundur hefur nú staðið í næstum því 16 klukkustundir og a.m.k. nokkrir þingmanna sem hér eru hafa verið hér lungann úr deginum og þó að vissulega megi taka það fram og sé ástæða til þess að taka það fram að hér er margra þingmanna saknað úr salnum því að heldur er hann orðinn þunnskipaður. ( Fjmrh.: Þeim mun betur.) Þeim mun betur, segir fjmrh. Það er að vísu rétt að það er hérna mannval hið besta, en engu að síður er það nú þannig að hér koma þingmenn sem ætla að tala fyrir brtt. og eru kannski búnir að bíða eftir því meira og minna í allan dag að tala fyrir þessum tillögum og það verður að segjast eins og er að það er dálítið leiðinlegt að tala aðallega yfir stólunum og sjá ekki framan í marga þingmenn þegar það er gert. Við erum að afgreiða hérna fjárlögin sem eru ramminn um það sem gert verður á næsta ári og þegar lagðar eru fram brtt. og talað fyrir þeim, þá er ekki verið að gera það bara til þess að fullnægja einhverju formsatriði, heldur vegna þess að menn vilja leggja eitthvað til málanna, leggja inn í fjárlögin sínar tillögur og reyna að sannfæra aðra þingmenn, samþingmenn sína um að þessar tillögur eigi fyllilega rétt á sér og ættu í rauninni að samþykkjast. Mér finnst því dálítið leiðinlegt að það skuli vera þannig að hér sé talað langt fram á nætur yfir tómum stólum bara til þess eins að fullnægja einhverjum formsatriðum. Ég ætla samt að tala fyrir þessum tillögum. Ég á ekki annarra kosta völ fyrst svona er komið, en margt annað sem ég hefði viljað segja í þessari fjárlagaumræðu ætla ég að láta liggja á milli hluta, enda hefur margt verið sagt hér í dag sem kannski er óþarfi að endurtaka.
    En áður en ég geri það langar mig til þess að fara nokkrum orðum um fjárlagafrv. almennt og þá kannski þennan ramma sem maður sér þar. Á það hefur verið bent hér af öðrum þingmönnum að það sem einkenni þessa fjárlagagerð og störf ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans eða stjórnarþingmanna á þessu hausti sé hringlandaháttur og ráðleysi. Fjárlagahugmyndir hafa tekið sífelldum breytingum allt frá því að

fyrst var farið að ræða þær og er þess skemmst að minnast að í vor var samið við ASÍ í kjarasamningum um lækkun matarskatts. Þó að vissulega megi draga í efa að það sé eðlilegt og réttlætanlegt að semja um slíka hluti í kjarasamningum, þá var það engu að síður gert. Hins vegar var eins og ríkisstjórnin vaknaði upp við vondan draum í nóvember og eins og hún áttaði sig á því að þetta væri eitthvað sem væri illframkvæmanlegt með skömmum fyrirvara. Og þá taldi ríkisstjórnin sig geta tekið málið einfaldlega upp og fengið þessu breytt án þess að gefa því gaum að þarna var um lið í samþykktum kjarasamningum að ræða og umboðið sem forusta ASÍ hefur til þess að breyta slíkum hlutum hlýtur að vera takmarkað. Það hefði í rauninni þýtt að kjarasamningar hefðu verið lausir og ASÍ-forustan hefði þá þurft að fara með þessi mál aftur út í félögin og semja að nýju.
    Ég sagði að ríkisstjórnin hefði vaknað upp við vondan draum. Það er ljóst að þó að þetta hafi auðvitað verið erfitt mál að framkvæma, þ.e. að koma á tveimur þrepum í virðisaukaskattinum, þá hefur ríkisstjórnin líka notað tímann mjög illa frá því í vor. Og ég er alveg sannfærð um það að ef menn hefðu verið ákveðnari í því að þeir ætluðu að framkvæma þetta, þá hefði verið unnið betur að þessum málum. Við vorum boðuð á fund í morgun hjá samtökum sem kalla sig Íslensk verslun og þar eru m.a. Kaupmannasamtökin sem eru aðilar og Félag íslenskra stórkaupmanna og Bílgreinasambandið. Þar kom fram að þeir telja sig eiga mjög erfitt með að framkvæma þessa breytingu í virðisaukaskattinum núna um áramótin, ekki síst vegna þess að það liggur ekki fyrir nein reglugerð eða reglugerðardrög frá fjmrn. um það hvernig eigi að framkvæma þetta, hvaða vörutegundir þarna féllu undir og hverjar ekki. Þar að auki var alveg greinilegt af viðræðum við þessa menn að vegna þess hvernig ríkisstjórnin hafði staðið að þessu, vegna þess að ríkisstjórnin hafði sáð fræjum efasemda um að þetta kerfi yrði tekið upp, þá höfðu menn verið andvaralausir og lítið unnið að þessum málum í versluninni. Þeir höfðu í rauninni trúað því að þetta yrði ekki að veruleika, enda hafði ríkisstjórnin auðvitað gefið fulla ástæðu til þess að ætla að svo yrði ekki. En staðreyndin er nú sú að það virðist fátt koma í veg fyrir að tekin verði upp tvö þrep í virðisaukaskatti núna um áramótin.
    Ég vil að það komi skýrt fram að ég er þeirrar skoðunar að það sé rétt að vera með tvö þrep í virðisaukaskatti og vera með nauðsynjavöru í lægra þrepi og eitthvað sem við getum kannski kallað síður nauðsynjavöru í hærra þrepi. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé rétt. Hins vegar hef ég miklar efasemdir um að það eigi að semja um slíka hluti í kjarasamningum við tiltekin samtök sem eru í þessu tilviki ASÍ, en það þýðir auðvitað það að önnur heildarsamtök eins og BSRB og BHMR eiga ekki annarra kosta völ en að kaupa þennan pakka sem búið er að semja þarna um á þessu borði. Og ég er full efasemda um að rétt sé að gera þetta með þessum hætti.
    En það átti að fjármagna matarskattinn með ýmsum hætti. Það átti m.a. að fjármagna hann með fjármagnstekjuskatti, 10% skatti á nafnvexti, það átti að fjármagna hann með heilsukortum og það átti að fjármagna hann með því að leggja 0,5% atvinnuleysistryggingagjald á launþega. Það er skemmst frá því að segja að nú er hætt eina ferðina enn við að leggja á fjármagnstekjuskattinn og er borið við tæknilegum örðugleikum í framkvæmd hans. Nú skal ég ekki draga það í efa að á því séu ýmsir tæknilegir örðugleika en það eru sannarlega líka ýmsir tæknilegir örðugleikar á margvíslegri annarri skattheimtu sem skýtur upp kollinum hérna á þinginu ár eftir ár rétt fyrir jól, afgreitt hér í hasti og framkvæmt án þess að menn hafi hugsað sitt mál til enda. Og það væri sannarlega óskandi að jafnvandaður undirbúningur væri að annarri skattlagningu eins og virðist eiga að vera að þessari skattlagningu á fjármagnstekjum því að þetta er búið að taka slíkan óratíma og það er búið að ræða þetta svo lengi og það eru alltaf tæknilegir örðugleikar einhvers staðar í veginum. Það er ekki verið að hrapa að ákvörðunum þegar um þetta er að ræða þó að það sé gert þegar önnur skattlagning á í hlut.
    Þegar ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að leggja ekki á fjármagnstekjuskattinn að þessu sinni þá sagði aðstoðarmaður fjmrh. í fjölmiðlum eitthvað á þá leið að verkalýðshreyfingin þyrfti í rauninni ekki að hafa áhyggjur af þessu, hún mætti láta sér á sama standa, þetta væri bara tekjuvandi ríkissjóðs. Það væri ríkissjóður sem þarna næði ekki í vissar tekjur sem yrði að glíma við þennan tekjuvanda eða þetta gat sem þarna myndaðist. En mér finnst dálítið bratt að segja þetta vegna þess að hvernig er tekjuvandi ríkissjóðs yfirleitt leystur? Tekjuvandi ríkissjóðs er leystur yfirleitt með skattlagningu á einstaklinga. Við höfum ekki séð annað til þessarar ríkisstjórnar eða með niðurskurði í velferðarkerfi eða annarri þjónustu við almennt launafólk þannig að ef það myndast tekjuvandi hjá ríkissjóði, myndast gat hjá ríkissjóði, þá er fyllsta ástæða fyrir launþega og fyrir verkalýðshreyfinguna að hafa áhyggjur af því, enda höfum við séð það í þeim tekjuáætlunum sem ríkisstjórnin er með uppi núna að þar eru það ekki síst einstaklingarnir sem eiga að bera þær byrðar.
    Í fyrra eins og hefur talsvert rætt um áður, m.a. í tengslum við skattabandorm ríkisstjórnarinnar, var tekjuskattur einstaklinga í staðgreiðsu hækkaður um 1,5% og sú hækkun átti að koma í stað aðstöðugjaldsins. Og síðan fengu sveitarfélögin 80% af aðstöðugjaldsstofni sínum greitt frá ríkinu og það var fjármagnað með þessari skattlagningu á einstaklinganna, þessari hækkun á tekjuskatti. Núna eru menn að leita eftir að mér skilst varanlegri leið til þess að breyta þessu. Hér hefur verið minnst á það að Reykjavíkurborg hafi farið fram á það að þessu yrði frestað og það yrði hafður sami háttur á á næsta ári og nú í ár,

þ.e. að reikna út aðstöðugjaldið og síðan greiða það með sama hætti og var gert núna, þ.e. með því að hækka tekjuskattinn og ríkið greiddi það síðan yfir til sveitarfélaganna. Við höfum rætt þetta mál í félmn. og það virðist ekki vera grundvöllur fyrir því eftir því sem mér hefur heyrst þar að viðhalda sama kerfi og var nú í ár á þessum hlutum. Núna á sem sagt að flytja hluta af staðgreiðslunni yfir til sveitarfélaganna og heimila þeim að leggja á hærra útsvar en gert hefur verið og leyfa þeim að fara í hámark, hækka um 1,7%, í útsvarinu. Ef vel ætti að vera þá ætti ríkið að lækka sig sem þessu nemur. Fjmrh. sagði hér áðan að eins og skattabandormurinn liti nú út og þær breytingar sem þar eiga sér stað þá væri þetta nokkurn veginn í jafnvægi, þ.e. einstaklingarnir bæru nokkurn veginn sömu skattbyrði og í fyrra, ríkið fengi nokkurn veginn það sama og það fékk í fyrra og sveitarfélögin fengju nokkurn veginn það sama og þau fengu í fyrra. ( Fjmrh.: Á yfirstandandi ári.) Ég meina á yfirstandandi ári, ég er farin að tala út frá árinu 1994, en ég meina á yfirstandandi ári. Þetta sagði fjmrh. hér áðan.
    Ég fæ nú ekki séð að þetta passi vegna þess að eins og ég sagði áðan hækkaði ríkið tekjuskatt sinn í staðgreiðslu á þessu ári um 1,5% en þegar við flytjum þetta yfir til sveitarfélaganna og leyfum þeim að hækka hjá sér útsvarið um 1,7%, þá ætlar ríkið samt ekki að lækka hjá sér tekjuskattinn nema um 1,15% sem þýðir það að þeir skilja þarna eftir 0,35% af hækkuninni sem þeir lögðu á á þessu ári, þeir skilja það eftir og ná þar í 700 millj. kr. Fjmrh. hristir höfuðið. Hann útskýrir þetta þá væntanlega fyrir mér hér á eftir en ég fæ alls ekki séð hvernig hægt er að neita því. Það var hækkað um 1,5% á þessu ári, tekjuskatturinn af staðgreiðslunni, það á að lækka um 1,15%, þá hljóta 0,35% að standa eftir sem samkvæmt mínum útreikningum gera 700 millj.
    Við skulum gefa okkur að sveitarfélögin fullnýti hækkunina um 1,7% á næsta ári í staðgreiðslunni og ríkið heldur eftir þessum 0,35%. Þá fæ ég ekki betur séð en staðgreiðslan hækki um 2,05% á þessu ári frá því sem hún var 1992 og eftir því sem mér hefur skilist þá er þarna um varanlega breytingu að ræða, þ.e. það er varanleg breyting að sveitarfélögin fái 1,7% hærra útsvar en þau höfðu og ég hef ekki heyrt annað en það sé þá líka varanleg breyting að hækka tekjuskattinn um 0,35%. Þetta gefur um 1,5 milljarða í aukna skattheimtu á einstaklingana á næsta ári þannig að það er augljóst hvert á að sækja peningana eins og hefur reyndar verið háttur þessar ríkisstjórnar síðan hún tók við. Hún hefur alltaf sótt þetta í vasa launafólks.
    Um þessi vinnubrögð í skattamálum eins og þau hafa verið viðhöfð hérna þarf ég ekki að hafa mörg orð. Þau eru óverjandi og ég held að það séu flestir þingmenn sammála því í hjarta sínu, hvort sem þeir eru stjórnarþingmenn eða stjórnarandstöðuþingmenn, að það sé algerlega óviðunandi að vera að hræra í skattamálunum og stunda ég get nánast sagt einhvers konar hrossakaup með þessi mál rétt fyrir jól til þess að ná endum saman í fjárlagafrv. og vakna svo upp við vondan draum þegar líður á næsta ár því að þá loks átta menn sig á því hvernig hlutirnir koma út og hvernig þeir virka í raun og um þetta eru auðvitað mörg dæmi.
    Ég ætlaði, virðulegur forseti, að fara nokkrum orðum um heilbrigðismálin. En ég verð að segja eins og er að ég sé ekki ástæðu til þess að eyða hvorki mínum tíma né annarra þingmanna í að gera það á þessari nóttu þar sem hvorki er viðstaddur hérna heilbr.- og trmrh. né formaður heilbr.- og trn. þingsins og ég veit þá ekki við hvern ég ætti að ræða þau mál þannig að vit væri í því. Og þó að ég efist ekki um að fjmrh. hafi reynt að kynna sér þau mál eitthvað, þá er ég ekki viss um að það sé hægt að ræða þau til nokkurrar hlítar án þess að heilbr.- og trmrh. sé hér viðstaddur.
    Ég ætla þá að tala fyrir þessum brtt. sem við kvennalistaþingkonur flytjum á þskj. 335. Þetta eru 5 tillögur og það þarf í sjálfu sér ekki að hafa langt mál um þær allar en þó eru þær aðeins mismunandi. Í fyrsta lagi flytjum við tillögu um að við 4. gr. 02-201 Háskóli Íslands bætist nýr liður sem heitir Kvennarannsóknir og á þann lið viljum við setja 3 millj. kr. Um þessa tillögu er það að segja að Rannsóknastofa í kvennafræðum við Háskóla Íslands var stofnuð samkvæmt reglugerð frá menntmrn. árið 1990. Það var í rauninni í samræmi við þróun sem hefur verið að gerast í flestum nágrannalöndum okkar þar sem konur hafa verið að sækja í sig veðrið á vettvangi vísinda og fræðimennsku. Þannig hafa verið byggðar upp rannsókna- og kennslustofnanir í kvennafræðum innan flestra viðurkenndra háskóla í Evrópu og Bandaríkjunum og þó víðar væri leitað. Á hinum Norðurlöndunum hafa stjórnvöld verið með sérstakt átak undanfarinn áratug til að efla bæði kennslu og rannsóknir á þessu sviði. Innan Háskóla Íslands hefur umræða um eflingu kvennafræða varla farið af stað nema á mjög óformlegan hátt þó að margir íslenskar konur hafi lagt stund á rannsóknir í hinum ýmsu faggreinum út frá kvennasjónarhorni og sífellt fleiri stúdentar skrifi nú lokaritgerðir sínar við háskólann um málefni kvenna.
    Þrátt fyrir mikinn áhuga kvenna jafnt innan háskólans sem utan á þessu fræðasviði þá hefur fjárveiting til kennslu og rannsókna varla verið nokkur að heitið geti frá háskólanum. Og þarna komum við kannski aðeins að þeirri umræðu sem hér hefur rétt farið fram um sjálfstæði háskólans og stöðu hans, bæði faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði vegna þess að það geta verið á því ýmsar hliðar. T.d. hefur sú þróun að háskólinn fái heildarupphæð á fjárlögum sem hann á síðan að skipta á milli deilda og stofnana sem allar eru auðvitað í fjársvelti, ekki orðið kvennafræðum við háskólann til framdráttar. Þótt sífellt fleiri konur komi til starfa við háskólann og konur séu að verða meiri hluti nemenda, ég held að konur séu orðnar meiri hluti

nemenda við Háskóla Íslands, þá á engin kona utan tveggja fulltrúa stúdenta sæti í háskólaráði og engin kona situr í fjármálanefnd háskólans. Það er því hætt við að háskólinn eigi enn eftir að dragast aftur úr sambærilegum stofnunum erlendis í jafnréttismálum. Miðað við aðrar stofnanir þjóðfélagsins stendur Háskóli Íslands einnig höllum fæti þegar um jafnréttissjónarmið er að ræða og það finnst mér ekki vera góður vitnisburður um þessa æðstu menntastofnun þjóðarinnar að hún skuli standa svona illa að vígi í jafnréttismálum, að það skuli ekki ein einasta kona úr hópi háskólakennara eiga sæti í háskólaráði. Þar eru tvær konur og þær eru báðar fulltrúar stúdenta. Og eins þetta að það er engin kona í fjármálanefnd háskólans. Til þess að bæta nú aðeins þessa slagsíðu sem þarna er og til þess að rétta aðeins hlut kvennafræða við háskólann sem eiga þar undir högg að sækja og þurfa að slást þar um takmarkaða fjármuni við ákveðið ofurefli þá förum við fram á að það verði varið 3 millj. kr. til að efla kvennafræði innan Háskóla Íslands. Annars vegar mundi þessi fjárveiting verða notuð í þróunar- og stjórnunarkostnað og hins vegar til að veita tímabundnar stöður til fræðikvenna til ákveðinna rannsóknaverkefna og hugsanlega líka til kennslu í aðferðafræði í kvennafræðum og kenningum kvennafræða. Þessa tillögu viljum við leggja hér fram og leggjum mikla áherslu á. Það er ekki farið fram á mikið þegar um 3 millj. er að ræða því við erum að ræða hér um miklu hærri fjárhæðir í Vestmannaeyjatilvikinu sem hefur mikið verið til umræðu í dag.
    Önnur tillaga okkar snýr að Kennaraháskóla Íslands. Þar leggjum við til að bætist við 10 millj. kr. Um það þarf ég ekki að hafa mörg orð. Fjárveitingar til Kennaraháskóla Íslands standa nánast í stað á þessu ári, þ.e. rekstrarframlag til skólans er nær óbreytt í krónum talið samkvæmt fjárlagafrv. en starfsemi skólans hefur hins vegar verið aukin verulega samkvæmt ákvörðun menntmrn. og þar ber auðvitað hæst flutning kennslumiðstöðvar Námsgagnastofnunar til Kennaraháskólans. Fjárveiting til reksturs kennslumiðstöðvarinnar á árinu 1993 er um 10 millj. kr. en samkvæmt greinargerð með fjárlagafrv. fyrir næsta ár virðist engin fjárveiting fyrirhuguð til þessarar kennslumiðstövðar og við teljum alveg ófært að flytja stofnun með þessum hætti til Kennaraháskólans án þess að því fylgi einhverjir fjármunir í upphafi, að það sé mikilvægt ef vel eigi að takast til um þessa kennslumiðstöð að hún fái ákveðna fjármuni í upphafi með þessum flutningi.
    Þriðja tillagan sem við flytjum fellur undir liðinn Þróunarmál og alþjóðleg starfsemi. Það er nýr liður sem er nr. 114 og heitir Hjálparstarf Sameinuðu þjóðanna fyrir konur í þróunarlöndunum. Þar leggjum við til að komi 5,6 millj. kr. til þeirra samtaka sem heita UNIFEM. Á Íslandi er starfrækt félagið UNIFEM, það er til í mjög mörgum löndum og var stofnað á Íslandi 18. des. 1989. Starfsemi þess hefur aðallega falist í því að kynna UNIFEM en það er þróunarsjóður Sameinuðu þjóðanna fyrir konur í þróunarlöndunum og þróunaraðstoð almennt. Þetta félag hefur haldið fundi árvisst 24. okt., á degi Sameinuðu þjóðanna. Þessir fundir hafa ævinlega verið mjög vel sóttir og notið sívaxandi áhuga. Þá gefur félagið út 2--4 fréttabréf á ári en þetta félag hefur enn ekki notið neinna opinberra styrkja, hvorki til reksturs né til þróunarverkefna. Og það er ástæða til þess að minna á það hér þó að maður eigi kannski ekki að vera með neinn meting í því sambandi að Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi er með á fjárlögum held ég að ég fari rétt með 600 þús. kr. til reksturs. Það er félag sem ég held að við heyrum afskaplega lítið af og verð ekki vör við að það sé mikið lífsmark með því félagi. Hins vegar erum við með félag eins og UNIFEM sem hefur verið að sækja mjög í sig veðrið á undanförnum árum og er mjög merkilegt félag sem nýtur engra rekstrarframlaga á fjárlögum. Ég held að það sé alveg tímabært að menn hugi nú að því hvort ekki sé rétt að styðja aðeins við bakið á félaginu.
    UNIFEM-sjóðurinn í New York, þ.e. þessi þróunarsjóður Sameinuðu þjóðanna fyrir konur í þróunarlöndunum, hefur hins vegar fengið fé af fjárlögum nokkur undanfarin ár. Fyrst var það undir sérstökum lið fjárlaganna en síðustu árin hefur styrkurinn komið úr svokölluðum potti utanrrn. eða af heildarfjárveitingu utanrrn. Það má kannski geta þess með þessar fjárveitingar til UNIFEM-sjóðsins í New York að hann fékk um 19 þús. dollara af fjárlögum 1974--1983. Árin 1984 og 1985 fékk hann 6 þúsund dollara, lækkaði verulega og síðan féllu framlög alveg niður 1985--1990. Þá voru þau hins vegar tekin upp aftur og á árinu 1992 voru þau komin upp í 21 þúsund dollara. Það er engin ástæða til þess að ætla annað en sjóðurinn fái þetta framlag áfram af óskiptu framlagi utanrrn. en við teljum engu að síður mikilvæg að styrkja UNIFEM á Íslandi beint vegna þess að þá er hægt að velja sérstakt íslenskt verkefni af verkefnalista UNIFEM og styrkja það og styðja. Þetta gerði UNIFEM á Íslandi sl. vor í góðri trú og félagið hafði ástæðu til þess að ætla að ríkisstjórnin mundi styðja félagið í þróunarvinnu sinni. Það hafði verið talað um það við félagið að það fengi 5 millj. á ári næstu þrjú ár eða 15 millj. í heildina en við það hefur ekki verið staðið. Verkefnið sem UNIFEM á Íslandi valdi til þess að styrkja var ræktunarverkefni í Andersfjöllunum og þetta verkefni er eins og önnur verkefni á vegum UNIFEM að það skilar sér afskaplega vel til kvenna og aðstoðar konur á þessum svæðum til þess að verða virkir þátttakendur í ákvarðanatöku í þeirra byggðarlagi.
    UNIFEM hefur hlotið mikið lof og margar viðurkenningar fyrir vel unnin þróunarverkefni og má í því sambandi m.a. geta þess að Alþjóðabankinn hefur leitað í smiðju til UNIFEM þegar þeir skipulögðu nýjasta þróunarátak sitt í ræktun á Indlandi. Við gerum tillögu um að UNIFEM fái 5,6 millj. kr. og þá sjáum við það þannig fyrir okkur að 5 millj. séu styrkur vegna verkefnis UNIFEM á Íslandi, þ.e. þetta verkefni í Andesfjöllunum sem Íslandsdeildin vill styrkja, en hins vegar séu 600 þús. rekstrarstyrkur til UNIFEM á Íslandi.
    Fjórða tillagan sem við flytjum snýr að atvinnumálum kvenna og það er liður sem er inni í félmrn. undir vinnumál og heitir Atvinnumál kvenna og hafa verið 15 millj. á nú í a.m.k. þrjú ár, hefur stundum gengið undir nafninu Jóhönnusjóðurinn. Þessi liður hét Atvinnumál kvenna á landsbyggðinni og heitir það kannski enn eða hét það í frv. eins og það var lagt fram hér í haust, en hefur verið talað um að því heiti verði breytt og heiti Atvinnumál kvenna. Í staðinn fyrir 15 millj. viljum við að komi 75 millj., þ.e. 60 millj. til viðbótar komi á þennan lið. Ég mun nú aðeins rökstyðja það hvers vegna við leggjum þetta til.
    Eins og flesta rekur minni til stóð ríkisstjórnin fyrir nokkuð víðtækum atvinnuskapandi aðgerðum í sumar. Hún hafði í tengslum við kjarasamningana sl. vor lofað milljaði í atvinnuskapandi aðgerðir en þegar til átti að taka kom í ljós að af þessum milljarði voru 558 millj. kr. vannýttar fjárveitingar frá fjárlögum ársins 1992 sem voru bara færðar yfir á árið 1993 þannig að hin raunverulega aukafjárveiting til atvinnuskapandi aðgerða er 487 millj. kr. Til ráðstöfunar var engu að síður, þó hluti af því væri frá árinu á undan, 1 milljarður 45 millj. kr. og það sem vekur auðvitað athygli og sker í augu er að 960 millj. kr. af þessum rúma milljarði, 92% af framlaginu, fóru til atvinnuskapandi aðgerða fyrir karla en 80 millj kr. eða 8% af framlaginu fór til atvinnuskapandi aðgerða fyrir konur. Og þegar ég segi þetta voru raunar bara 60 millj. kr. eyrnamerktar í atvinnusköpun fyrir konur. Hitt var allt bara eitthvert framlag til atvinnuskapandi aðgerða, eyrnamerkt engum auðvitað.
    Hins vegar þegar lesinn er verkefnalistinn sem ríkisstjórnin setti saman og ákvað í hvað þessum fjármunum skyldi varið, þegar sá verkefnalisti er lesinn þá er alveg morgunljóst hverjum þetta fjármagn nýttist fyrst og fremst því að þarna er aðallega um að ræða vegagerð, byggingaframkvæmdir og viðhald á byggingum og við vitum það ósköp vel að það eru fyrst og fremst karlmenn sem vinna við þessi störf.
    Ríkisvaldið var ekki eitt um það að grípa til atvinnuskapandi aðgerða í sumar. Það gerðu líka sveitarfélögin. Þau stóðu fyrir ýmsum átaksverkefnum í sumar sem m.a. voru fjármögnuð úr Atvinnuleysistryggingasjóði af því 500 millj. kr. framlagi sem sveitarfélögin greiddu þar inn á þessu ári og það verður að segjast eins og er að sveitarfélögin hafa staðið sig mun betur en ríkið gagnvart konum. Þar er ólíku saman að jafna en samt sem áður hafa konur borið skarðan hlut frá borði í þessum atvinnuátaksverkefnum sveitarfélaganna. Hlutfall kvenna í átaksverkefnunum hefur aðeins verið 34,1% á móti 65,9% karla sem hafa verið í þessum verkefnum. Upplýsingar um þetta hlutfall hef ég úr skýrslu frá starfshópi um atvinnumál kvenna sem hefur starfað í félmrn. þannig að þessi hlutföll eru ekki minn tilbúningur heldur er þetta úr þessari skýrslu frá félmrn. En þar er að vísu einungis getið um það hvernig konur koma út úr atvinnuskapandi aðgerðum sveitarfélaganna en ekki hvernig þær koma út úr atvinnuskapandi aðgerðum ríkisvaldsins þar sem myndin er enn verri eins og ég gat um áðan.
    Þessi ójöfnuður sem þarna var í framlögunum endurspeglast auðvitað í atvinnuleysistölum og enn ætla ég að vitna til þessarar skýrslu frá félmrh. Þetta er skýrsla sem var lögð fram sem þskj. og heitir Skýrsla félmrh. um rannsókn af afleiðingum atvinnuleysis. Í þessari skýrslu segir að nokkuð hafi dregið úr atvinnuleysi í sumar en miklu minna hefur dregið úr atvinnuleysi kvenna en karla frá því það var mest í mars. Almennar vinnumarkaðsaðgerðir hins opinbera hafa dregið miklu meira úr atvinnuleysi karla en kvenna. Þess vegna reyndist nauðsynlegt að fara í sérstök atvinnukapandi verkefni fyrir konur, segir í skýrslunni og það voru 60 millj. af þeim milljarði reyndar kom líka frá sveitarfélögunum til kvenna, en af þessum milljarði sem ríkisvaldið setti í þetta.
    Það er sagt hérna að langtímaatvinnuleysi hafi lítillega aukist frá maí til ágúst og fjölgun verði einkum hjá þeim sem hafi verið atvinnulausir lengur en 9 mánuði en hins vegar fækki þeim sem hafi verið atvinnulausir 6--9 mánuði, þ.e. hjá þeim sem hafa verið atvinnulausir lengur en 9 mánuði eykst atvinnuleysið. Og í skýrslunni segir:
  ,,Langtímaatvinnuleysi kvenna hefur aukist í heild um 19% en langtímaatvinnuleysi karla hefur minnkað um 11%,`` þ.e. langtímaatvinnuleysið er að aukast hjá konum. Og þá segir hér og það er meginniðurstaða í þessari skýrslu hjá félmrh.:
    ,,Meginniðurstaðan er sú að atvinnuskapandi aðgerðir á þessu ári hafa einkum skilað sér til yngra fólks, til karla og til þeirra sem ekki hafa verið of lengi atvinnulausir.``
    Þetta finnst mér í rauninni vera talsvert mikill áfellisdómur yfir þeim aðgerðum sem ríkisvaldið hefur gripið til í atvinnumálum að það skuli ekki hafa nýst þeim sem hafa verið langtímaatvinnulausir og konum því að ég held að þetta séu þeir hópar sem eigi miklu erfiðara uppdráttar á vinnumarkaði en hinir og þess vegna fyllsta ástæða til þess að reyna að grípa til aðgerða sem geti gagnast þessum hópum.
    Atvinnuleysistölur núna eru hins vegar miklu daprari en þær voru í sumar vegna þess að auðvitað dró dálítið úr atvinnuleysinu með þessum aðgerðum. Núna eru atvinnuleysistölur þannig að atvinnuleysi er 6% meðal kvenna og 4,2% meðal karla. Enn þá sígur á ógæfuhliðina fyrir konur og atvinnuleysi eykst þar hraðar heldur en hjá körlum.
    Þá blasa við okkur þær nöturlegu tölur að meðal ungs fólks á aldrinum 16--20 ára er atvinnuleysi núna 16% og þetta eru auðvitað alveg hrikalegar tölur sem við erum að sjá þarna.

    Þá segir líka í þessari skýrslu frá félmrh. að í sumar hafi atvinnuleysi meðal karla á höfuðborgarsvæðinu minnkað um 30% í sumar. Þetta sama hlutfall er mun hagstæðara hjá körlum á landsbyggðinni þar sem fækkað hefur um nánast 60% á atvinnuleysisskrá á síðustu tveimur mánuðum. Þá segir að hjá konum sé þetta hlutfall ekki jafnhagstætt. Hjá konum á landsbyggðinni hefur atvinnuleysið reynar minnkað um liðlega 30% en á móti kemur að atvinnuleysi meðal kvenna á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist um rúmlega 15%. Meðal kvenna á höfuðborgarsvæðinu hefur atvinnuleysi aukist um 15% þegar það hefur verið að minnka hjá öllum öðrum. Og þetta segir okkur kannski betur en flest annað hvað það er mikilvægt að þessi liður sem hefur verið í félmrn. og hefur heitið Atvinnumál kvenna á landsbyggðinni, að þetta sé útfært til höfuðborgarsvæðisins líka. En það eitt dugir auðvitað ekki. Ef það eru bara 15 millj. kr. á þessum lið, þá dugir ekki að yfirfæra þetta yfir á allt höfuðborgarsvæðið því að þetta er þá ekki til skiptanna. Og þess vegna leggjum við til að þessi liður verði ekki 15 millj. heldur 75 millj. og þá viljum við halda í þetta 60 millj. kr. framlag sem fór í sumar til atvinnumála kvenna og var þarna sérstakt framlag á vegum ríkisstjórnarinnar.
    Mig langar í þessu sambandi einmitt að geta þess að konur hafa verið úti um allt land að vinna að atvinnuuppbyggingu og reyna að skapa sér störf en þær hafa átt við ramman reip að draga vegna þess að það er ekki auðvelt að komast í styrki eða lánsfé, ekki nema fólk sé tilbúið til að veðsetja heimili sín og ég held að það séu afskaplega fáar konur tilbúnar til að taka þá áhættu. Þær vilja heldur hafa hlutina smærri í sniðum og vera öruggar með heimili sín og fjölskyldur heldur en leggja allt undir. Hins vegar væri auðvitað afskaplega æskilegt ef menn vildu nú vakna í þessu lánakerfi hérna upp af sínum þyrnirósarsvefni og fara að fjárfesta í hugmyndum fólks og hugmyndum kvenna. Það er það sem þarf að gerast, ekki endilega að það séu lögð fram einhver veð í steinsteypu sífellt heldur að menn reyni að meta hugmyndirnar og sjá hvort þær eru arðvænlegar og fjárfesta í þeim. Þá blasir það auðvitað við að fjárfestingarlánasjóðir og viðskiptabankar eru mun opnari fyrir körlum heldur en konum og það eru þeir sem eru stóru skuldararnir og það er þeirra vegna sem verið er að leggja á afskriftareikninga um 10 milljarða á ári hverju. Á sama tíma eru konurnar að sækja í litlu sjóðina. Það er þessi Jóhönnusjóður svokallaður sem eru 15 millj. kr. inn í félmrn., það er smáiðnaðarsjóðurinn í iðnrn. upp á 11 millj. kr. og svo er það smáverkefnasjóður Framleiðnisjóðs landbúnaðarins upp á líklega 8 millj. kr. á þessu ári og það sést náttúrlega hugmyndin á bak við það. Þetta eru allt smáverkefnasjóðir og smáiðnaðarsjóðir og eitthvað smátt. Það eru stórir sjóðir fyrir stóra karla með stórar hugmyndir og litlir sjóðir fyrir litlar konur með litlar hugmyndir. Það er svona hugmyndafræði sem manni finnst búa á bak við þetta allt saman. ( Fjmrh.: Small is beautiful.) Vissulega er það ,,beautiful`` en það dugir nú stundum skammt að vera fagur. Það þarf meira til í þessu lífi heldur en vera fagur.
    Mig langar í þessu sambandi einmitt að vitna hér í það sem segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar um smáverkefnasjóð landbúnaðarins. Það er dálítið athyglisvert sem þar segir. Þar er þessum smáverkefnasjóð hrósað að mörgu leyti og sagt að 131 umsókn um styrk hafi hlotið jákvæða afgreiðslu þar frá því að sjóðurinn hóf starfsemi sína og alls hafi verið samþykkt að veita um 20,3 millj. kr. í styrk. En síðan segir í þessari skýrslu frá Ríkisendurskoðun, með leyfi forseta:
    ,,Hins vegar vekur það athygli að samstarfsnefndin,`` þ.e. samstarfsnefndin sem úthlutað hafi úr þessum sjóð, ,,sem m.a. er skipuð fulltrúa úr stjórn Framleiðnisjóðs skuli hafi séð ástæðu til þess að setja jafnskýrar starfsreglur um starfsemi sjóðsins og raun ber vitni,`` þ.e. smáverkefnasjóðsins. ,,M.a. eru þar sett fram skilyrði um upplýsingaskyldu þó svo að fyrirgreiðslan sé jafnsmá í sniðum og fram kemur að ofan.`` Það hefur komið fram að styrkirnir séu yfirleitt frá nokkrum tugum þúsunda upp að hámarki 300 þús. kr. sem veitt er úr þessum sjóð og það eru settar mjög skýrar starfsreglur um þessa hluti og krafa um upplýsingaskyldu. Og svo segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar:
    ,,Á sama tíma var eins og áður segir ekki gerð sambærileg krafa um upplýsingaskyldu vegna styrkveitinga Framleiðnisjóðs svo sem til búháttabreytinga. Á hitt ber þó að líta að oft nema styrkveitingar úr smáverkefnasjóði hærra hlutfall af heildarkostnaði en aðrar styrkveitingar Framleiðnisjóðs.``
    Smáverkefnasjóður Framleiðnisjóðs hefur frá því að hann tók til starfa gefið loforð um styrkveitingar upp á 20 millj. kr. og hann er með skýrar reglur um úthlutun, upplýsingaskyldu o.s.frv. en á sama tíma hefur Framleiðnisjóður veitt 456 millj. kr. til búháttabreytinga og þar eru ekki gerðar þær skýru kröfur sem eru gerðar til þessara litlu peninga úr smáverkefnasjóðnum og þetta skýtur náttúrlega dálítið skökku við. Ég er hins vegar alveg sannfærð um að það borgar sig að fjárfesta í konum og það borgar sig að lána konum því að ég held að þær séu með skilvísustu skuldurum þessa lands. Og það er ekki bara hér á landi. Ég held að margir séu búnir að gera sér grein fyrir þessu víða um heim og m.a. var mér bent á það um daginn að Midland-banki í Bretlandi ætlar núna sérstaklega að fjárfesta í fólki sem er að reka lítil og meðalstór fyrirtæki, aðallega lítil fyrirtæki. Og það er dálítið gaman að sjá auglýsingarnar frá Midland-banka þ.e. út á hvaða hóp þessi banki gerir. Hann er búinn að ákveða núna að setja einn milljarð punda í lánsfé sem hann ætlar að lána í smáfyrirtækin. Og hverjum er það sem hann er að lána og til hverra er hann að höfða? Hann er, svo að ég komi með ítarefni með mér í pontuna eins og farið er að tíðkast, hann er farinn að lána kleinukonunum. Það eru kleinukonurnar sem hann ætlar að gera út á, sem hann ætlar að lána.

Hann auglýsir sérstaklega og höfðar sérstaklega til þeirra og segist hafa þarna einn milljarð punda til þess að lána og bendir þeim á að þetta sé kannski eitthvað fyrir þær. ( Fjmrh.: Er búið að tala við Hollustueftirlitið?) Þetta er nú EB-ríki sem hlýtur að hafa allar reglur í lagi ef maður hefur skilið þá hluti rétt. Ekki veit ég undir hvaða heilbrigðisskilyrðum þessi kona framleiðir sínar kleinur en ég vænti þess að þær séu í lagi, virðulegur fjmrh. Ég er sem sagt alveg sannfærð um það að fjármunum í atvinnuátak og stuðning við konur í sinni atvinnusköpun er vel varið og þeir munu skila sér. Og þess vegna er þessi tillaga hér flutt og ég vil jafnframt taka það fram svo að ég hafi ekki mikið fleiri orð um þessa tillögu að mér finnst að það hvernig þessi nefnd í félmrn. sem úthlutaði þessum fjármunum, hvernig hún stóð að málum, þessi starfshópur um atvinnumál kvenna þar, hvernig hann stóð að því að úthluta þessum 60 millj. hafi að mörgu leyti verið til mikillar fyrirmyndar. Þetta er mjög vel unnið, það er mjög vel gerð grein fyrir því út frá hverju var gengið, bæði þegar auglýst var og eins hvaða hugmyndir hópurinn lagði til grundvallar við úthlutun. Hópurinn skilar þessu mjög vel af sér og ég vildi sannarlega sjá að hlutirnir væru jafnvel unnir hjá ýmsum öðrum sem eru að ráðslagast með fé í atvinnusköpun. Mér finnst margar góðar hugmyndir þarna á ferðinni og vel að þessum málum unnið og full ástæða til þess að þakka það en ég vil bara ekki að þar við sitji og síðan ekki söguna meir, það gerist ekkert meir með þessa hluti. Og þess vegna leggjum við þetta til að hér komi 60 millj. í atvinnumál kvenna.
    Þá kem ég að fimmtu og síðustu tillögunni. Hún snýr annars vegar að Kvennaathvarfinu í Reykjavík og hins vegar að Stígamótum. Við leggjum til að framlag til Kvennaathvarfsins í Reykjavík verði ekki 15,4 millj. heldur 18 millj. 367 þús. og framlag Stígamóta verði ekki 6,9 millj. heldur 7,5 millj. Þetta er nú að verða árviss tillaga að við kvennalistakonur leggjum þetta til en við teljum þetta mjög mikilvægt. Bæði þessi samtök eru frjáls félagasamtök sem hafa staðið sig mjög vel í sínu starfi. Þau hafa unnið mikið brautryðjendastarf gegn ofbeldi í samfélaginu, kynferðislegu ofbeldi fyrst og fremst en ég held að um leið hafi þessi samtök opnað augu fólks fyrir ofbeldi almennt og eins og ég segi hafi unnið þarna mikið brautryðjendastarf. Úrræðin sem þessi samtök bjóða upp á, bæði Kvennaathvarfið og Stígamót, eru ekki dýr fyrir ríkið. Hvor tveggja þessi samtök eru mjög ötul að afla sértekna og í því sambandi má geta þess með Kvennaathvarfið að á árinu 1992, ég hef ekki ársreikninga fyrir 1993, en á árinu 1992 aflaði Kvennaathvarfið sér 5,4 millj. kr. í sértekjur. Tekjur voru samtals 25 millj. og þar af voru 5,4 millj. sem samtökin öfluðu sér í sértekjum. Það var bæði með gjafafé, áheitum, árgjöldum og daggjöldum en konur greiða fyrir fæði sitt í Kvennaathvarfinu, þær sem þar dveljast.
    Þá má geta þess að árið 1992 fóru samtökin m.a. í landssöfnun og söfnuðu nettó rúmlega 17 millj. kr. sem þau notuðu síðan til að kaupa húsnæði fyrir nýtt kvennaathvarf og það er rétt að taka það fram að það er einmitt stefna samtakanna að viðhald og endurbætur á húsnæði verði kostað af gjafafé frá almenningi, fyrirtækjum og félagasamtökum en þær hafa ekki leitað til ríksins um þessa hluti. Þarna er engin útþenslustefna eða ævintýramennska á ferðinni. Þarna er unnið jafnt og þétt og mér finnst að þessi samtök hafi sýnt það í sínum fjárbeiðnum að þau fara mjög varlega í því og þau biðja ekki um meira heldur en þau þurfa og finnst ástæða til þess að orðið sé við beiðni samtakanna.
    Um Stígamót er það sama að segja að á árinu 1992 voru rekstrargjöld Stígamóta 11,7 millj. kr., tekjurnar voru þannig saman settar að það komu frá ríkinu 6,2 millj., um 2,5 millj. frá sveitarfélögunum en samtökin öfluðu sér sjálf í sértekjum 3,8 millj. kr. eða 33% af sínum rekstrartekjum og ég segi bara: Geri aðrir betur.
    En þó að þessi samtök hafi verið mjög ötul við að afla sér sértekna og gert það með alls kyns útgáfustarfsemi og söfnunum þá er auðvitað ekki hægt að búast við því að slíkt gangi alltaf á hverju ári. Það þarf að sýna þessum samtökum að þetta sé metið og þess vegna leggjum við til að þau fái þá hækkun sem um er beðið.
    Bæði þessi samtök hafa fengið á sig aukin verkefni ef svo má segja. Hjá Stígamótum hefur umfang starfsins aukist mjög á þessu ári ekki síst vegna tilkomu neyðarmóttöku fyrir þolendur nauðgunar á slysadeild Borgarspítalans, en samtökin Stígamót manna bakvaktir vegna þess allt árið og samtökin greiða þeim konum fyrir útköll vegna neyðaraðstoðar við þolendur nauðgunar.
    Um Kvennaathvarfið er það að segja að þar hafa aukist verkefni, ekki síst vegna þess að erlendum konum hefur fjölgað mjög í Kvennaathvarfinu. Einkenni á þessum konum sem þangað koma eru oft algjör einangrun, engin íslenskukunnátta og þá oft heldur ekki nein enskukunnátta og það þýðir að samtökin verða m.a. að greiða talsvert fyrir túlkaþjónustu.
    Þetta eru þær fimm tillögur sem við flytjum, þingkonur Samtaka um kvennalista, við höfum valið að hafa þessar tillögur fáar og nokkuð á einn veg, þ.e. við viljum með þessum tillögum reyna að styrkja starf kvenna á ýmsum sviðum, hvort sem það lýtur að þróunarhjálp, að rannsóknum og þróun, að atvinnumálum eða velferðarmálum og leggjum áherslu á að þessar tillögur fái sanngjarna umræðu og meðhöndlun og þó að hér séu ekki ýkjamargir að hlusta á mál mitt núna þegar svo langt er liðið á annan dag í þessari umræðu þá vænti ég þess engu að síður að menn skoði þessar tillögur með jákvæðu hugarfari.