Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 03:43:40 (2501)


[03:43]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að efna til ítarlegrar ræðu þótt umræðuefnið sé það viðamesta sem þingmenn kljást við á hverjum vetri, sjálft fjárlagafrv. Það hefur í mörgum atriðum verið farið ítarlega yfir það af hálfu okkar stjórnarandstæðinga og ekki miklu við það að bæta. En ég vil þó aðeins áður en ég vík að því að mæla fyrir þeirri brtt. sem ég er 1. flm. að og flyt ásamt þremur öðrum þingmönnum Alþb., víkja lítillega að því sem hér hafa spunnist umræður um, þ.e. skattbreytingarnar sem eru að eiga sér stað í tengslum við þessa fjárlagagerð.
    Ég rak augun í það þegar ég fór að lesa betur fjárlagafrv. að þar stendur á bls. 271 í því eftirfarandi tvær setningar, með leyfi forseta:
    ,,Þyngst vega fyrirhugaðar breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga á móti niðurfellingu aðstöðugjalds. Á þessu ári [þ.e. 1993] var tekjutapi sveitarfélaga alfarið mætt með hækkun á tekjuskatti einstaklinga.``
    Með öðrum orðum, það segir í greinargerð með fjárlagafrv. að aðstöðugjaldinu hafi verið að fullu mætt með 1,5% tekjuskatti sem ríkið innheimti og greiddi síðan yfir til sveitarfélaga.
    Þetta er dálítið athyglisverð fullyrðing. Einkum í ljósi þess að í fyrra þegar var verið að ganga frá þessum skattalagabreytingum á síðasta þingi þá segir í nál. frá meiri hluta efh.- og viðskn. á þskj. 489, með leyfi forseta:
    ,,Í frv. er gert ráð fyrir að kostnaði ríkissjóðs vegna afnáms aðstöðugjalds verði að hluta til mætt með þeim hætti að tekjuskattur manna hækki úr 32,8% í 34,3% eða um 1,5%. Lagður verði á sérstakur hátekjuskattur og barnabætur lækki um 500 millj.``
    Með öðrum orðum, meiri hluti efh.- og viðskn. segir á síðasta þingi að menn ætli að bæta sér upp aðstöðugjaldið með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með því að hækka skattprósentuna í tekjuskatti um 1,5%. Í öðru lagi með sérstökum hátekjuskatti og í þriðja lagi með því að lækka barnabætur. Síðan gerir þessi nefnd, eða meiri hluti hennar, þá tillögu í stað þess að lækka barnabætur þá verði almenni persónuafslátturinn lækkaður. Þarna fer eitthvað á milli mála frá því sem stendur í áliti efh.- og viðskn. eða meiri hluta hennar á síðasta þingi.

    Ef við skoðum áhrifin eins og þau voru reiknuð út þegar frá þessu var gengið á síðasta þingi og hvernig þau kæmu út fyrir þetta ár og berum það saman við þær breytingar sem menn eru að gera núna þá er það dagljóst að það er verið að auka skattheimtuna hér á landi og þar er ríkissjóður stórtækastur, hann er að sækja sér auknar tekjur í skjóli þess að menn séu að breyta tekjustofnun sveitarfélaga. Það er þannig, virðulegi forseti, að ætlunin er að hækka útsvarið um 1,7% sem er 0,2% meira en tekjuskatturinn var. Það þýðir að óbreyttum reglum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga að sveitarfélög munu verða að hafa hámarks útsvarsprósentu til þess að ná sér í tekjur úr Jöfnunarsjóði. Með öðrum orðum, þau verði að fullnýta sér þessa heimild að hækka sig um 1,7% til þess að missa ekki af miklum tekjum sem þau hafa í dag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þessi hækkun, um 0,2%, gefur um 440 millj. kr. sem er auðvitað aukin skattheimta á þann sem greiðir. Í öðru lagi er það 0,35% hækkun á tekjuskatti sem gefur eftir því sem hæstv. fjmrh. upplýsti áðan um 685 millj. kr. Þannig að úr þessum tveimur liðum fáum við skattahækkun á launamenn upp á 1.125 millj. kr. frá því sem var á þessu ári. Þetta er skattahækkun og um það er ekki hægt að deila.
    Þá verður að bæta við það sem ríkissjóður tók sér í fyrra sem skatt á þessu ári til að mæta aðstöðugjaldinu en þegar ríkissjóður losnaði við aðstöðugjaldið þá skilar ríkissjóður ekki þeim sköttum. Það er í fyrsta lagi lækkun á persónuafslætti sem átti að gefa 700 millj. á þessu ári og hátekjuskatturinn sem á að gefa 400 millj. Þarna verða eftir í ríkissjóði um 1.100 millj. kr. sem ríkissjóður tók fyrir þetta ár undir því yfirskini að afla tekna til að greiða sveitarfélögunum í staðinn fyrir missi aðstöðugjaldsins. Og þegar menn gefa sveitarfélögunum tekjustofna í staðinn fyrir aðstöðugjaldið, þá verða þessir tveir skattar eftir í ríkissjóði. Samtals er því um að ræða skattahækkun sem situr eftir eftir þennan flutning upp á 2.225 millj. kr. Það er því ekki nema von þó að hæstv. fjmrh. standi gegn flokksbróður sínum, borgarstjóranum í Reykjavík, sem vill fresta fyrirhugaðri breytingu á tekjustofnum sveitarfélaga af því að hann gerir sér grein fyrir því að hann verður að hækka útsvarið, hann verður að hækka skattana á borgarana í Reykjavík og vill auðvitað ekki gera það svona rétt fyrir borgarstjórnarkosningarnar. En hæstv. fjmrh. sér líka að hann getur ekki orðið við þessari beiðni því þá missir hann svo mikið af tekjum út úr sínum ríkissjóði og hagsmunir ríkissjóðs ganga eðlilega, hjá hæstv. fjmrh., fyrir hagsmunum borgarstjórans í Reykjavík og ég skil það að mörgu leyti vel.
    Þá vil ég, virðulegi forseti, víkja að þeirri brtt. sem er að finna á þskj. 344 sem ég flyt ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds, Hjörleifi Guttormssyni og Ragnari Elbergssyni. Hún er í tveimur liðum. Annars vegar að hætta við þau áform að lækka tekjuskatt á félög úr 39% niður í 33%, eins og áformað er að gera fyrir næsta ár. Með því að hætta við þessa lækkun á tekjuskatti félaga má fá eða auka tekjur ríkissjóðs um 520 millj. kr. Brtt. okkar er þá þannig að í stað þess að tekjuskattur félaga skili 2 milljörðum 460 millj. í ríkissjóð, þá verði það 2 millj. 980 millj.
    Seinni tillagan sem við leggjum fram er sú að lækka tekjur af virðisaukaskatti um 550 millj. kr. Það byggir á því að við gerum ráð fyrir því, og munum væntanlega flytja um það tillögu þegar færi gefst við umræðu um frv. um breytingar á skattalögum, í fyrsta lagi að leggja af fyrirhugaðan virðisaukaskatt á flug sem á að leggjast á frá og með næstu áramótum og mun vera áætlað að skili ríkissjóði um 100 millj. kr. Í öðru lagi munum við leggja til að virðisaukaskattur af fólksflutningum og þar með talið strætisvögnum hér í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu verði felldir niður. Þetta gæti skilað ríkissjóði á næsta ári um 150 millj. kr., þannig að samtals mundi þessi virðisaukaskattur á fólksflutninga í flugi og á landi vera um 250 millj. kr. Í þriðja lagi munum við leggja til að virðisaukaskattur á bækur verði aflagður eða hætt við að taka hann upp um næstu áramót, en það er áætlað að hann muni skila um 300 millj. á næsta ári. Samanlagt er því um að ræða lækkun upp á 550 millj., eins og áður greindi.
    Það þarf ekki að hafa mörg orð um þau áhrif sem virðisaukaskattur kemur til með að hafa á þessa starfsemi sem til umræðu er ef af verður. Það hefur ítarlega verið gerð grein fyrir því bæði í þessari umræðu, í umræðunni fyrr í þessari viku um skattamál og eins á síðasta þingi þegar tekist var á um þessar breytingar. Ég get þó ekki stillt mig um að nefna eitt lítið dæmi sem barst í hendur mínar fyrr á þessum þingfundi. Það er dæmi frá ferðamiðstöð Austurlands sem hefur látið virta endurskoðunarskrifstofu reikna út áhrif virðisaukaskatts á rekstur sinnar starfsemi. Niðurstaðan er sú að ef virðisaukaskatturinn hefði gilt á árinu 1992, þá hefði orðið tap um 3,6% af veltu þess fyrirtækis í stað þess að vera með hagnað upp 4,3%. Þarna er í raun og veru um að ræða sveiflu upp á tæp 8% af veltu. Í krónum talið þýðir þetta að í stað þess að fyrirtækið var rekið með 6,7 millj. kr. hagnaði, hefðu þeir gert það upp í fyrra með tæplega 6 millj. kr. tapi. (Gripið fram í.) Það gengur út á það, af því að menn geta ekki velt skattinum yfir á þann sem endanlega greiðir og það er nákvæmlega það sem er kjarni málsins hvað varðar ferðaþjónustuna. Menn hafa auðvitað gert sér grein fyrir þessu í öðrum útflutningsgreinum, eins og t.d. sjávarútvegi, og eru ekki að innheimta þennan skatt af þeim sem flytja vöruna út og geta ekki velt virðisaukaskattinum á neytandann erlendis, og auðvitað gildir það sama um þessa þjónustu. Þannig að þetta dæmi sýnir ákaflega glögglega þau áhrif sem koma til með að verða af þessum skatti ef hann tekur gildi um næstu áramót.